- nóvember 2009 var tilkynnt um lokaúthlutun fjár úr Vaxtarsamningi Suðurlands og Vestmannaeyja. Að þessu sinni var úthlutað 15 mkr til verkefna er tengdust matvælum. Sjö verkefni fengu styrk, þar af átti Háskólafélag Suðurlands aðild að þremur þeirra. Hér er stutt lýsing á þessum þremur verkefnum, eins og þeim er lýst á heimasíðu Vaxtarsamningsins (www.vssv.is):
Verkefnið Framleiðsla á matarolíu úr repju er samstarfsverkefni 7 aðila, sem mynda klasa utan um verkefnið. Að klasanum standa: Eyrarbúið, Grímur kokkur í Vestmannaeyjum, Sólfugl, Háskólafélag Suðurlands, Siglingastofnun, Landbúnaðarháskóli Íslands og Matís. Verkefnisstjóri verkefnisins er Ólafur Eggertsson, bóndi á Þorvaldseyri. En á Þorvaldseyri hefur verið unnið mikið frumkvöðlastarf í bygg- og hveitirækt til fóðurframleiðslu og nú hin síðari ár hefur framleiðslan meira verið nýtt til manneldis. Ólafur hefur náð framúrskarandi árangri með framleiðslu sinni. Síðast liðið ár hefur staðið yfir tilraunaverkefni á Þorvaldseyri með ræktun úr Nepjufræjum og Repjufræjum. Fyrstu niðurstöður benda til þess að við þesskonar kornrækt verði hægt að búa til ábatasaman og arðsaman iðnað, sem um leið er umhverfisvænn og gjaldeyrissparandi. Flest bendir til þess að hægt sé að vinna fjölmargar afurðir úr korninu, s.s. matarolíu, korn til matargerðar, lífeldsneyti (e.biodísel), skepnufóður, fiskafóður og áburð, svo eitthvað sé nefnt. Verkefnið tekur til fjölmargra þátta: rannsókna, vöruþróunar, hönnunar á umbúðum og að lokum til markaðssetningar. Verkefnið vekur vonir um að þarna geti verið einn af vaxtarsprotum í atvinnumálum á Íslandi, ekki síst á Suðurlandi.
Lífrænn klasi í uppsveitum Árnessýslu: Að verkefninu stendur öflugur klasi fjölmargra aðila, en þeir eru: Garðyrkjustöðin Akur Garðyrkjustöðin Engi og Gróðrarstöðin Storð, en þessar þrjár stöðvar eru allar staðsettar í Laugarási í Bláskógabyggð. Ennfremur eru í klasanum: Hótel Geysir, Háskólafélag Suðurlands, Sveitarfélagið Bláskógarbyggð og Íþróttafræðisetur Háskóla Íslands á Laugarvatni. Verkefni klasans er fjölþætt m.a. efling á heilsutengdri ferðaþjónustu, vöruþróun í matvælaframleiðslu í anda slow food og raw food hugtakanna, sem hefur verið að ryðja sér til rúms á s.l. árum, samhæfing á sölu og markaðssetningu á lífrænum afurðum, fræðsla og upplýsingamiðlun, svo fátt eitt sé nefnt. Aðstandendur verkefnisins vonast til þess að Laugarás verði miðstöð lífrænnar framleiðslu á Suðurlandi í framtíðinni og verði leiðandi á því sviði. Innan klasans er mikil þekking á lífrænni ræktun og því er sá vettvangur sem klasasamstarfið er kjörin leið til að púsla saman þeim brotum og koma þeim saman í eina öfluga heild. Það kemur skýrt fram í þessu samstarfi að samkeppnisaðilar geta einnig verið í samstarfi, sem leitt getur til ábata fyrir alla aðila.
Smiðja um fullvinnslu grænmetis á Suðurlandi. Aðilar þess klasa eru: Flúðasveppir, Matís, Hrunamannahreppur, Háskólafélag Suðurlands og Háskóli Íslands. Verkefnisstjóri er Guðjón Þorkelsson sviðstjóri nýsköpunar og neytenda hjá Matís. Verkefni klasans gengur út á að bæta nýtingu og auka verðmæti afurða með því að nýta betur hráefni þegar uppskera er í hámarki og það hráefni sem fellur frá við venjulega pökkun fyrir smásölu með því að fullvinna afurðirnar heima í héraði. Á síðustu árum hefur Matís byggt upp svokallaðar smiðjur til að stuðla að og styðja við smáframleiðslu matvæla á landsbyggðinni, m.a. á Hornafirði, með góðum árangri. Með þessu verkefni vill klasinn kanna möguleika á samstarfi á Suðurlandi með stofnun smiðju í fullvinnslu á grænmeti. Klasinn vill m.a. kanna áhuga þess að bjóða nemendum í framhaldsnámi við Háskóla Íslands upp á verkefni varðandi nýsköpun í íslenskri matvælaframleiðslu og vinnslu. Einnig er áhugi á að kanna möguleika á að efla kennslu í matvælafræði með því að bjóða upp á hluta grunnnáms nær atvinnulífinu, heim í hérað.