Skip to content Skip to footer
Vísindasjóður

Áhrif breytinga á landnotkun vaðfuglastofna

Aldís Erna Pálsdóttir, fyrir doktorsverkefni sitt í Líffræði við Háskóla Íslands.

Kynning á verkefninu

Aldís Erna Pálsdóttir, hlaut styrk árið 2016 fyrir doktorsverkefni sitt „Áhrif breytinga á landnotkun vaðfuglastofn“ í Líffræði við Háskóla Íslands.  

Við fengum hana til að segja okkur stuttlega frá verkefni sínu.

Líffræðilegum fjölbreytileika fer hnignandi á heimsvísu og eru megin ástæður þessa aukin umsvif manna. Á láglendi Íslands hafa umsvif manna aukist töluvert undanfarna áratugi, en því fylgja miklar breytingar á landnotkun, s.s. með uppbyggingu mannvirkja eða breytinga á ræktun. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna hvort og hvernig fjórar gerðir mannlegrar landnotkunar (vegir, sumarhús, raflínur og ræktaðir skógar) hefðu áhrif á þéttleika og tegundasamsetningu mófugla í nánasta umhverfi. Svæði voru valin á láglendi Íslands þar sem þessar gerðir landnotkunar var að finna og fuglar taldir. Tvær tegundir (skógarþröstur og hrossagaukur) sýndu annaðhvort engin áhrif eða fundust í hærri þéttleika nálægt fyrrnefndum gerðum uppbygginga. Hinsvegar voru sex tegundir (þúfutittlingur, jaðrakan, heiðlóa, tjaldur, spói og stelkur) sem fundust í lægri þéttleika nálægt a.m.k. einni gerð landnotkunar. Í kringum vegi og skóga var hægt að meta hversu stórt áhrifasvæðið var sem mældist ~200 m út fyrir jaðarinn.

Aldís Erna Pálsdóttir rannsakandi og höfundur við feltvinnu í fuglatalningu.

Heiðlóa og spói sýndu sterkustu áhrifin, eða neikvæð áhrif af 4 (Spói) og 3 (Heiðlóa) gerðum landnotkunar, en milli 40-55% af heimsstofnum þessara tegunda verpa á Íslandi og ber okkur því skylda til að vernda þessar tegundir og búsvæði þeirra. Niðurstöður þessar sýna svart á hvítu að ef nytjaskógar, raflínur, vegir og hús eru sett í opin búsvæði geta þau haft afgerandi áhrif á stofna þessara tegunda.

Taflan sýnir þau neikvæðu áhrif mannvirkja á valdar fuglategundir sem voru til rannsóknar, þ.e. Spói (Whimbrel), Heiðlóu (Golden plover), Jaðrakan (Godwit), Lóuþræl (Dunlin), Stelk (Redshank), Þúfutittling (Meadow pipit), Tjald (Oystercatcher), Hrossagauk (Common snipe), Skógarþröst (Redwing). Efsta línan sýnir hvaða tegundir mannvirkja/innviða voru skoðuð með tilliti til áhrifa, frá vinstri: skógræktarsvæði (plantation forest), rafmagnslínur (power lines), sumarbústaði (summer houses), vegir (roads). Einnig var reiknaður „viðkvæmisstuðull“ (vulnerability index) fyrir hverja tegund byggt á þéttleika tegundanna sem um ræðir, ásamt þróun einstaklingsfjölda s.l. 10 ára á völdum talningastöðum sem fram fóru síðustu 10 daga í júní mánuði hvert ár meðfram vegamótum. Niðurstöður sýna að flestum mófuglum fer hnignandi að undanskildu hrossagauknum og skógarþrestinum sem ýmist standa í stað eða fer fjölgandi.

Til að setja niðurstöðurnar í samhengi við fuglaþéttleika voru niðurstöðurnar bornar saman við talningar sem hafa verið endurteknar á sömu punktum á hverju ári síðan 2011 á Suðurlandi, þar sem miklar breytingar hafa orðið á landnotkun. Niðurstöðurnar benda til þess að meðan skógarþröstum fjölgi og fjöldi hrossagauka stendur í stað, fari öllum hinum tegundunum sem voru hér til rannsóknar fækkandi. Fyrirhugaðar breytingar á landnotkun á láglendi Íslands þarf því að skipuleggja með það í huga að lágmarka neikvæð áhrif á mófugla, en Ísland ber alþjóðlega ábyrgð á mörgum þessara tegunda og ætti verndun þeirra stóru opnu búsvæða sem eru enn til staðar að vera í forgangi.

Mynd sem sýnir staðsetningu allra fuglatalninga sem voru framkvæmdar árin 2017-2019. Litirnir gefa til kynna í kringum hvað var talið, skógrækt (grænt), raflínur (bleikt), sumharhús (blátt) og vegir (gult).

Áfram rannsóknarþörf

Þrátt fyrir að rannsóknin hafi leitt það í ljós að mófuglar finnast almennt í lægri þéttleika nálægt ýmsum gerðum landnotkunar og mannvirkja, vitum við enn ekki ástæðuna. Þessvegna hófum við aðra rannsókn árið 2022 sem hefur það að markmiði að athuga hvort og hvernig varpaárangur þessara fuglategunda breytist með fjarlægð frá mannvirkjum og ræktuðum skógum. Sú rannsókn er yfirstandandi.

Styrkurinn skipti miklu máli

Styrkurinn sem hlaust úr Vísindasjóði Suðurlands gerði okkur kleift að ferðast um rannsóknarsvæðið sem náði frá Snæfellsnesi allt að Kirkjubæjarklaustri. Þorri fuglatalninga í þessu verkefni fór fram á Suðurlandsláglendinu og þessar niðurstöður gefa því góða mynd af því hvað er að gerast með mófugla á þessu svæði. Haft var samband við fjöldann allan af landeigendum sem veittu leyfi til gagnasöfnunar á landi sínu og eiga þeir skilið miklar þakkir. 

Hér má lesa birtar greinar um rannsóknina.

Tjaldur. (Oystercatcher)
Tjaldur. (Oystercatcher)
Sandlóa. (Common ringed plover).
Sandlóa. (Common ringed plover).
Stelkur. (Redshank)
Stelkur. (Redshank)
Hrossagaukur. (Common snipe)
Hrossagaukur. (Common snipe)
Heiðlóa. (Golden Plover)
Heiðlóa. (Golden Plover)