Skip to content Skip to footer
Vísindasjóður

Samskipti á milli tveggja rándýra í sjó sem hafa flókið félagsmynstur: hlutverk hljóðfræðilegra bendinga

Anna Selbmann, doktorsnemi við Háskóla Íslands

Kynning á verkefninu

Anna Selbmann, doktorsnemi í líffræði við Háskóla Íslands, rannsakar samskipti á milli tveggja rándýra í sjó með flókið félagsmynstur og hlutverk hljóðfræðilegra bendinga, hún hlaut styrk 2022 frá Vísinda og rannsóknarsjóði Suðurlands.

Hér segir hún okkur aðeins frá rannsókn sinni: 

Markmið þessa verkefnis er að kanna hlutverk hljóða í hegðunarmynstri sjávarspendýra með því að beina sjónum að samskiptum grindhvala (Globicephala melas) og háhyrninga (Orcinus orca) á hafsvæðum sunnan Íslands.

Á mismunandi svæðum í Norður-Atlantshafi, þar á meðal við Suðurland, hafa háhyrningar stundum sést forðast grindarhvali og flýja þá á miklum hraða. Háhyrningurinn er topprándýr og því eru þessi samskipti sérkennileg, en margt er enn á huldu um hegðun dýranna í samskiptum þeirra, hvers vegna þau eiga sér stað og hugsanleg áhrif samskiptanna á báðar tegundirnar. 

Anna Selbmann

Markmið verkefnisins var að lýsa útbreiðslu beggja tegunda við strendur Íslands og kanna mögulega skörun þeirra í tíma og rúmi, sem myndi leiða til samskipta á milli þeirra. Við komumst að því að háhyrningar sjást oft við Vestmannaeyjar og vestur í Breiðafirði. Þetta eru þekkt síldarmið, en síldin er helsta fæða háhyrninga á Íslandsmiðum. Hvölum hefur fjölgað frá árinu 2014, einkum sunnanlands, sem hefur leitt til tíðari samskipta milli tegundanna tveggja. Þessi samskipti virðast vera gagnvirk en virðast flóknari en áður hefur verið lýst og mismikil í ákefð, þar sem háhyrningar forðast grindhvali en stundum fylgir í kjölfarið eltingarleikur milli tegundanna tveggja.

Hljóð gegna mikilvægu hlutverki

Þessar niðurstöður leiddu okkur til að spyrja hvað setur í gang samskiptin. Við setjum fram þá tilgátu að hljóð gegni mikilvægu hlutverki, því hljóð eru mjög mikilvægt fyrir mörg sjávarspendýr. Grindarhvalir og háhyrningar reiða sig mikið á hljóð til að hafa samskipti, til að rata og til að finna æti. Við erum að prófa hlutverk hljóðfræðilegra bendinga í samskiptunum með því að spila hljóð grindarhvala fyrir háhyrninga og taka upp viðbrögð þeirra. Tilraununum lauk árið 2023 og nú stendur yfir greining á niðurstöðum. 

Við erum nú að skoða hvort háhyrningar breyti um sundstefnu þegar þeir heyra grindhvalahljóð og hvort þeir breyti eigin hljóðasamsetningu. Þessi gögn munu gefa okkur vísbendingu um hvernig rándýr eins og háhyrningurinn, bregst við hugsanlegri ógn, sem hægt er að nota sem mælistiku til að meta áhrif mannlegra athafna, svo sem könnun hafsins, sjávarframkvæmda eða flotaæfinga.

Mikilvæg hafsvæði við Suðurland

Þekking á útbreiðslu hvala við Suðurland, þar á meðal við Vestmannaeyjar, er takmörkuð. Vitað er að háhyrningar heimsækja svæðið árstíðabundið á sumrin þegar síldin gengur þar og mikið er af öðrum þekktum fæðutegundum hvala, eins og loðnu og ljósátu. Hafsvæðið við Suðurland er því líklega líffræðilega mikilvægt fyrir hvalastofna, þar á meðal íslenska háhyrningastofninn. Þetta var staðfest í fyrri hluta verkefnisins, þar sem tíðni háhyrninga og grindhvali reyndist há við Vestmannaeyjar og sýnt var fram á að grindhvölum hefur fjölgað við Suðurland. Að sama skapi fjölgaði fjandsamlegum samskiptum milli grindarhvala og háhyrninga. Þessi samskipti geta haft afleiðingar fyrir báðar tegundirnar og breytingar á fæðuframboði, veðurfarsskilyrðum og truflun af mannavöldum geta aukið slík áhrif.

Auka þarf skilning á mikilvægi hafsvæða við Suðurland fyrir hvali til að styðja forsendur við stjórnun og verndun vistkerfa hafs og stranda. Verndaráætlanir, eins og tillagan um sjávarverndarsvæði við Vestmannaeyjar, miðast að mestu leyti við sjófugla, m.a. vegna skorts á þekkingu á sjávarspendýrum. Verndun vatnaumhverfis er afar mikilvæg eins og endurspeglast í landslögum og alþjóðasamningum. Samfélagið á Suðurlandi tengist hafinu sterkum böndum vegna langrar sögu í sjávarútvegi og mikilvægis sjávarútvegsins fyrir atvinnulífið á svæðinu. Náttúrutengd ferðaþjónusta gegnir sífellt stærra hlutverki í staðbundnu hagkerfi. Þess vegna er þekking á tilvist, atferli og vistfræði hvala á svæðinu mikilvæg fyrir nærsamfélagið og efnahaginn, sem og fyrir innlenda og alþjóðlega stefnu og löggjöf. 

Nýjar spurningar vakna

Helstu niðurstöður verkefnisins til þessa eru auknar upplýsingar um útbreiðslu háhyrninga og grindhvala við strendur Íslands og samskipti þeirra, með áherslu á mikilvægi hafsvæðisins við Suðurland fyrir hvalina. 

Niðurstöðurnar voru birtar í tímaritinu Acta Ethologica.

Út frá þessari vinnu vaknaði sú spurning hvað setur samskiptin í gang, og það leiddi til tilrauna þar sem grindhvalahljóð voru spiluð fyrir háhyrninga. Greining á þessum niðurstöðum stendur nú yfir en bráðabirgðaniðurstöður hafa þegar vakið nýjar spurningar. Til dæmis virðast hljóð grindhvala verða ólík öðrum hljóðum þeirra þegar þeir nálgast háhyrninga. Þess vegna væri áhugavert að kanna nánar hvort háhyrningar bregðist aðeins við ákveðnum hljóðum grindhvalanna eða nánast öllum hljóðum þeirra. Þetta gæti hafa áhrif á hversu flókin samskiptin eru og hversu mikið ónæði háhyrningar verða fyrir vegna nærveru grindarhvala.

Meðal frekari birtinga úr verkefninu var vinna við hljóðfræðilega hegðun háhyrninga, þar sem grindhvalir voru ekki til staðar. Við lýstum hljóðefnisskránni og hvernig hún er mismunandi eftir landshlutum í Marine Mammal Science sem og hvernig háhyrningar sameina hljóð í röð eða setningar í Nature (Scientific reports).