Skip to content Skip to footer
Vísindasjóður

Uppspretta fjölbreytni bleikja á Suðurlandi

Guðbjörg Ósk Jónsdóttir, doktorsnemi við Háskóla Íslands.

Kynning á verkefninu

Guðbjörg Ósk Jónsdóttir doktorsnemi í líffræði við Háskóla Íslands rannsakar fjölbreytileika í íslenskum bleikjustofnum. Hún hlaut styrk frá Vísinda- og rannsóknarsjóði Suðurlands árið 2023.

Hér segir hún okkur aðeins frá rannsókn sinni.

Bleikjan (Salvelinus alpinus) er ein útbreiddasta fiskitegund í íslensku ferskvatni og sú fjölbreyttasta á heimsvísu, því af henni finnast margar ólíkar gerðir. Bleikjur í ám og vötnum hérlendis eru nýttar af landeigendum eða veiðifélögum. Af því fást umtalsverðar tekjur en einnig menningarverðmæti, skemmtun og einstaklega góður matur. Sunnlenskar bleikjur eru engin undantekning, t.d. eru stóru bleikjurnar í Þingvallavatni vinsælir veiðifiskar og murtunar skemmtilegar fyrir yngri veiðimenn.

Íslenskar og erlendar rannsóknir sýna að bleikjur eru á undanhaldi, stofnar minnka og fara þeir hallloka á mörgum svæðum. Á suðurlandi er hnignun bleikjunnar sérstaklega áberandi. Ný gögn benda t.d. til þess að murtum í Þingvallavatni hafi fækkað um 60% miðað við árið 1990. Kuðungableikjan virðist hins vegar standa í stað. Orsakirnar eru á huldu, en gætu verið loftslags- og aðrar umhverfisbreytingar. Í ljósi röskunar á búsvæðum margra lífvera vegna loftlagsbreytinga og annara áhrifa mannsins er mikilvægt að rannsaka fjölbreytileika stofna og hvernig stofnar sérhæfa sig í  ólíkum aðstæðum. 

 

Við veiðar í Þingvallavatni. Á mynd eru frá vinstri; Zophonías O. Jónsson, Sigurður S. Snorrason, Guðbjörg og Fia Finn. Myndina tók Grégoire Gaillet.

Markmið verkefnisins er að skilja náttúruna og bæta nýtingu hennar. Fyrst á að rannsaka fjölbreytileika milli (og mögulega innan) bleikjustofna sem lifa á Suðurlandi, sem er einstakur suðupottur fyrir fjölbreytileika bleikja (og annara tegunda lífvera). Síðan er fyrirhugað að rannsaka mótanleika svipfars. Mótanleiki eru breytingar á eiginleikum (eins og stærð eða beinlögun) vegna áhrifa umhverfis á þroskun einstaklings. Suðurland býður upp á einstakt tækifæri til þess að rannsaka mótanleika. 

Þekktasta vatn landsins er Þingvallavatn og vita flestir hérlendis að í því finnast ólík bleikjuafbrigði. En þær eru einnig merkilegt viðfangsefni vist- og þróunarfræðinga. Í vatninu eru fjögur afbrigði af bleikjum, tvö eru botnlæg (kuðunga- og dvergbleikja) og tvö sviflæg (murtan og sílableikjan). Afbrigðin eru mjög ólík varðandi marga þætti þar á meðal stærð þeirra, vöxt, fæðuval, búsvæðaval, holdafar, form á kjálkabeinum þeirra og erfðasamsetningu Áhugavert er að í Úlfljótsvatni finnast sömu bleikjuafbrigði og í Þingvallavatni. Vötnin tvö eru tengd með Efra-Sogi, bleikjur geta því flætt úr Þingvallavatni niður í Úlfljótsvatn, en vegna stíflunnar og bratta Efra-Sogs geta þær ekki synt til baka. Í Úlfljótsvatni finnast aðallega þrjú afbrigðanna (murta, síla- og kuðungableikja) og er smávægilegur erfðafræðilegur munur á síla og kuðungableikjunum í vötnunum tveimur. Mestu skiptir að murturnar í vötnunum tveimur eru erfðafræðilega eins en lifa í ólíkum aðstæðum. í Þingvallavatni nærast murtur aðallega á dýrasvifi, en það finnst ekki Úlfljótsvatni og því éta murturnar þar helst kuðunga (líkt og dverg og kuðungableikjur). Sú staðreynd að erfðafræðilega einsleitir murtustofnar borða ólíka fæðu í vötnunum tveimur býður upp á einstakt tækifæri að rannsaka mótanleika svipfars í náttúrunni.

Hér má sjá ljósmynd af vinnuaðstöðu hjá HÍ. Unnið að verkun eftir veiðar. Á myndinni eru (frá vinstri); Guðbjörg og Arnar Pálsson. Ljósmynd: Kenedy Williams.

Einstakt tækifæri á Suðurlandi

Spyrja má, hvers vegna er sniðugt að nota murtu stofnana í Þingvalla- og Úlfljótsvatni til þess að rannsaka mótanleika? Mótanleiki svipfars er oftast rannsakaður með tilraunum á rannsóknarstofu. Þá eru lífverur aldar upp við mismunandi umhverfisaðstæður og svörun þeirra við umhverfisþáttum mæld. Bleikjur hafa verið nýttar í slíkar rannsóknir, því þær eru með mótanlegri fiskum (það er svara umhverfisbreytingum nokkuð sterklega). Hins vegar eru náttúrulegar „tilraunir“ mun sjaldgæfari, enda þarf mjög sérstök skilyrði, t.d. sama stofninn á svæðum með ólíkar aðstæður (í þáttum umhverfis sem skipta tegundina máli). Þetta gerir murtur í Þingvallavatni og Úlfljótsvatni algerlega einstakar, því þetta skilyrði er uppfyllt. Suðurland er því eitt af mjög fáum stöðum í heiminum þar sem rannsókn sem þessi er framkvæmanleg. Þar sem erfðafræðilega einsleitir murtustofnar lifa við ólíkar aðstæður og borða ólíka fæðu í vötnunum (dýrasvif í Þingvallavatni en kuðunga í Úlfljótsvatni).  

Vonast er til að rannsókn þessi geti afhjúpað einhverju leiti það flókna samspil erfða og umhverfis og sjá hvort, hvernig og hversu snöggt murtur virðast aðlagast að umhverfi sínu án þess að erfðabreytileiki þarf að vera til staðar. Það auðgar skilning okkar á hvort og hvernig lífverur gætu aðlagað sig (eða ekki) af þeim gífurlegu breytingum sem eru að eiga sér stað og gæti þar með hjálpað okkur að skilja betur lækkunina sem er að eiga sér stað hjá íslenskum bleikju stofnum. 

 

Hér má finna áhugaverðar spurningar sem Guðbjörg hefur svarað á Vísindavefnum: Vísindavefurinn.

Á veiðum í Þingvallavatni, á mynd eru (frá vinstri); Fia, Guðbjörg, Sigurður, Grégoire og Zophonías. Ljónsmynd: Arnar Pálsson.