Seigla samfélaga í kjölfar Eyjafjallajökulgossins 2010 – Sýn íbúa á félagslegan stuðning í bataferli og uppbyggingu
Ingibjörg Lilja Ómarsdóttir, doktorsnemi í Umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands.
Kynning á verkefninu
Ingibjörg Lilja hlaut styrk árið 2018 fyrir doktorsverkefni sitt „Seigla samfélaga í kjölfar Eyjafjallajökulsgossins 2010 - Sýn íbúa á félagslegan stuðning í bataferli og uppbyggingu" í Umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands.
Hér kynnir hún stuttlega frá verkefni sínu.
Í doktorsverkefninu er sjónum beint að áfallastjórnun og seiglu samfélaga vegna náttúruhamfara. Verkefnið er tilviksrannsókn þar sem rýnt er í Eyjafjallajökulgosið árið 2010. Kannað er hvernig íbúar, starfsfólk og viðbragðsaðilar í sveitarfélögunum Rangárþingi eystra og Mýrdalshreppi álitu sig í stakk búin til að takast á við eldgos áður en gosið hófst, hvaða áhrif gosið hafði, og hvernig það gekk að takast á við afleiðingar gossins. Skoðuð eru tvö samfélag staðsett í nánd við jökulinn, bændasamfélagið undir Austur-Eyjafjöllum og Vík í Mýrdal. Tekin voru einstaklingsviðtöl við fjölskyldur í þessum samfélögum sem og við viðbragðsaðila og starfsfólk sem höfðu mikilvægu hlutverki að gegna í kjölfar atburðarins.
Áhersla rannsóknarinnar er tvíþætt. Annars vegar er hún á hlutverk félagsauðs og félagslegs stuðnings þegar samfélög takast á við afleiðingar áfalla og hins vegar á skipulag almannavarnakerfisins á Íslandi með tilliti til þeirra sem gegna mikilvægu stuðningshlutverki vegna samfélagslegra áfalla.