Skip to content Skip to footer
Vísindasjóður

Seigla samfélaga í kjölfar Eyjafjallajökulgossins 2010 – Sýn íbúa á félagslegan stuðning í bataferli og uppbyggingu

Ingibjörg Lilja Ómarsdóttir, doktorsnemi í Umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands.

Kynning á verkefninu

Ingibjörg Lilja hlaut styrk árið 2018 fyrir doktorsverkefni sitt „Seigla samfélaga í kjölfar Eyjafjallajökulsgossins 2010 - Sýn íbúa á félagslegan stuðning í bataferli og uppbyggingu" í Umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands.  

Hér kynnir hún stuttlega frá verkefni sínu.

Í doktorsverkefninu er sjónum beint að áfallastjórnun og seiglu samfélaga vegna náttúruhamfara. Verkefnið er tilviksrannsókn þar sem rýnt er í Eyjafjallajökulgosið árið 2010. Kannað er hvernig íbúar, starfsfólk og viðbragðsaðilar í sveitarfélögunum Rangárþingi eystra og Mýrdalshreppi álitu sig í stakk búin til að takast á við eldgos áður en gosið hófst, hvaða áhrif gosið hafði, og hvernig það gekk að takast á við afleiðingar gossins. Skoðuð eru tvö samfélag staðsett í nánd við jökulinn, bændasamfélagið undir Austur-Eyjafjöllum og Vík í Mýrdal. Tekin voru einstaklingsviðtöl við fjölskyldur í þessum samfélögum sem og við viðbragðsaðila og starfsfólk sem höfðu mikilvægu hlutverki að gegna í kjölfar atburðarins.

Áhersla rannsóknarinnar er tvíþætt. Annars vegar er hún á hlutverk félagsauðs og félagslegs stuðnings þegar samfélög takast á við afleiðingar áfalla og hins vegar á skipulag almannavarnakerfisins á Íslandi með tilliti til þeirra sem gegna mikilvægu stuðningshlutverki vegna samfélagslegra áfalla.

Ingibjörg Lilja Ómarsdóttir
Ingibjörg Lilja Ómarsdóttir.

Sterk sunnlensk skírskotun

Verkefnið einblínir á atburð sem gerðist á Suðurlandi 2010, eða Eyjafjallajökulgosið, og áhrif þess á samfélög á Suðurlandi. Margar megineldstöðvar á Íslandi eru staðsettar á Suðurlandi og þar af leiðandi eru samfélögin mörg á þessu landsvæði sem geta þurft að takast á við afleiðingar eldgosa. Því geta niðurstöður þessarar rannsóknar nýst fleiri samfélögum en þeim sem tengjast verkefninu. Yfirfærsla þekkingar milli samfélaga er eitt af grundvallaratriðum þegar kemur að viðnámsþrótti og seiglu vegna náttúruhamfara. Það er gríðarlega mikilvægt að samfélög miðli nýrri þekkingu í kjölfar alvarlegra atburða til annara samfélaga sem gætu þurft að takast á við svipaða atburði í þeim tilgangi að efla seiglu þeirra. 

Mikið af upplýsingum í tengslum við börnin

Doktorsrannsóknin stendur enn yfir. Búið er að safna öllum gögnum og greining þeirra langt á veg komin. Fyrsta grein af fjórum, um sýn íbúa á félagslegan stuðning í bataferli og uppbyggingu, hefur verið birt. Skrif standa yfir á grein tvö og þrjú sem fjalla um börnin og áhrif gossins. Fjórða greinin mun einblína á sýn starfsfólks og viðbragðsaðila. Gögnin reyndust sérstaklega rík af upplýsingum í tengslum við börnin og því ákvað ég að bæta við einni grein um þau til að svara þeim spurningum sem urðu til í gagnaöflunarferlinu.

Styrkurinn studdi við rannsóknarvinnuna

Þessi styrkur skipti sköpum við vinnu mína í rannsókninni. Hann gerði mér fært að dvelja á Suðurlandi á meðan á gagnaöfluninni stóð og einbeita mér eingöngu að gagnaöfluninni þar til henni lauk. Jafnframt veitti styrkurinn mér svigrúm til að kynnast aðstæðum þessara tveggja samfélaga og innsýn í staðhætti sem ég hefði ekki náð að öðlast ef ég hefði ekki getað dvalið á Suðurlandi yfir þetta tímabil. 

Hér má lesa birta grein um rannsóknina.

Mynd úr safni styrkhafa. (Gunnar Gestur ljósmyndari)