Unnið fyrir | Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands |
Markmið | Að meta þörf á fjarnámi á háskólastigi á Suðurlandi. Að meta áhuga hugsanlegra háskólanema og atvinnurekenda á Suðurlandi á háskólamenntun. Að meta spurn eftir fjarnámi í mismunandi námsgreinum á háskólastigi. |
Skýsluskil | 24. apríl 2017 |
Framkvæmd | Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands |
Undirbúningur, gagnaöflun og úrvinnsla | Ágústa Edda Björnsdóttir, Sigrún Birna Sigurðardóttir, Benjamín Gíslason |
Skýrslugerð | Ágústa Edda Björnsdóttir, Sigrún Birna Sigurðardóttir, Benjamín Gíslason og Hrafnhildur Snæfríðar- og Gunnarsdóttir |
Að beiðni Háskóla Íslands og Sambands sveitarfélaga á Suðurlandi vann Félagsvísindastofnun HÍ rannsókn með það að markmiði að meta þörf fyrir fjarnám á Suðurlandi. Rannsóknarverkefnið var þríþætt. Í fyrsta lagi fór fram rýnihóparannsókn meðal fólks í atvinnulífinu á Suðurlandi í því skyni að fá fram viðhorf þeirra til háskólamenntunar og fjarnáms. Einnig var gerð símakönnun meðal Sunnlendinga á aldrinum 18 – 55 ára, þar sem spurt var um viðhorf og áhuga á fjarnámi á háskólastigi. Loks voru tekin eigindleg viðtöl við forsvarsmenn rannsóknastofnana og mennta- og fræðslusetra á Suðurlandi.
Markmið rannsóknarinnar var eftirfarandi:
-að meta áhuga og eftirspurn almennings á Suðurlandi á háskólamenntun í fjarnámi
-að meta þarfir atvinnumarkaðar og hvernig fjarnám gæti svarað þeirri þörf
-að meta þörf á fjarnámi á háskólastigi á Suðurlandi eftir atvinnu- og námsgreinum
Í rannsókninni var notast við blandað rannsóknarsnið, þar sem bæði eigindlegum og megindlegum aðferðum var beitt. Niðurstöður eigindlegra rannsókna eru gjarnan lýsandi, ítarlegar og til þess fallnar að dýpka skilning á efninu sem um ræðir en megindlegar aðferðir gefa hins vegar yfirlit yfir tiltekið svið eða viðhorf og, að tölfræðilegum forsendum uppfylltum, gera rannsakendum kleift að draga ályktanir um þýðið sem er til rannsóknar (Creswell, 2012). Í rannsókninni var gagna aflað með símaviðtölum, rýnihópaviðtölum og símakönnun og gögnin greind með það markmiði að fá heildstæðari og fyllri gögn og þannig skýrari sýn á viðfangsefnið. Margprófunarsnið (e. Triangulation design) var notað en þá fer megindleg og eigindleg gagnasöfnun fram samtímis eða með stuttu millibili (Creswell, 2012).
Eigindlegra gagna var aflað með rýnihópaviðtölum og opnum einstaklingsviðtölum. Báðar aðferðir veita upplýsingar um hvað er mikilvægt fyrir þátttakendur og hvaða merkingu þeir leggja í rannsóknarefnið (Aurini, Heath og Howells, 2016). Í opnum viðtölum ræðir rannsakandi einslega við viðmælanda og er umræðuefnið þá fyrirfram ákveðið en innihald samræðnanna ekki. Rannsakandinn hvetur viðmælanda sinn til að tala um það sem skiptir máli fyrir rannsóknina, en gefur honum jafnframt tækifæri á að tala frjálslega út frá eigin sjónarhorni (Kvale, 1996). Í rýnihópaviðtölum ræða þátttakendur saman um rannsóknarefnið í hópi. Slík viðtöl veita á skömmum tíma annars konar innsýn í viðhorf þátttakenda en fæst með spurningakönnunum (Aurini, Heath og Howells, 2016).
Til eru fjölbreyttar aðferðir til að vinna gögn á eigindlegu formi. Fyrir þessa rannsókn var notast við þemagreiningu (e. Thematic analysis) til að greina innihald rýnihópaviðtalanna og innihaldsgreiningu (e. Content analysis) fyrir greiningu einstaklingsviðtalanna. Þemagreining er gagnleg aðferð til þess að draga ályktanir af endurteknum atriðum sem mynda merkingarbær þemu í eigindlegum gögnum. Í þemagreiningu skiptir máli að kóðunin sé gerð út frá merkingarbæru innihaldi gagnanna en tíðni slíkra atriða skiptir minna máli. Þessi þemu mynda svo heildstæða sýn á merkingu gagnanna sem um ræðir þar sem ályktanir eru vel rökstuddar af lýsandi tilvitnunum (Braun og Clarke, 2006; Vaismoradi, Turunen og Bondas, 2013). Innihaldsgreining er sveigjanleg aðferð sem notuð er til að kóða og flokka innihald eftir þemum eða munstri sem kemur fram í gögnunum. Rannsakandi getur beitt aðferðinni á bæði eigindleg og megindleg gögn því í þessari aðferð er samhengi gagnanna, uppbygging orðræðunnar í gögnunum og orðaval greint á tölulegan hátt. Venjan er því að leggja mat á hversu oft ákveðin atriði eða kóð koma upp í gögnunum til þess að geta betur gert sér grein fyrir merkingu gagnanna (Elo og Kyngäs, 2008; Vaismoradi, Turunen og Bondas, 2013).
Símakönnun var lögð fyrir úrtak einstaklinga búsetta á Suðurlandi. Símakönnun er algengasta aðferðin til að nálgast upplýsingar frá þátttakendum. Hringt er í þátttakendur í úrtaki, en stærð þess fer eftir inntaki og gerð könnunar. Spyrlar styðjast við tölvuforrit við vinnu sína, sem tryggir samræmi og gæði. Spyrlarnir lesa spurningarnar og svarmöguleikana orðrétt af tölvuskjánum og skrá svör jafnóðum inn í forritið. Forritið sér til þess að spurningum sé sleppt þegar það á við og er með sjálfvirka villuprófun. Spyrlar á vegum Félagsvísindastofnunar fá sérstaka þjálfun og nákvæma kynningu á því verkefni sem þeir fást við hverju sinni. Spyrlarnir fylgja ströngum verklagsreglum sem miða að því að tryggja hlutleysi, samræmi og gæði.
Rannsóknin var þríþætt en hún náði til þriggja mismunandi þátttakendahópa.
Í rýnihópaviðtölunum var lögð áhersla á að ná fram sjónarmiðum atvinnurekanda og fólks í atvinnulífinu. Við val á þátttakendum var reynt að hafa í huga að þeir endurspegluðu að einhverju leyti þann fjölbreytileika sem er að finna meðal atvinnurekenda og í atvinnulífi á Suðurlandi, meðal annars með tilliti til staðsetningar, aldurs og kyns. Þátttakendum var skipt í fimm hópa eftir eftirfarandi atvinnusvæðum á Suðurlandi: Árborg, Hvolsvöllur og Hella, Kirkjubæjarklaustur og Vík í Mýrdal, Höfn í Hornafirði og Vestmannaeyjar. Þátttakendur voru sjálfir bæði faglærðir og ófaglærðir og komu úr ferðaþjónustu, matvælaiðnaði, sjávarútvegi, landbúnaði, öllum stigum skólaþjónustu (leik-, grunn- og framhaldsskóla), heilbrigðisgeiranum, verslun og þjónustu, fjármálageiranum, iðnaði, verkfræði og svo úr ólíkum störfum innan sveitarfélaganna.
Í heild fóru fram sjö símaviðtöl við forsvarsmenn rannsóknasetra, menntastofnana og fulltrúa fræðslu- og símenntunarstöðva á Suðurlandi. Tveir þátttakendur voru búsettir á Höfn, tveir á Selfossi, einn þátttakandi í Vestmannaeyjum, Vík og Hvolsvelli. Tveir þátttakendur starfa í framhaldsskólum á svæðinu, tveir á fræðslu- og símenntunarmiðstöðvum, einn á rannsóknastofnun, einn í skólaþjónustu og einn var fræðslustjóri sveitarfélagsins.
Fyrir megindlegu gagnaöflunina var tekið lagskipt slembiúrtak íbúa á Suðurlandi á aldrinum 18 – 55 ára. Í heildina voru valdir 1.200 manns og svæðinu lagskipt í fjögur svæði: vestursvæði (frá Ölfusi að Markarfljóti), miðsvæði (frá Markarfljóti að Kolgrímu), austursvæði (frá Kolgrímu að Höfn í Hornafirði) og svo Vestmannaeyjar, og voru 300 manns frá hverju svæði í úrtakinu. Í töflum 1-6 má sjá frekari upplýsingar um þátttakendur könnunarinnar.
Fjöldi fyrir vigtun | Fjöldi eftir vigtun | Hlutfall | Vikmörk +/- | Hlutfall | |
---|---|---|---|---|---|
Karl | 326 | 365 | 52% | 3,7% | 52% |
Kona | 374 | 335 | 48% | 3,7% | 48% |
Alls | 700 | 700 | 100% |
Fjöldi fyrir vigtun | Fjöldi eftir vigtun | Hlutfall | Vikmörk +/- | Hlutfall | |
---|---|---|---|---|---|
20 ára og yngri | 74 | 61 | 9% | 2,1% | 9% |
21-30 ára | 162 | 212 | 30% | 3,4% | 30% |
31-40 ára | 150 | 165 | 24% | 3,1% | 24% |
41-50 ára | 211 | 167 | 24% | 3,2% | 24% |
Eldri en 50 ára | 103 | 95 | 14% | 2,5% | 14% |
Alls | 700 | 700 | 100% |
Fjöldi fyrir vigtun | Fjöldi eftir vigtun | Hlutfall | Vikmörk +/- | Hlutfall | |
---|---|---|---|---|---|
Austursvæði | 178 | 60 | 9% | 2,1% | 9% |
Vestursvæði | 313 | 463 | 66% | 3,5% | 66% |
Miðsvæði | 57 | 49 | 7% | 1,9% | 7% |
Vestmannaeyjar | 152 | 128 | 18% | 2,9% | 18% |
Alls | 700 | 700 | 100% |
Fjöldi fyrir vigtun | Fjöldi eftir vigtun | Hlutfall | Vikmörk +/- | Hlutfall | |
---|---|---|---|---|---|
Þéttbýli | 538 | 512 | 73% | 3,3% | 73% |
Dreifbýli | 162 | 188 | 27% | 3,3% | 27% |
Alls | 700 | 700 | 100% |
Fjöldi fyrir vigtun | Fjöldi eftir vigtun | Hlutfall | Vikmörk +/- | Hlutfall | |
---|---|---|---|---|---|
Launþegi | 451 | 454 | 65% | 3,5% | 65% |
Sjálfstætt starfandi | 81 | 78 | 11% | 2,3% | 11% |
Atvinnurekandi | 49 | 50 | 7% | 1,9% | 7% |
Í námi | 47 | 49 | 7% | 1,9% | 7% |
Öryrki | 18 | 19 | 3% | 1,2% | 3% |
Atvinnuleitandi | 19 | 18 | 3% | 1,2% | 3% |
Í fæðingarorlofi / foreldraorlofi | 10 | 11 | 2% | 0,9% | 2% |
Heimavinnandi | 8 | 4 | 1% | 0,6% | 1% |
Annað | 2 | 2 | 0% | 0,4% | 0% |
Námi / launþegi | 6 | 5 | 1% | 0,6% | 1% |
Launþegi / atvinnurekandi | 5 | 4 | 1% | 0,6% | 1% |
Fjöldi svara | 696 | 694 | 100% | ||
Vil ekki svara | 4 | 6 | |||
Alls | 700 | 700 |
Fjöldi fyrir vigtun | Fjöldi eftir vigtun | Hlutfall | Vikmörk +/- | Hlutfall | |
---|---|---|---|---|---|
Menningu og skapandi greinum | 10 | 10 | 2% | 0,9% | 2% |
Heilbrigðisþjónustu | 40 | 34 | 5% | 1,6% | 5% |
Menntasviði | 98 | 94 | 14% | 2,6% | 14% |
Landbúnaði | 62 | 72 | 10% | 2,3% | 10% |
Verslun og þjónustu | 119 | 118 | 17% | 2,8% | 17% |
Iðnaði | 85 | 103 | 15% | 2,6% | 15% |
Sjávarútvegi og fiskvinnslu | 62 | 47 | 7% | 1,9% | 7% |
Ferðaþjónustu | 56 | 56 | 8% | 2,0% | 8% |
Opinberri þjónustu | 46 | 45 | 6% | 1,8% | 6% |
Annað | 11 | 9 | 1% | 0,9% | 1% |
Ekki á atvinnumarkaði | 57 | 55 | 8% | 2,0% | 8% |
Í námi | 47 | 49 | 7% | 1,9% | 7% |
Fjöldi svara | 693 | 692 | 100% | ||
Vil ekki svara | 7 | 8 | |||
Alls | 700 | 700 |
Umræðurammi fyrir rýnihópana, viðtalsrammi fyrir einstaklingsviðtölin og spurningalisti voru hannaðir samhliða út frá ábendingum frá verkkaupa og innblæstri frá eldri rannsóknum.
Umræðuramminn fyrir rýnihópana var saminn með það fyrir augum að í hópunum yrði fólk úr atvinnulífinu. Í rammanum var lögð áhersla á þrjú megin þemu. Fyrsta þemað var viðhorf til náms þar sem leita átti upplýsinga um hvaða háskólanám væri í boði á hverju svæði, staðnám og fjarnám, og hvort þörf væri fyrir fleiri námsleiðir og/eða öðruvísi skipulagningu fjarnáms. Annað þemað var viðhorf til atvinnutækifæra þar sem spurt var um stöðu atvinnugreina á svæðinu og hvort þörf væri á háskólamenntuðu fólki í einhverjum greinum. Þriðja þemað var framtíðarsýn en viðmælendur voru beðnir um að horfa fimm ár fram í tímann og velta vöngum yfir stöðu menntunar og atvinnutækifæra á því tímabili. Rýnihóparammann má finna í viðhengi 1.
Einstaklingsviðtalsramminn skiptist í fjögur megin þemu. Viðmælendur voru fyrst um sinn spurðir um aðstæður og aðbúnað til fjarnáms. Þar á eftir var leitast við að fá fram viðhorf tengd atvinnumarkaðinum í því byggðarlagi sem viðmælandi bjó og starfaði í. Hér var farið yfir þær atvinnugreinar sem nú einkenna byggðarlagið, hvort þörf væri á háskólamenntuðu starfsfólki eða hvort þörf væri fyrir frekari atvinnutækifærum fyrir háskólamenntað starfsfólk. Því næst var fjallað um viðhorf til náms og spurt um áhuga á fjarnámi og ímynd þess, framboð fjarnáms í byggðarlaginu og þörf ólíkra hópa eins og karla og kvenna, aldurshópa og atvinnugreina. Loks var voru viðmælendur beðnir að draga upp eins konar framtíðarsýn, að meta hvaða þörfum á atvinnumarkaði þyrfti mögulega að svara á næstu fimm árum og hvernig fjarnám á háskólastigi gæti mætt þeim. Viðtalsrammann fyrir einstaklingsviðtölin má sjá í heild sinni í viðhengi 2.
Spurningalistinn var saminn í samráði við verkkaupa. Markmiðið var að fá fram upplýsingar um áhuga íbúa á Suðurlandi á háskólanámi og ólíkum fræðagreinum. Þátttakendur voru spurðir að því hvort þeir stefndu á nám, staðnám eða fjarnám og hvaða námsgreinar þeir hefðu helst áhuga á. Einnig var leitast til við að fá fram viðhorf þátttakenda sem höfðu reynslu af fjarnámi úr náminu. Loks voru þátttakendur beðnir að meta þörf fyrir háskólamenntað fólk í heimabyggð sinni. Svörin voru greind eftir bakgrunni þátttakenda; kyni, aldri, búsetu, menntun og áhuga á fjarnámi. Spurningalistann má finna í viðhengi 3.
Þátttakendur voru meðal annars fundnir með aðstoð verkkaupa. Í rýnihópunum voru atvinnurekendur og einstaklingar í stjórnunarstöðum sem starfa á svæðunum fimm. Reynt var eftir fremsta megni að fá fólk úr sem flestum atvinnugreinum og af báðum kynjum. Þátttakendum var boðin þátttaka símleiðis og voru 8 -12 manns boðaðir í hvern hóp. Fyrstu umræðurnar fóru fram á Hvolsvelli í desember en þangað kom einnig einn einstaklingur frá Hellu. Þá fóru einnig fram umræður í Vestmannaeyjum og í Höfn í desember en hóparnir á Kirkjubæjarklaustri og í Árborg komu saman í byrjun janúar. Á fundinn í Kirkjubæjarklaustri komu einnig þátttakendur frá Vík. Í öllum fimm hópunum voru sex til átta þátttakendur úr ólíkum atvinnugreinum. Í öllum hópum voru að minnsta kosti tvær konur en þær voru í minnihluta á heildina litið.
Umræðurnar tóku um klukkutíma þar sem fyrrgreindum umræðuramma (sjá viðauka 1) var fylgt en í lokin gafst þátttakendum færi á að bæta einhverju við ef þeim þótti þörf á. Rýnihópaviðtölin voru hljóðrituð með leyfi viðmælenda og afrituð orðrétt. Hvert viðtal var lesið vandlega yfir og þemu eða meginatriði dregin fram með því að gefa textabútum nafn, en slík vinnuaðferð kallast kóðun. Í framhaldi voru kóðar allra viðtalanna flokkaðir í meginþemu og undirþemu. Í skrifum upp úr viðtölum var nafnleyndar gætt. Var forritið Atlas.ti notað við greininguna.
Tölvupóstur með kynningarbréfi um rannsóknina var sendur til 11 einstaklinga þann 12. desember 2016. Í bréfinu var rannsóknin kynnt og tilkynnt að viðkomandi hefði lent í hentugleikaúrtaki fyrir rannsóknina. Einstaklingum var gefinn kostur á að afþakka þátttöku með að svara tölvupóstinum. Einn þátttakandi afþakkaði vegna anna og annar vegna tengsla við verkkaupa. Í sömu viku hringdi verkefnastjóri til þeirra einstaklinga sem eftir voru til að ákveða tíma fyrir símaviðtalið. Ekki náðist í tvo þátttakendur og voru því viðtölin alls sjö, tekin í síma dagana 20. desember 2016 - 5. janúar 2017.
Viðtölin hófust á inngangi þar sem verkefnastjóri skýrði frá tilgangi og ávinningi rannsóknarinnar og bað þátttakendur því næst að kynna bakgrunn sinn og hlutverk stofnunar sinnar stuttlega. Þessu var síðan fylgt eftir með spurningum sem snéru að fyrrgreindum þemum. Í lokin voru viðmælendur spurðir hvort þeir hefðu eitthvað sem þeir vildu bæta við og þeim þannig gefinn kostur á að koma á framfæri efni sem skipti þá sjálfa máli en tengdust ekki endilega spurningum umræðustjóra. Viðtölin tóku að lágmarki 30 mínútur en eitt viðtalið tók rúmar 60 mínútur.
Viðmælendum var heitið trúnaði og verða viðtölin hvergi birt í heild sinni. Við skrif upp úr viðtölunum eru þátttakendur hvorki nafngreindir, né er vitnað beint í þá ef talið er að hægt sé að rekja upplýsingarnar til viðkomandi. Niðurstöður verða þess vegna birtar sem sjónarmið hóps í stað þess að lýsa skoðunum ákveðinna einstaklinga.
Einstaklingsviðtölin voru tekin upp en ekki afrituð. Hljóðupptökurnar voru innihaldsgreindar út frá því hvaða merkingarbæru atriði komu fram undir þemum viðtalsrammans hverju sinni, þvert á alla þátttakendur, til að tryggja nafnleynd þátttakenda. Niðurstöðurnar greina því frá þessum merkingarbæru atriðum óháð því frá hvaða þátttakenda þau eru uppruninn. Engar beinar tilvitnanir fylgja greiningunni vegna þessa fyrirkomulags. Við úrvinnslu voru notuð forritin Atlas.ti 7 og Excel.
Viðhorfskönnun fór fram daganna 6. desember 2016 til 9. janúar 2017. Þátttakendur voru á aldrinum 18 til 55 ára, búsettir á Suðurlandi. Heildarúrtakið var 1200 manns en alls tóku 700 manns þátt og því var svarhlutfall um 58%.
Fjöldi í úrtaki | Fjöldi svarenda | Svarhlutfall á svæði | |
---|---|---|---|
Austursvæði | 276 | 178 | 64,5% |
Miðsvæði | 103 | 57 | 55,3% |
Vestmannaeyjar | 300 | 152 | 50,7% |
Vestursvæði | 521 | 313 | 60,1% |
Alls | 1.200 | 700 | 58,3% |
Í skýrslunni er sérstakur kafli um niðurstöður viðhorfskönnunarinnar. Þar eru töflur sem sýna dreifingu svara við spurningum könnunarinnar og hlutföll svarenda á bak við tiltekna svarmöguleika. Ennfremur má sjá bakgrunnsgreiningar en þar eru svör þátttakenda greind eftir kyni, aldri, svæði sem þeir eru búsettir á, búsetu í þéttbýli eða dreifbýli og eftir því hvort þátttakendur höfðu áhuga á námi eða ekki. Í töflum eru aðeins birt svör þeirra sem tóku afstöðu til spurningarinnar og af þeim sökum er mismunandi fjöldi svara á bak við hverja töflu. Í einhverjum tilvikum kann samanlagt prósentuhlutfall að vera 99% eða 101% í stað 100% vegna námundunar.
Notast var við marktektarprófið kí-kvaðrat til að meta hvort tölfræðilega marktækur munur væri á hlutföllum mismunandi hópa. Ef tölfræðileg marktekt kemur fram er það gefið til kynna með stjörnumerkjum (*). Ein stjarna þýðir að innan við 5% líkur séu á því að munur sem sést í hópi svarenda sé kominn til af tilviljun (p<0,05). Með öðrum orðum getum við sagt með 95% vissu að sá munur sem birtist meðal svarenda sé einnig til staðar meðal íbúa á Suðurlandi. Tvær stjörnur þýða að munurinn sé marktækur miðað við 99% öryggi (p<0,01) og þrjár stjörnur þýða að fullyrða megi með 99,9% vissu að munurinn sé til staðar í þýðinu (p<0,001). Í þeim tilvikum þar sem munur var ómarktækur eru engin tákn. Skammstöfunin óg. merkir að marktektarprófið hafi reynst ógilt vegna fámennis í hópum. Í slíkum tilvikum var valmöguleikum spurningarinnar slegið saman, þegar það átti við, og marktekt aftur reiknuð eins og útskýrt er í neðanmálsgrein í töflum. Þegar marktekt kom fram eftir þessa fækkun flokka, var hún birt í sviga á eftir niðurstöðu fyrra marktektarprófsins. Ómarktækt samband í þeim tilvikum er táknað með (-).
Viðmælendur ræddu um atvinnulíf á Suðurlandi og töldu það vera fjölbreytt. Þeir atvinnuvegir sem voru að mati viðmælenda mest áberandi voru landbúnaður, matvælaframleiðsla, sjávarútvegur (einkum og sér í lagi í Vestmannaeyjum) og opinber þjónusta t.a.m. heilbrigðisþjónusta, umönnun og skólaþjónusta. Ofangreindir atvinnuvegir eru í mismiklu mæli ríkjandi á milli ólíkra landssvæða. Miklar umræður sköpuðust um ferðaþjónustu og voru viðmælendur sammála um að ferðaþjónustan væri umfangsmesti atvinnuvegurinn á landsvæðinu og færi vaxandi. Einn viðmælandi lýsti ástandinu í ferðaþjónustu á þann hátt að vegna mikilla tekjumöguleika ríkti hálfgert „gullgrafaraæði“. Auðvelt væri að verða sér úti um starf eða hefja eigin rekstur í þessum geira vegna mikillar eftirspurnar. Almenn ánægja ríkti með vaxandi hlutdeild ferðaþjónustu á svæðinu sem viðmælendur töldu almennt hafa góð áhrif á svæðið. Þetta endurspeglast í orðum eins viðmælanda:
Fyrir 50 árum þá duttu menn í það og fóru á ball og stofnuðu útgerð og fóru í bankann á mánudegi, nú stofna þeir ferðaþjónustufyrirtæki. […] Þetta er bara frábært sko, þú veist, er tækifæri fyrir fólk að verða frumkvöðlar sko.
[Þátttakandi í rýnihóp á Höfn]
Menntunarstig mannauðs í fyrirtækjunum sem þátttakendur voru í forsvari fyrir var mjög fjölbreytt og fór að mestu leyti eftir því innan hvaða geira fyrirtækin voru. Mest var um háskólamenntað starfsfólk í opinberum störfum, svo sem á heilbrigðissviði eða menntageiranum og tæknimenntun var algengust í matvælaiðnaði, framleiðslu og fiskiðnaði. Töluvert var rætt um sjávarútveginn en vegna mikilla umsvifa bjóða fyrirtæki á því sviði upp á fjölbreyttar stöður sem krefjast afar ólíkrar menntunar.
Þetta er sennilega um það bil [fjöldi tekinn út] manns í heildina sem svona hafa atvinnu í kringum fyrirtækið og þeir eru náttúrulega svona á ýmsum stöðum í keðjunni. Alveg frá því að náttúrulega vera ófagmenntað fólk sem vinnur þá gjarnan fiskvinnslustörfin í landi og síðan erum við náttúrulega með sjómenn […] Síðan rekum við náttúrulega mikið stoðkerfi til að halda úti svona stóru fyrirtæki og þar erum við þá með tæknistörf, við erum með rafvirkja, við erum með tölvunarfræðinga og síðan erum við þá náttúrulega með öflugar skrifstofur og fjármálaþekkingu og IT störf og tölvu, sérfræðiþekkingu og þannig að þetta er mjög víður hópur.
[Þátttakandi í rýnihóp á Höfn]
Þátttakendur ræddu um störf innan ferðaþjónustunnar og töldu fremur algengt að eigendur ferðaþjónustufyrirtækja væru „sjálfmenntaðir“, þ.e. hefðu ekki formlega menntun á því sviði sem þeir störfuðu eða væru með menntun í ótengdum greinum. Hvað ferðaþjónustu varðaði var, að mati viðmælenda, menntun í landbúnaðarfræðum og rekstrarfræði gagnleg. Innan ferðaþjónustugeirans væri mikil breidd og fjölbreytt störf þar að finna en meginþorri þeirra krefðust þó ekki sérstakrar menntunar. Oft reyndist erfitt að manna stöður og sveiflur og árstíðabundnar þarfir ferðaþjónustunnar settu ennfremur sitt strik í reikninginn. Þrátt fyrir það væru störfin í sumum tilvikum unnin af fólki sem hefði mikla menntun eða af „of menntuðu“ starfsfólki. Þá væri meðal starfsmanna einstaklingar með menntun og jafnvel sérfræðikunnáttu sem ekki nýttist þeim beint í starfi. Þetta væri sérstaklega þegar ráðið væri starfsfólk af erlendum uppruna.
Svo er náttúrlega bara gríðarleg vöntun á fólki og í þessum geira. Bæði í garðyrkjunni og ferðaþjónustunni er mikið af erlendu vinnuafli sem að kemur og er bara mjög jákvætt og gott en það er misjafnt hvað fólk stoppar lengi, og já, í ferðaþjónustunni, hún er náttúrlega svo flókin að hún náttúrulega kallar á, þú veist, fólk af öllum toga sko. Og það vantar náttúrlega gríðarlega mikið, ýmsa, sem eru með menntun á ýmsum vettvangi.
[Þátttakandi í rýnihóp á Selfossi]
Þegar rætt er um atvinnuþátttöku og mönnun í atvinnugeirum sem þátttakendur voru í forsvari fyrir, virðist heimafólk eftirsóttasti starfskrafturinn sem og fólk af erlendum uppruna sem sest hefur að í byggðarlaginu eða í sýslunni. Sumir þátttakendur höfðu neikvæða reynslu af því að ráða fólk sem býr í öðrum byggðum, ekki síst vegna vandamála tengdum samgöngum. Kostnaðarsamt reyndist að keyra sífellt á milli svæða auk þess sem ýmis vandamál gátu komið upp tengd veðurfars og slæmrar færðar. Voru sagðar sögur af því að starfsfólk af öðrum svæðum hafði ýmist ekki komist á vakt eða heim til sín eftir vakt vegna slæmra veðurskilyrða. Þrátt fyrir að farsælast væri fyrir atvinnurekendur að ráða fólk í sinni heimabyggð væri erfitt að gera kröfu um búsetu en sumir höfðu lagst í töluverða vinnu í því skyni að manna störf með fólki af svæðinu.
Við lögðum gríðarlega bara mikið upp úr því að ráða heimafólk. Leituðum okkur alveg ofan í grasrót til þess að, en auðvitað stækkaði hópurinn sem að við þurftum að fá, erlendir starfsmenn eða aðkomufólk til þess að hjálpa okkur í þessu. En fyrir svona ætli það sé ekki þrjú eða fjögur ár, þá voru við með svona um, þetta voru svona 10-15% sem voru erlendir starfsmenn hjá okkur. Það þótti bara nokkuð gott og við vorum bara mjög ánægð með það að hérna fá hjálpina, en náðum að keyra þetta svolítið á heimafólki.
[Þátttakandi í rýnihóp á Höfn]
Ljóst er að erlent starfsfólk hefur töluverða hlutdeild í atvinnumarkaðinum á Suðurlandi. Erlent starfsfólk sem starfar í skemmri eða lengri tíma í senn, virðist helst vera ráðið í störf innan ferðaþjónustu, verslunar og í önnur slík störf sem ekki krefjast fagþekkingar. Sumir setjast að á svæðunum og taka sér fasta ótímabundna búsetu. Flestir viðmælendur höfðu reynslu af því að hafa erlent starfsfólk í vinnu og báru því mjög góða sögu. Þeir töldu starfsfólk af erlendum uppruna vera mikils virði fyrir fyrirtæki. Þeir gáfu jafnframt til kynna að framlag starfsfólks af erlendum uppruna væri oft vanmetið og notuðu orð eins og „fjársjóður“ og „gullnáma“ til að lýsa störfum þeirra og hæfni. Þeir töldu að betur mætti hlúa að erlendu starfsfólki því þarna væri oft „vannýtt auðlind“. Fólk af erlendum uppruna sem settist að á svæðunum væri oft með háskólamenntun sem ýmist nýttist þeim ekki eða væri ekki metin hér á landi. Nokkrir sáu mikinn hag í því að hafa erlent starfsfólk sem gæti þjónustað samlanda sína sem væru í viðskiptum við fyrirtæki þeirra. Erlent vinnuafl dragi ennfremur úr neikvæðri byggðaþróun, stuðli að endurnýjun mannafla á atvinnumarkaði og auðgi samfélagið á fjölbreyttan hátt.
Við erum með starfsfólk frá sem er talar íslensku og er búið að búa hérna kannski í 10 15 ár frá Póllandi og frá Litháen og þetta er náttúrulega albesta starfsfólk sem maður fær, harðduglegt og metnaðarfullt á meðan Íslendingarnir eru bara að koma í þetta starf yfir sumarið til þess að fara vinna sér inn pening fyrir skólann. Þannig að við nennum ekki að vinna þessi störf, hvort sem það er fiski eða þessi störf, þess vegna verðum við að treysta á það að þetta fólk sé hérna.
[Þátttakandi í rýnihóp í Vestmannaeyjum]
Viðmælendur ræddu töluvert fjarnámsmöguleika sem nýst gætu starfsfólki af erlendum uppruna á svæðinu. Þeir töldu erlent vinnuafl vera fremur „týndan“ hóp í samfélaginu og að það þurfi hugarfarsbreytingu til þess að breyta aðstæðum þeirra. Þarfir hópsins gleymdust en með því að hlúa betur að þessu öfluga starfsfólki kæmist það betur inn í samfélagið og væri líklegra til þess að setjast að og líða vel. Mikilvægt væri því að koma í auknu mæli til móts við þarfir þeirra því slíkt gæti skilað miklu til lítilla samfélaga. Tungumálið væri oft aðal hindrunin sem mætti nýbúum og því væri kjörið að bjóða upp á meiri og fjölbreyttari íslenskukennslu fyrir hópinn. Núverandi námsmöguleikar dagi oft uppi þótt áhugi sé til staðar og nefndu þátttakendur í því samhengi ástæður eins og bílleysi einstaklinga. Einnig bentu þátttakendur á að fáar leiðir væru færar fyrir erlent starfsfólk með háskólagráður að fá nám sitt eða starfsréttindi metin á Íslandi. Í því skyni væri brýnt að bjóða upp á nám eða námskeið til að fólk gæti í auknum mæli nýtt menntun sína og reynslu.
Eins og í framhaldi af því þá erum við með rosalega mikið af útlendingum sem eru sprenglærðir, en þeir mega ekki nota menntunina sína hér. Einhverskonar fjarnám til þess að heimfæra það nám til þess að geta notað það á Íslandi myndi fá þetta fólk til þess að setjast að og verða hluti af samfélaginu í stað þess að stoppa í smá stund. Það er gríðarlegur mannauður, þú veist, þarna sem er ónýttur sko. Og þetta fólk er að skúra gólf sko, skilurðu, sem að gæti verið að gera sko, stórkostlega hluti.
[Þátttakandi í rýnihóp á Kirkjubæjarklaustri]
Loks bentu þátttakendur á að erlent starfsfólk væri oft afar hógvært, hefði sig lítið í frammi og þekkti ekki til úrræða og tækifæra sem væru í boði fyrir það. Það þyrfti því að hafa það hugfast þegar námskostir væru kynntir og eflaust þyrfti því sérstakt átak í kynningarmálum á hverju svæði fyrir sig til að ná vel til hópsins.
Ljóst er að atvinnusvæðið í Vestmannaeyjum sker sig úr vegna landfræðilegrar afstöðu og svo er afgerandi munur á svæðunum vestan og austan Þjórsár. Þetta sést vel hjá þátttakendum frá Hvolsvelli og Selfossi sem ræddu þó nokkuð um stærð atvinnusvæðisins á Suðurlandi og fjarlægðina til höfuðborgarinnar. Bent var á að Suðurlandið sjálft væri í reynd eitt atvinnusvæði og margir sæktu sér atvinnu á milli byggðarlaga eða hefðu samtengdan rekstur og viðskipti við nærsveitunga. Nálægð vesturhlutans við höfuðborgina gefur því svæði þó ákveðna sérstöðu hvað varðar atvinnumöguleika. Undanfarinn áratug eða svo hefur fjarlægðin orðið fólki yfirstíganlegri og það væri algengara að ferðast lengri vegalengd til að sækja vinnu. Þátttakendur ræddu einnig hátt húsnæðisverð og húsnæðisskort á höfuðborgarsvæðinu. Töldu þeir þróunina hafa verið þá að fólk leiti í auknum mæli í jaðarbyggðir eftir hentugum búsetuúrræðum og keyri í bæinn til vinnu. Í því samhengi var sagt frá dæmum um að fólk sem væri búsett á Suðurlandinu, allt að byggð undir Eyjafjöllum, væri í þeirri stöðu að sækja atvinnu til höfuðborgarinnar og geri það stundum nokkra daga í viku og vinni að heiman aðra daga. Í þeim tilvikum væri algengt að fólki byðust ekki stöður sem hæfðu þeirra menntun í sinni byggð. Þátttakendur ræddu einnig dæmi þess að höfuðborgarbúar sæktu um sérfræðistörf sem eru í boði á Selfossi og nærliggjandi byggð og ækju á milli daglega. Flestir voru þó sammála um að atvinnurekendur væru ekki hrifnir af því að hafa starfsfólk sem þyrfti að ferðast miklar vegalengdir daglega, reynslan sýndi að slíkt fyrirkomulag entist ekki til lengdar.
Ég held það sé klisjukennt að segja þetta, við erum ekki öðruvísi heldur en úthverfi borgarinnar, núna í dag. Fyrir 20 árum eða jafnvel bara 10, 15 þá var þetta sko óyfirstíganleg fjarlægð, margra sem voru að horfa á atvinnumöguleika. […]. Við erum orðin partur þetta er eitt atvinnusvæði orðið allt Suðurland og teygir sig til Reykjavíkur.
[Þátttakandi í rýnihóp á Hvolsvelli]
Þátttakendur sem höfðu reynslu af því að sækja staðnám til Reykjavíkur úr sinni heimabyggð voru sammála um að það hafi kostað töluverða fyrirhöfn. Umtalsverður tími hafi farið í ferðalög og kostnaðar verið mikill. Ennfremur hafi oft reynst erfitt að samræma nám og fjölskyldulíf vegna mikilla vegalengda og álags í námi (t.a.m. þegar börn eru á leikskóla og fjarlægð mikil ef þau þarf að sækja skyndilega). Bætt fjarnám var því að mati þátttakenda mun ákjósanlegri kostur fyrir einstaklinga sem búsettir væru á svæðinu.
Já, ég veit t.d. að Háskóli Íslands er náttúrlega með í boði eins og viðskiptafræði með vinnu og hérna, ég veit um aðila sem hafa áhuga á slíku en það eru þessir tveir klukkutímar á dag sem að tekur að koma sér á milli og, og menn eru að vinna og eru orðnir þreyttir og þetta er bara töluvert mikið álag sko, fyrir einstaklinga.
[Þátttakandi í rýnihóp á Selfossi]
Viðmælendur ræddu ólíka námskosti og töldu töluverðan mun vera á áhuga og námsvali ungs fólks sem er nýútskrifað úr framhaldsskóla og eldra fólks sem vill fara í meira nám eða sinna námi meðfram starfi. Þeir töldu ungt fólk frekar kjósa að flytja úr heimabyggð til að sækja staðnám. Þá þótti það ákveðinn hluti af þroskaferli ungs fólks af landsbyggðinni að komast í annað umhverfi til að sækja nám um tíma. Í tilviki eldra fólks sem væri ýmist komið með fjölskyldu og/eða fasta vinnu væri fjarnám vinsælli kostur. Ekki síst fyrir þá sem væru búnir að vera starfandi í einhvern tíma og vildu bæta við sig hagnýtri þekkingu í sínu sviði.
Ég held að fæstir sem að útskrifast strax hugsi strax um fjarnám, ég held það sé mikill minnihluti. Ég held það sé 85-90% af þeim sem ætla sér í háskólanám þeir fara til Reykjavíkur til að ná sér í það. Fjarnámið hérna og það sem er verið að bjóða upp á hér held ég að sé meira akkúrat fyrir fólk sem að er búið að vera eitthvað út á vinnumarkaðnum og ákveður svo að fara í nám.
[Þátttakandi í rýnihóp í Vestmannaeyjum]
Þátttakendur bentu hins vegar á að sífellt væri erfiðara fyrir ungt fólk að sækja nám til höfuðborgarsvæðisins. Því fylgdi mikill kostnaður, ekki síst þar sem húsnæði væri dýrt og illfáanlegt. Slík húsnæðisvandamál kæmu jafnvel alfarið í veg fyrir að sumir færu í háskólanám. Af þeim sökum væri mikilvægt að í boði sé fjölbreytt úrval námsgreina í fjarnámi sem ungt fólk gæti nýtt sér eftir útskrift úr menntaskóla.
Vegna þess að maður sendir ekkert fólk til Reykjavíkur og ætlast til þess að þau haldi sér uppi þar, eins og húsnæðismarkaðurinn er þar, að ná sér í einhverja menntun til að koma svo aftur. Það er bara ekki möguleiki, þannig þá bara mennta þau sig ekki neitt, af því að það er ekki aðgangur að fjarnámi. Ekki þessum greinum.
[Þátttakandi í rýnihóp á Kirkjubæjarklaustri]
Þó svo að eldra fólk væri talið líklegra til að nýta sér fjarnám var því talið mikilvægt að námsframboð miðaðist við báða hópa, ungt fólk og eldra fólk sem komið væri með fjölskyldu eða vinnu. Mikilvægt væri að sem flestir gætu sótt nám í sinni heimabyggð og ræddu þátttakendur í því samhengi um mikilvægi „jafnræðis til náms“. Væru framboðið ekki gott, og aðgengi að námi fyrir íbúa lítið, væri aukin hætta á að fólk flytti annað til að sækja nám þar sem það ílengdist og kæmi jafnvel ekki aftur.
Þegar rætt var um fjarnám virtust þátttakendur sammála um að námið frá Háskólanum á Akureyri reyndist best. Námsfyrirkomulagið þar (námslotur) væri almennt sveigjanlegt auk þess sem vinsælustu fjarnámsgreinarnar; hjúkrunarfræði og viðskiptafræðitengdar greinar, væru kenndar þaðan. Margir viðmælendur höfðu ýmist sjálfir reynslu af fjarnámi frá Háskólanum á Akureyri eða þekktu til einstaklinga sem höfðu þreytt þaðan fjarnám. Þrátt fyrir tjáðan sveigjanleika lýstu þátttakendur þó vandamálum sem upp höfðu komið vegna reglna fjarnámsins. Til að mynda gagnrýndu þátttakendur reglur um tíu manna lágmarksfjölda fyrir fjarnám og töldu að líta yrði einnig til aðstæðna og þarfa byggðanna. Einn þátttakandi frá Höfn benti á að smá sveitarfélög hefðu hreinlega ekki störf fyrir tíu hjúkrunarfræðinga sem útskrifast allir á sama tíma. Við skipulagningu fjarnámsins væri brýnt að skoða málin í víðara ljósi, m.a. með atvinnuaðstæður nýútskrifaðra nemenda í huga.
Ég var í fjarnámi á Akureyri því það var skásti kosturinn. Ég hefði alveg viljað útskrifast frá Háskóla Íslands, hefði alveg viljað sækja þetta til höfuðborgarinnar, en það var skást upp á tímasókn og annað þarna og það var líka lotukennsla. Það hentar betur að taka lotur, þegar þú ert kannski fullri vinnu, sem flestir eru.
[Þátttakandi í rýnihóp á Kirkjubæjarklaustri]
Þátttakendur ræddu fjarnámið á vegum Kennaraháskólans á sínum tíma og töldu það hafa verið mjög gott. Að mati sumra hafi gæði fjarkennslu í kennslufræðum hrakað eftir að Kennaraháskólinn og Háskóli Íslands sameinuðust. Einnig var bent á að lenging námsins hafi minnkað áhuga fólks á náminu. Framboð á fjarnámi frá Háskóla Íslands var talið slakt samanborið við nám frá Háskólanum á Akureyri, Bifröst og Hólum. Bent var á að þó Háskóli Íslands væri skóli allra landsmanna væri þörfum landsbyggðarinnar sýndur lítill skilningur. Þátttakendur töldu ástæðuna tengjast almennu sinnuleysi skólans í garð landsbyggðarinnar en einnig duttlungum einstakra kennara, t.d. hæfni þeirra og getu til að tileinka sér fjarnámsútbúnað.
Minnsta framboðið sem er í rauninni í boði í dag er frá HÍ sko, sem á að vera háskóli allra landsmanna sko. Þannig að hérna, öll þessi hérna, menntun sem að fólk er að sækja sér er frá, í rauninni þessum litlu háskólum sko.
[Þátttakandi í rýnihóp á Selfossi]
Þrátt fyrir að vera gagnrýnin í garð fjarnámsframboðs Háskóla Íslands kom ennfremur fram að skólinn væri með besta orðsporið af íslenskum háskólum og af þeim sökum vildu margir geta sótt nám þar. Einnig var talað vel um rannsóknasetrin sem Háskóli Íslands rekur á Suðurlandi. Voru þátttakendur á þeirri skoðun að þar væri unnið mikið og gott starf sem væru öðrum skólum til eftirbreytni, með þeim kæmi fjölbreytt starfsemi sem smitaði frá sér og því ætti að efla rannsóknasetrin.
Þátttakendur ræddu einnig um fjarnámsmöguleika í Háskólanum í Reykjavík og Bifröst sem var þó minna þekkt. Einn hafði neikvæða sögu að segja frá samskiptum sínum við Bifröst sem varð til þess að hann þreytti aldrei námið sem hann stefndi á. Lítið var rætt um fjarnámsmöguleika í Háskólanum á Hólum og Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri.
Langflestir þátttakendur höfðu ýmist sjálfir reynslu af því að hafa verið í fjarnámi eða þekktu einhvern nákominn sem hafði verið í slíku námi. Þeir töldu viðhorfið í sinni heimabyggð til fjarnáms vera fremur jákvætt en sumir voru þeirrar skoðunar að gæðum námsins hefði hrakað og að brýnt væri að bæta ýmsa vankanta. Fjarnám var að mati viðmælenda ákveðinn hornsteinn í samfélaginu og forsenda þess að unnt væri að manna mikilvægar stöður innan bæjarfélaganna. Ef ekki væri fyrir fjarnámið hefði vart verið hægt að finna faglært starfsfólk til að sinna mikilvægri stoðþjónustu og tóku viðmælendur sem dæmi dæmi kennaranámið, hjúkrunarfræði og sjúkraflutninganámið, þótt það síðastnefnda sé ekki á háskólastigi.
Ég meina við værum ekki með alla þessa menntuðu grunnskólakennara nema út á þetta fjarnám hérna í Eyjum, margir sem að menntuðu sig hérna þegar þetta fjarnám kom.
[Þátttakandi í rýnihóp Í Vestmannaeyjum]
Viðmælendur töldu gott fjarnám vera lið í jákvæðri byggðaþróun á landsbyggðinni, það skipti miklu fyrir atvinnumarkaðinn og væri því ekki eingöngu „menntamál“. Heimafólk sem næði sér í háskólamenntun væri hæfara til að stofna eigið fyrirtæki eða fara í nýsköpun og með því móti skapaðist fjölbreyttara atvinnulíf á stöðunum og atvinnutækifæri sem stuðluðu að fjölbreytni í samfélögum. Möguleiki á fjarnámi væri einfaldlega eitt af þeim búsetuskilyrðum sem fólk velti fyrir sér áður en það flytti út á landsbyggðina.
Þetta tengist eiginlega soldið bara byggðastefnunni líka og það liggur við, sko pólitískt mál að sem sagt með byggðastefnu, það er náttúrulega bara viss hætta á því þegar þú hefur ekki valmöguleikann hérna á þínu svæði og vilt samt vera hérna, þarft að fara sækja þér menntun að þú ílengist þar.
[Þátttakandi í rýnihóp á Hvolsvelli]
Viðmælendur bentu þó á að framboð á fjarnámsgreinum hafi hingað til yfirleitt tengst atvinnumöguleikum í heimabyggð en ekki áhuga fólks. Þá var bent á að töluverður fjöldi hefði í gegnum tíðina sótt fjarnám í kennslufræðum og hjúkrunarfræðum þar sem það var talið vera hagnýtt. Þetta væru þó ekki endilega þær greinar sem einstaklingar hafi mestan áhuga á. Raunin væri sú að námsframboðið í fjarnámi væri of lítið sem væri gríðarleg takmörkun því áhugi fólks á Suðurlandi væri jú ekkert frábrugðinn áhuga fólks annarsstaðar. Vegna þess að úrvalið hefur verið lítið hefur, að mati viðmælenda, fremur einsleitur hópur nýtt sér fjarnámskostinn. Þetta hafi ennfremur litað ímynd fjarnámsins. Framboð greina þyrfti að vera mun meira, í takt við það mikla úrval fræðigreina sem eru kenndar í háskólum á Íslandi. Þátttakendur töldu þurfa koma í auknum mæli á móts við þarfir og áhuga ungs fólks, þannig að það gæti lagt stund á nám út frá áhugasviði sínu.
En svo náttúrulega líka horfir maður á ef maður, sko ég til dæmis var strax búin að ákveða það mig langaði ekki að búa í Reykjavík, og þá horfði maður á menntunargeirann, þú veist hjúkrunarfræði, ég skoða líka kennarann, það eru svona störf sem maður getur unnið og búið hvar sem er.
[Þátttakandi í rýnihóp á Hvolsvelli]
Staðlotur voru töluvert til umræðu í öllum hópum og voru margir þátttakendur fremur gagnrýnir í garð námsfyrirkomulagsins. Þeir töldu of miklar kröfur vera um viðveru fjarnemenda og voru á þeirri skoðun að „fjarnám á auðvitað bara að vera fjarnám“. Þeir bentu á að flestir sem sinni fjarnámi séu að stunda námið meðfram vinnu. Fjarnám þyrfti því að skipuleggja þannig að komið væri til móts við þarfir fólks sem væri að sinna starfi samhliða námi og byggi á landsbyggðinni. Í uppbyggingu náms og skipulagi kennslu væri hins vegar yfirleitt gert ráð fyrir því að allir nemendur séu af höfuðborgarsvæðinu. Staðlotur fælu oft í sér mikið ferðalag fyrir nemendur og setti íslenska veðurfarið þá stundum strik í reikninginn. Rædd voru dæmi þess að fjarnemar hefðu misst af fleiri en einni staðlotu vegna veðurs og í kjölfarið flosnað upp úr náminu. Nokkrir sögðu frá eigin reynslu af staðlotum og höfðu tveir lent í því að hafa þurft að keyra langa vegalengd en orðið fyrir miklum vonbrigðum þegar kennari hafi svo ákveðið að stytta kennslu þann daginn og hleypa nemendum fyrr út úr tíma. Ekki höfðu þó allir slæmar sögur að segja af staðlotum. Einn þátttakandi lýsti því hvernig hann hefði „komið upp-peppaður“ til síns heima eftir „starfshelgi“ með samnemum sínum og verið tilbúinn að takast á við sín verkefni í framhaldinu í fjarnáminu. Þátttakendur töldu sumir að fjarvera starfsfólks vegna staðlota valdi oft vandræðum á minni vinnustöðum. Ennfremur væri ljóst að stuðningur atvinnurekenda við nám starfsfólks væri misgóður og alls ekki allt starfsfólk ætti rétt á námsleyfum.
Viðmælendur, sér í lagi af svæðum austan við Þjórsá og frá Vestmannaeyjum, lýstu því að langt væri fyrir nemendur að sækja staðlotur á höfuðborgarsvæðinu. Nokkrir veltu því upp hvort ekki væri unnt að snúa jöfnunni við og flytja kennarann nær nemendum. Þá gætu kennarar hitt hóp af nemum af svæðinu og staldrað við í einhvern tíma.
Eru engar staðarlotur þannig að kennarinn kemur nær nemendunum ef það er hópur af einhverju svæði, gæti þá ekki kennarinn komið í viku í staðinn fyrir að nemendurnir fari allir. Ég meina, þú myndir fá nemendur frá Höfn og að Hvolsvelli, til þess að koma hingað ef að kennarinn kæmi hingað frá Akureyri.
[Þátttakandi í rýnihóp á Kirkjubæjarklaustri]
Hjá þeim sem höfðu reynslu af fjarnámi kom afar skýrt fram mikilvægi „námssamfélagsins“. Tölvupóstar og netsamskipti kæmu, að mati viðmælenda, aldrei í staðinn fyrir samskipti augliti til auglitis. Það væri því ákveðinn ókostur við fjarnám að nemendur færu á mis við samskipti við samnemendur sína og þá um leið félagslífið sem fylgir háskólagöngu. Mikilvægt væri að hitta aðra nemendur sem væru að glíma við samskonar verkefni og þótti ómissandi að upplifa slíkan stuðning. Þátttakendur ræddu í þessu samhengi um mikilvægi námsvera, fræðslu- og þekkingarsetra og töldu þau góðan vettvang fyrir fjarnemendur til þess að upplifa tengingu við háskólasamfélagið, sér í lagi fyrir fólk sem ætti erfitt með að ferðast vegna vinnu og fjölskyldu. Þeir veltu fyrir sér möguleikum á auknu samstarfi við bæjarfélögin á Suðurlandi og hvort auka mætti samstarf milli námsvera og styrkja tengsl meðal fjarnema á Suðurlandi.
Ég segi fyrir mig sko, ef að ég ætlaði að nýta mér fjarnám þá myndi ég nú frekar vilja nýta mér fjarnám með því að koma hingað [Fjölheimar] og sinna því.
[Þátttakandi í rýnihóp á Selfossi]
Þátttakendur voru sammála um að bæta þyrfti framboð á fjarnámi og töldu brýnt að Háskóli Íslands sýndi meira frumkvæði í útboði á fjarnámi og þjónustu við nemendur. Einnig þyrfti að bæta skipulag fjarnámsins og sníða það betur að þörfum fjarnema. Ekki væri unnt að gera of miklar kröfur á fjarnema að ferðast langar vegalengdir til að sækja nám/staðlotur. Sannarlega væri brýnt að nemendur mættu í staðlotur á námsferlinum en skipuleggja þyrfti slíkar lotur í auknum mæli í samvinnu við nemendur og sýna aðstæðum þeirra skilning.
Á öllum svæðunum þar sem umræður fóru fram voru námsver. Langflestir, ef ekki allir viðmælendur, höfðu vitneskju um námsverin og báru þeim vel söguna. Töluðu margir um mikilvægi þess að eiga slíkan samastað, komast út af heimilinu og að vera í einhverjum félagsskap, þótt ekki væru allir í sama námi. Gengu sumir svo langt að halda því fram að námsverið hefði hreinlega bjargað sumum nemendum. Námsverin væru afar mikilvæg fyrir fjarnema því þar mættist fólk í svipaðri stöðu og skiptist á skoðunum, ráðum og dáðum. Þegar fólk deildi slíkum rýmum saman, kaffistofu og öðru, yrði til vinnustaður þar sem nemar gætu verið með fasta viðveru.
Við erum með hérna einhvern svona base hérna eins og Nýheimar. Þannig að þó það sé kannski ekki endilega allir að læra það sama, þá er samt er aðstaða til að koma, það myndast einhver svona massi sem getur verið að hittast.
[Þátttakandi í rýnihóp á Höfn]
Á einhverjum svæðum þóttu námsverin ekki nógu vel nýtt. Kom fram það sjónarmið að auglýsa þyrfti betur aðstöðuna og þjónustuna. Þá töldu þátttakendur mikilvægt að aðstaðan væri hlýleg og að einhvers konar umsjónarmaður eða húsráðandi væri á staðnum sem hægt væri að leita til með tæknileg vandamál og annað. Á fámönnum stöðum mætti hafa lykla að húsinu aðgengilega fyrir nema svo ekki þyrfti að vera starfsmaður ávallt til taks. Var stungið upp á að tengja námsverin í auknum mæli starfsemi bókasafna þegar verið væri að leita að hentugri staðsetningu í framtíðinni. Á Kirkjubæjarklaustri kom sú athugasemd fram að nauðsynlegt væri að netsamband væri gott í námsverunum.
Þarna hefði ég alveg viljað hafa fólk í kringum mig alveg sama þú veist hvort það væri að læra jarðfræði eða viðskiptafræði eða eitthvað svoleiðis. Bara að vera í þessu umhverfi þú veist það er verkefnavinna og eitthvað svona og það þarf náttúrlega bara einhverja hérna kaffikönnu og stutt í búð eða kaffisölu á staðnum eða eitthvað það er mjög mikilvægt, en hérna en það þarf líka kannski að vera einhver svona, starfsmaður á staðnum, eins og er til dæmis á Selfossi, að þú komir þarna inn og það er fólk þarna í vinnunni.
[Þátttakandi í rýnihóp á Hvolsvelli]
Viðmælendur sem sjálfir höfðu verið í fjarnámi eða þekktu vel til þess töldu mikilvægt að tækni og tækninýjungar væru betur nýttar til að gera námið auðveldara og aðgengilegra. Það væri lykilatriði að nemendur geti hlustað á fyrirlestrana þegar þeim hentar og að koma því þannig fyrir að nemandi gæti valið hvort hann sæi glærurnar eða kennarann, eða bæði. Bent var á að oft væri erfitt fyrir nemendur að koma fyrirspurnum um slík tækniatriði áleiðis. Með því að bæta tæknikost væri hægt að koma mun betur til móts við fjarnemendur. Þátttakendur töldu hins vegar gæta óöryggis meðal kennara við að tileinka sér nýja tækni og aðra möguleika til að bæta fjarkennslu. Slíkt óöryggi hindraði framfarir innan fjarnámsins.
Það er ofboðsleg tækni komin til okkar en við erum ekki, kannski bara erum við langt á eftir henni, við erum bara hrædd við hana, ég veit það ekki.
[Þátttakandi í rýnihóp á Kirkjubæjarklaustri]
Fram kom að stundum væri ekki nægilegur tæknilegur stuðningur við nema í fjarnámi, ef tæknin væri að bregðast þeim hefðu þeir engan að leita til. Fjarnemar hefðu t.a.m ekki sama aðgang að ýmsum gagnasöfnum á netinu og staðnemar sem nýttu sér tölvur í sínum háskólum, oft vegna vandkvæða með VPN tengingar eða vegna þess að bókasöfn á svæðinu væru ekki nægilega tölvuvædd. Ennfremur var bent á að þar sem fjarnámið gerði kröfu á tæknilega kunnáttu nemenda væri það fremur óaðgengilegt eldri ómenntuðum einstaklingum sem hefðu litla þekkingu á tölvum. Höfuðmáli skipti því að í þekkingar- og fjarnámssetrunum sé til staðar tæknilegur stuðningur fyrir fjarnemendur.
Mér finnst sko eins og það hafa verið nokkrir verið að taka að sér hérna stúdentspróf, eldri s.s., sem eru í einhverri svona brú. Þeir hafa aðeins nýtt aðstöðuna og svona og það, þeir, það er þröskuldur hjá þeim. Ekki flinkar á tölvuna, ekki flinkar á einhverja nettengingu eða eitthvað svona.
[Þátttakandi í rýnihóp á Kirkjubæjarklaustri]
Þátttakendur ræddu hve erfitt það getur verið fyrir mörg byggðarlög að glíma við minnstu sveiflur á atvinnumarkaði. Ógerlegt væri fyrir smærri samfélög að bjóða upp á sömu fjölbreytni í atvinnulífi og stærri samfélög. Landsbyggðin hefði þó vissulega sömu grundvallarþarfir og þéttbýlið.
Já, það er ekki bara fólk sem vantar, það er ekki bara fólk til þess að heilsa ferðamanninum, það vantar fólk líka til þess að byggja húsin og teikna þau og, og auglýsa þau og allt. Okkur vantar þverskurð í raun og veru af því sem er til, við erum bara alveg eins samfélag, bara minna.
[Þátttakandi í rýnihóp á Kirkjubæjarklaustri]
Einmitt vegna smæðar samfélaganna á Suðurlandi fái háskólamenntað fólk oft ekki heilt stöðugildi til að sinna starfi tengt menntun sinni. Oft þurfi einstaklingar að starfa á fleiri en einum vinnustað til þess að ná fullu starfshlutfalli. Í minni byggðum sé því alvanalegt að vera með marga „hatta“ á höfðinu og sinna fleiri en einni stöðu. Þetta, að mati viðmælenda, á sérstaklega við sérfræðinga í heilbrigðisþjónustu og innan menntastofnana (önnur störf en kennarar, t.a.m. náms- og starfsráðgjafa, þroskaþjálfa o.fl.). Þeir sem mennta sig í háskóla (til annars en heilbrigðis- og kennarastétta) verða ennfremur oft á tíðum að gera sér sjálfir mat úr því og skapa atvinnutækifæri í sinni heimabyggð.
Þátttakendur sögðu frá dæmum þar sem sérfræðistörf voru auglýst endurtekið og án árangurs og hörmuðu slíkt þar sem oft hafi það kostað mikla fyrirhöfn að fá stöðurnar út á land. Einnig komu fram þveröfug dæmi þar sem ekki hafi verið búist við umsækjendum um sérfræðistöður en að margar umsóknir hafi borist frá einstaklingum með tilskylda menntun. Fram að því höfðu ekki áttað sig þeirri miklu sérfræðiþekkingu á sviðinu sem var í samfélaginu. Í svo litlum samfélögum væri erfitt að meta stöðuna hverju sinni. Brýnt væri að reyna að fyrirbyggja vandamál með einhverju móti, svo sem með því að auglýsa stöður fram í tímann og veita ungu fólki meiri upplýsingar um nám sem gæti reynst þeim hagnýtt.
Ég held það væri mjög áhugavert bara fyrir fólk að vita sko eða fyrir bara samfélagið að vita hvar er eftirspurn eftir hvers konar háskólamenntun er eftirspurn [eftir] á svæðinu. Þannig að fólk svona kannski unga fólkið átti sig á því sko hvar er hvaða möguleikar er fyrir mig að fá vinnu sko á heimaslóð eftir að búið að ljúka námi sko
[Þátttakandi í rýnihóp á Hvolsvelli]
Töluvert var fjallað um þætti sem letja fólk með menntun að flytja á svæðin. Þetta væri til dæmis skortur á húsnæði í byggðunum, slök nettenging, skortur á atvinnumöguleikum fyrir maka og samgöngutengd vandamál. Fyrir vikið væri erfitt fyrir fólk að flytja á svæðin til að sinna störfum, og oft ættu atvinnurekendur í miklum erfiðleikum með að finna hæft fólk í störf.
Við erum að glíma við svona infrastrúktor vandamál líka, það er bara húsnæði og ýmsar breytur að hrjá okkur.
[Þátttakandi í rýnihóp á Höfn]
Þátttakendur töldu vandamál tengd húsnæðismarkaði veruleg. Vegna ástands á höfuðborgarsvæðinu hafi verið eftirsótt að flytja í nærbyggðir höfuðborgarinnar og þátttakendur veltu fyrir sér hvort komið væri að ákveðnum þolmörkum í þeim byggðum. Áður hafi sumir atvinnurekendur og sveitarfélög geta boðið upp á niðurgreitt húsnæði og flutning fyrir aðflutt starfsfólk en húsnæðisskortur í þéttbýli hefur sett atvinnurekendum alvarlegar skorður þegar kemur að því að laða að nýtt starfsfólk. Samkvæmt þátttakendum á Kirkjubæjarklaustri virtist vera eitthvað af lausu húsnæði í dreifbýli sem eru þá býli þar sem hefur verið lagður niður búskapur. Algengt væri ennfremur að fólk flyttist ekki á svæðin þar sem ekki væri útséð að makinn fyndi vinnu. Í slíkum tilvikum gætu góðir fjarnámskostir skipt sköpum, að mati viðmælenda, og komið til móts við fjölskyldur. Á Kirkjubæjarklaustri fólust hindranirnar sérstaklega í tíðu rafmagnsleysi og slæmri netttengingu. Þar var sérstaklega talað um mikilvægi fræðslu- og þekkingasetursins þar sem nettenging var tryggð.
Góðar samgöngur voru taldar forsenda „flóru í atvinnulífi“ af þátttakendum. Íbúar á Höfn og í Vestmannaeyjum búa að því að hafa flugsamgöngur sem almennt var þó talinn fremur dýr kostur. Þátttakendur á Höfn töldu sig þó í mun betri stöðu vegna flugvallarins heldur en nærsveitungar í Vík og á Kirkjubæjarklaustri. Vestmanneyingum fannst skortur á samgöngum yfir vetrartímann takmarka vöxt ferðaþjónustunnar þar.
Fólk vill bara allsstaðar á landinu miklu betri samgöngur.
[Þátttakandi í rýnihóp í Vestmannaeyjum]
Þátttakendur lýstu aðkallandi þörf fyrir starfsfólk í allar atvinnugreinar á Suðurlandi. Mikil uppsveifla hafi orðið vegna ferðaþjónustunnar og undanfarinn áratugur verið róstursamur fyrir atvinnurekendur. Vegna þeirrar hröðu uppsveiflu sem orðið hefði á atvinnumarkaðinum væri víða skortur á hæfu fólki. Viðmælendur bentu á að erfitt væri að gerar mikla kröfur um menntun á slíkum markaði og ráðningar snérust því aðallega um það að finna fólk með grunnhæfni sem þjálfa mætti áfram. Reynslumiklir starfsmenn væru mun verðmætari en þeir sem væru með ákveðnar háskólagráður því oft þyrfti að „byrja að kenna fólki að vinna“ að háskólamenntun lokinni og þá færi jafnvel töluverður tími í að þjálfa starfsfólk. Þetta væri veruleiki sem vinnuveitendur væru fyrir löngu búnir að sættast við og því nokkrir með sín eigin námskeið fyrir starfsmenn.
Að ráða fólk sem ekki er akkúrat með menntunina sem maður er að sækjast eftir […] þannig maður hefur raunverulega, verið að mennta, maður hefur eiginlega bara kennt fólki skiljiði og bætt, þannig að mitt fólk, þó það sé ekki með akkúrat menntun í hérna [fag tekið út] sko, þá er það núna eftir svona mörg ár þá er það, betur menntað heldur en þeir sem koma beint úr skóla sko vegna þess að fólk er búið að tileinka sér fagið sko. [Fjarnám] gæti hentað mjög vel fyrir svona hóp upp á að bæta við sig eða bæta við kannski utan á menntun sem það hafði fyrir sko.
[Þátttakandi í rýnihóp á Hvolsvelli]
Þátttakendur ræddu um ungt fólk sérstaklega. Á Kirkjubæjarklaustri er ekki framhaldsskóli svo algengt er að ungt fólk þar fari úr sveitarfélaginu til þess að sækja menntaskóla (t.d. á heimavist á Selfossi eða Laugarvatni). Sumir sækja sér ennfremur framhaldsskólamenntun í gegnum fjarnám sem er valmöguleiki sem nýtur aukinna vinsælda. Þátttakendur töldu ungt fólk upp til hópa velja að sækja nám í þéttbyggðari svæði þegar það hefði lokið við menntaskóla. Þar sem framhaldsskólanám hafi verið stytt sé ungt fólk í auknum mæli að fara að heiman til að sækja nám fyrir tvítugt, en það þótti mörgum mjög ungt. Flestir töldu ungt fólk í þessum sporum sjaldan leiða hugann að fjarnámsmöguleikum. Það væri þó æskilegt, að mati þátttakenda, ef ungu fólki byðist að taka grunnnám á háskólastigi í heimabyggð. Sumir veltu fyrir sér nýjum möguleikum í stöðunni, svo sem eins árs alhliða grunnnámi sem nemendur gætu sinnt í gegnum fjarnám í heimabyggð og fengið svo metið inn í nám að eigin vali í staðnámi háskóla. Þátttakendur sögðu það algengt að ungmenni sem færu í burtu í nám kæmu ekki til baka og í sumum byggðum vantaði af þessum sökum heilu árgangana. Vegna uppgangs í ferðaþjónustu ættu þó margir nú afturkvæmt í sína heimabyggð.
Það er náttúrulega bara viss hætta á því þegar þú hefur ekki valmöguleikann hérna á þínu svæði og vilt samt vera hérna, þarft að fara sækja þér menntun að þú ílengist þar, kynnist maka þínum eða hvað og þú veist þú verður í Reykjavík. Það held ég sé náttúrulega bara lúmskt atriði að hérna, ef það, ef það er sett upp námsver hérna, segjum á Hvolsvelli sem er öflugt og gott að þá mun það náttúrulega hafa áhrif á búsetuþróun.
[Þátttakandi í rýnihóp á Hvolsvelli]
Þátttakendur bentu á að það reynist foreldrum oft kostnaðarsamt að aðstoða við börn sín til menntunar í öðru sveitarfélagi. Í gegnum tíðina hefði það verið „lenska“ að foreldrar keyptu íbúðir á höfuðborgarsvæðinu eða Akureyri fyrir börn sín, til að auðvelda við háskólagöngu þeirra. Það væri þó alls ekki á færi allra foreldra að styðja við börn sín á þann hátt og þátttakendur töldu tækifærum misskipt vegna þessa. Bent var á að slíkar aðstæður væru ekki í samræmi við hugmyndir um jafnræði til náms. Með því að bjóða upp á góða möguleika til fjarnáms, þannig að ungt fólk geti tekið sína eigin ákvörðun um hvort að það mennti sig í sinni heimabyggð eða flytji annað í nám, væri hægt að stuðla að auknu jafnræði til náms.
Við skulum ekki gleyma heldur sko kostnaðarþætti þeirra sem búa hér á þessu svæði að mennta börnin sín á háskólastigi, það er talað um sko jafnræði til náms, það er sko, það er hvílík fásinna að halda því fram að svo sé. Það er ekki þannig.
[Þátttakandi í rýnihóp á Hvolsvelli]
Bent var á að lítil nýliðun hefði orðið meðal starfsfólks á svæðunum. Í sumum greinum væri margt faglært starfsfólk að komast á eftirlaunaaldur og hreinlega ekki ljóst hvort á svæðunum yrði fagmenntað starfsfólk sem tekið gæti við. Þetta væri til að mynda raunin, að mati þátttakenda, innan kennara- og hjúkrunarstéttar.
Þá verður þessi nýliðun sem þarf að vera í öllum störfum, hún verður ekki til staðar. Ég meina, þetta gerist í leikskólakennaranum, þetta gerist í kennaranum, ég meina, það er enginn nýliðun að viti í, í kennaranum, þetta er að verða rosalega einsleitur hópur sem fer í að verða kennarar.
[Þátttakandi í rýnihóp á Selfossi]
Þátttakendur töldu að almennt væru fá atvinnutækifæri í boði sem krefðust sérhæfðar háskólamenntunar. Háskólamenntaðir einstaklingar væru líklegri til að fara í frumkvöðlastörf eða eigin rekstur þar sem erfitt væri fyrir þá að fá störf þar sem menntun þeirra nýttist. Þátttakendur voru þó bjartsýnir og bentu á að áherslur í atvinnulífinu hefðu breyst afar mikið á skömmum tíma. Stóru atvinnuvegirnir, sjávarútvegur og landbúnaður, hefðu hingað til ekki krafist mikillar háskólamenntunar en mikil atvinnuþróun ætti sér nú stað á Suðurlandi, t.a.m. í ferðamanna iðnaði og í Vatnajökulsþjóðgarði. Fjölbreytt háskólanám gæti því gagnast til að takast á við stórar áskoranir sem atvinnumarkaðurinn stæði frammi fyrir. Innan rýnihópanna var rætt hvernig unnt væri að efla jákvæða byggðaþróun. Á Selfossi ræddu þátttakendur um það þegar Matvælastofnun var flutt austur. Þeir töldu reynsluna hafa verið mjög góða og áhrifin á byggðarlagið jákvæð. Þátttakendur vildu gjarnan sjá fleiri slíkar stofnanir fluttar á svæðið eða afmarkaða starfsemi ríkisstofnanna, í því skyni að bæta atvinnuframboð fyrir háskólamenntað fólk. Sprotar eins og Jarðskjálftamiðstöðin hafi haft mikla þýðingu fyrir samfélagið í kring en það þurfi fleiri slíka sprota og ennfremur að gæta þess að þeir séu ekki allir „í sama hnapp“.
En það er t.d. gott dæmi um vinnustað sem að var í rauninni dreginn hingað sko og byggður upp. Og ég held að nú heilt yfir þá hafi svona, verið miklu meiri sátt við það hvernig það var gert heldur en svona margar aðrar stofnanir sem að voru fluttar með handafli út á land sko. En svona hliðaráhrifin af þeirri stofnun eru svo gríðarleg að hérna, mikið af þessum mannskap keyrði hérna á milli en ótrúlega margir hafa samt bara flutt og eru hérna búnir að koma sér fyrir og, þannig að það er það jákvæða við þetta. Þannig að við þyrftum, þyrftum fleiri svona dæmi sko
[Þátttakandi í rýnihóp á Selfossi]
Ein helsta áskorunin hjá sveitarfélögunum virðist vera að manna stöður í skólakerfinu og heilbrigðisgeiranum. Eins og áður hefur komið fram hefur verið lítil nýliðun meðal starfsfólks á þessum sviðum og þátttakendur tjáðu áhyggjur. Þeirr ræddu sérstaklega um lengingu kennaranámsins og töldu hana hafa haft letjandi áhrif. Eftir lenginguna hafi dregið mikið úr innritunum í námið, ekki síst í ljósi þess að launakjör hafi ekki aukist í takt við auknar kröfur námsins. Þrátt fyrir að lengra nám stuðlaði að auknum gæðum og hefði góð áhrif á skólastarf almennt kærðu fáir sig um að skuldbinda sig í nám til fimm ára þegar launin væru svo lág. Sumir töldu ennfremur námsfyrirkomulagið hafa versnað eftir sameiningu Kennaraháskólans og Háskóla Íslands.
Meðalaldur starfsfólks í leikskólum Vestmannaeyja er frekar hár og það er lítil nýliðun, það eru fáir sem eru að mennta sig, þetta er fimm ára háskólanám til þess að fá leyfisbréf hjá Menntamálaráðuneytinu og það er soldið sem að fólki vex kannski soldið í augum líka miðað við laun.
[Þátttakandi í rýnihóp í Vestmannaeyjum]
Þátttakendur bentu á að breytingar á atvinnumarkaðinum og fjöldi nýrra starfa innan ferðaþjónustu hefði valdið ákveðnum „þekkingarleka“. Fólk með menntun kærði sig ekki lengur um lág laun og fyndi sér vinnu þar sem kjör væru betri. Þessi þróun hefði reynt á mikilvæga innviði samfélagsins, svo sem heilbrigðisþjónustu. Þó nokkrir einstaklingar með menntun á því sviði hefðu sagt upp störfum og fundið sér betur launuð störf. Á sama tíma hefði stigvaxandi aðsókn ferðamanna aukið álag á heilbrigðisþjónustuna og aðra mikilvæga innviði. Þátttakendur ræddu um hjúkrunarnámið frá Háskólanum á Akureyri, töldu vel að því staðið og að það hafi „bjargað“ mörgum bæjarfélögum. Það væri þó, eftir sem áður, verulegur skortur á ólíkri fagþekkingu innan heilbrigðisgeirans. Sveitarfélögin eyddu nú miklum fjármunum í að sækja þessa þjónustu til annarra sveitarfélaga. Þátttakendur töldu brýnt að boðið væri upp á meira úrval fræðigreina í fjarnámi á sviði heilbrigðisvísinda. Þeir höfðu, margir hverjir, umtalsverðar áhyggjur af heilbrigðisþjónustu á svæðinu:
Heilbrigðisþjónustan verður bara, hún þarf nú jú aðeins að vaxa í takti við ferðaþjónustuna ef við fáum svona mikið af fólki.
[Þátttakandi í rýnihóp á Höfn]
Þátttakendur voru sammála um að ein stærsta áskorunin á atvinnumarkaðnum væri þekkingarskortur á rekstri lítilla og miðlungsstórra fyrirtækja. Þeir töldu umtalsverða þörf fyrir námkosti (nám eða námskeið) sem styddu við einstaklinga í slíkri stöðu. Þetta var ekki síst talin afleiðing af skjótfengnum vexti og „gullgrafaraæðis“ í ferðaþjónustu. Ennfremur var bent á að þessi hópur hafi ólíkar þarfir þar sem fyrirtækin séu á ýmsum sviðum, svo sem á sviði ferðaþjónustu, matvælaframleiðslu, veitingareksturs og landbúnaðar. Til að styðja við einstaklinga í slíkum rekstri þyrfti nám sem væri hagnýtt og stutt, t.a.m. diplómunám sem gæti mögulega verið grunnur að sérhæfingu síðar. Þátttakendur töldu einnig mikla þörf á námi í verkefnastjórnun, mannauðsstjórnun, markaðsfræði og umhverfis- og náttúrufræði.
Í rekstrar- og verkefnisstjórnun, það er bara mjög erfitt [að koma upp sprotafyrirtæki]. Þú ferð ekkert á stað fyrr en að þú ert búinn að fylla út fjögurra síðna Excel skjal um að fá eina milljón lánaða og það þarf bara að kaupa sér aðstoð í það, það fer bara enginn af stað í því í dag einn og sér sjálfur [um allt á] eftir. […]. Kröfurnar bara eru mjög háar.
[Þátttakandi í rýnihóp á Höfn]
Þátttakendur ræddu einnig þörf á framleiðslumenntun og menntun í matreiðslu og þjónustu hvers konar. Þetta eru greinar eins og hótelstjórnun, kjötiðn, kokkar, mjólkuriðn, hárgreiðsla o.s.frv. Mikill skortur væri á slíku iðnmenntuðu starfsfólki á öllu Suðurlandi og lýstu þátttakendur þungum áhyggjum vegna þessa. Hugsanlegar skýringar á þessum skorti voru taldar vera að þessari tegund menntunar væri almennt ekki gert jafn hátt undir höfði og háskólamenntun.
Þörfin fyrir nám þarna er sko, ég held að það sem að okkur vanti fyrst og fremst sé ekki í boði, það er s.s. í matreiðslu og framleiðslu. Það vantar, það vantar fólk með sérhæfða starfsreynslu, það vantar fólk með, þú veist, það er ekkert einkennandi fyrir þetta svæði, það er bara heilt yfir alls staðar.
[Þátttakandi í rýnihóp á Selfossi]
Þátttakendur ræddu sjávarútveginn og töldu áskoranir þar einna helst felast í skorti á fólki í landvinnslu og svo tækni- og verkfræðimenntuðu starfsfólki. Fyrir störf í landi væri ekki þörf á háskólanámi nema fyrir stjórnendur. Fiskvinnsla væri í stöðugri þróun en ekki væri séð fram á fjölgun í þeim störfum, frekar þyrfti tækni– og verkfræðimenntað starfsfólk til þess að halda þróuninni áfram. Kom fram að flestar konur í fjarnámi í Vestmannaeyjum væru í sjávarútvegsfræði frá Háskólanum á Akureyri, nám sem var afar viðeigandi fyrir atvinnulífið þar.
Hvað ef við hugsum aðeins til framtíðar sko. Sjávarútvegur er ekki að fara að fjölga störfum, hann, hann er að fara að fækka störfum frekar en hitt. Þú veist sjálfvirknivæðing og, en reyndar sérhæfðari störf.
[Þátttakandi í rýnihóp á Höfn]
Mikill orkuiðnaður er á Suðurlandi sem kallar eftir háskólamenntuðu starfsfólki að einhverjum hluta, en enginn forsvarsmaður úr þeim geira var í rýnihópunum. Þörfin þar er því óþekkt þótt um vaxandi iðnað sé að ræða.
Eins og áður hefur komið fram þurfa byggðarlög að halda úti mikilli þjónustu og hlúa að mikilvægum innviðum. Þátttakendur bentu á að slíkt væri mikil áskorun fyrir smærri svæði, sér í lagi þar sem hraðar breytingar á atvinnumarkaði kölluðu á fjölbreyttari menntun. Fagstéttir eins og arkitektar, tölvunarfræðingar, kerfisstjórar, grafískir hönnuðir, markaðsfræðingar, verkfræðingar og forritarar væru ekki í boði á hverjum stað en þátttakendur töldu þörf fyrir fleiri einstaklinga á atvinnumarkaðinum með ólíka sérfræðikunnáttu og menntun.
Eitt sem ég er búin að vera að reka mig á af því að, ég er búin að vera í uppbyggingu, þú veist ef ég ætla, mig vantar arkitekta og mig vantar verkfræðinga og mig vantar grafíska hönnuði og þetta allt saman, þetta er allt í bænum. Arkitekt þarf ekkert að vera í bænum, grafískur hönnuður eða, þeir geta unnið hvar sem er.
[Þátttakandi í rýnihóp á Kirkjubæjarklaustri]
Þátttakendur voru sammála um að vegna þess hve ferðaþjónusta hefur vaxið hratt á undanförnum árum hafi vart gefist tími til að leggja mat á stöðuna og skipuleggja næstu skref. Það hafi því lítil stefnumótandi vinna átt sér stað né mat verið á það lagt hvernig mæta þurfi breytingum og nýjum kröfum atvinnumarkaðsins. Ef til vill verði ekki hægt að meta stöðuna til fulls fyrr en „rykið sest“ að þá átti fólk sig betur á því hvernig hefur tekist til fram að þessu.
Þátttakendur töldu ljóst að hægjast muni á vexti innan ferðaþjónustu og að störf verði sérhæfðari þegar fram í sækir. Mögulega mun verða þörf á aukinni menntun fyrir störf sem ófaglært starfsfólk sinnir nú. Þátttakendur bentu á að ákveðin hætta sé á að þegar atvinnumarkaðurinn réttir sig af muni staða einstaklinga með litla menntun verða slæm. Ef til vill væri fjarnám þá góður kostur fyrir þann hóp. Þátttakendur töldu aukna kröfu um sérhæfingu innan ferðaþjónustu fela í sér sóknarfæri fyrir menntastofnanir. Eftirspurn eftir námi á sviðinu væri mikil á landsbyggðinni. Ennfremur töldu margir að þörf á menntun tengdri umhverfi og náttúru muni halda áfram að aukast vegna áframhaldandi uppbyggingar Þjóðgarðsins og eftirspurnar eftir umhverfistengdri ferðamennsku.
Það er bara ekkert hægt að gera í þessu akkúrat í augnablikinu. Sko maður hlakkar til svona þegar þetta fer nú aðeins að lenda sko þessi vöxtur. Það er svona 60% aukning núna milli nóvembermánaða frá því í fyrra, það sjá náttúrulega allir í hendi sér að þetta er náttúrulega bara alltof mikið það ræður enginn við þetta. Þannig að sko það er enginn svona allavegana á mínum vinnustað og svona þar sem ég hitti fólk að það er enginn að tala um svona nógu mikið um stefnumótun og svona innviði og umgjörð eins og við þekkjum náttúrulega bara úr, hérna umræðunni á Íslandi það er svona alltof lítið um það sko grunn, grunnatriðin heldur það er bara verið að reyna að höndla þetta sem er að gerast.
[Þátttakandi í rýnihóp á Hvolsvelli]
Þátttakendur ítrekuðu að þegar horft er til þarfa og þróunar í byggðunum fyrir næstu ár þurfi að huga að íbúasamsetningu og hækkandi aldri í samfélögunum, hvernig sé hægt að koma til móts við ólíka aldurshópa og aðstoða erlent vinnuafl við að fá starfsréttindi og komast í slenskunám. Góðir fjarnámskostir skipti miklu máli og brýnt sé að valið sé fjölbreytt til að mæta þörfum ólíkra hópa.
Þegar spurt var um aðstæður og aðbúnað sem fjarnemendum stendur til boða voru þátttakendur frá þeim stofnunum sem buðu upp á slíkt sammála um að húsnæðisaðstaðan væri almennt góð. Aðrir þátttakendur töldu einnig að svo væri, en sumir höfðu leigt skrifstofuaðstöðu eða fundarherbergi og aðrir dæmdu aðstöðuna af orðsporinu en ekki eigin raun. Góð aðstaða sem myndar „miðstöð fjarnáms“ skipti sköpum að mati viðmlenda. Þessar stofnanir, svo sem Fjölheimar, Nýheimar og Viska, byðu upp á fjölþætta aðstoð við fjarnemendur eins og tækniaðstoð og ráðgjöf sem væri eflaust ekki í boði í sama mæli á minni stöðum. Fyrir einstaklinga í fjarnámi eru þessar „miðstöðvar“ grundvöllur fyrir félagsleg samskipti og tengslamyndun milli nema og skapa þar námssamfélag sem viðmælendur töldu lykilþátt í árangursríku fjarnámi. Einnig var minnst á mikilvægi sveigjanlegrar þjónustu, til að mynda á prófatímabilum, en önnur aðstaða væri í byggðarlaginu sem hægt væri að leigja og því þjónustan fullnægjandi enn sem komið er.
Meirihluti þátttakenda þekkti til fjarfundarbúnaðarins sem nýttur er í fjarnám og töldu þeir tæknibúnaðinn vera fullnægjandi. Viðmælendur ræddu um ýmsa tækni (algengast að minnst væri á Skype for Business og ýmsa möguleika á að deila gögnum og vinna í þeim sameiginlega) sem nýta mætti betur í fjarnáminu. Bent var á að tækniþróun sé mjög ör og mikilvægt sé að fylgja henni eftir í takt við bætta þekkingu í menntavísindum um kennsluaðferðir í fjarnámi.
Hvað uppbyggingu fjarnáms varðar var töluvert rætt um staðlotur, sem þátttakendur töldu óhentugar og koma sér illa fyrir nemendur á landsbyggðinni. Þessi skoðun var sérstaklega áberandi hjá þátttakendum búsettum fjærst höfuðborginni. Kostnaður vegna ferðanna og fjarvera frá atvinnu og fjölskyldu væri stór hindrun fyrir nemendur og bent á að erfitt væri að útvega húsnæði vegna ferðanna, sérstaklega í Reykjavík. Einn þátttakandi benti á að rauntímakennsla í fjarnámi væri ákjósanlegasta fyrirkomulagið, í stað þess að upptökur af kennslu séu sendar til fjarnema eftir kennslu. Í rauntímakennslu hefðu fjarnemar möguleika á því að spyrja spurninga líkt og staðnemar.
Ekki stendur til að breyta aðstæðum til fjarnáms á flestum þeim stöðum sem standa að slíku námi. Þó kom fram að í einum framhaldsskólanum sé stefnt að því að innleiða fjarnám á næstu misserum. Nú séu í þróun hentugar lausnir í fjarkennslu og hugmyndir að fjölbreyttari nýtingu á námsefni. Skólameistararnir sem rætt var við voru sammála um að bætt þjónusta við fjarnema sé mikilvæg til að svara breyttum samfélagsáherslum og ýmsum áskorunum í rekstri skólanna. Þeir töldu fjarnám hingað til hafa hentað eldri nemum betur þar sem þeir séu jafnan sjálfstæðari í vinnubrögðum og þurfi ekki eins mikið aðhald og grunnnemar. Með því að bjóða upp á fjarnám á framhaldsskólastigi stuðli það hins vegar að þjálfun einstaklinga í námstækni og veiti þeim innsýn í fyrirkomulag kennslu og þekkingu um þann aðbúnað sem í boði er. Fjarnám á framhaldsskólastigi geti þannig verið mikilvægur liður í því að efla aðsókn og árangur í fjarnámi á háskólastigi.
Nokkrir viðmælendur ræddu um breytingar í kjölfar styttingar náms í framhaldsskólum. Á sama tíma og framhaldsnámið hafi verið stytt gerðu háskólar ríka kröfu til nemenda sem væri að hefja háskólanám. Brýnt væri að styðja vel við ungt fólk sem væri að hefja nám í háskóla því hætta væri á að nemendur með styttra framhaldsskólanám stæðust ekki eins vel kröfur háskólanna. Viðmælendur töldu að brýnt væri að koma til móts við þarfir nemenda og ræddu nokkrir, í því skyni, möguleikann á bjóða upp á stutt undirbúningsnám í fjarnámi.
Þátttakendur ræddu töluvert atvinnumál á svæðunum. Aðspurðir um hvaða atvinnugreinar einkenndu helst atvinnulífið í byggðarlagi þeirra nefndu allir ferðaþjónustu. Mikið var rætt um gífurlegan uppgang í atvinnugreininni og áhrifunum sem það hefði á samfélagið í heild. Einnig nefndu þátttakendur landbúnað, fiskvinnslu, matvælaframleiðslu, garðyrkju og stoðþjónustu á vegum sveitarfélaganna.
Voru viðmælendur spurðir um hvort að skortur væri á atvinnumöguleikum fyrir háskólamenntað fólk að loknu námi og má gróflega skipta svörum í tvo flokka. Margir töldu tækifæri fyrir háskólamenntað fólk á Suðurlandi takmörkuð vegna einsleits vinnumarkaðar. Landsbyggðin væri eftir sem áður „láglaunasvæði“ og starfsemi, svo sem ferðaþjónustan, væri mikið til rekin á ófaglærðu starfsfólki af erlendum uppruna. Aðrir bentu hins vegar á að margir sem mennta sig í gegnum fjarnám velji menntun sem er hagnýt og þörf í samfélaginu. Þannig sé reyndin jafnvel sú að fólk „neyðist til að velja það sem er í boði frekar en það sem maður hefur áhuga á að taka“, og var kennaranámið og hjúkrunarfræðinám frá Háskólanum á Akureyri nefnt sem algengustu dæmin þar um.
Viðmælendur voru ennfremur sammála um að koma þyrfti á fót leiðum til að meta menntun erlendra starfsmanna. Hlutfall innflytjenda hafi hækkað á undanförnum árum og ferðaþjónustan byggi nú mikið á erlendu vinnuafli. Töluvert af erlendu starfsfólki væri með menntun að utan eða starfsréttindi sem það fengi ekki metið hér á landi. Mikil verðmæti væru fólgin í því að einstaklingar sem vildu setjast að í minni samfélögum gætu nýtt menntun sína samfélaginu til góðs.
Þrátt fyrir gróskumikið mannlíf víðast hvar voru allir þátttakendur sammála um að töluvert svigrúm væri fyrir aukna nýsköpun og fjölbreytni í atvinnulífinu. Það gæti fjölgað tækifærum fyrir háskólamenntað starfsfólk og haft í för með sér fleiri afleidd störf á ýmsum sviðum. Þátttakendur töldu einnig að bæta mætti framboð á störfum innan tölvu- og tæknigreina og skapa stærri miðstöðvar háskólafólks með menntun í náttúruvísindum og stjórnsýslu, auk starfa sem gera eingöngu kröfu um grunnnám á háskólastigi.
Aðspurð um ímynd fjarnáms meðal íbúa svæðanna töldu þátttakendur hana vera breytilega, allt frá því að vera „góð“ til þess að vera „ekkert sérstök“. Bent var á að raunveruleg þekking á fjarnámi væri eingöngu á færi þeirra fáu sem hefðu reynslu af slíku námi. Þátttakendur töldu þó ánægju vegna fjarnámsins einna helst tengjast því að námið veitti fólki tækifæri til að mennta sig í heimabyggð þar sem hefðbundið staðnám væri þeim óaðgengilegt. Foreldrar fengju „að hafa börnin sín lengur“ sem hefði jákvæð áhrif á fjölskyldur og jafnvel rekstur fjölskyldna þar sem unga fólkið væru oft mikilvægir starfsmenn í litlum fjölskyldurekstrarformum eins og á sveitabæjum og í ferðaþjónustu.
Þátttakendur töldu brýnt að fjarnám á háskólastigi væri kynnt betur á landsbyggðinni. Þótt upplýsingarnar væru ekki óaðgengilegar að mati þátttakenda mætti kynna þær mun betur og gera þær aðgengilegri fyrir ólíka hópa. Einn þátttakandi benti á að meirihluti fjarnema hefði í gegnum tíðina verið konur í kennara- eða hjúkrunarfræðinámi, sem annað hvort væru búnar að koma börnum sínum á legg eða væru með ung börn og ættu því ekki heimangengt í staðnám. Þessi staðreynd hafi e.t.v. litað ímynd fjarnámsins að einhverju leyti. Þrátt fyrir að fjarnám á bæði grunn- og framhaldsstigi væri yfirhöfuð talið vera með „jákvæðan stimpil“ meðal viðmælanda, kom einnig fram að mikilvægt sé að þeir sem beri ábyrgð á fjarnámi tryggi að fjarnámsmenntun verði ekki „annars flokks menntun“. Þeir töldu þjónustu við fjarnema vera ábótavant og að brýnt væri að gera námið aðgengilegra með því að aðlaga það betur að aðstæðum fjarnema. Þátttakendur gagnrýndu ósveigjanleika í náminu og töldu jafnvel fyrirkomulag námsins vera háð duttlungum kennara og tregðu þeirra til að tileinka sér fjarnámsfundarbúnað. Mikilvægt væri að sýna fjarnemum aukinn skilning, ekki síst þegar kæmi að staðlotum. Ennfremur þyrfti að auka framboð af námsgreinum í fjarnámi. Fáar greinar stæðu nemendum til boða en þátttakendur töldu ekkert því til fyrirstöðu að boðið væri upp á allt bóklegt nám í fjarnámi.
Allir viðmælendur voru sammála um að framboð af fjarnámi á háskólastigi væri ófullnægjandi og töldu brýnt að það yrði aukið til muna. Margir gagnrýndu Háskóla Íslands í því samhengi og töldu hann standa sig verr í fjarnámsmálum en aðrir háskólar. Fyrirkomulag námsins væri oft flókið og ósveigjanlegt. Ýmsar „hindranir“ væri þar að finna sem greiða þyrfti úr, til að mynda hvað varðar staðlotur nemenda, erfiðleika við að fá nám metið á milli menntastofnanna, ósveigjanleika kennara og svo takmarkað námsframboð. Þátttakendur ræddu mikið kröfur um viðveru nemenda og staðlotur. Töldu sumir reglur um staðlotur vera „út í hött“. Mikill kostnaður og fyrirhöfn fælust í fyrirkomulaginu og miklar kröfur gerðar sem nemendur ættu erfitt með að uppfylla. Af þessum sökum veigraði fólk sér við að skrá sig í fjarnám eða hætti jafnvel á miðri leið vegna þess hvernig staðlotur væru skipulagðar. Bent var á að Háskóli Íslands væri skóli allra landsmanna, rekinn af almannafé, og því ætti að sjá til þess að námið væri aðgengilegt fyrir fólk af landsbyggðinni.
Þátttakendur voru sammála um að mikilvægt væri að auka fjölbreytni í námi sem í boði væri í gegnum fjarnám. Þeir bentu á að ef skoðaður væri munurinn á námsframboði í fjarnámi annars vegar og staðnámi hins vegar mætti sjá gríðarlega mikinn mun. Mikilvægt væri að auka jafnræði milli fjarnema og staðnema hvað námsframboð varðar þar sem það hlyti „að vera ansi margt sem fólk gæti haft áhuga á að læra sem er ekki boðið upp á í fjarnámi“.
Tveir þátttakendur ræddu sérstaklega mun á námsvali karla og kvenna og töldu að í boði væri mikið af „mjúkum greinum sem henta konum“. Einnig töldu sumir að konur hefðu eflaust áhuga á öðrum greinum en væru nú „mataðar“ af tilteknu námsframboði. Þátttakendur töldu konur almennt áhugasamari og virkari í að afla sér upplýsinga um námsframboð og töldu karla þurfa mögulega meiri hvatningu og stuðning. Upplýsingarnar bærust síður til þeirra og þeir væru ólíklegri til að leita eftir þeim.
Þátttakendur ræddu áhuga og þarfir ungs fólks í fjarnámi og töldu þær frábrugðnar þörfum og áhuga eldra fólks. Yngra fólk var talið líklegra til að leita í hefðbundið bóknám sem gæfi þeim BA eða BSc gráðu en fólk í vinnu og fjölskyldufólk veldi frekar að hagnýtt nám, diplómu nám eða endurmenntun sem gagnaðist því í starfi eða starfsþróun.
Þátttakendur ræddu áhuga á fjarnámi eftir ólíkum atvinnuvegum. Þeir töldu brýnt að bjóða upp á hagnýtt rekstrarnám sem tengdist ferðaþjónustu. Slíkt gæti gagnast þeim sem væru einyrkjar eða rækju lítil fyrirtæki, sem og bændum. Þátttakendur ræddu um mikinn vöst innan ferðaþjónustu og töldu að það myndi með tímanum leiða af sér frekari sérhæfingu. Í tengslum við það gæti skapast aukin þörf fyrir fjarnám á háskólastigi í ólíkum greinum. Hvað sjávarútveginn varðar töldu þátttakendur að efla mætti tæknimenntun í greininni en einnig mætti styrkja mannauðinn í fiskvinnslunni að einhverju leyti með úrræðum í fjarnámi.
Hvað matvælaframleiðslu varðar töldu viðmælendur aukna þörf á starfsfólki með sértæka verk- og tæknimenntun. Í því skyni mætti nýta fjarnám til að svara þörfum um endurmenntun, nýsköpun og efla þverfaglegt samstarf í matvælaþróun. Sumir töldu sóknarfæri felast í því að bjóða upp á búfræðigreinar og annað nám sem hentar landbúnaði í fjarnámi svo ungt fólk sem starfar á bæjunum þurfi ekki að fara af svæðinu til að nema þau fög. Það gæti falið í sér aukið samstarf með fjölbrautarskólunum sem bjóða upp á einhverjar slíkar greinar nú þegar.
Þátttakendur töldu að vegna aukins fjölda ferðamanna væri aðkallandi að efla þjónustu og innviði samfélagsins. Þá var sérstaklega rætt um heilbrigðisþjónustu og bent á að eina heilbrigðistengda námið kennt í fjarnámi væri hjúkrun. Önnur störf sem væru hentug að mati þátttakenda til að byggja upp innviði sveitarfélaganna (fyrir utan ýmsar kennarastéttir) tengdust löggæslu, fjölmiðlun, verkfræði, verkefnastjórnun og ýmsu tengt samgöngum.
Þvert á mismunandi atvinnugeira töldu þátttakendur almennan skort á hagnýtu starfsnámi, endurmenntun og styttri námsleiðum í fjarnámi á háskólastigi. Þá kom fram að atvinnurekendur bæru ákveðna ábyrgð hvað varðar að aðstoða starfsfólk við starfsþróun og þyrftu að geta upplýst og leiðbeint starfsfólki sínu betur. Ennfremur að skortur væri á iðnmenntuðu starfsfólki og tækifærum fyrir einstaklinga með iðnmenntun til að fara í áframhaldandi nám og fá meistararéttindi.
Þátttakendur voru í lokin spurðir um framtíðarsýn sína hvað varðar breyttar áherslur á atvinnumarkaði sem fjarnám á háskólastigi gæti mögulega mætt.
Ferðaþjónustan var talin verða áfram með stærstu atvinnuvegunum á Suðurlandi, þótt áherslur muni breytast og þróast í framtíðinni. Með tímanum muni myndast aukin þörf fyrir sérhæfðari ferðaþjónustu sem kallar eftir sérhæfðu starfsfólki. Einnig kom fram að vegna umfangs ferðaþjónustunnar væri mikilvægt að fylgja eftir gæðavottunum sem margar hverjar væru ókunnar aðilum í ferðaþjónustu. Var upplifun eins þátttakenda sú að almennt væri ekki lögð áhersla á starfsmannastjórnun og gæðastýringu og þar væru tækifæri fyrir einstaklinga með háskólamenntun.
Tveir nefndu sérstaklega breyttar áherslur í umhverfismálum sem myndu vega þungt á næstu árum. Var talað um vaxandi tækifæri í náttúruvernd, aðgerðir vegna hlýnunar jarðar og bráðnunar jökla sem og stofnun, stækkun og stýringu þjóðgarða. Þessar breyttu áherslur kalli eftir menntuðu starfsfólki úr fjölbreyttum greinum sem tengjast umhverfismálum. Rannsóknir og rannsóknasetur Háskóla Íslands mætti því efla mikið á næstu misserum.
Þrír nefndu breyttar áherslur í landbúnaði. Þeir töldu að sívaxandi þörf á innlendri matvælaframleiðslu hafa áhrif á aðstæður garðyrkjubænda og landbúnaðs. Aukin krafa væri á framleiðslu og nýsköpun henni tengdri. Mögulega gætu orðið breytingar og skerðingar á opinbera styrkjakerfinu til bænda sem skapaði nýjar áskoranir í búskap en landbúnaður virðist einnig vera að þróast hratt í átt að aukinni sérhæfingu. Tengsl milli landbúnaðar, ferðaþjónustu og matvælaframleiðslu muni eflaust aukast og var tekið dæmi um bændur sem framleiða sérhæfðar matvörur í túnfætinum hjá sér og þjónusta ferðamenn meira. Nýsköpun muni skipta miklu máli og það verði því þörf á því að undirbúa þá sem starfa í landbúnaði eða garðyrkju fyrir nýjar áskoranir og veita þeim hagnýt verkfæri.
Þó nokkuð var rætt um mikilvægi nýsköpunar í atvinnulífinu á komandi árum. Í því samhengi ræddu þátttakendur reynslu af samstarfi við Matís um nýjungar í matvinnslu. Ýmis verðmæti leynast í úrgangsefnum í hvers kyns framleiðslu og hefur til dæmis sjávarútvegurinn staðið sig vel í slíkri nýsköpun. Þátttakendur töldu þó enn vera þörf á frekari nýsköpun í sjávarútveginum. Verið væri að prófa þriggja ára diplómanám í hagnýtri nýsköpun í Vestmannaeyjum, blöndu af sjávarútvegsfræði, viðskiptafræði og nýsköpun, sem mætti „spegla“ yfir á aðrar greinar. Bent var á að Fablab á Höfn hefði skilað „verulega góðum áhrifum á samfélagið“ síðan það tók til starfa. Víða mætti finna verksmiðjur, verkstæði, véla- og tækjabúnað sem mætti samnýta og fagþekkingu sem mætti nýta til handleiðslu eða kennslu. Einn þátttakandi nefndi í því samhengi að „ef menn vilja sjá það sem er í boði er af nægu að taka ef menn hafa metnað“. Verslun og viðskipti mætti ennfremur efla og það vantaði fleiri einkafyrirtæki og stofnanir sem byggðu á menntuðum starfsmönnum.
Í töflu 8 sést að þriðjungur Sunnlendinga á aldrinum 18 til 55 ára er háskólamenntaður. Mun hærra hlutfall kvenna en karla er með háskólapróf, eða 46% kvenna en 26% karla, og er munurinn tölfræðilega marktækur (p<0,001). Marktækur munur (p<0,001) var á menntunarstigi eftir aldurshópum og var hæst hlutfall háskólamenntaðra í aldurshópnum 31-40 ára þar sem helmingur svarenda hafði lokið háskólamenntun.
Nær fjórði hver Sunnlendingur á aldrinum 18 til 55 ára er í námi eins og sést í töflu 9. Hátt í helmingur þátttakenda á aldrinum 30 ára og yngri er í námi og er marktækur munur á þeim og öðrum aldurshópum.
Ríflega helmingur þeirra sem eru í námi er í námi á háskólastigi eða um 60% (sjá töflu 11. Marktækt fleiri konur en karlar eru í háskólanámi p<0,001). Flestir stunda nám á félagsvísindasviði eða næstum fjórðungur þeirra sem er í námi. Þó nokkur hópur er enn í framhaldsskóla eða fimmtungur þeirra sem sögðust vera í námi. Frekari greiningu má sjá í töflu 10.
Fjöldi fyrir vigtun | Fjöldi eftir vigtun | Hlutfall | Vikmörk +/- | Hlutfall | |
---|---|---|---|---|---|
Grunnskólapróf eða minna | 174 | 163 | 24% | 3,2% | 24% |
Starfs-, iðn- eða framhaldsskólapróf | 276 | 284 | 41% | 3,7% | 41% |
Háskólanám | 245 | 244 | 35% | 3,6% | 35% |
Fjöldi svara | 695 | 691 | 100% | ||
Vil ekki svara | 5 | 8 | |||
Alls | 700 | 699 |
Grunnskólapróf eða minna | Starfs-, iðn- eða framhaldsskólapróf | Háskólanám | Fjöldi eftir vigtun | Fjöldi fyrir vigtun | Háskólamenntun | |
---|---|---|---|---|---|---|
Heild | 24% | 41% | 35% | 692 | 695 | 35% |
Kyn *** | ||||||
Karl | 28% | 46% | 26% | 359 | 322 | 26% |
Kona | 19% | 35% | 46% | 334 | 373 | 46% |
Aldur *** | ||||||
20 ára og yngri | 38% | 62% | 0% | 60 | 73 | 0% |
21-30 ára | 27% | 44% | 29% | 210 | 161 | 29% |
31-40 ára | 12% | 36% | 52% | 164 | 149 | 52% |
41-50 ára | 23% | 38% | 39% | 166 | 210 | 39% |
Eldri en 50 ára | 28% | 37% | 35% | 93 | 102 | 35% |
Staður | ||||||
Austursvæði | 32% | 35% | 33% | 60 | 178 | 33% |
Vestursvæði | 23% | 41% | 37% | 455 | 308 | 37% |
Miðsvæði | 19% | 48% | 33% | 49 | 57 | 33% |
Vestmannaeyjar | 24% | 43% | 33% | 128 | 152 | 33% |
Búseta * | ||||||
Þéttbýli | 23% | 39% | 39% | 505 | 534 | 39% |
Dreifbýli | 26% | 48% | 26% | 187 | 161 | 26% |
Áhugi á námi | ||||||
Áhugi á fjarnámi | 23% | 37% | 39% | 266 | 277 | 39% |
Áhugi á staðanámi | 29% | 44% | 27% | 73 | 71 | 27% |
Ekki áhugi á námi | 23% | 43% | 34% | 353 | 347 | 34% |
Atvinnugrein *** | ||||||
Menningu og skapandi greinum | 17% | 47% | 35% | 10 | 10 | 35% |
Heilbrigðisþjónustu | 9% | 31% | 60% | 34 | 40 | 60% |
Menntasviði | 11% | 17% | 72% | 94 | 98 | 72% |
Landbúnaði | 22% | 57% | 22% | 72 | 62 | 22% |
Verslun og þjónustu | 36% | 43% | 21% | 118 | 119 | 21% |
Iðnaði | 28% | 50% | 22% | 103 | 85 | 22% |
Sjávarútvegi og fiskvinnslu | 28% | 53% | 19% | 47 | 62 | 19% |
Ferðaþjónustu | 12% | 37% | 52% | 54 | 55 | 52% |
Opinberri þjónustu | 16% | 26% | 57% | 45 | 46 | 57% |
Annað | 15% | 69% | 15% | 9 | 11 | 15% |
Ekki á atvinnumarkaði | 45% | 33% | 22% | 54 | 56 | 22% |
Í námi | 17% | 59% | 25% | 49 | 47 | 25% |
Marktækur munur er á hópum: *p < 0,05; **p < 0,01; ***p < 0,001
óg merkir að gögnin uppfylltu ekki forsendur marktektarprófs.
Fjöldi fyrir vigtun | Fjöldi eftir vigtun | Hlutfall | Vikmörk +/- | Hlutfall | |
---|---|---|---|---|---|
Já | 155 | 167 | 24% | 3,2% | 24% |
Nei | 544 | 531 | 76% | 3,2% | 76% |
Fjöldi svara | 699 | 698 | 100% | ||
Veit ekki | 1 | 1 | |||
Alls | 700 | 699 |
Já | Nei | Fjöldi eftir vigtun | Fjöldi fyrir vigtun | Skráðir í skóla eða námssamning | |
---|---|---|---|---|---|
Heild | 24% | 76% | 699 | 699 | 24% |
Kyn | |||||
Karl | 21% | 79% | 363 | 325 | 21% |
Kona | 27% | 73% | 335 | 374 | 27% |
Aldur *** | |||||
20 ára og yngri | 51% | 49% | 60 | 73 | 51% |
21-30 ára | 44% | 56% | 212 | 162 | 44% |
31-40 ára | 15% | 85% | 165 | 150 | 15% |
41-50 ára | 9% | 91% | 167 | 211 | 9% |
Eldri en 50 ára | 4% | 96% | 95 | 103 | 4% |
Staður | |||||
Austursvæði | 26% | 74% | 60 | 178 | 26% |
Vestursvæði | 26% | 74% | 462 | 312 | 26% |
Miðsvæði | 15% | 85% | 49 | 57 | 15% |
Vestmannaeyjar | 21% | 79% | 128 | 152 | 21% |
Búseta | |||||
Þéttbýli | 24% | 76% | 510 | 537 | 24% |
Dreifbýli | 23% | 77% | 188 | 162 | 23% |
Áhugi á námi *** | |||||
Áhugi á fjarnámi | 15% | 85% | 271 | 280 | 15% |
Áhugi á staðanámi | 40% | 60% | 75 | 72 | 40% |
Ekki áhugi á námi | 27% | 73% | 353 | 347 | 27% |
Atvinnugrein *** | |||||
Menningu og skapandi greinum | 0% | 100% | 10 | 10 | 0% |
Heilbrigðisþjónustu | 17% | 83% | 34 | 40 | 17% |
Menntasviði | 22% | 78% | 94 | 98 | 22% |
Landbúnaði | 12% | 88% | 72 | 62 | 12% |
Verslun og þjónustu | 26% | 74% | 118 | 119 | 26% |
Iðnaði | 14% | 86% | 103 | 85 | 14% |
Sjávarútvegi og fiskvinnslu | 11% | 89% | 47 | 62 | 11% |
Ferðaþjónustu | 21% | 79% | 56 | 56 | 21% |
Opinberri þjónustu | 26% | 74% | 45 | 46 | 26% |
Annað | 56% | 44% | 9 | 11 | 56% |
Ekki á atvinnumarkaði | 11% | 89% | 55 | 57 | 11% |
Í námi | 97% | 3% | 49 | 47 | 97% |
Marktækur munur er á hópum: *p < 0,05; **p < 0,01; ***p < 0,001
óg merkir að gögnin uppfylltu ekki forsendur marktektarprófs.
Fjöldi fyrir vigtun | Fjöldi eftir vigtun | Hlutfall | Vikmörk +/- | Hlutfall | |
---|---|---|---|---|---|
Félagsvísindum | 30 | 35 | 21% | 6,2% | 21% |
Heilbrigðisvísindum | 15 | 14 | 8% | 4,2% | 8% |
Hugvísindum | 6 | 6 | 4% | 2,9% | 4% |
Menntavísindum | 17 | 16 | 10% | 4,5% | 10% |
Verkfræði og náttúruvísindum | 17 | 21 | 12% | 5,0% | 12% |
Þverfræðilegt nám | 0 | 0 | 0% | 0,0% | 0% |
Iðnnámi | 25 | 24 | 15% | 5,3% | 15% |
Listnámi | 2 | 3 | 1% | 1,8% | 1% |
Framhaldsskóli | 34 | 34 | 21% | 6,1% | 21% |
Landbúnaðarháskóla | 8 | 13 | 8% | 4,1% | 8% |
Fjöldi svara | 154 | 166 | 100% | ||
Á ekki við | 544 | 531 | |||
Veit ekki | 2 | 2 | |||
Alls | 700 | 699 |
Félagsvísindum | Heilbrigðisvísindum | Hugvísindum | Menntavísindum | Verkfræði og náttúruvísindum | Þverfræðilegt nám | Iðnnámi | Listnámi | Framhaldsskóli | Landbúnaðarháskóla | Fjöldi eftir vigtun | Fjöldi fyrir vigtun | Félagsvísindasvið | |
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Heild | 21% | 8% | 4% | 10% | 12% | 0% | 15% | 1% | 21% | 8% | 167 | 154 | 21% |
Kyn óg | |||||||||||||
Karl | 17% | 2% | 5% | 5% | 15% | 0% | 26% | 3% | 19% | 7% | 75 | 60 | 17% |
Kona | 24% | 14% | 3% | 14% | 10% | 0% | 5% | 0% | 22% | 9% | 92 | 94 | 24% |
Staður óg | |||||||||||||
Austursvæði | 23% | 10% | 7% | 15% | 5% | 0% | 20% | 2% | 18% | 0% | 15 | 43 | 23% |
Vestursvæði | 24% | 7% | 2% | 12% | 12% | 0% | 9% | 2% | 21% | 11% | 118 | 75 | 24% |
Miðsvæði | 29% | 0% | 0% | 0% | 23% | 0% | 16% | 0% | 32% | 0% | 7 | 8 | 29% |
Vestmannaeyjar | 6% | 19% | 9% | 0% | 15% | 0% | 34% | 0% | 17% | 0% | 26 | 28 | 6% |
Búseta óg | |||||||||||||
Þéttbýli | 23% | 10% | 5% | 9% | 12% | 0% | 18% | 2% | 17% | 4% | 125 | 121 | 23% |
Dreifbýli | 16% | 3% | 0% | 12% | 14% | 0% | 5% | 0% | 30% | 21% | 43 | 33 | 16% |
Áhugi á námi óg | |||||||||||||
Áhugi á fjarnámi | 22% | 3% | 3% | 15% | 8% | 0% | 12% | 0% | 30% | 8% | 41 | 40 | 22% |
Áhugi á staðanámi | 21% | 6% | 6% | 0% | 20% | 0% | 5% | 1% | 42% | 0% | 30 | 29 | 21% |
Ekki áhugi á námi | 21% | 12% | 4% | 10% | 12% | 0% | 19% | 2% | 10% | 11% | 96 | 85 | 21% |
Marktækur munur er á hópum: *p < 0,05; **p < 0,01; ***p < 0,001
óg merkir að gögnin uppfylltu ekki forsendur marktektarprófs.
Fjöldi fyrir vigtun | Fjöldi eftir vigtun | Hlutfall | Vikmörk +/- | Hlutfall | |
---|---|---|---|---|---|
Stúdentsprófi | 26 | 26 | 16% | 5,6% | 16% |
Iðn- eða starfsnámi | 35 | 37 | 23% | 6,5% | 23% |
Diplóma (grunnstigi) | 14 | 14 | 9% | 4,4% | 9% |
BA/BS prófi | 44 | 53 | 33% | 7,2% | 33% |
Diplóma (framhaldsstigi) | 4 | 5 | 3% | 2,7% | 3% |
MA/ MS/ Doktorsgráða | 26 | 27 | 17% | 5,8% | 17% |
Fjöldi svara | 149 | 162 | 100% | ||
Á ekki við | 544 | 531 | |||
Veit ekki | 6 | 5 | |||
Vil ekki svara | 1 | 1 | |||
Alls | 700 | 699 |
Stúdentsprófi | Iðn- eða starfsnámi | Diplóma (grunnstigi) | BA/BS prófi | Diplóma (framhaldsstigi) | MA/ MS/ Doktorsgráða | Fjöldi eftir vigtun | Fjöldi fyrir vigtun | Háskólagráðu | |
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Heild | 16% | 23% | 9% | 33% | 3% | 17% | 162 | 149 | 62% |
Kyn *** | |||||||||
Karl | 9% | 38% | 11% | 27% | 6% | 9% | 71 | 56 | 53% |
Kona | 21% | 11% | 7% | 37% | 1% | 23% | 91 | 93 | 68% |
Staður óg | |||||||||
Austursvæði | 16% | 24% | 10% | 31% | 3% | 16% | 15 | 42 | 60% |
Vestursvæði | 16% | 18% | 9% | 36% | 4% | 17% | 115 | 73 | 66% |
Miðsvæði | 9% | 33% | 0% | 26% | 0% | 32% | 7 | 7 | 58% |
Vestmannaeyjar | 14% | 42% | 7% | 23% | 0% | 13% | 25 | 27 | 43% |
Búseta óg | |||||||||
Þéttbýli | 12% | 27% | 10% | 27% | 4% | 20% | 122 | 118 | 61% |
Dreifbýli | 26% | 11% | 6% | 50% | 0% | 7% | 40 | 31 | 63% |
Áhugi á námi óg | |||||||||
Áhugi á fjarnámi | 28% | 20% | 11% | 23% | 7% | 10% | 40 | 39 | 52% |
Áhugi á staðanámi | 39% | 13% | 14% | 30% | 0% | 4% | 27 | 27 | 49% |
Ekki áhugi á námi | 4% | 27% | 6% | 37% | 2% | 23% | 95 | 83 | 69% |
Marktækur munur er á hópum: *p < 0,05; **p < 0,01; ***p < 0,001
óg merkir að gögnin uppfylltu ekki forsendur marktektarprófs.
Stærsti hluti þeirra sem eru í námi er í staðnámi eða 56%. Um þriðjungur er í fjarnámi og 12% eru að hluta til í staðnámi og hluta til í fjarnámi (dreifnámi). Hlutfallslega fleiri konur en karlar eru í fjarnámi, eða 38% kvenna og 26% karla, en munurinn er ekki marktækur. Fleiri eru í fjarnámi í Vestmannaeyjum, eða 46% aðspurðra en á öðrum svæðum á Suðurlandi þar sem hlutfallið var á bilinu 29% til 37%. Ekki er hægt að segja til um hvort munurinn sé marktækur þar sem marktektarprófið reyndist ógilt.
Helsta ástæða þess að staðnám varð fyrir valinu hjá svarendum var sú að fjarnám var ekki í boði. Einnig svöruðu margir því til að staðnámið væri þægilegra eða hentaði betur.
Þegar fjarnemar voru spurðir um ástæður þess að þeir völdu fjarnám, svöruðu langflestir því til að þeir hefðu ekki viljað flytja eða 59% þátttakenda. Um fjórðungur svarendum nefndi aðrar ástæður, svo sem fjarlægð frá skólanum og möguleikann á að geta sameinað nám og vinnu. Nánari greiningu má sjá í töflum 12, 13 og 14.
Fjöldi fyrir vigtun | Fjöldi eftir vigtun | Hlutfall | Vikmörk +/- | Hlutfall | |
---|---|---|---|---|---|
Staðnámi | 83 | 93 | 56% | 7,5% | 56% |
Fjarnámi | 56 | 54 | 32% | 7,1% | 32% |
Dreifnámi | 16 | 20 | 12% | 4,9% | 12% |
Fjöldi svara | 155 | 167 | 100% | ||
Veit ekki | 1 | 1 | |||
Á ekki við | 544 | 531 | |||
Alls | 700 | 699 |
Staðnámi | Fjarnámi | Dreifnámi | Fjöldi eftir vigtun | Fjöldi fyrir vigtun | Í fjarnámi | |
---|---|---|---|---|---|---|
Heild | 56% | 32% | 12% | 167 | 155 | 32% |
Kyn | ||||||
Karl | 66% | 26% | 8% | 76 | 61 | 26% |
Kona | 47% | 38% | 15% | 92 | 94 | 38% |
Aldur óg | ||||||
20 ára og yngri | 79% | 18% | 4% | 30 | 37 | 18% |
21-30 ára | 60% | 27% | 13% | 93 | 70 | 27% |
31-40 ára | 46% | 47% | 7% | 25 | 25 | 47% |
41-50 ára | 9% | 74% | 17% | 14 | 20 | 74% |
Eldri en 50 ára | 0% | 39% | 61% | 4 | 3 | 39% |
Staður óg | ||||||
Austursvæði | 55% | 37% | 7% | 16 | 44 | 37% |
Vestursvæði | 57% | 29% | 14% | 118 | 75 | 29% |
Miðsvæði | 65% | 35% | 0% | 7 | 8 | 35% |
Vestmannaeyjar | 46% | 46% | 8% | 26 | 28 | 46% |
Búseta | ||||||
Þéttbýli | 57% | 28% | 15% | 125 | 122 | 28% |
Dreifbýli | 51% | 46% | 3% | 43 | 33 | 46% |
Áhugi á námi óg | ||||||
Áhugi á fjarnámi | 24% | 58% | 18% | 41 | 40 | 58% |
Áhugi á staðanámi | 78% | 12% | 11% | 30 | 30 | 12% |
Ekki áhugi á námi | 62% | 28% | 10% | 96 | 85 | 28% |
Marktækur munur er á hópum: *p < 0,05; **p < 0,01; ***p < 0,001
óg merkir að gögnin uppfylltu ekki forsendur marktektarprófs.
Fjöldi fyrir vigtun | Fjöldi eftir vigtun | Hlutfall | Vikmörk +/- | Hlutfall | |
---|---|---|---|---|---|
Fjarnám var ekki í boði | 33 | 40 | 44% | 10,2% | 44% |
Langaði að flytja / prófa eitthvað nýtt | 11 | 11 | 12% | 6,8% | 12% |
Þægilegra / hentaði betur | 21 | 21 | 23% | 8,7% | 23% |
Nálægð við kennara og/eða samnema | 8 | 9 | 10% | 6,3% | 10% |
Nálægð við skóla | 6 | 6 | 7% | 5,2% | 7% |
Annað | 2 | 3 | 3% | 3,7% | 3% |
Fjöldi svara | 81 | 90 | 100% | ||
Vil ekki svara | 1 | 1 | |||
Veit ekki | 1 | 1 | |||
Á ekki við | 617 | 607 | |||
Alls | 700 | 699 |
Fjarnám var ekki í boði | Langaði að flytja / prófa eitthvað nýtt | Þægilegra / hentaði betur | Nálægð við kennara og/eða samnema | Nálægð við skóla | Annað | Fjöldi eftir vigtun | Fjöldi fyrir vigtun | Fjarnám ekki í boði | |
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Heild | 44% | 12% | 23% | 10% | 7% | 3% | 90 | 81 | 44% |
Kyn óg | |||||||||
Karl | 40% | 9% | 28% | 10% | 10% | 4% | 48 | 37 | 40% |
Kona | 49% | 16% | 18% | 11% | 3% | 3% | 42 | 44 | 49% |
Aldur óg | |||||||||
20 ára og yngri | 25% | 11% | 35% | 7% | 17% | 5% | 23 | 29 | 25% |
21-30 ára | 50% | 14% | 19% | 14% | 4% | 0% | 56 | 42 | 50% |
31-40 ára | 47% | 10% | 25% | 0% | 0% | 18% | 10 | 8 | 47% |
41-50 ára | 100% | 0% | 0% | 0% | 0% | 0% | 1 | 2 | 100% |
Eldri en 50 ára | - | - | - | - | - | - | 0 | 0 | |
Staður óg | |||||||||
Austursvæði | 41% | 12% | 28% | 12% | 7% | 0% | 9 | 24 | 41% |
Vestursvæði | 47% | 9% | 21% | 11% | 7% | 5% | 65 | 39 | 47% |
Miðsvæði | 25% | 40% | 35% | 0% | 0% | 0% | 5 | 5 | 25% |
Vestmannaeyjar | 38% | 18% | 27% | 10% | 7% | 0% | 12 | 13 | 38% |
Búseta óg | |||||||||
Þéttbýli | 48% | 11% | 21% | 13% | 4% | 3% | 70 | 64 | 48% |
Dreifbýli | 31% | 19% | 29% | 0% | 16% | 5% | 21 | 17 | 31% |
Áhugi á námi óg | |||||||||
Áhugi á fjarnámi | 46% | 0% | 25% | 14% | 3% | 11% | 10 | 12 | 46% |
Áhugi á staðanámi | 46% | 12% | 16% | 11% | 14% | 0% | 22 | 23 | 46% |
Ekki áhugi á námi | 43% | 15% | 25% | 9% | 4% | 3% | 58 | 46 | 43% |
Marktækur munur er á hópum: *p < 0,05; **p < 0,01; ***p < 0,001
óg merkir að gögnin uppfylltu ekki forsendur marktektarprófs.
Fjöldi fyrir vigtun | Fjöldi eftir vigtun | Hlutfall | Vikmörk +/- | Hlutfall | |
---|---|---|---|---|---|
Vildi ekki flytja | 33 | 32 | 59% | 13,1% | 59% |
Hafði ekki efni á fara í staðnám (t.d. flytja, standa á eigin fótum) | 2 | 2 | 4% | 5,0% | 4% |
Staðnám var ekki í boði | 7 | 6 | 11% | 8,4% | 11% |
Annað | 14 | 14 | 26% | 11,7% | 26% |
Fjöldi svara | 56 | 54 | 100% | ||
Vil ekki svara | 1 | 1 | |||
Á ekki við | 643 | 644 | |||
Alls | 700 | 699 |
Vildi ekki flytja | Hafði ekki efni á fara í staðnám (t.d. flytja, standa á eigin fótum) | Staðnám var ekki í boði | Annað | Fjöldi eftir vigtun | Fjöldi fyrir vigtun | Vildi ekki eða ekki efni á að flytja | |
---|---|---|---|---|---|---|---|
Heild | 59% | 4% | 11% | 26% | 54 | 56 | 63% |
Kyn óg | |||||||
Karl | 57% | 0% | 14% | 29% | 19 | 18 | 57% |
Kona | 60% | 6% | 9% | 25% | 35 | 38 | 66% |
Aldur óg | |||||||
20 ára og yngri | 82% | 0% | 0% | 18% | 5 | 6 | 82% |
21-30 ára | 46% | 4% | 17% | 33% | 25 | 20 | 50% |
31-40 ára | 63% | 0% | 3% | 34% | 12 | 14 | 63% |
41-50 ára | 66% | 10% | 14% | 10% | 11 | 15 | 76% |
Eldri en 50 ára | 100% | 0% | 0% | 0% | 2 | 1 | 100% |
Staður óg | |||||||
Austursvæði | 59% | 0% | 11% | 30% | 6 | 17 | 59% |
Vestursvæði | 69% | 3% | 5% | 23% | 34 | 23 | 72% |
Miðsvæði | 76% | 0% | 0% | 24% | 3 | 3 | 76% |
Vestmannaeyjar | 27% | 8% | 30% | 35% | 12 | 13 | 35% |
Búseta óg | |||||||
Þéttbýli | 50% | 6% | 17% | 27% | 35 | 42 | 55% |
Dreifbýli | 75% | 0% | 0% | 25% | 20 | 14 | 75% |
Áhugi á námi óg | |||||||
Áhugi á fjarnámi | 40% | 4% | 16% | 40% | 24 | 22 | 44% |
Áhugi á staðanámi | 38% | 0% | 35% | 27% | 4 | 3 | 38% |
Ekki áhugi á námi | 78% | 4% | 3% | 15% | 27 | 31 | 82% |
Marktækur munur er á hópum: *p < 0,05; **p < 0,01; ***p < 0,001
óg merkir að gögnin uppfylltu ekki forsendur marktektarprófs.
Hátt í helmingur aðspurðra, eða 45% þeirra sem tóku þátt í könnuninni, hafði einhvern tímann verið í fjarnámi. Mun fleiri konur en karlar höfðu stundað fjarnám, eða 56% kvenna og 36% karla og var munurinn tölfræðilega marktækur (p<0,001). Þá höfðu marktækt fleiri úr aldurshópnum 21 árs til 30 ára en öðrum aldurshópum verið í fjarnámi (p<0,01). Hlutfallslega fleiri svarendur af Austursvæði en af öðrum svæðum á Suðurlandi sögðust einhvern tímann hafa stundað fjarnám, eða 61% (37-48% á öðrum svæðum), og var um marktækan mun að ræða (p<0,01). Nánari greiningu má sjá í töflu 15.
Mikill meirihluti, eða 82% þeirra sem höfðu stundað fjarnám, sagði reynslu sína af fjarnámi mjög eða frekar jákvæða. Aðeins 4% töldu reynslu sína vera neikvæða (sjá töflu 16). Athygli vekur að eftir því sem ofar dregur í aldursflokkum hækkar hlutfall þeirra sem segir reynslu sína mjög jákvæða. Ekki er þó um marktækan mun að ræða.
Rúmur fjórðungur þátttakenda í könnuninni hafði einhvern tíma nýtt sér þau námsver sem eru víða á Suðurlandi. Hlutfallslega fleiri konur höfðu nýtt sér námsver, eða 31% kvenna og 21% karla en munurinn var ekki marktækur. Eldri svarendur höfðu frekar nýtt sér námsverin en þeir yngri. Aðeins 12% aðspurðra í aldurshópnum 20 ára og yngri höfðu nýtt sér námsver en það höfðu 50% úr aldurshópnum eldri en 50 ára gert. Munurinn á hópunum var mærktækur (p<0,001). Marktækt fleiri (p<0,001) íbúar af Austursvæði en öðrum svæðum Suðurlands höfðu nýtt námsver. Hlutfallið þar var 46% en 21-35% á hinum svæðunum þremur. Frekari greiningu má finna í töflu 17 og í töflu 18, má sjá helstu ástæður þess að íbúar nýta sér ekki námsver.
Fjöldi fyrir vigtun | Fjöldi eftir vigtun | Hlutfall | Vikmörk +/- | Hlutfall | |
---|---|---|---|---|---|
Já | 338 | 318 | 45% | 3,7% | 45% |
Nei | 362 | 382 | 55% | 3,7% | 55% |
Alls | 700 | 700 | 100% |
Já | Nei | Fjöldi eftir vigtun | Fjöldi fyrir vigtun | Já | |
---|---|---|---|---|---|
Heild | 45% | 55% | 700 | 700 | 45% |
Kyn *** | |||||
Karl | 36% | 64% | 365 | 326 | 36% |
Kona | 56% | 44% | 335 | 374 | 56% |
Aldur ** | |||||
20 ára og yngri | 42% | 58% | 61 | 74 | 42% |
21-30 ára | 55% | 45% | 212 | 162 | 55% |
31-40 ára | 42% | 58% | 165 | 150 | 42% |
41-50 ára | 44% | 56% | 167 | 211 | 44% |
Eldri en 50 ára | 35% | 65% | 95 | 103 | 35% |
Staður ** | |||||
Austursvæði | 61% | 39% | 60 | 178 | 61% |
Vestursvæði | 44% | 56% | 463 | 313 | 44% |
Miðsvæði | 37% | 63% | 49 | 57 | 37% |
Vestmannaeyjar | 48% | 52% | 128 | 152 | 48% |
Búseta * | |||||
Þéttbýli | 47% | 53% | 512 | 538 | 47% |
Dreifbýli | 41% | 59% | 188 | 162 | 41% |
Áhugi á námi ** | |||||
Áhugi á fjarnámi | 52% | 48% | 271 | 280 | 52% |
Áhugi á staðanámi | 52% | 48% | 75 | 72 | 52% |
Ekki áhugi á námi | 39% | 61% | 354 | 348 | 39% |
Atvinnugrein *** | |||||
Menningu og skapandi greinum | 75% | 25% | 10 | 10 | 75% |
Heilbrigðisþjónustu | 73% | 27% | 34 | 40 | 73% |
Menntasviði | 56% | 44% | 94 | 98 | 56% |
Landbúnaði | 27% | 73% | 72 | 62 | 27% |
Verslun og þjónustu | 48% | 52% | 118 | 119 | 48% |
Iðnaði | 32% | 68% | 103 | 85 | 32% |
Sjávarútvegi og fiskvinnslu | 42% | 58% | 47 | 62 | 42% |
Ferðaþjónustu | 47% | 53% | 56 | 56 | 47% |
Opinberri þjónustu | 60% | 40% | 45 | 46 | 60% |
Annað | 44% | 56% | 9 | 11 | 44% |
Ekki á atvinnumarkaði | 36% | 64% | 55 | 57 | 36% |
Í námi | 52% | 48% | 49 | 47 | 52% |
Marktækur munur er á hópum: *p < 0,05; **p < 0,01; ***p < 0,001
óg merkir að gögnin uppfylltu ekki forsendur marktektarprófs.
Fjöldi fyrir vigtun | Fjöldi eftir vigtun | Hlutfall | Vikmörk +/- | Hlutfall | |
---|---|---|---|---|---|
Mjög jákvæð | 133 | 119 | 44% | 5,9% | 44% |
Frekar jákvæð | 104 | 104 | 38% | 5,8% | 38% |
Hvorki jákvæð né neikvæð | 36 | 38 | 14% | 4,1% | 14% |
Frekar neikvæð | 12 | 8 | 3% | 2,0% | 3% |
Mjög neikvæð | 4 | 3 | 1% | 1,3% | 1% |
Fjöldi svara | 289 | 272 | 100% | ||
Veit ekki | 2 | 3 | |||
Á ekki við | 409 | 424 | |||
Alls | 700 | 699 |
Jákvæð reynsla | Neikvæð reynsla | Fjöldi eftir vigtun | Fjöldi fyrir vigtun | Jákvæð reynsla | |
---|---|---|---|---|---|
Heild | 82% | 18% | 273 | 289 | 82% |
Kyn | |||||
Karl | 77% | 23% | 110 | 107 | 77% |
Kona | 85% | 15% | 162 | 182 | 85% |
Aldur | |||||
20 ára og yngri | 82% | 18% | 20 | 21 | 82% |
21-30 ára | 74% | 26% | 98 | 80 | 74% |
31-40 ára | 84% | 16% | 61 | 65 | 84% |
41-50 ára | 86% | 14% | 63 | 85 | 86% |
Eldri en 50 ára | 92% | 8% | 31 | 38 | 92% |
Staður | |||||
Austursvæði | 78% | 22% | 32 | 91 | 78% |
Vestursvæði | 83% | 17% | 176 | 121 | 83% |
Miðsvæði | 71% | 29% | 16 | 19 | 71% |
Vestmannaeyjar | 84% | 16% | 49 | 58 | 84% |
Búseta | |||||
Þéttbýli | 82% | 18% | 208 | 235 | 82% |
Dreifbýli | 80% | 20% | 64 | 54 | 80% |
Áhugi á námi | |||||
Áhugi á fjarnámi | 85% | 15% | 128 | 140 | 85% |
Áhugi á staðanámi | 69% | 31% | 33 | 32 | 69% |
Ekki áhugi á námi | 82% | 18% | 112 | 117 | 82% |
Marktækur munur er á hópum: *p < 0,05; **p < 0,01; ***p < 0,001
óg merkir að gögnin uppfylltu ekki forsendur marktektarprófs.
Fjöldi fyrir vigtun | Fjöldi eftir vigtun | Hlutfall | Vikmörk +/- | Hlutfall | |
---|---|---|---|---|---|
Já | 114 | 85 | 27% | 4,9% | 27% |
Nei | 224 | 234 | 73% | 4,9% | 73% |
Fjöldi svara | 338 | 319 | 100% | ||
Á ekki við | 362 | 382 | |||
Alls | 700 | 701 |
Já | Nei | Fjöldi eftir vigtun | Fjöldi fyrir vigtun | Já | |
---|---|---|---|---|---|
Heild | 27% | 73% | 318 | 338 | 27% |
Kyn | |||||
Karl | 21% | 79% | 130 | 125 | 21% |
Kona | 31% | 69% | 188 | 213 | 31% |
Aldur *** | |||||
20 ára og yngri | 12% | 88% | 26 | 27 | 12% |
21-30 ára | 18% | 82% | 117 | 96 | 18% |
31-40 ára | 29% | 71% | 69 | 76 | 29% |
41-50 ára | 33% | 67% | 73 | 100 | 33% |
Eldri en 50 ára | 50% | 50% | 33 | 39 | 50% |
Staður *** | |||||
Austursvæði | 46% | 54% | 37 | 106 | 46% |
Vestursvæði | 21% | 79% | 202 | 139 | 21% |
Miðsvæði | 35% | 65% | 18 | 22 | 35% |
Vestmannaeyjar | 31% | 69% | 61 | 71 | 31% |
Búseta * | |||||
Þéttbýli | 29% | 71% | 241 | 274 | 29% |
Dreifbýli | 18% | 82% | 77 | 64 | 18% |
Áhugi á námi | |||||
Áhugi á fjarnámi | 30% | 70% | 142 | 156 | 30% |
Áhugi á staðanámi | 11% | 89% | 39 | 36 | 11% |
Ekki áhugi á námi | 28% | 72% | 137 | 146 | 28% |
Atvinnugrein | |||||
Menningu og skapandi greinum | 46% | 54% | 8 | 8 | 46% |
Heilbrigðisþjónustu | 46% | 54% | 25 | 30 | 46% |
Menntasviði | 30% | 70% | 53 | 60 | 30% |
Landbúnaði | 24% | 76% | 19 | 16 | 24% |
Verslun og þjónustu | 23% | 77% | 56 | 53 | 23% |
Iðnaði | 30% | 70% | 33 | 32 | 30% |
Sjávarútvegi og fiskvinnslu | 19% | 81% | 20 | 29 | 19% |
Ferðaþjónustu | 31% | 69% | 26 | 30 | 31% |
Opinberri þjónustu | 21% | 79% | 27 | 27 | 21% |
Annað | 27% | 73% | 4 | 5 | 27% |
Ekki á atvinnumarkaði | 9% | 91% | 20 | 19 | 9% |
Í námi | 21% | 79% | 25 | 26 | 21% |
Marktækur munur er á hópum: *p < 0,05; **p < 0,01; ***p < 0,001
óg merkir að gögnin uppfylltu ekki forsendur marktektarprófs.
Fjöldi fyrir vigtun | Fjöldi eftir vigtun | Hlutfall | Vikmörk +/- | Hlutfall | |
---|---|---|---|---|---|
Ekki þurft á því að halda | 95 | 91 | 42% | 6,5% | 42% |
Vissi ekki af því | 21 | 30 | 14% | 4,5% | 14% |
Var ekki til staðar | 22 | 22 | 10% | 4,0% | 10% |
Hef ekki verið í námi | 4 | 6 | 3% | 2,2% | 3% |
Of langt að fara | 6 | 8 | 4% | 2,5% | 4% |
Var í námi í Reykjavík | 14 | 17 | 8% | 3,5% | 8% |
Er ekki staðar lengur | 6 | 6 | 3% | 2,2% | 3% |
Er með góða aðstöðu heima | 12 | 7 | 3% | 2,3% | 3% |
Hafði ekki áhuga | 3 | 3 | 1% | 1,6% | 1% |
Tímaleysi | 28 | 29 | 13% | 4,5% | 13% |
Fjöldi svara | 211 | 219 | 100% | ||
Veit ekki | 7 | 6 | |||
Á ekki við | 482 | 476 | |||
Alls | 700 | 701 |
Ekki þurft á því að halda | Vissi ekki af því | Var ekki til staðar | Hef ekki verið í námi | Of langt að fara | Var í námi í Reykjavík | Er ekki staðar lengur | Er með góða aðstöðu heima | Hafði ekki áhuga | Tímaleysi | Fjöldi eftir vigtun | Fjöldi fyrir vigtun | Vissi ekki af því | |
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Heild | 42% | 14% | 10% | 3% | 4% | 8% | 3% | 3% | 1% | 13% | 219 | 211 | 14% |
Kyn óg | |||||||||||||
Karl | 46% | 13% | 6% | 2% | 3% | 6% | 2% | 2% | 2% | 17% | 98 | 87 | 13% |
Kona | 38% | 14% | 14% | 3% | 4% | 9% | 3% | 4% | 1% | 10% | 120 | 124 | 14% |
Aldur óg | |||||||||||||
20 ára og yngri | 56% | 1% | 0% | 0% | 0% | 2% | 16% | 3% | 5% | 17% | 21 | 21 | 1% |
21-30 ára | 32% | 26% | 6% | 4% | 5% | 6% | 3% | 2% | 1% | 14% | 89 | 69 | 26% |
31-40 ára | 37% | 1% | 15% | 0% | 7% | 20% | 0% | 6% | 0% | 14% | 47 | 48 | 1% |
41-50 ára | 52% | 13% | 14% | 2% | 1% | 3% | 0% | 2% | 2% | 11% | 48 | 58 | 13% |
Eldri en 50 ára | 57% | 0% | 26% | 8% | 0% | 0% | 0% | 2% | 0% | 6% | 15 | 15 | 0% |
Staður óg | |||||||||||||
Austursvæði | 46% | 5% | 7% | 0% | 2% | 7% | 2% | 16% | 0% | 14% | 19 | 52 | 5% |
Vestursvæði | 36% | 18% | 11% | 4% | 4% | 10% | 3% | 1% | 1% | 11% | 149 | 100 | 18% |
Miðsvæði | 27% | 0% | 18% | 0% | 10% | 7% | 14% | 6% | 6% | 12% | 12 | 15 | 0% |
Vestmannaeyjar | 64% | 5% | 5% | 0% | 0% | 0% | 0% | 4% | 3% | 19% | 39 | 44 | 5% |
Búseta óg | |||||||||||||
Þéttbýli | 40% | 14% | 9% | 4% | 1% | 9% | 3% | 3% | 1% | 15% | 158 | 162 | 14% |
Dreifbýli | 44% | 12% | 15% | 0% | 10% | 3% | 3% | 2% | 1% | 9% | 60 | 49 | 12% |
Áhugi á námi óg | |||||||||||||
Áhugi á fjarnámi | 40% | 12% | 12% | 2% | 5% | 8% | 4% | 3% | 1% | 13% | 95 | 92 | 12% |
Áhugi á staðanámi | 53% | 24% | 0% | 0% | 0% | 5% | 3% | 2% | 0% | 13% | 33 | 26 | 24% |
Ekki áhugi á námi | 39% | 11% | 12% | 5% | 3% | 8% | 2% | 4% | 3% | 13% | 91 | 93 | 11% |
Marktækur munur er á hópum: *p < 0,05; **p < 0,01; ***p < 0,001
óg merkir að gögnin uppfylltu ekki forsendur marktektarprófs.
Helmingur íbúa Suðurlands á aldrinum 18 til 55 ára sagðist hafa áhuga á að stunda háskólanám, þar af 27% í fjarnámi og 12% annað hvort í fjar- eða staðnámi. Auk þess voru 9% svarenda þegar í námi. Hins vegar sögðust 35% ekki hafa áhuga á að stunda háskólanám. Marktækur munur (p<0,001) var á áhuga karla og kvenna, 44% kvenna sögðust hafa áhuga á að stunda háskólanám á næstu þremur árum en 33% karla. Þá var áhuginn hlutfallslega mestur í aldurshópnum 31 árs til 40 ára (52%), marktækt meiri en í hinum aldurshópunum (p<0,001).
Flestir þeir sem kváðust hafa áhuga á háskólanámi sögðu áhugann liggja á sviði félagsvísinda eða 27%. Næst mestur var áhuginn á námi á sviði verkfræði- og náttúruvísinda, þar var hlutfallið 24%. Marktækur munur var á áhugasviði karla og kvenna (p<0,001). Mun hærra hlutfall karla en kvenna sagðist hafa áhuga á námi á heilbrigðisvísindasviði og menntavísindasviði en aftur á móti var áhugi á greinum á verk- og náttúruvísindasviði hlutfallslega mun meiri meðal karla en kvenna. Nánari greiningu má sjá í töflu 20. Þá má sjá ítarlega útlistun á hvaða námsleiðir voru oftast nefndar, greint eftir svæði, má sjá í viðauka 4.
Þeir sem hafa áhuga á að stunda fjarnám að hluta eða öllu leyti voru spurðir hversu langt þeir væru tilbúnir að fara til þess að sækja staðlotur. Nær helmingur þátttakenda var tilbúinn að fara á höfuðborgarsvæðið en 8% svarenda sögðust tilbúin að fara til Akureyrar. Tæpur þriðjungur vildi halda sig á Suðurlandinu, þar af kváðust 11% ekki vilja fara lengra en 25 km vegalengd til að sækja staðlotur. Nokkur munur er á svörum eftir því á hvaða svæði þátttakendur búa en munurinn er þó ekki marktækur. Þannig eru 54% þeirra sem hafa áhuga á að stunda fjarnám og búa í Vestmannaeyjum tilbúnir til að sækja staðlotur til höfuðborgarsvæðisins, en einungis 39% þeirra sem búa á Austursvæði eru sama sinnis. Þá segjast 11% svarenda úr Vestmanneyjum vera reiðubúin að fara til Akureyrar í staðlotur en aðeins 4% svarenda af Miðsvæði. Frekari greiningu má sjá í töflu 21.
Fjöldi fyrir vigtun | Fjöldi eftir vigtun | Hlutfall | Vikmörk +/- | Hlutfall | |
---|---|---|---|---|---|
Já, stað- eða fjarnámi | 85 | 82 | 12% | 2,4% | 12% |
Já, fjarnámi | 195 | 190 | 27% | 3,3% | 27% |
Já, staðnámi | 72 | 75 | 11% | 2,3% | 11% |
Er í háskólanámi í staðnámi | 31 | 39 | 6% | 1,7% | 6% |
Er í háskólanámi í fjarnámi | 21 | 20 | 3% | 1,2% | 3% |
Nei | 248 | 246 | 35% | 3,5% | 35% |
Veit ekki | 48 | 49 | 7% | 1,9% | 7% |
Alls | 700 | 701 | 100% |
Já, stað- eða fjarnámi | Já, fjarnámi | Já, staðnámi | Er í háskólanámi í staðnámi | Er í háskólanámi í fjarnámi | Nei | Veit ekki | Fjöldi eftir vigtun | Fjöldi fyrir vigtun | Já, hef áhuga á fjarnámi | |
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Heild | 12% | 27% | 11% | 6% | 3% | 35% | 7% | 700 | 700 | 39% |
Kyn *** | ||||||||||
Karl | 10% | 23% | 11% | 4% | 2% | 42% | 9% | 365 | 326 | 33% |
Kona | 13% | 31% | 11% | 7% | 4% | 28% | 5% | 335 | 374 | 44% |
Aldur *** | ||||||||||
20 ára og yngri | 22% | 14% | 30% | 8% | 2% | 13% | 11% | 61 | 74 | 36% |
21-30 ára | 8% | 22% | 20% | 14% | 2% | 28% | 6% | 212 | 162 | 30% |
31-40 ára | 13% | 39% | 2% | 2% | 5% | 32% | 7% | 165 | 150 | 52% |
41-50 ára | 13% | 30% | 3% | 0% | 3% | 45% | 6% | 167 | 211 | 43% |
Eldri en 50 ára | 9% | 21% | 6% | 0% | 3% | 53% | 8% | 95 | 103 | 30% |
Staður | ||||||||||
Austursvæði | 12% | 29% | 11% | 5% | 4% | 34% | 6% | 60 | 178 | 41% |
Vestursvæði | 11% | 27% | 10% | 6% | 3% | 34% | 7% | 463 | 313 | 39% |
Miðsvæði | 16% | 26% | 10% | 2% | 0% | 39% | 7% | 49 | 57 | 42% |
Vestmannaeyjar | 11% | 26% | 12% | 5% | 1% | 38% | 7% | 128 | 152 | 37% |
Búseta | ||||||||||
Þéttbýli | 12% | 28% | 12% | 6% | 2% | 32% | 7% | 512 | 538 | 41% |
Dreifbýli | 10% | 23% | 8% | 4% | 4% | 43% | 8% | 188 | 162 | 33% |
Áhugi á námi *** | ||||||||||
Áhugi á fjarnámi | 30% | 70% | 0% | 0% | 0% | 0% | 0% | 271 | 280 | 100% |
Áhugi á staðanámi | 0% | 0% | 100% | 0% | 0% | 0% | 0% | 75 | 72 | 0% |
Ekki áhugi á námi | 0% | 0% | 0% | 11% | 6% | 70% | 14% | 354 | 348 | 0% |
Atvinnugrein óg | ||||||||||
Menningu og skapandi greinum | 30% | 20% | 8% | 0% | 0% | 23% | 19% | 10 | 10 | 50% |
Heilbrigðisþjónustu | 8% | 34% | 14% | 3% | 5% | 35% | 2% | 34 | 40 | 41% |
Menntasviði | 10% | 38% | 5% | 2% | 4% | 37% | 3% | 94 | 98 | 48% |
Landbúnaði | 2% | 22% | 2% | 0% | 9% | 61% | 4% | 72 | 62 | 24% |
Verslun og þjónustu | 13% | 25% | 20% | 6% | 0% | 29% | 7% | 118 | 119 | 38% |
Iðnaði | 9% | 23% | 12% | 0% | 0% | 47% | 9% | 103 | 85 | 32% |
Sjávarútvegi og fiskvinnslu | 7% | 34% | 6% | 0% | 1% | 49% | 4% | 47 | 62 | 41% |
Ferðaþjónustu | 29% | 18% | 9% | 6% | 0% | 20% | 18% | 56 | 56 | 47% |
Opinberri þjónustu | 20% | 39% | 5% | 4% | 7% | 19% | 7% | 45 | 46 | 59% |
Annað | 15% | 6% | 0% | 16% | 15% | 47% | 0% | 9 | 11 | 22% |
Ekki á atvinnumarkaði | 12% | 36% | 13% | 0% | 0% | 26% | 14% | 55 | 57 | 47% |
Í námi | 4% | 11% | 19% | 44% | 5% | 16% | 0% | 49 | 47 | 15% |
Marktækur munur er á hópum: *p < 0,05; **p < 0,01; ***p < 0,001
óg merkir að gögnin uppfylltu ekki forsendur marktektarprófs.
Fjöldi fyrir vigtun | Fjöldi eftir vigtun | Hlutfall | Vikmörk +/- | Hlutfall | |
---|---|---|---|---|---|
Félagsvísindasvið | 89 | 86 | 27% | 4,9% | 27% |
Heilbrigðisvísindasvið | 47 | 44 | 14% | 3,8% | 14% |
Hugvísindasvið | 22 | 19 | 6% | 2,6% | 6% |
Menntavísindasvið | 33 | 35 | 11% | 3,4% | 11% |
Verk- og náttúruvísindasvið | 62 | 76 | 24% | 4,7% | 24% |
Þverfaglegt nám | 4 | 3 | 1% | 1,0% | 1% |
Fleiri en eitt svið valið | 11 | 9 | 3% | 1,9% | 3% |
Listaháskóla | 18 | 18 | 6% | 2,6% | 6% |
Landbúnaðarháskóla | 9 | 8 | 3% | 1,7% | 3% |
Iðn, framhalds eða starfsnám | 23 | 18 | 6% | 2,5% | 6% |
Fjöldi svara | 318 | 316 | 100% | ||
Á ekki við | 348 | 354 | |||
Veit ekki | 34 | 30 | |||
Alls | 700 | 700 |
Félags- vísindasvið | Heilbrigðis- vísindasvið | Hug- vísindasvið | Mennta- vísindasvið | Verk- og náttúru- vísindasvið | Annað nám | Fjöldi eftir vigtun | Fjöldi fyrir vigtun | |
---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Heild | 27% | 14% | 6% | 11% | 24% | 18% | 315 | 318 |
Kyn *** | ||||||||
Karl | 25% | 6% | 2% | 3% | 45% | 19% | 145 | 132 |
Kona | 29% | 21% | 10% | 17% | 6% | 17% | 170 | 186 |
Aldur ** | ||||||||
20 ára og yngri | 25% | 12% | 2% | 13% | 21% | 27% | 34 | 40 |
21-30 ára | 25% | 23% | 4% | 10% | 27% | 11% | 100 | 78 |
31-40 ára | 31% | 12% | 2% | 10% | 27% | 18% | 79 | 77 |
41-50 ára | 27% | 10% | 7% | 15% | 24% | 17% | 70 | 88 |
Eldri en 50 ára | 28% | 2% | 25% | 6% | 12% | 27% | 33 | 35 |
Staður | ||||||||
Austursvæði | 35% | 15% | 8% | 3% | 12% | 28% | 28 | 80 |
Vestursvæði | 28% | 13% | 6% | 13% | 25% | 15% | 207 | 141 |
Miðsvæði | 36% | 7% | 6% | 8% | 18% | 25% | 24 | 29 |
Vestmannaeyjar | 19% | 19% | 5% | 10% | 28% | 20% | 58 | 68 |
Búseta | ||||||||
Þéttbýli | 28% | 15% | 5% | 12% | 24% | 16% | 243 | 254 |
Dreifbýli | 24% | 11% | 10% | 9% | 25% | 22% | 73 | 64 |
Atvinnugrein óg | ||||||||
Menningu og skapandi greinum | 19% | 0% | 0% | 32% | 43% | 7% | 4 | 4 |
Heilbrigðisþjónustu | 18% | 45% | 15% | 0% | 13% | 9% | 19 | 21 |
Menntasviði | 18% | 6% | 2% | 44% | 3% | 27% | 47 | 48 |
Landbúnaði | 24% | 4% | 17% | 10% | 19% | 26% | 17 | 15 |
Verslun og þjónustu | 34% | 25% | 5% | 6% | 19% | 12% | 60 | 57 |
Iðnaði | 16% | 0% | 3% | 4% | 65% | 11% | 41 | 33 |
Sjávarútvegi og fiskvinnslu | 8% | 4% | 2% | 3% | 43% | 40% | 20 | 24 |
Ferðaþjónustu | 42% | 13% | 9% | 0% | 26% | 10% | 29 | 34 |
Opinberri þjónustu | 45% | 17% | 6% | 1% | 21% | 10% | 27 | 28 |
Annað | 0% | 0% | 14% | 0% | 15% | 71% | 2 | 4 |
Ekki á atvinnumarkaði | 30% | 20% | 3% | 15% | 10% | 23% | 31 | 30 |
Í námi | 34% | 14% | 10% | 0% | 23% | 20% | 16 | 18 |
Marktækur munur er á hópum: *p < 0,05; **p < 0,01; ***p < 0,001
óg merkir að gögnin uppfylltu ekki forsendur marktektarprófs.
Fjöldi fyrir vigtun | Fjöldi eftir vigtun | Hlutfall | Vikmörk +/- | Hlutfall | |
---|---|---|---|---|---|
Í nágrenni við heimili (<25 km) | 33 | 29 | 11% | 3,8% | 11% |
Þyrfti að vera á Suðurlandi (>25 km) | 52 | 50 | 19% | 4,8% | 19% |
Á höfuðborgarsvæðið | 123 | 127 | 48% | 6,1% | 48% |
Til Akureyrar | 22 | 22 | 8% | 3,4% | 8% |
Annað | 40 | 34 | 13% | 4,1% | 13% |
Fjöldi svara | 270 | 262 | 100% | ||
Veit ekki | 10 | 9 | |||
Á ekki við | 420 | 429 | |||
Alls | 700 | 700 |
Í nágrenni við heimili (<25 km) | Þyrfti að vera á Suðurlandi (>25 km) | Á höfuðborgarsvæðið | Til Akureyrar | Annað | Fjöldi eftir vigtun | Fjöldi fyrir vigtun | Á Suðurlandi | |
---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Heild | 11% | 19% | 48% | 8% | 13% | 262 | 270 | 30% |
Kyn | ||||||||
Karl | 9% | 17% | 55% | 5% | 15% | 120 | 113 | 26% |
Kona | 12% | 21% | 43% | 12% | 12% | 142 | 157 | 34% |
Aldur óg | ||||||||
20 ára og yngri | 8% | 9% | 68% | 2% | 14% | 19 | 22 | 17% |
21-30 ára | 7% | 19% | 57% | 6% | 11% | 62 | 48 | 26% |
31-40 ára | 11% | 14% | 51% | 12% | 13% | 84 | 80 | 24% |
41-50 ára | 14% | 28% | 38% | 8% | 12% | 70 | 90 | 42% |
Eldri en 50 ára | 16% | 22% | 34% | 10% | 18% | 27 | 30 | 38% |
Staður | ||||||||
Austursvæði | 16% | 13% | 39% | 6% | 26% | 24 | 70 | 29% |
Vestursvæði | 10% | 19% | 49% | 9% | 13% | 172 | 120 | 30% |
Miðsvæði | 4% | 37% | 45% | 4% | 11% | 20 | 26 | 41% |
Vestmannaeyjar | 14% | 13% | 54% | 11% | 8% | 46 | 54 | 27% |
Búseta | ||||||||
Þéttbýli | 11% | 16% | 50% | 10% | 13% | 200 | 214 | 27% |
Dreifbýli | 11% | 29% | 41% | 4% | 14% | 62 | 56 | 40% |
Atvinnugrein óg | ||||||||
Menningu og skapandi greinum | 0% | 0% | 65% | 0% | 35% | 5 | 4 | 0% |
Heilbrigðisþjónustu | 21% | 33% | 20% | 23% | 4% | 14 | 16 | 53% |
Menntasviði | 10% | 7% | 62% | 4% | 17% | 44 | 43 | 17% |
Landbúnaði | 9% | 30% | 48% | 0% | 13% | 17 | 15 | 39% |
Verslun og þjónustu | 12% | 16% | 45% | 18% | 9% | 42 | 45 | 28% |
Iðnaði | 4% | 34% | 54% | 0% | 8% | 31 | 27 | 38% |
Sjávarútvegi og fiskvinnslu | 11% | 16% | 47% | 10% | 15% | 19 | 23 | 27% |
Ferðaþjónustu | 22% | 12% | 42% | 0% | 24% | 24 | 29 | 34% |
Opinberri þjónustu | 6% | 19% | 45% | 13% | 17% | 26 | 28 | 25% |
Annað | 29% | 0% | 71% | 0% | 0% | 2 | 4 | 29% |
Ekki á atvinnumarkaði | 4% | 24% | 56% | 6% | 10% | 25 | 24 | 28% |
Í námi | 4% | 28% | 27% | 37% | 4% | 8 | 8 | 32% |
Marktækur munur er á hópum: *p < 0,05; **p < 0,01; ***p < 0,001
óg merkir að gögnin uppfylltu ekki forsendur marktektarprófs.
Þátttakendur voru spurðir hvort þeir teldu að skortur væri á háskólamenntuðu starfsfólki í einhverjum atvinnuvegum í þeirra heimabyggð og svöruðu 48% þeirra játandi. Marktækur munur (p<0,01) var á svörum karla og kvenna en hlutfallslega fleiri konum en körlum fannst vera skortur á háskólamenntuðu fólki. Þá jókst hlutfall þeirra sem þótti vanta fleiri háskólamenntaða starfsmenn eftir því sem ofar dró í aldurshópum og hlutfallslega fleiri svarendur af Austursvæði en öðrum svæðum voru þessarar skoðunar. Sjá má ítarlega greiningu í töflu 22.
Á mynd 1 má sjá í hvaða atvinnugreinum skorturinn á háskólamenntuðu starfsfólki var talinn mestur. Um þriðjungi svarenda fannst vera skortur á sviði menntamála, 20% viðmælanda þótti skorta háskólamenntað fólk í heilbrigðisþjónustuna og 15% nefndu ferðaþjónustuna. Aðrar atvinnugreinar voru sjaldnar nefndar.
Fjöldi fyrir vigtun | Fjöldi eftir vigtun | Hlutfall | Vikmörk +/- | Hlutfall | |
---|---|---|---|---|---|
Nei | 267 | 282 | 52% | 4,2% | 52% |
Já | 284 | 263 | 48% | 4,2% | 48% |
Fjöldi svara | 551 | 545 | 100% | ||
Veit ekki | 143 | 148 | |||
Vil ekki svara | 6 | 7 | |||
Alls | 700 | 700 |
Nei | Já | Fjöldi eftir vigtun | Fjöldi fyrir vigtun | Já | |
---|---|---|---|---|---|
Heild | 52% | 48% | 545 | 551 | 48% |
Kyn ** | |||||
Karl | 58% | 42% | 274 | 246 | 42% |
Kona | 45% | 55% | 271 | 305 | 55% |
Aldur ** | |||||
20 ára og yngri | 77% | 23% | 41 | 49 | 23% |
21-30 ára | 56% | 44% | 174 | 131 | 44% |
31-40 ára | 46% | 54% | 133 | 127 | 54% |
41-50 ára | 52% | 48% | 122 | 159 | 48% |
Eldri en 50 ára | 39% | 61% | 76 | 85 | 61% |
Staður ** | |||||
Austursvæði | 38% | 62% | 49 | 145 | 62% |
Vestursvæði | 54% | 46% | 352 | 237 | 46% |
Miðsvæði | 42% | 58% | 40 | 45 | 58% |
Vestmannaeyjar | 55% | 45% | 104 | 124 | 45% |
Búseta | |||||
Þéttbýli | 49% | 51% | 393 | 423 | 51% |
Dreifbýli | 58% | 42% | 152 | 128 | 42% |
Áhugi á námi * | |||||
Áhugi á fjarnámi | 43% | 57% | 215 | 227 | 57% |
Áhugi á staðanámi | 58% | 42% | 59 | 54 | 42% |
Ekki áhugi á námi | 58% | 42% | 271 | 270 | 42% |
Atvinnugrein ** | |||||
Menningu og skapandi greinum | 56% | 44% | 8 | 8 | 44% |
Heilbrigðisþjónustu | 25% | 75% | 22 | 28 | 75% |
Menntasviði | 31% | 69% | 77 | 83 | 69% |
Landbúnaði | 62% | 38% | 64 | 54 | 38% |
Verslun og þjónustu | 55% | 45% | 91 | 93 | 45% |
Iðnaði | 67% | 33% | 84 | 70 | 33% |
Sjávarútvegi og fiskvinnslu | 51% | 49% | 37 | 49 | 49% |
Ferðaþjónustu | 50% | 50% | 42 | 43 | 50% |
Opinberri þjónustu | 47% | 53% | 34 | 36 | 53% |
Annað | 54% | 46% | 8 | 10 | 46% |
Ekki á atvinnumarkaði | 55% | 45% | 37 | 38 | 45% |
Í námi | 50% | 50% | 40 | 36 | 50% |
Marktækur munur er á hópum: *p < 0,05; **p < 0,01; ***p < 0,001
óg merkir að gögnin uppfylltu ekki forsendur marktektarprófs.
Þátttakendur í könnuninni voru beðnir að taka afstöðu til sjö fullyrðinga varðandi nám á háskólastigi í þeirra heimabyggð, þ.e. um framboð þess og hvað aukin háskólamenntun á svæðinu gæti gert fyrir atvinnulífið. Á mynd 2 má sjá hlutfall þeirra sem voru frekar eða mjög sammála fullyrðingunum. Langflestir, eða 9 af hverjum 10 svarendum, voru sammála því að raunhæft væri að auka framboð af fjarnámi á háskólastigi í þeirra heimabyggð og um 85% þátttakenda töldu að aukin háskólamenntun myndi skila sér í fjölbreyttara atvinnulífi og betri atvinnumöguleikum. Aðeins lítill hluti svarenda, eða 2 af hverjum 10, taldi að nægilegt framboð væri af staðbundnu námi á háskólastigi. Í töflu 23 til 29 má sjá tíðnitöflur fyrir allar fullyrðingarnar sjö og nánari bakgrunnsgreiningu.
Fjöldi fyrir vigtun | Fjöldi eftir vigtun | Hlutfall | Vikmörk +/- | Hlutfall | |
---|---|---|---|---|---|
Mjög sammála | 88 | 85 | 13% | 2,5% | 13% |
Frekar sammála | 276 | 284 | 42% | 3,7% | 42% |
Hvorki sammála né ósammála | 25 | 22 | 3% | 1,4% | 3% |
Frekar ósammála | 194 | 196 | 29% | 3,5% | 29% |
Mjög ósammála | 90 | 81 | 12% | 2,5% | 12% |
Fjöldi svara | 673 | 668 | 100% | ||
Veit ekki | 27 | 32 | |||
Alls | 700 | 700 |
Mjög eða frekar sammála | Hvorki sammála né ósammála | Mjög eða frekar ósammála | Fjöldi eftir vigtun | Fjöldi fyrir vigtun | Mjög eða frekar sammála | |
---|---|---|---|---|---|---|
Heild | 55% | 3% | 42% | 668 | 673 | 55% |
Kyn * | ||||||
Karl | 61% | 3% | 36% | 341 | 308 | 61% |
Kona | 49% | 3% | 48% | 327 | 365 | 49% |
Aldur * | ||||||
20 ára og yngri | 71% | 2% | 27% | 61 | 74 | 71% |
21-30 ára | 52% | 4% | 43% | 203 | 156 | 52% |
31-40 ára | 63% | 2% | 35% | 157 | 143 | 63% |
41-50 ára | 53% | 3% | 44% | 156 | 199 | 53% |
Eldri en 50 ára | 40% | 4% | 55% | 92 | 101 | 40% |
Staður ** | ||||||
Austursvæði | 58% | 7% | 35% | 59 | 173 | 58% |
Vestursvæði | 58% | 4% | 38% | 438 | 296 | 58% |
Miðsvæði | 48% | 0% | 52% | 47 | 55 | 48% |
Vestmannaeyjar | 45% | 2% | 53% | 125 | 149 | 45% |
Búseta | ||||||
Þéttbýli | 53% | 4% | 42% | 489 | 518 | 53% |
Dreifbýli | 61% | 0% | 39% | 179 | 155 | 61% |
Áhugi á námi | ||||||
Áhugi á fjarnámi | 52% | 5% | 44% | 262 | 273 | 52% |
Áhugi á staðanámi | 64% | 6% | 30% | 75 | 72 | 64% |
Ekki áhugi á námi | 56% | 2% | 43% | 331 | 328 | 56% |
Atvinnugrein óg | ||||||
Menningu og skapandi greinum | 57% | 3% | 41% | 10 | 10 | 57% |
Heilbrigðisþjónustu | 33% | 5% | 61% | 33 | 38 | 33% |
Menntasviði | 56% | 2% | 42% | 91 | 95 | 56% |
Landbúnaði | 69% | 0% | 31% | 68 | 58 | 69% |
Verslun og þjónustu | 51% | 3% | 46% | 111 | 115 | 51% |
Iðnaði | 62% | 4% | 33% | 95 | 80 | 62% |
Sjávarútvegi og fiskvinnslu | 40% | 4% | 57% | 43 | 58 | 40% |
Ferðaþjónustu | 62% | 1% | 37% | 55 | 55 | 62% |
Opinberri þjónustu | 48% | 7% | 45% | 45 | 46 | 48% |
Annað | 78% | 0% | 22% | 9 | 11 | 78% |
Ekki á atvinnumarkaði | 55% | 9% | 36% | 51 | 53 | 55% |
Í námi | 56% | 1% | 43% | 49 | 47 | 56% |
Marktækur munur er á hópum: *p < 0,05; **p < 0,01; ***p < 0,001
óg merkir að gögnin uppfylltu ekki forsendur marktektarprófs.
Fjöldi fyrir vigtun | Fjöldi eftir vigtun | Hlutfall | Vikmörk +/- | Hlutfall | |
---|---|---|---|---|---|
Mjög sammála | 20 | 22 | 4% | 1,5% | 4% |
Frekar sammála | 91 | 102 | 16% | 2,9% | 16% |
Hvorki sammála né ósammála | 25 | 26 | 4% | 1,6% | 4% |
Frekar ósammála | 205 | 203 | 33% | 3,7% | 33% |
Mjög ósammála | 286 | 269 | 43% | 3,9% | 43% |
Fjöldi svara | 627 | 622 | 100% | ||
Veit ekki | 71 | 77 | |||
Vil ekki svara | 2 | 1 | |||
Alls | 700 | 700 |
Mjög eða frekar sammála | Hvorki sammála né ósammála | Mjög eða frekar ósammála | Fjöldi eftir vigtun | Fjöldi fyrir vigtun | Mjög eða frekar sammála | |
---|---|---|---|---|---|---|
Heild | 20% | 4% | 76% | 622 | 627 | 20% |
Kyn ** | ||||||
Karl | 25% | 5% | 70% | 317 | 289 | 25% |
Kona | 14% | 3% | 82% | 305 | 338 | 14% |
Aldur | ||||||
20 ára og yngri | 35% | 8% | 57% | 56 | 68 | 35% |
21-30 ára | 18% | 5% | 77% | 191 | 148 | 18% |
31-40 ára | 20% | 3% | 77% | 145 | 134 | 20% |
41-50 ára | 16% | 3% | 81% | 147 | 187 | 16% |
Eldri en 50 ára | 21% | 5% | 73% | 82 | 90 | 21% |
Staður * | ||||||
Austursvæði | 15% | 5% | 80% | 54 | 160 | 15% |
Vestursvæði | 24% | 5% | 71% | 404 | 274 | 24% |
Miðsvæði | 13% | 3% | 84% | 46 | 53 | 13% |
Vestmannaeyjar | 12% | 2% | 86% | 118 | 140 | 12% |
Búseta | ||||||
Þéttbýli | 18% | 4% | 78% | 454 | 482 | 18% |
Dreifbýli | 26% | 4% | 70% | 168 | 145 | 26% |
Áhugi á námi | ||||||
Áhugi á fjarnámi | 17% | 2% | 80% | 247 | 258 | 17% |
Áhugi á staðanámi | 16% | 9% | 75% | 72 | 68 | 16% |
Ekki áhugi á námi | 23% | 4% | 72% | 303 | 301 | 23% |
Atvinnugrein óg | ||||||
Menningu og skapandi greinum | 12% | 14% | 74% | 10 | 9 | 12% |
Heilbrigðisþjónustu | 14% | 5% | 81% | 33 | 38 | 14% |
Menntasviði | 13% | 2% | 85% | 88 | 92 | 13% |
Landbúnaði | 29% | 3% | 69% | 60 | 52 | 29% |
Verslun og þjónustu | 22% | 7% | 71% | 104 | 106 | 22% |
Iðnaði | 32% | 4% | 64% | 94 | 78 | 32% |
Sjávarútvegi og fiskvinnslu | 7% | 6% | 86% | 41 | 54 | 7% |
Ferðaþjónustu | 23% | 2% | 74% | 49 | 50 | 23% |
Opinberri þjónustu | 13% | 6% | 81% | 43 | 43 | 13% |
Annað | 9% | 20% | 72% | 9 | 11 | 9% |
Ekki á atvinnumarkaði | 25% | 0% | 75% | 39 | 43 | 25% |
Í námi | 14% | 2% | 84% | 49 | 47 | 14% |
Marktækur munur er á hópum: *p < 0,05; **p < 0,01; ***p < 0,001
óg merkir að gögnin uppfylltu ekki forsendur marktektarprófs.
Fjöldi fyrir vigtun | Fjöldi eftir vigtun | Hlutfall | Vikmörk +/- | Hlutfall | |
---|---|---|---|---|---|
Mjög sammála | 73 | 70 | 12% | 2,7% | 12% |
Frekar sammála | 279 | 292 | 51% | 4,1% | 51% |
Hvorki sammála né ósammála | 45 | 39 | 7% | 2,1% | 7% |
Frekar ósammála | 130 | 129 | 23% | 3,4% | 23% |
Mjög ósammála | 54 | 41 | 7% | 2,1% | 7% |
Fjöldi svara | 581 | 571 | 100% | ||
Veit ekki | 117 | 129 | |||
Vil ekki svara | 2 | 2 | |||
Alls | 700 | 702 |
Mjög eða frekar sammála | Hvorki sammála né ósammála | Mjög eða frekar ósammála | Fjöldi eftir vigtun | Fjöldi fyrir vigtun | Mjög eða frekar sammála | |
---|---|---|---|---|---|---|
Heild | 63% | 7% | 30% | 569 | 581 | 63% |
Kyn | ||||||
Karl | 69% | 7% | 24% | 272 | 250 | 69% |
Kona | 59% | 7% | 35% | 298 | 331 | 59% |
Aldur | ||||||
20 ára og yngri | 73% | 4% | 23% | 54 | 64 | 73% |
21-30 ára | 56% | 10% | 34% | 177 | 138 | 56% |
31-40 ára | 65% | 4% | 31% | 132 | 125 | 65% |
41-50 ára | 64% | 7% | 29% | 134 | 174 | 64% |
Eldri en 50 ára | 70% | 6% | 24% | 74 | 80 | 70% |
Staður * | ||||||
Austursvæði | 49% | 12% | 39% | 49 | 147 | 49% |
Vestursvæði | 67% | 5% | 28% | 363 | 249 | 67% |
Miðsvæði | 59% | 10% | 32% | 42 | 48 | 59% |
Vestmannaeyjar | 62% | 9% | 30% | 115 | 137 | 62% |
Búseta ** | ||||||
Þéttbýli | 59% | 7% | 33% | 419 | 455 | 59% |
Dreifbýli | 75% | 5% | 20% | 151 | 126 | 75% |
Áhugi á námi | ||||||
Áhugi á fjarnámi | 59% | 7% | 34% | 227 | 237 | 59% |
Áhugi á staðanámi | 70% | 4% | 26% | 62 | 61 | 70% |
Ekki áhugi á námi | 65% | 7% | 27% | 281 | 283 | 65% |
Atvinnugrein óg | ||||||
Menningu og skapandi greinum | 64% | 14% | 22% | 10 | 9 | 64% |
Heilbrigðisþjónustu | 43% | 13% | 44% | 32 | 35 | 43% |
Menntasviði | 65% | 9% | 26% | 88 | 94 | 65% |
Landbúnaði | 81% | 3% | 16% | 54 | 45 | 81% |
Verslun og þjónustu | 56% | 5% | 39% | 94 | 98 | 56% |
Iðnaði | 73% | 7% | 20% | 69 | 62 | 73% |
Sjávarútvegi og fiskvinnslu | 67% | 10% | 23% | 41 | 54 | 67% |
Ferðaþjónustu | 65% | 9% | 26% | 41 | 43 | 65% |
Opinberri þjónustu | 62% | 5% | 34% | 43 | 43 | 62% |
Annað | 91% | 9% | 0% | 5 | 7 | 91% |
Ekki á atvinnumarkaði | 56% | 1% | 43% | 44 | 44 | 56% |
Í námi | 56% | 8% | 37% | 48 | 45 | 56% |
Marktækur munur er á hópum: *p < 0,05; **p < 0,01; ***p < 0,001
óg merkir að gögnin uppfylltu ekki forsendur marktektarprófs.
Fjöldi fyrir vigtun | Fjöldi eftir vigtun | Hlutfall | Vikmörk +/- | Hlutfall | |
---|---|---|---|---|---|
Mjög sammála | 267 | 262 | 39% | 3,7% | 39% |
Frekar sammála | 305 | 313 | 46% | 3,8% | 46% |
Hvorki sammála né ósammála | 30 | 29 | 4% | 1,5% | 4% |
Frekar ósammála | 53 | 59 | 9% | 2,1% | 9% |
Mjög ósammála | 14 | 15 | 2% | 1,1% | 2% |
Fjöldi svara | 669 | 678 | 100% | ||
Veit ekki | 29 | 21 | |||
Vil ekki svara | 2 | 1 | |||
Alls | 700 | 700 |
Mjög eða frekar sammála | Hvorki sammála né ósammála | Mjög eða frekar ósammála | Fjöldi eftir vigtun | Fjöldi fyrir vigtun | Mjög eða frekar sammála | |
---|---|---|---|---|---|---|
Heild | 85% | 4% | 11% | 677 | 669 | 85% |
Kyn *** | ||||||
Karl | 78% | 4% | 18% | 351 | 310 | 78% |
Kona | 92% | 4% | 4% | 327 | 359 | 92% |
Aldur | ||||||
20 ára og yngri | 90% | 6% | 5% | 58 | 70 | 90% |
21-30 ára | 81% | 6% | 13% | 208 | 160 | 81% |
31-40 ára | 86% | 3% | 11% | 160 | 144 | 86% |
41-50 ára | 84% | 3% | 13% | 159 | 198 | 84% |
Eldri en 50 ára | 90% | 3% | 7% | 91 | 97 | 90% |
Staður | ||||||
Austursvæði | 83% | 5% | 12% | 57 | 166 | 83% |
Vestursvæði | 85% | 3% | 12% | 454 | 307 | 85% |
Miðsvæði | 78% | 9% | 14% | 46 | 53 | 78% |
Vestmannaeyjar | 88% | 6% | 6% | 120 | 143 | 88% |
Búseta | ||||||
Þéttbýli | 84% | 5% | 11% | 495 | 514 | 84% |
Dreifbýli | 86% | 3% | 11% | 182 | 155 | 86% |
Áhugi á námi ** | ||||||
Áhugi á fjarnámi | 92% | 3% | 5% | 264 | 270 | 92% |
Áhugi á staðanámi | 70% | 10% | 20% | 75 | 72 | 70% |
Ekki áhugi á námi | 82% | 4% | 14% | 339 | 327 | 82% |
Atvinnugrein óg | ||||||
Menningu og skapandi greinum | 46% | 29% | 25% | 10 | 10 | 46% |
Heilbrigðisþjónustu | 96% | 4% | 0% | 34 | 40 | 96% |
Menntasviði | 91% | 2% | 6% | 93 | 97 | 91% |
Landbúnaði | 87% | 2% | 12% | 69 | 57 | 87% |
Verslun og þjónustu | 87% | 4% | 9% | 110 | 109 | 87% |
Iðnaði | 71% | 5% | 24% | 98 | 80 | 71% |
Sjávarútvegi og fiskvinnslu | 80% | 3% | 17% | 47 | 61 | 80% |
Ferðaþjónustu | 81% | 4% | 15% | 55 | 55 | 81% |
Opinberri þjónustu | 87% | 9% | 4% | 42 | 42 | 87% |
Annað | 100% | 0% | 0% | 8 | 10 | 100% |
Ekki á atvinnumarkaði | 93% | 3% | 3% | 54 | 54 | 93% |
Í námi | 91% | 3% | 5% | 49 | 47 | 91% |
Marktækur munur er á hópum: *p < 0,05; **p < 0,01; ***p < 0,001
óg merkir að gögnin uppfylltu ekki forsendur marktektarprófs.
Fjöldi fyrir vigtun | Fjöldi eftir vigtun | Hlutfall | Vikmörk +/- | Hlutfall | |
---|---|---|---|---|---|
Mjög sammála | 251 | 250 | 37% | 3,6% | 37% |
Frekar sammála | 310 | 314 | 46% | 3,8% | 46% |
Hvorki sammála né ósammála | 45 | 47 | 7% | 1,9% | 7% |
Frekar ósammála | 54 | 53 | 8% | 2,0% | 8% |
Mjög ósammála | 13 | 13 | 2% | 1,0% | 2% |
Fjöldi svara | 673 | 677 | 100% | ||
Veit ekki | 24 | 20 | |||
Vil ekki svara | 3 | 3 | |||
Alls | 700 | 700 |
Mjög eða frekar sammála | Hvorki sammála né ósammála | Mjög eða frekar ósammála | Fjöldi eftir vigtun | Fjöldi fyrir vigtun | Mjög eða frekar sammála | |
---|---|---|---|---|---|---|
Heild | 83% | 0% | 17% | 677 | 673 | 83% |
Kyn óg | ||||||
Karl | 81% | 0% | 19% | 354 | 314 | 81% |
Kona | 86% | 0% | 14% | 323 | 359 | 86% |
Aldur óg | ||||||
20 ára og yngri | 88% | 0% | 12% | 60 | 72 | 88% |
21-30 ára | 81% | 0% | 19% | 208 | 159 | 81% |
31-40 ára | 84% | 0% | 16% | 160 | 144 | 84% |
41-50 ára | 85% | 0% | 15% | 156 | 198 | 85% |
Eldri en 50 ára | 82% | 0% | 18% | 93 | 100 | 82% |
Staður óg | ||||||
Austursvæði | 81% | 0% | 19% | 57 | 169 | 81% |
Vestursvæði | 84% | 0% | 16% | 449 | 302 | 84% |
Miðsvæði | 74% | 0% | 26% | 46 | 53 | 74% |
Vestmannaeyjar | 85% | 0% | 15% | 125 | 149 | 85% |
Búseta óg | ||||||
Þéttbýli | 84% | 0% | 16% | 495 | 518 | 84% |
Dreifbýli | 82% | 0% | 18% | 182 | 155 | 82% |
Áhugi á námi óg | ||||||
Áhugi á fjarnámi | 92% | 0% | 8% | 264 | 271 | 92% |
Áhugi á staðanámi | 78% | 0% | 22% | 71 | 68 | 78% |
Ekki áhugi á námi | 77% | 0% | 23% | 342 | 334 | 77% |
Atvinnugrein óg | ||||||
Menningu og skapandi greinum | 43% | 0% | 57% | 10 | 10 | 43% |
Heilbrigðisþjónustu | 88% | 0% | 12% | 34 | 40 | 88% |
Menntasviði | 90% | 0% | 10% | 90 | 94 | 90% |
Landbúnaði | 80% | 0% | 20% | 69 | 58 | 80% |
Verslun og þjónustu | 85% | 0% | 15% | 111 | 112 | 85% |
Iðnaði | 73% | 0% | 27% | 101 | 81 | 73% |
Sjávarútvegi og fiskvinnslu | 86% | 0% | 14% | 47 | 62 | 86% |
Ferðaþjónustu | 79% | 0% | 21% | 52 | 53 | 79% |
Opinberri þjónustu | 84% | 0% | 16% | 44 | 45 | 84% |
Annað | 90% | 0% | 10% | 9 | 11 | 90% |
Ekki á atvinnumarkaði | 95% | 0% | 5% | 54 | 54 | 95% |
Í námi | 84% | 0% | 16% | 49 | 47 | 84% |
Marktækur munur er á hópum: *p < 0,05; **p < 0,01; ***p < 0,001
óg merkir að gögnin uppfylltu ekki forsendur marktektarprófs.
Fjöldi fyrir vigtun | Fjöldi eftir vigtun | Hlutfall | Vikmörk +/- | Hlutfall | |
---|---|---|---|---|---|
Mjög sammála | 119 | 114 | 19% | 3,1% | 19% |
Frekar sammála | 267 | 261 | 43% | 3,9% | 43% |
Hvorki sammála né ósammála | 39 | 42 | 7% | 2,0% | 7% |
Frekar ósammála | 150 | 153 | 25% | 3,4% | 25% |
Mjög ósammála | 36 | 40 | 7% | 2,0% | 7% |
Fjöldi svara | 611 | 610 | 100% | ||
Veit ekki | 87 | 88 | |||
Vil ekki svara | 2 | 2 | |||
Alls | 700 | 700 |
Mjög eða frekar sammála | Hvorki sammála né ósammála | Mjög eða frekar ósammála | Fjöldi eftir vigtun | Fjöldi fyrir vigtun | Mjög eða frekar sammála | |
---|---|---|---|---|---|---|
Heild | 62% | 7% | 32% | 610 | 611 | 62% |
Kyn | ||||||
Karl | 58% | 8% | 34% | 313 | 280 | 58% |
Kona | 65% | 6% | 29% | 297 | 331 | 65% |
Aldur * | ||||||
20 ára og yngri | 75% | 5% | 20% | 54 | 66 | 75% |
21-30 ára | 53% | 12% | 35% | 188 | 144 | 53% |
31-40 ára | 62% | 6% | 32% | 141 | 129 | 62% |
41-50 ára | 67% | 3% | 29% | 145 | 185 | 67% |
Eldri en 50 ára | 62% | 3% | 35% | 82 | 87 | 62% |
Staður | ||||||
Austursvæði | 61% | 9% | 30% | 52 | 153 | 61% |
Vestursvæði | 61% | 7% | 32% | 401 | 271 | 61% |
Miðsvæði | 61% | 7% | 32% | 41 | 48 | 61% |
Vestmannaeyjar | 63% | 5% | 32% | 116 | 139 | 63% |
Búseta | ||||||
Þéttbýli | 61% | 8% | 31% | 451 | 472 | 61% |
Dreifbýli | 64% | 4% | 33% | 159 | 139 | 64% |
Áhugi á námi *** | ||||||
Áhugi á fjarnámi | 74% | 6% | 20% | 237 | 248 | 74% |
Áhugi á staðanámi | 55% | 13% | 32% | 70 | 67 | 55% |
Ekki áhugi á námi | 53% | 6% | 41% | 303 | 296 | 53% |
Atvinnugrein óg | ||||||
Menningu og skapandi greinum | 48% | 6% | 46% | 10 | 10 | 48% |
Heilbrigðisþjónustu | 48% | 16% | 36% | 30 | 35 | 48% |
Menntasviði | 70% | 3% | 27% | 84 | 88 | 70% |
Landbúnaði | 74% | 7% | 20% | 57 | 49 | 74% |
Verslun og þjónustu | 60% | 7% | 33% | 112 | 111 | 60% |
Iðnaði | 49% | 10% | 40% | 87 | 72 | 49% |
Sjávarútvegi og fiskvinnslu | 73% | 2% | 25% | 42 | 57 | 73% |
Ferðaþjónustu | 49% | 2% | 49% | 42 | 46 | 49% |
Opinberri þjónustu | 64% | 16% | 20% | 39 | 39 | 64% |
Annað | 91% | 3% | 6% | 8 | 10 | 91% |
Ekki á atvinnumarkaði | 80% | 1% | 19% | 47 | 46 | 80% |
Í námi | 44% | 11% | 45% | 44 | 43 | 44% |
Marktækur munur er á hópum: *p < 0,05; **p < 0,01; ***p < 0,001
óg merkir að gögnin uppfylltu ekki forsendur marktektarprófs.
Fjöldi fyrir vigtun | Fjöldi eftir vigtun | Hlutfall | Vikmörk +/- | Hlutfall | |
---|---|---|---|---|---|
Mjög sammála | 253 | 245 | 38% | 3,7% | 38% |
Frekar sammála | 344 | 347 | 53% | 3,8% | 53% |
Hvorki sammála né ósammála | 20 | 23 | 4% | 1,4% | 4% |
Frekar ósammála | 31 | 32 | 5% | 1,6% | 5% |
Mjög ósammála | 4 | 6 | 1% | 0,7% | 1% |
Fjöldi svara | 652 | 653 | 100% | ||
Veit ekki | 44 | 45 | |||
Vil ekki svara | 4 | 3 | |||
Alls | 700 | 701 |
Mjög eða frekar sammála | Hvorki sammála né ósammála | Mjög eða frekar ósammála | Fjöldi eftir vigtun | Fjöldi fyrir vigtun | Mjög eða frekar sammála | |
---|---|---|---|---|---|---|
Heild | 91% | 4% | 6% | 653 | 652 | 91% |
Kyn | ||||||
Karl | 90% | 3% | 8% | 339 | 303 | 90% |
Kona | 92% | 5% | 4% | 314 | 349 | 92% |
Aldur óg | ||||||
20 ára og yngri | 90% | 3% | 7% | 57 | 69 | 90% |
21-30 ára | 91% | 5% | 4% | 198 | 151 | 91% |
31-40 ára | 86% | 5% | 10% | 152 | 140 | 86% |
41-50 ára | 94% | 2% | 4% | 156 | 196 | 94% |
Eldri en 50 ára | 93% | 1% | 6% | 90 | 96 | 93% |
Staður óg | ||||||
Austursvæði | 92% | 3% | 5% | 55 | 163 | 92% |
Vestursvæði | 90% | 4% | 6% | 430 | 291 | 90% |
Miðsvæði | 91% | 6% | 4% | 46 | 53 | 91% |
Vestmannaeyjar | 93% | 0% | 6% | 121 | 145 | 93% |
Búseta | ||||||
Þéttbýli | 90% | 3% | 7% | 477 | 502 | 90% |
Dreifbýli | 92% | 4% | 3% | 176 | 150 | 92% |
Áhugi á námi óg | ||||||
Áhugi á fjarnámi | 92% | 4% | 4% | 257 | 268 | 92% |
Áhugi á staðanámi | 90% | 1% | 10% | 72 | 68 | 90% |
Ekki áhugi á námi | 90% | 4% | 6% | 324 | 316 | 90% |
Atvinnugrein óg | ||||||
Menningu og skapandi greinum | 83% | 0% | 17% | 10 | 10 | 83% |
Heilbrigðisþjónustu | 94% | 5% | 1% | 33 | 38 | 94% |
Menntasviði | 92% | 2% | 6% | 88 | 94 | 92% |
Landbúnaði | 96% | 2% | 2% | 68 | 56 | 96% |
Verslun og þjónustu | 94% | 0% | 6% | 112 | 113 | 94% |
Iðnaði | 90% | 4% | 6% | 96 | 79 | 90% |
Sjávarútvegi og fiskvinnslu | 95% | 1% | 3% | 44 | 59 | 95% |
Ferðaþjónustu | 76% | 8% | 15% | 46 | 49 | 76% |
Opinberri þjónustu | 81% | 15% | 4% | 41 | 43 | 81% |
Annað | 82% | 18% | 0% | 8 | 9 | 82% |
Ekki á atvinnumarkaði | 88% | 2% | 10% | 50 | 50 | 88% |
Í námi | 95% | 3% | 2% | 49 | 46 | 95% |
Marktækur munur er á hópum: *p < 0,05; **p < 0,01; ***p < 0,001
óg merkir að gögnin uppfylltu ekki forsendur marktektarprófs.
Þegar rýnt er í gögnin má sjá mikinn samhljóm á milli viðmælenda í rýnihópunum og í einstaklingsviðtölunum. Niðurstöður í könnuninni haldast einnig vel í hendur við aðrar niðurstöður þó þátttakendur í eigindlegum hluta verkefnisins hafi verið töluvert gagnrýnni en þátttakendur í viðhorfskönnuninni. Niðustöðurnar veita góða innsýn í upplifun af fjarnámi af svæðunum og hvernig það getur stutt við atvinnulífið á Suðurlandi.
Um viðhorf til fjarnáms. Niðurstöður sýna að viðhorf til fjarnáms er almennt jákvætt. Námið veitir fólki tækifæri til að mennta sig í heimabyggð og var því að mati viðmælenda mikilvægur þáttur í byggðastefnu svæðanna. Viðmælendur í rýnihópunum og einstaklingsviðtölunum voru sammála um að aukin háskólamenntun hafi góð áhrif á atvinnulífið og leiði af sér jákvæðar breytingar í samfélaginu. Þetta helst í hendur við viðhorf þátttakenda í viðhorfskönnuninni en mikill meirihluti var sammála því að aukin háskólamenntun fólks í þeirri heimabyggð skili sér í fjölbreyttara atvinnulífi. Áhugi fyrir fjarnámi virðist einnig töluverður en af þeim þátttakendum sem hafði áhuga á að stunda einhverskonar nám á næstu þrem árum hafði umtalsverður hópur áhuga á fjarnámi; um 27% höfðu áhuga á fjarnámi og 12% á fjar- eða staðnámi. Ennfremur, þegar þátttakendur í staðnámi voru spurðir af hverju þeir höfðu valið staðnám var algengasta ástæðan sú að fjarnám hafi ekki verið í boði.
Viðmælendur í rýnihópunum og einstaklingsviðtölunum töldu þó fábreytt námsúrval hafa haft töluverð áhrif á viðhorf til fjarnáms. Ungt fólk hafi t.a.m. ekki nýtt sér námskostina mikið hingað til og brýnt væri að úr því yrði bætt með auknu framboði af námsgreinum. Þegar rýnt er í viðhorf þátttakenda í könnuninni er það þó töluvert jákvæðara en meirihluti þátttakenda (63%) var mjög eða frekar sammála því að framboð af fjarnámi á háskólastigi væri nægjanlegt. Þó var að mati þátttakenda einnig töluvert svigrúm til umbóta þar sem nær allir (91%) voru mjög eða frekar sammála því að raunhæft væri að auka framboð á fjarnámi á háskólastigi.
Um reynslu af fjarnámi. Nær helmingur þátttakenda í viðhorfskönnuninni hafði einhvern tíman stundað fjarnám og af þeim sem stundar nú nám er um þriðjungur í fjarnámi. Almenn ánægja ríkti með fjarnámið. Þegar þátttakendur sem höfðu stundað fjarnám voru spurðir um reynslu sína taldi mikill meirihluti hana hafa verið mjög eða frekar jákvæða (82%). Þátttakendur voru spurðir um ástæður fyrir vali sínu á fjarnámi og algengasta ástæðan var sú að þeir höfðu ekki viljað flytja. Þetta er í miklu samræmi við eigindlegar niðurstöður þar sem viðmælendur lýstu því að fjarnámskosturinn hafi í gegnum tíðina mest verið nýttur af fólki sem búið var að koma sér vel fyrir og ætti því ekki heimangengt í staðnám, ýmist væri með lítil börn eða höfðu hugsað sér að sinna náminu meðfram vinnu. Viðmælendur bentu einnig á að konur hafi nýtt fjarnámskosti í meira mæli en karlar og niðurstöður könnunarinnar styðja þetta þar sem konur voru líklegri til að hafa stundað fjarnám en karlar (56% á móti 36%). Einnig virðast konur almennt hafa meiri áhuga á fjarnámi en karlar (44% á móti 33%).
Eins og fram hefur komið voru þátttakendur í eigindlegum hluta rannsóknarinnar gagnrýnni. Þeir ræddu um ýmislegt sem viðkemur skipulagi námsins sem mætti betur fara sem og kröfur til nemenda. Erfitt væri til að mynda fyrir marga fjarnemendur að verða við kröfu um viðveru og töldu viðmælendur reglur um staðlotur vera ósveigjanlegar. Staðlotur fælu oft í sér mikið ferðalag fyrir nemendur, erfitt væri fyrir marga að fara frá fjölskyldu og vinnu auk þess sem slíkar ferðir væru oft kostnaðarsamar. Einnig hefðu fjarnemendur ekki eins greiða leið og staðnemendur, að stuðningi og aðstoð, til að mynda í tengslum við tæknimál.
Huga þarf að námskostum fyrir ólíka aldurshópa. Í eigindlegum viðtölum og rýnihópum var rætt um námskosti fyrir ungt fólks sérstaklega. Viðmælendur ræddu m.a. um styttingu náms í framhaldsskólunum og áhrif þess á skólagöngu ungs fólks. Þar sem ungt fólk sæktist gjarnan eftir staðnámi í þéttbýli hefði stytting framhaldsnáms sú áhrif að ungt fólk færi fyrr að heiman. Ræddar voru hugmyndir um hvernig unnt væri að skapa námstækifæri í heimabyggð svo að ungt fólk fengi lengri tíma heima og í því samhengi rætt um ólíka fjarnámskosti. Þá kom upp sú hugmynd að nemendur fengju að taka eitt ár í grunnnámi í háskóla í gegnum fjarnám þar sem kennd væru kjarnafög sem mætti fá metin inn í ólíkar námsbrautir. Ef til vill væri unnt að kenna stærri hópum saman en að loknu námsárinu gætu nemendur fengið einingarnar metnar inn í nám í staðnámi að eigin vali. Ef vel væri að þessu staðið gæti ungt fólk verið lengur í sinni heimabyggð en jafnframt byrjað að safna einingum í fjarnámi fyrir háskólanám í staðnámi síðar meir.
Að mati viðmælenda er algengt að ungt fólk vilji flytja til höfuðborgarinnar eða á önnur þéttbýl svæði til að sækja háskólanám að loknu framhaldsskólanámi. Fjarnám hafi því í gegnum tíðina frekar verið nýtt af eldri íbúum sem ýmist eru komnir með fjölskyldur í heimabyggð eða störf sem þeir vilja sinna meðfram námi. Þetta er í takt við niðurstöður úr viðhorfskönnuninni en þar voru þátttakendur í yngsta aldurshópinum líklegastir til að hafa áhuga á að stunda háskólanám í staðnámi. Á móti voru þátttakendur á aldrinum 31 til 50 ára líklegri til að vilja stunda fjarnám.
Viðmælendur í rýnihópum og einstaklingsviðtölum lýstu því að auka þyrfti fjarnámskosti og miða þá betur við þessa tvo ólíku hópa, annars vegar ungt fólk sem nýverið hefur lokið framhaldsskóla og hins vegar fólk í atvinnu eða fjölskyldufólk. Ungt fólk stefni frekar á bóklegt grunnnám á ólíkum sviðum en eldra fólk sé frekar að leita eftir framhaldsnámi, diplóma námi eða hagnýtum námskostum sem veita starfsréttindi. Brýnt væri því að bjóða upp á fleiri greinar grunnáms í fjarnámi en jafnframt væri þörf á námskostum til að koma til móts við þá sem vilja bæta við sig þekkingu sem nýttist þeim beint í starfi. Fram komu hugmyndir um að boðið væri upp á námsleiðir sem væru styttri en hefðbundið nám, diplóma nám eða námskeið, svo sem á sviði rekstrarfræð, gæðastjórnunar, verkefnastjórnunar, ferlastjórnunar og starfsmannastjórnunar. Slíkt gæti nýst einstaklingum í eigin rekstri og styrkt þá í starfi.
Bjóða þarf upp á fjölbreyttari námskosti. Eins og fram hefur komið lögðu viðmælendur í eigindlegum viðtölum og rýnihópum mikla áherslu á að bjóða þyrfti upp á fjölbreyttari námskosti til að koma í auknum mæli til móts við ólíkar þarfir íbúa. Framboðið á námsgreinum hafi hingað til verið lítið og því væri brýnt að auka framboð á námskostum. Slíkt myndi, að mati viðmælenda, stuðla að auknu jafnræði til náms því margir hefðu ekki kost á að sækja sér menntun í annað byggðarlag. Aukið framboð myndi hafa góð áhrif á atvinnulífið og einnig stuðla að því að ungt fólk héldist lengur í heimabyggð. Að mati viðmælenda þyrfti að bjóða upp á flest, ef ekki allt, bóklegt nám á grunn- og framhaldsstigi, þar sem því verður komið við. Eins og áður hefur komið fram voru nær allir þátttakendur í viðhorfskönnuninni (91%) sammála því að raunhæft væri að auka framboð af fjarnámi á háskólastigi.
Viðmælendur ræddu um yfirvofandi skort á faglærðu starfsfólki á ýmsum sviðum samfélagsins vegna lítillar nýliðunar undanfarin ár, svo sem meðal kennara og hjúkrunarfræðinga. Þrátt fyrir að kennslufræði og hjúkrunarfræði hafi verið kennd í fjarnámi í gegnum tíðina væri ein helsta áskorunin hjá sveitarfélögunum að manna stöður í skólakerfinu og heilbrigðisgeiranum. Af þeim sökum væri brýnt að auka framboð af fjarnámi á þessum sviðum og var sérstaklega kallað eftir auknu námsframboði innan heilbrigðisvísinda. Þetta er í miklu samræmi við niðurstöður könnunarinnar en þegar þátttakendur voru spurðir um hvort skortur væri á háskólamenntuðu fólki í einhverjum atvinnuvegum í heimabyggð þeirra taldi um þriðjungur vanta fólk á menntasviði og fimmtungur að það vantaði háskólamenntað fólk innan heilbrigðisþjónustu.
Viðmælendur í eigindlegum viðtölum og rýnihópum töldu almennt vera þörf fyrir starfsfólk með ólíka sérfræðikunnáttu og menntun. Í þessu samhengi voru nefndar greinar eins og arkitektúr, tölvunarfræði, grafísk hönnun, markaðsfræði og verkfræði. Viðmælendur töldu einnig þörf á námskostum sem styddu við einstaklinga sem væru í rekstri lítilla og meðalstórra fyrirtækja, svo sem í mannauðsstjórnun, verkefnastjórnun og markaðsfræði. Vegna mikilla umsvifa innan ferðaþjónustunnar, séu einstaklingar í auknum mæli með sinn eigin rekstur og því væri mikil þörf á hagnýtum stuttum námskeiðum og endurmenntunarleiðum til að styðja við fólk í þessari stöðu.
Viðmælendur lýstu almennum skorti á hagnýtu starfsnámi og iðnnámi ýmiskonar. Þörf væri fyrir framleiðslumenntun og menntun á sviði matreiðslu og þjónustu. Á svæðinu væri skortur á iðnmenntuðu starfsfólki og því væri brýnt að auka aðgengi að námi í ólíkum fögum eins og kjötiðn, hágreiðslu, mjólkuriðn, kokkanámi og hótelstjórnun. Ennfremur þyrfti að fjölga tækifærum fyrir einstaklinga með iðnmenntun til að sækja áframhaldandi nám og meistararéttindi.
Þegar rýnt er í niðurstöður viðhorfskönnunarinnar má sjá að 27% þeirra sem hefur áhuga á að stunda einhverskonar skólanám á næstu þrem árum hefur áhuga á greinum innan félagsvísinda og 24% á verk- og náttúruvisindasviði. Konur höfðu umtalsvert meiri áhuga á námi á heilbrigðisvísindasviði en karlar (21% á móti 6%). Karlar höfðu hins vegar mestan áhuga á námi af verk- og náttúruvísindasviði, eða 45% þeirra á móti 6% kvenna. Færri lýstu áhuga á iðnnámi, framhalds- eða starfsnámi (6%) og námi á sviði landbúnaðar (3%) en í viðauka má finna ítarlegri upplýsingar um áhuga þátttakenda á námi eftir búsetu þeirra.
Þátttakendur voru spurðir hvort þeir teldu skort vera á háskólamenntuðu fólki í einhverjum atvinnuvegum í sinni heimabyggð og eins og fram hefur komið voru algengustu sviðin heilbrigðisþjónusta og menntasvið. Um 15% þátttakenda taldi skort á háskólamenntun á sviði ferðaþjónustu en þegar kom að hagnýtari greinum og iðnnámi voru niðurstöður ekki eins afgerandi. Af þeim sem töldu skort vera á háskólamenntun í heimabyggð sinni töldu 10% skort vera á háskólamenntuðu fólki í iðnaði, 10% í opinberri þjónustu, 6% í verslun og þjónustu og 6% í sjávarútvegi.
Finna þarf leiðir til að meta menntun og starfsréttindi erlendra starfsmanna. Viðmælendur í rýnihópunum töldu mikilvægt að menntun og starfsréttindi starfsfólks af erlendum uppruna sem búsett er á svæðunum væru metin. Algengt væri að starfsfólk af erlendum uppruna hefði menntun, reynslu og starfsréttindi sem væri vannýtt og ekki metin hérlendis. Brýnt væri að leiðir yrðu fundnar til að styðja fólk í þessari stöðu og bjóða upp á leiðir fyrir fólk til að fá íslensk starfsréttindi í sínu fagi og menntun sína metna. Ekki síður væri mikilvægt að auka aðgengi að íslenskunámi þar sem góð þekking tungumálinu væri oft forsenda fyrir því að fólk aðlagaðist og næði að tengjast inn í samfélögin og líða vel.
Endurskoða þarf fyrirkomulag fjarnáms. Viðmælendur í rýnihópum og einstaklingsviðtölum töldu að endurskoða þurfi fyrirkomulag fjarnáms og koma betur til móts við þarfir fjarnemenda. Margir voru gagnrýnir í garð staðlotufyrirkomulags fjarnáms og töldu að með því að fækka staðlotum eða fella þær niður yrði námið mun aðgengilegra. Í því skyni mætti jafnvel nýta námsverin í auknum mæli til að koma í staðinn fyrir verkefnavinnu í staðlotum. Núverandi fyrirkomulag staðlota ylli jafnvel því að fjarnemendur flosnuðu uppúr námi og hættu. Viðmælendur töldu Háskóla Íslands ekki sinna fjarnámi nægilega vel og töldu þjónustuna vera af of skornum skammti. Þátttakendur voru ekki allir á sama máli hvernig fyrirkomulag náms væri best en voru þó sammála um að sveigjanleiki skipti máli. Meðal þátttakenda í rýnihópunum voru þó nokkrir sem töldu fjarnám eiga að gefa nemendum kost á að sinna náminu þegar þeim hentar, því væri brýnt að nemendur hefðu aðgengi að námsefni þannig að þeir gætu fundið tíma sem vel hentar fyrir námið.
Þegar rýnt er í niðurstöður viðhorfskönnunar sést hins vegar að tæpur helmingur þátttakenda sem hefur áhuga á að leggja stund á fjarnám er tilbúinn að sækja staðlotur til höfuðborgarinnar. Tæpur þriðjungur er eingöngu tilbúinn til að sækja staðlotur sem yrðu í nágrenninu eða á Suðurlandi. Ósamræmi í svörum þátttakenda í viðhorfskönnuninni annars vegar og viðmælendum í rýnihópunum og einstaklingsviðtölum hins vegar skýrist líklegast af því að þarna er um ólíka hópa að ræða sem hafa mismikla þekkingu á staðlotum. Viðmælendur í eigindlegum viðtölum lýstu því að oft átti fólk sig ekki á því hvað felist í fyrirkomulagi staðlota þegar þeir skrá sig til náms. Í sumum tilvikum hafi ósveigjanlegt fyrirkomulag staðlota leitt til brottfalls nemenda úr námi.
Ljóst er að endurskoða þarf uppbyggingu fjarnáms og fyrirkomulag. Viðmælendur í eigindlegum viðtölum bentu á að innan fræðslu- og símenntunarstöðva og framhaldsskóla sé mikil þekking og reynsla. Eflaust væri farsælt ef háskólar ynnu í auknum mæli með slíkum aðilum við þróun fjarnáms.
Auka þarf aðgengi að upplýsingum um fjarnámskosti. Viðmælendur í rýnihópum og viðtölum töldu að auka mætti sýnileika fjarnámsins og bæta upplýsingar um fjarnám, svo sem um úrval greina í og fyrirkomulag námsins. Bent var á að konur væru almennt betri í að kynna sér fjarnámskosti, væru óhræddari við að spyrja og afla sér upplýsinga. Hvetja mætti sérfræðinga í menntamálum, atvinnurekendur og aðra aðila til að taka þátt í að kynna fjarnámsmöguleika betur fyrir ólíkum hópum svo sem starfsfólki af erlendum uppruna og ungu fólki sem nýverið hefur lokið framhaldsskólamenntun.
Almenn ánægja með námsver. Þátttakendur voru almennt jákvæðir í garð námsvera. Eigindlegir viðmælendur töldu húsnæðið gott og þjónustan skipta miklu máli fyrir fjarnemendur. Slík námsver stuðli að samstarfi nemenda og „námssamfélags“ sem sé mikilvægur þáttur í háskólanámi. Fram komu hugmyndir um að nýta námsverin með betri hætti og að jafnvel mætti nýta þau til kennslu í stað staðlota. Aðstæður voru þó mismunandi milli sveitarfélaga og var talið að sum námsverin væru ekki nýtt sem skyldi. Tillögur að leiðum til að bæta námsverin voru m.a. að hafa starfsmann á svæðinu, auka aðgengi að tæknilegum stuðningi og stuðla að bættu aðgengi. Viðmælendur töldu mikilvægt að námsverunum væri haldið á lofti og að nemendur fengju upplýsingar um þjónustuna sem þangað mætti sækja. Þegar niðurstöður viðhorfskönnunarinnar eru svo skoðaðar má sjá að rúmur fjórðungur þeirra sem hafði verið í fjarnámi hafði sótt í námsverin. Fjarnemar á austursvæði Suðurlands voru mun líklegri til að hafa nýtt sér námsver en fjarnemar af öðrum svæðum (46% á móti 21-35%). Þátttakendur sem ekki höfðu nýtt sér námsverin í fjarnámi sínu voru beðnir um að svara af hverju. Algengasta ástæðan var sú að nemendur töldu sig ekki hafa þurft á námsverinu að halda (42%) en aðrar algengar ástæður voru að nemendur höfðu ekki vitað af námsverinu (14%) og að nemendur hafi ekki haft tíma til að nýta sér þau (13%). Þegar niðurstöður eru skoðaðar eftir bakgrunni sést að hlutfallslega fleiri fjarnemar á vestursvæði Suðurlands höfðu ekki vitað af námsverinu en fjarnemar af öðrum svæðum, en munurinn var þó ekki tölfræðilega marktækur. Ljóst er af þessu að standa mætti betur að kynningarmálum á aðstöðu fjarnema.
Mikilvægt er að koma til móts við breytt samfélag og breyttan tíðaranda. Viðmælendur í eigindlegum viðtölum og rýnihópi ræddu töluvert um þær miklu breytingar sem orðið hafa í atvinnulífinu á svæðinu. Vegna þess hversu hratt atvinnumarkaðurinn hafi þróast hafi íbúar átt í fullu fangi með að takast á við breytingarnar. Á sama tíma og mikil áhersla sé lögð á aukna nýsköpun til að koma til móts við mikla eftirspurn á svæðunum sé brýnt að sjá til þess að innviðir samfélaga og mikilvæg þjónusta sitji ekki eftir. Viðmælendur töldu að þrátt fyrir að atvinnuleysi væri lítið nú væri líklegt að staðan breyttist með tímanum. Slíkar breytingar gætu leitt til þess að staða einstaklinga með litla menntun versni. Brýnt sé að standa vel að fjarnáminu og auka aðgengi íbúa á Suðurlandi að námi því það skipti miklu fyrir samfélagið í heild.
Aurini, J.D., Health, M. og Howells, S. (2016). The how to of qualitative research. London: Sage Publications.
Braun, V., og Clarke, V. (2006). Using thematic analysis in psychology Using thematic analysis in psychology. Qualitative Research in Psychology, 3(2), 77–101.
Elo, S., og Kyngäs, H. (2008). The qualitative content analysis process. Journal of advanced nursing, 62(1), 107-115.
Kvale, S. (1996). Interviews: An introduction to qualitative research interviews. Thousand Oaks, CA: Sage.
Vaismoradi, M., Turunen, H. og Bondas, T. (2013). Content analysis and thematic analysis: Implications for conducting a qualitative descriptive study. Nursing & health sciences, 15(3), 398-405.
Rýnihópaviðtöl við atvinnurekendur á Suðurlandi
Umræðurammi
Þemu | Útkoma |
---|---|
Félagsvísindastofnun sér um framkvæmd þessarar rannsóknar að beiðni Stofnunnar rannsóknarsetra Háskóla Íslands, Háskólafélags Suðurlands og Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga. | |
Rannsókn þessi fjallar um mat á þörf fyrir fjarnám á háskólastigi. | |
Þá erum við sérstaklega að skoða hvaða greinar það væru sem helst sé þörf á og hvernig sú menntun myndi nýtast einstaklingum og atvinnulífi á Suðurlandi. | |
Þessar umræður eru hugsaðar sem opið spjall þar sem við hvetjum þátttakendur til að segja frá öllu því sem viðkemur málefninu. Umræðurnar eru hljóðritaðar og ættu að taka um 60 mínútur. | |
a. Hvaða atvinnugreinar/fræðasvið erum við að dekka | |
Þessi rannsókn felur einnig í sér spurningalistakönnun með 1200 manna tilviljunarúrtaki af Suðurlandi og svo símaviðtöl við forsvarsmenn rannsóknarsetra og fræðslumiðstöðva. | b. Eru starfsmenn almennt “heimafólk” |
a. Menning og skapandi greinar | |
Áður en við byrjum er rétt að nefna að þátttakendum er frjálst að svara öllum spurningum og geta hætt þátttöku á hvaða tímapunkti sem er. Svörin verða ekki persónurekjanleg í úrvinnslu eða við birtingu niðurstaðna. | b. Ferðamálafræði/ferðaþjónusta |
c. Landbúnaður | |
Það eru engin röng eða rétt svör og við erum ekki að fara fjalla um þekkingu eða staðreyndir. | d. Viðskiptafræði, t.d. bókhald, stjórnun eða starfsmannamál |
Þess ber einnig að geta að ég er ekki sérfræðingur um málefnið og mun gæta hlutleysis í umræðunni. | e. Heilbrigðissvið, t.d. hjúkrun |
f. Sjávarútvegur | |
Þá vil ég biðja ykkur um að halda trúnaði um það sem hér fer fram, að við förum ekki lengra með það sem rætt verður. | g. Matvælaiðnaður |
h. Menntasvið | |
Bakgrunnsupplýsingar | i. Raungreinar, lífvísindi |
· Mætti ég biðja ykkur um að kynna ykkur með nafni og segja hver staða ykkar er og hvar þið vinnið | j. annað |
· Staða, atvinna/stofnun, starfsaldur | Þetta eru þær greinar sem líklegast er að minnst verði á. |
· Hvaða atvinnugrein tilheyra vinnustaðir ykkar | |
Almennt um stofnun | Hver er þörf fyrir háskólamenntaða í þessum greinum og væri fólk líklegra til að ná sér í háskólamenntun ef boðið væri upp á fjarnám. |
· Hvaðan koma starfsmenn fyrirtækisins/vinnustaðarins? | |
Viðhorf til atvinnutækifæra | a. Hvaða nám er í boði að mati þátttakanda |
· Hvaða atvinnugreinar einkenna atvinnulífið á svæðinu? | b. Hvert leita þeir sem vilja fara í háskólanám |
· Er gott atvinnuframboð almennt? | c. Hvernig er námsframboð |
d. (hver) er þörf fyrir háskólanám í fjarnámi og í hvaða greinum | |
· Ef við hugsum um þessar greinar - | e. Hver eru viðhorf til fjarnáms |
· Hvernig eru atvinnutækifæri fyrir háskólamenntaða í þessum greinum? | |
· Er mettun/skortur á háskólamenntuðu starfsfólki á atvinnumarkaði? | |
o Er orðsporið gott eða slæmt? (Af hverju) | |
· En þegar kemur að nýsköpun, frumkvöðlastarfsemi eða eigin rekstri? | |
Viðhorf til náms | |
o Er það nám sem boðið er upp á staðnám eða fjarnám? | |
· Þekkið þið til þeirra möguleika sem í boði eru fyrir byggðarlagið að sækja háskólanám í fjarnámi? Ef já - Þekkið þið í hvaða greinum er boðið upp á nám | |
· Hvernig finnst ykkur námsframboð í byggðarlaginu á háskólastigi? | Möguleiki til að ræða annað sem ekki var farið yfir |
o Teljið þið vera þörf fyrir fjölbreyttara námsframboð (hvaða greinar þá helst) | Þá er þessu lokið hjá okkur og við hjá Félagsvísindastofnun viljum þakka ykkur innilega fyrir þátttöku ykkar og tíma. |
o Er eftirspurn mætt? | |
o Er munur á áhuga og eftirspurn til náms eftir hópum - aldri - kyni - atvinnugeira. | |
o Hvernig eru viðhorf fólks sem býr hér á svæðinu til fjarnáms á háskólastigi? | |
· Hvert leita þeir sem vilja fara í háskólanám sem eru búsettir hér í byggðarlaginu? | |
· Myndi það breyta einhverju fyrir fólk héðan ef það hefði kost á að sækja háskólanám í fjarnámi? | |
o hverju myndi það breyta? | |
Framtíðarsýn | |
Ef við horfum 5 ár fram í tímann: | |
· Hvaða námi (á háskólastigi) teljið þið brýnast að koma á fót/þróa með tilliti til eftirspurnar og áhuga á svæðinu? | |
· En ef við lítum sérstaklega til fjarnáms? Eftir hvaða háskólanámi er mest eftirspurn… áhugi… þörf? | |
· Hvaða önnur svæði í grenndinni/á Suðurlandi þyrfti að efla sérstaklega með tilliti til námsframboðs á háskólastigi | |
· Hvaða þörfum á atvinnumarkaði þyrfti mögulega að svara? (Verða breyttar áherslur á þessu tímabili?) | |
Samantekt | |
· Er eitthvað fleira sem þið vilji nefna eða bæta við um það sem rætt hefur verið hér í dag? | |
Þá er þessu lokið hjá okkur og við hjá Félagsvísindastofnun viljum þakka ykkur innilega fyrir þátttöku ykkar og tíma. |
Símaviðtöl við forsvarsmenn rannsóknasetra, fræðslumiðstöðva og fulltrúa símenntunarmiðstöðva á Suðurlandi
Viðtalsrammi
Þemu | Útkoma |
---|---|
Félagsvísindastofnun sér um framkvæmd þessarar rannsóknar að beiðni Háskóla Íslands, Háskólafélags Suðurlands og Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga. | |
Stofnunnar rannsóknarsetra Háskóla Íslands, | |
Rannsókn þessi fjallar um mat á þörf fyrir fjarnám á háskólastigi. | |
Þá erum við sérstaklega að skoða hvaða greinar það væru sem helst sé þörf á og hvernig sú menntun myndi nýtast einstaklingum og atvinnulífi á Suðurlandi. | |
Þessi rannsókn felur einnig í sér spurningalistakönnun með 1200 manna tilviljunarúrtaki af Suðurlandi og svo rýnihópaumræður meðal atvinnurekenda. | |
a. Félags- og mannvísindasvið | |
Áður en við byrjum er rétt að nefna að þátttakendum er frjálst að svara öllum spurningum og geta hætt þátttöku á hvaða tímapunkti sem er. Svörin verða ekki persónurekjanleg í úrvinnslu eða við birtingu niðurstaðna. | b. Heilbrigðisvísindasvið |
c. Hugvísindasvið | |
Það eru engin röng eða rétt svör og við erum ekki að fara fjalla um þekkingu eða staðreyndir. | d. Menntavísindasvið |
Þess ber einnig að geta að ég er ekki sérfræðingur um málefnið og mun gæta hlutleysis í umræðunni. | e. Verkfræði- og náttúruvísindasvið |
f. Annað fræðasvið | |
Viðtalið inniheldur fimm megin þemu sem við förum yfir en uppsetning viðtalsins er hugsuð sem opið spjall í kringum þessar spurningar þar sem velkomið er að ræða um allt sem viðkemur þessum spurningum. Viðtalið er hljóðritað og tekur um 30 mínútur. | |
stúdent/verkgreinar/iðngreinar | |
Segja dagsetningu, tíma og einkenni viðfangs. | |
Bakgrunnsupplýsingar | |
· Stofnun | |
· Staða | |
· Starfsaldur | |
Almennt um stofnun | |
· Ef stofnun: | |
o Stutt um hlutverk stofnunnar | Hvaða breytingar þá helst? |
§ Hvaða þjónustu býður stofnunin uppá (hvaða námsleiðir og á hvaða stigi) | |
§ Hvaða hópa þjónustar stofnunin | |
· Ef skóli: | |
o Hvaða námsleiðir eru í boði | |
o Hvaða byggðarlagi sinnir stofnunin einna helst | |
o Fjöldi nema / umsvif / nemendavelta | |
o Staðarnám / fjarnám (á hvaða námsstigi) | a. Menning og skapandi greinar |
Aðstæður til fjarnáms nú | b. Ferðamálafræði/ferðaþjónusta |
· Ef stofnunin kemur að fjarnámi þá: | c. Landbúnaði |
o Getur þú lýst fyrir mig aðstæðum fjarnámsnemenda með tilliti til stuðnings og uppbyggingu náms. | d. Viðskiptafræði, t.d. bókhald, stjórnun eða starfsmannamál |
o Er boðið upp á húsnæði eins og námsver | e. Heilbrigðissviði, t.d. hjúkrun |
o Hver er stuðningur kennara | f. Sjávarútvegi |
o Byggir námið á samstarfi milli nemenda | g. Matvælaiðnaði |
o Hvernig er uppbyggingu náms háttað, með tilliti til staðarlota og fjarnámskennslu | h. Á menntasviði |
o Útbúnaður í kennslu | i. Verk og tæknifræði |
o Er löngun til eða áætlanir um að breyta aðstæðum til fjarnáms á næstu misserum? | j. Raunvísindi/lífvísindi |
EF EKKI | |
· Þekkir þú til þeirra fjarnámsmöguleika á háskólastigi sem eru í boði í þínu byggðarlagi nú? | |
Hvernig eru þeir námsmöguleikar nýttir/sóttir sem í boði eru nú þegar | |
· Þekkir þú til aðbúnaðs fjarnámsnema? | |
· Telur þú að aðbúnaður fjarnámsnemenda sé nægjanlegur eða er úrbóta þörf? | |
o Hvað þá helst? | |
Viðhorf til atvinnutækifæra | |
· Hvaða atvinnugreinar einkenna atvinnulífið í þínu byggðarlagi? | Fá lýsingu á mismunandi þörfum milli hópa /atvinnugeira |
· Telur þú að það sé skortur á atvinnuframboði eða atvinnumöguleikum fyrir aðila eftir fjarnám á háskólastigi? | |
· Er mettun/skortur á háskólamenntuðu starfsfólki á atvinnumarkaði | |
Viðhorf og eftirspurn til náms | |
Er ímynd fjarnáms góð/slæm? | |
· Telur þú að það sé nægjanlegt framboð á fjarnámi á háskólastigi nú (annar núverandi framboð eftirspurn)? | Af hverju? |
· Telur þú að það sé áhugi eða eftirspurn eftir fjölbreyttara námsframboði í fjarnámi á Háskólastigi í þínu byggðarlagi? | |
o Er munur á þörfum milli aldurshópa eða kyns? | |
o Er munur á áhuga innan mismunandi atvinnugeira? | Getur fjarnám á háskólastigi mætt þessum þörfum? |
· Hver er ímynd fjarnáms á háskólastigi í þínu byggðarlagi að þínu mati? | |
o Af hverju stafar það einna helst? | Ef það er skortur á atvinnutækifærum hvað þarf að efla eða breyta til að koma til móts við það (nýsköpun, frumkvöðlastarfsemi, eigin rekstri) |
Framtíðarsýn | |
Ef við horfum 5 ár fram í tímann: | Ef það er skortur á háskólamenntuðu starfsfólki hvernig væri hægt að bregðast við því í þínu byggðarlagi |
· Hvaða þörfum á atvinnumarkaði þyrfti mögulega að svara í þínu byggðarlagi? | |
o Er skortur á atvinnu innan ákveðins atvinnugeira, þarf að efla nýsköpun | |
o Eru nýjar áherslur á vinnumarkaði sem kalla á aukna háskólamenntun sem ganglegt væri að bjóða í fjarnámi | |
· Hvaða námsframboð telur þú að ætti að þróa með tilliti til eftirspurnar og áhuga á svæðinu | |
o Þarf fjölbreyttara framboð á fjarnámi á háskólastigi og/eða bættari aðstöðu, aðbúnað? | |
· Hvaða önnur byggðalög á suðurlandi þyrfti að efla sérstaklega með tilliti til fjarnáms á háskólastigi | |
Samantekt | |
· Er eitthvað fleira sem þú vilt nefna eða bæta við? | Möguleiki til að ræða annað sem ekki var farið yfir |
Þá er þessu lokið hjá okkur og við hjá Félagsvísindastofnun viljum þakka þér innilega fyrir þátttöku þína og tíma þinn. |
Símakönnun - spurningalisti
Áhugi á námsleiðum eftir búsetusvæðum
.