Tólf nýsköpunarteymi frá öllum landshlutum taka nú þátt í viðskiptahraðlinum Startup Landið, sem formlega hófst 18. september.
Þetta er í fyrsta sinn sem landshlutasamtök utan höfuðborgarsvæðisins sameinast um að reka sameiginlegan hraðal til að efla nýsköpun og styðja frumkvöðla á landsbyggðinni.
Startup Landið er sjö vikna viðskiptahraðall sem fer að mestu fram á netinu. Dagskráin er sniðin að þörfum þátttakenda og nær yfir vinnustofur, fræðslufundi og leiðsögn frá reynslumiklum frumkvöðlum, stjórnendum og sérfræðingum úr atvinnulífinu. Markmiðið er að styrkja nýsköpunarverkefni á fyrstu stigum og undirbúa þau fyrir frekari þróun og fjármögnun.
Af tólf teymum hraðalsins eiga Sunnlendingar tvo fulltrúa:
Hundaveisla, sem Unnur Hagalín og Særún Eva Hjaltadóttir standa að, vinnur að þróun hrárrar og næringarríkrar hundafóðurlínu unnar úr lífrænum úrgangi sláturhúsa.
Festivus, sem Andrés Bragason og Auður Mikaelsdóttir stofnuðu, stefnir að framleiðslu hornfirsku gæða súkkulaði og þróun ævintýralegs áfangastaðar fyrir ferðamenn og súkkulaðiunnendur.

Háskólafélag Suðurlands annast verkefnastjórnun og skipulag hraðalsins fyrir hönd Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga (SASS). Félagið sá einnig um undirbúning og framkvæmd vinnustofu hraðalsins sem haldin var í Hveragerði í lok september.
Á vinnustofunni unnu nýsköpunarteymin dýpra með viðskiptahugmyndir sínar og æfðu sig í að koma þeim á framfæri á skýran og markvissan hátt, sem hluti af undirbúningi fyrir lokakynningu hraðalsins sem fer fram á Akureyri 30. október.
Þátttakendur fengu jafnframt tækifæri til að hitta reynda frumkvöðla úr atvinnulífinu á Suðurlandi. Þar deildu Laufey hjá Ölverk og Fjóla hjá Live Food reynslu sinni af því að þróa hugmyndir sínar yfir í starfandi fyrirtæki. Þær sögðu frá lærdómi sínum, áskorunum og tækifærum á vegferðinni frá hugmynd til framkvæmdar, og veittu teymunum dýrmæta innsýn og hvatningu.

Með þátttöku í hraðlinum eykst sýnileiki Suðurlands í nýsköpunarumhverfi landsins. Verkefnið skapar ný tækifæri til samstarfs, fjármögnunar og vaxtar fyrir frumkvöðla á svæðinu, auk þess sem það styrkir tengslanet milli nýsköpunaraðila á Suðurlandi og annarra landshluta.
Startup Landið er því mikilvægt skref í átt að markvissari og sjálfbærri uppbyggingu nýsköpunar á landsbyggðinni – þar sem Suðurland gegnir nú virku og sýnilegu hlutverki.

