Háskólafélag Suðurlands og Iceban – samtök íslenskra englafjárfesta-, hafa formlega hafið samstarf með það að markmiði að efla samfélag englafjárfesta á Suðurlandi.
Samstarfið snýst um það að og skapa ný og aukin tækifæri til fjárfestinga í sunnlenskri nýsköpun og er það mikilvægt skref í uppbyggingu öflugs nýsköpunarumhverfis þar sem tengingar milli frumkvöðla og fjárfesta eru styrktar með markvissum hætti.
Háskólafélag Suðurlands hefur um árabil unnið að því að styðja við menntun, rannsóknir og nýsköpun á svæðinu og tengja saman atvinnulíf og fræðasamfélag. Með samstarfinu við Iceban, sem er öflugt tengslanet englafjárfesta á landsvísu, skapast nýir möguleikar til að færa fjármagn, reynslu og tengsl beint að frumkvöðlum á Suðurlandi.
Hvað eru englafjárfestar?
Englafjárfestingar snúast um að einstaklingar, svokallaðir englafjárfestar, leggja eigið fjármagn í fyrirtæki og nýsköpunarverkefni á frumstigi, oft á sama tíma og þau eru að móta vöru, þjónustu eða viðskiptamódel. Auk fjármagns koma englafjárfestar gjarnan með dýrmæta reynslu, þekkingu og tengslanet sem getur skipt sköpum fyrir vöxt og þróun fyrirtækjanna, á sama tíma og þeir taka þátt í áhættu og mögulegum ávinningi verkefnanna.
Háskólafélag Suðurlands og Iceban hlutu styrk úr Örvari, sjóði á vegum menningar- nýsköpunar- og háskólaráðuneytisins, sem veittur er til verkefna og viðburða sem heyra undir áherslur ráðuneytisins.
Styrkurinn mun nýtast til þess að fræða áhugasama fjárfesta um möguleika englafjárfestinga og til þess að þjálfa upp eigendur nýsköpunarhugmynda til að kynna verkefnin sín fyrir þessum hópi englafjárfesta, á lokuðum viðburði á Sviðinu á Selfossi þann 26. Mars næstkomandi.
Með þessu framtaki er stigið mikilvægt skref í átt að því að jafna aðgengi nýsköpunarverkefna að fjármagni, óháð staðsetningu, og styrkja þannig Suðurland sem samkeppnishæfan og spennandi vettvang fyrir frumkvöðlastarfsemi og fjárfestingar.
Hefur þú áhuga á að kynna þér málið betur?
Rafrænn kynningarfundur um englafjárfestinar verður haldinn 12. febrúar kl 11:00 og er skráning á hann hér Rafrænn kynningarfundur
Frumkvöðlar og fyrirtæki í leit að fjármögnun er bent á viðburð á vegum landshlutasamtakanna þann 3. febrúar um fjármögnun sportafyrirtækja sem finnst HÉR
Í kjölfarið er ykkur bent á að fylgjast með umsóknarfresti til að kynna á viðburðinum okkar á Sviðinu í lok Mars.

