Vísinda- og rannsóknarsjóður Suðurlands auglýsir eftir umsóknum um náms- og rannsóknarstyrk fyrir árið 2018. Styrkurinn nemur 1.500.000 kr.
Styrkurinn er ætlaður námsfólki sem vinnur að rannsóknarverkefni til lokaprófs á háskólastigi. Verkefnið skal tengjast Suðurlandi og þjóna ótvíræðum atvinnu- og/eða fræðilegum tilgangi fyrir Suðurland eða hluta Suðurlands.
Styrkumsóknir sendist til eyjolfur@fraedslunet.is eða sigurdur@hfsu.is Umsóknarfrestur er til 10. nóvember næstkomandi.
R E G L U R
um
Vísinda- og rannsóknarsjóð Suðurlands
_________________________________
1. gr. Heiti og varnarþing
Sjóðurinn heitir Vísinda- og rannsóknarsjóður Suðurlands og starfar með því skipulagi og markmiði, sem segir í reglum þessum. Heimili sjóðsins og varnarþing er á Selfossi.
Til sjóðsins er stofnað á vegum Fræðslunets Suðurlands ses. en frá og með 2010 er Háskólafélag Suðurlands ehf. einnig aðili að sjóðnum.
2. gr. Markmið vísinda- og rannsóknarsjóðsins
Markmið Vísinda- og rannsóknarsjóðsins er að styrkja stúdenta, sem eru að vinna að lokaprófsverkefni, til rannsóknarstarfa á Suðurlandi í samræmi við markmið skipulagsskrár Fræðslunets Suðurlands og samþykktir Háskólafélags Suðurlands.
3. gr. Stjórn sjóðsins
Stjórn sjóðsins skal skipuð fimm mönnum og fjórum til vara. Stjórn Fræðslunets Suðurlands skipar þrjá og tvo til vara, en stjórn Háskólafélags Suðurlands skipar tvo aðalmenn í stjórnina og tvo til vara.
4. gr. Tekjur og gjöld vísinda- og rannsóknarsjóðsins
Tekjur vísindasjóðsins byggja á frjálsum framlögum styrktaraðila sjóðsins. Leitað skal eftir a.m.k. 5 ára skriflegum samningi við hvern styrktaraðila þar sem framlög þeirra verða skilgreind. Skrá yfir styrktaraðila sjóðsins og framlög skulu fylgja ársreikningi Fræðslunets Suðurlands.
Reikningsár sjóðsins skal vera almanaksárið. Sjóðurinn færist með sérstökum bókhaldslykli í bókhaldi Fræðslunets Suðurlands og skulu tekjur og gjöld sjóðsins vera skýrlega aðgreindir frá öðrum rekstri Fræðslunetsins. Fræðslunet Suðurlands skal sjá um bókhald sjóðsins og önnur störf sem nauðsynleg eru til að tryggja starfrækslu sjóðsins og skal kostnaður sem fylgir umsýslu sjóðsins greiðast úr sjóðnum.
Komi til þess að sjóðurinn verði af einhverjum ástæðum lagður niður skal hann renna til Fræðslunets Suðurlands eins og hann er á þeim tíma.
5. gr. Umsóknir um styrki
Umsókn um styrkveitingu skal auglýst í fjölmiðlum og á heimasíðum Fræðslunets Suðurlands og Háskólafélags Suðurlands fyrir septemberlok ár hvert. Niðurstöður styrkveitinga skulu liggja fyrir eigi síðar en 15. desember ár hvert.
Með umsókn skal umsækjandi leggja fram ítarlega verklýsingu og verkáætlun um hvenær verk hefst og hvenær verki lýkur. Einnig skal umsækjandi gera glögga grein fyrir mikilvægi verkefnisins fyrir Suðurland og með hvaða hætti niðurstöður þess kunna að gagnast Sunnlendingum. Stjórn er heimilt að leita álits sérfræðinga áður en hún tekur ákvörðun um styrkveitingu.
6. gr. Úthlutunarreglur
Skilyrði fyrir styrkveitingu skulu vera eftirfarandi:
1) Rannsóknarverkefnið skal vera lokaverkefni til BA/BS eða sambærilegrar eða hærri gráðu. Við mat á styrkhæfni verkefnis skal tekið tillit til þeirrar prófgráðu sem stefnt er að með rannsóknarverkefninu. Verkefni sem er lokið þegar umsóknarfrestur rennur út, telst ekki styrkhæft. Stjórn sjóðsins áskilur sér rétt til að leita eftir vottorði umsjónarmanns um að verkefni sé ekki lokið.
2) Rannsóknarverkefni verður að tengjast Suðurlandi með ótvíræðum hætti og ritgerðin að fjalla um aðstæður tengdar Suðurlandi. Verkefnið skal þjóna ótvíræðum atvinnulegum/fræðilegum tilgangi fyrir Suðurland eða hluta Suðurlands.
3) Við mat á verkefninu skal tekið tillit til hversu líklegt er að niðurstöður verkefnisins kunni að leiða til frekari atvinnuuppbyggingar, stuðla að frekari rannsóknum og í heildina þjóna hagsmunum Sunnlendinga.
4) Höfundur skuldbindur sig til að standa að kynningu á lokaniðurstöðum verksins í formi fyrirlestra og eða námskeiðs í samvinnu við Fræðslunet Suðurlands og Háskólafélags Suðurlands, án frekari kostnaðar fyrir Fræðslunetið og Háskólafélagið.
5) Höfundur skuldbindur sig til að heimila Fræðsluneti Suðurlands og Háskólafélagi Suðurlands dreifingu á verkefninu í allt að 20 eintökum til aðila á Suðurlandi án sérstaks endurgjalds.
6) Úthlutun gildir í 12 mánuði. Hafi styrkþegi ekki nýtt sér styrkinn á þeim tíma rennur féð til vísinda- og rannsóknarsjóðsins á nýjan leik og verður lagt í úthlutunarsjóðinn.
Stjórn sjóðsins áskilur sér rétt til að hafna umsóknum, einni eða fleirum, eða fara fram á endurskoðun verkefnis- og/eða kostnaðaráætlunar. Stjórnin getur ákveðið að úthluta öllu úthlutunarfé til eins umsækjanda eða skipta því milli fleiri umsækjenda. Umsóknir, sem reynist ekki unnt að styrkja, verða endursendar.
7. gr. Úthlutun og kynning
Stjórn sjóðsins tilkynnir umsækjendum um niðurstöðu sína um leið og hún liggur fyrir.
Gera skal starfssamning við viðkomandi styrkþega. Samningurinn tekur til ákvæða um upphafs- og lokatíma verksins, framkvæmd kynninga og tímasetninga. Jafnframt skal í samningi tilgreint hvernig greiðslu styrks skuli háttað.
Miðað skal við að styrkurinn sé greiddur út í fernu lagi gegn framvísun reiknings, þannig:
1) 40% við undirritun samnings.
2) 20% við afhendingu ritgerðar/verkefnis þegar hún/það er hæf til mats hjá viðkomandi deild/umsjónarmanni verkefnis.
3) 20% við útskrift og afhendingu eignareintaka.
4) 20% við lok kynningar námskeiðs eða fyrirlestra.
5) Sé um doktorsverkefni að ræða, sem er skammt á veg komið, er stjórn sjóðsins heimilt að greiða út hluta styrks í samræmi við lið 2 og 3 hér á undan með sérstökum samningi við styrkþega, enda liggi fyrir staðfesting styrkþega, vottuð af umsjónarmanni verkefnisins, á því að verkefninu vindi fram á eðlilegan hátt.
Framkvæmdastjóri Fræðslunets Suðurlands hefur eftirlit með framkvæmd samstarfssamningsins fyrir hönd Fræðslunetsins og Háskólafélagsins.
Kynning skal framkvæmd í nánu samkomulagi við framkvæmdastjóra Fræðslunetsins og Háskólafélagsins, annað hvort í formi námskeiðs eða fyrirlestrar, eftir því sem hentar hverju sinni.