Fyrsta hraðstsefnumót haustsins fór fram í safnaðarheimili Selfosskirkju fimmtudaginn 18. september. Eins og við var að búast var heilmikið fjör, mikil spjallað og hlegið enda ótrúlega skemmtilegt að hittast og æfa sig að tala íslensku.
Þátttakendur koma alls staðar að og skiptir engu hversu mikið eða lítið fólk kann og skilur, markmiðið er að hittast, æfa sig að hlusta, tala íslensku og tengjast í gegnum tungumálið.
Þann 25. september kl. 17 ætlum við að hittast í Héraðsskólanum að Laugarvatni. Endilega takið þátt og bjóðið vinum ykkar af erlendum uppruna að koma líka. Börn eru velkomin og verður boðið upp á léttar veitingar. Þátttaka er ókeypis og það eina sem þarf að taka með er góða skapið og viljinn til þess að hlusta og spjalla á íslensku.
Í vetur verða vikulegir hittingar í Bókasafni Árborgar á Selfossi, þar sem markmiðið verður að æfa sig áfram í íslenskunni. Þá verður tekið á móti þátttakendum á þriðjudögum kl. 16 og gefst þátttakendum tækifæri til þess að spjalla, hlusta, lesa og kynna sér tungumálið. Þátttaka er ókeypis!
Athugið að það er ekki krafist ísenskukunnáttu þó það sé gott að þekkja einhver orð – aðal málið er að hittast og tengjast öðrum sem eru á sömu braut, það er að læra tungumálið.
Öll velkomin!



