Þriðjudaginn 27. febrúar sl. fóru Elínborg Ingimundardóttir þjónustufulltrúi nemendaþjónustu Háskólafélags Suðurlands og Helga Kristín Sæbjörndsóttir verkefnastjóri og heimsóttu nemendur á þriðja ári við Menntaskólann að Laugarvatni.
Tilgangur heimsóknarinnar var að kynna fyrir útskriftarefnum skólans þá þjónustu sem hægt er að sækja hjá okkur í Fjölheimum á Selfossi. Háskólafélag Suðurlands starfrækir nemendaþjónustu þar sem nemendur geta nýtt sér lesaðstöðu alla daga vikunnar frá kl. 7-24. Auk þess er þar góð aðstaða til próftöku og þreyta þar um eitt þúsund nemendur próf árlega. Í Fjölheimum er viðurkennd prófaðstaða fyrir bæði framhalds- og háskólanemendur sem stunda fjarnám eða þurfa af einhverjum ástæðum að taka fjarpróf. Tækifæri til náms í heimabyggð eru alltaf að aukast til hins betra og fleiri skólar sem bjóða upp á fjarnám í margvíslegum greinum.
Við viljum tryggja nemendum á Suðurlandi þá aðstöðu sem þarf til þess að sækja nám án þess að þurfa að flytjast búferlum og leggjum við okkur fram um að veita eins góða þjónustu og hægt er. Einn liður í því að efla þjónustu við nemendur er að leggja fyrir kannanir og veita nemendum tækifæri til þess að hafa áhrif. Eftir kynninguna á Laugarvatni fylltu nemendur út könnun um nemendaþjónustuna og næstu skref á vegferð þeirra í námi. Það kom ánægjulega á óvart hversu opin fyrir þjónustunni nemendur eru og að margir spurðu áhugasamir um hvernig mætti nálgast okkur í Fjölheimum á Selfossi.
Næsta kynning verður í Fjölbrautarskóla Suðurlands á Selfossi og hlökkum við mikið til að hitta nemendur og kynna fyrir þeim starfsemina okkar. Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum og Framhaldsskólinn í Austur Skaftafellssýslu fá kynninguna senda í tölvupósti að þessu sinni en við vonumst til þess að geta mælt okkur mót við þá skóla síðar. Við viljum þakka nemendum, kennurum og skólastjórnendum þeirra fyrir að gefa okkur tíma sinn í stundatöflu.
Þeir sem vilja kynna sér nemendaþjónustu Háskólafélags Suðurlands geta smellt hér.