Fréttir

Málefni sunnlenskra fjarnema og frumkvöðla rædd á fundi með frambjóðanda

Háskólafélagið fékk í dag heimsókn frá Hafdísi Hrönn Hafsteinsdóttur sem býður sig fram í 3.sæti á lista Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi en hún hafði áhuga á að fræðast um starfsemi Háskólafélagsins, helstu verkefni og áskoranir. Rædd voru málefni sunnlenskra nemenda sem stunda fjarnám og þá staðreynd að þeir beri meiri kostnað af sínu námi en þeir nemendur sem búa nær sínum skóla sem aftur ýtir undir ójöfnuð þegar að kemur að tækifærum til náms.

Einnig var rætt um umhverfi frumkvöðla á Suðurlandi og þá aðstoð sem þeim býðst til þess að raungera hugmyndir sínar, hvernig hægt er að efla innviðina og taka enn þéttar utan um þennan hóp svo hann nái að vaxa og dafna.

„Það er mjög ánægjulegt að frambjóðendur flokkanna vilji kynna sér verkefni Háskólafélagsins og þær áskoranir og tækifæri sem félagið stendur frammi fyrir þegar kemur hvort sem er að háskólanámi í heimabyggð og umhverfi frumkvöðla á svæðinu“ segir Ingunn Jónsdóttir framkvæmdastjóri Háskólafélags Suðurlands.