Násmkeið í stofnun og rekstri fyrirtækja
Dagana 4. og 11. nóvember var haldið námskeið um stofnun og rekstur fyrirtækja. Alls tóku sjö þátttakendur þátt og þótti námskeiðið takast afar vel. Tóku þeir fram að efnistök hefðu verið góð og hefðu fengið gagnlega innsýn í þau atriði sem þarf að huga að við stofnun fyrirtækis. Margir lýstu vilja til að afla sér frekari fróðleiks á sviðinu.
Á námskeiðinu var farið yfir lykilþætti í stofnun og skráningu fyrirtækja, félagaform og önnur lögformleg atriði – hvar, hvernig og hvenær ferlið fer fram. Þá var fjallað um helstu grunnatriði í rekstri, þar á meðal fjárhag, bókhald og skattaumhverfi fyrirtækja, m.a. virðisaukaskatt og aðra meginþætti sem snúa að fjármálum og skyldum atvinnurekenda.
Leiðbeinandi námskeiðsins var Bryndís Sigurðardóttir, sem hefur áratuga reynslu af bókhaldi og rekstrartengdum verkefnum. Hún leggur sérstaka áherslu á einfaldar og skilvirkar vinnuaðferðir, þar sem bókhald er nýtt sem verkfæri til að styrkja rekstur fyrirtækja og einfalda samskipti við skattayfirvöld.
Námskeið sem þessi gegna mikilvægu hlutverki í samfélaginu. Með reglulegri fræðslu er hægt að opna dyr fyrir fólki sem á sér drauma um að skapa eigin atvinnu og byggja upp fyrirtæki frá grunni. Slík námskeið ýta undir frumkvöðlahugsun, auka sjálfstraust og geta orðið hvati að nýjum hugmyndum, verðmætasköpun og fjölbreyttara atvinnulífi í nærumhverfinu.
Námskeiðið var niðurgreitt af Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga (SASS), en stuðningur þeirra gerði þátttakendum kleift að sækja dýrmæta fræðslu á hagstæðum kjörum.

