Verkefnið er nú þegar hafið og spannar 18 mánuði
Háskólafélag Suðurlands sótti um 120.000.- evra Erasmus+ styrk á vormánuðum í samstarfi við Inštitut Središče zagovorništva í Slóveníu og Jedi Movement í Serbíu, en Rannís er Landsskrifstofa Erasmus hér á landi. Fjárhæðin skiptist á milli þessara þriggja aðila sem vinna sameiginlega að verkefninu. Sautján verkefni fengu úthlutað styrk í sumar og voru um 500 milljónir í pottinum.

Roadmap to Sustainable Living hefur það að markmiði að valdefla fullorðið fólk sem hefur af ýmsum orsökum færri tækifæri eða tengslanet inn í samfélagið. Áhersla verkefnisins er á umhverfismál og sjálfbærni og er ætlunin að útbúa verkfærakistu fyrir einstaklinga, stofnanir og sveitarfélög sem nýtist til fræðslu og miðlunar. Auk þess verða haldnar vinnustofur þar sem þátttakendur fá tækifæri til þess að efla færni sína í verki. Einblínt verður á sjálfbærni, inngildingu og virkni í lýðræðissamfélagi sem spannar þá þrjár af fjórum áherslum Erasmus. Þátttakendur í verkefninu verða íbúar af Suðurlandi, einna helst í Árnessýslu sem og úr nágranna sveitarfélögum Nis í Serbíu og Ljubljana í Slóveníu.
Upphafsfundur verkefnisins var haldinn á Selfossi dagana 13. og 14. október með þátttöku samstarfsaðilana frá Slóveníu og Serbíu, eins og vera ber. Upphafsfundurinn setur tóninn fyrir verkefni af þessu tagi enda þurfa þátttakendur að skuldbinda sig til þess halda áætlun og framfylgja reglum Erasmus. Farið er yfir verkefnið af kostgæfni og tryggt að allir þátttakendur þekki sín hlutverk á sama tíma og hópurinn kynntist betur. Helga Kristín Sæbjörnsdóttir verkefnastjóri HfSu ásamt Ingveldi Sæmundsdóttur, framkvæmdastjóra HfSu munu leiða verkefnið næstu 18 mánuði en verkefnið hófst 1. september 2025.
Hvað ætlum við að fá út úr þessu verkefni?
- Lærum um loftslagsbreytingar og sjálfbærni með einstaklingsbundinni nálgun
- Þróum græna færni sem nýtist í daglegu lífi með valdeflingu einstaklingsins í huga
- Tökum þátt í skemmtilegum viðburðum og gagnvirkum vinnustofum sem gera lærdómsferlið áhugavert, fjölskylduverkefni sem og einstaklingsverkefni
- Tengjumst nærumhverfi og tökum höndum saman um raunverulegar breytingar
- Hannað með fjölbreytileika að leiðarljósi, styður fólk af erlendum uppruna, þá sem glíma við tungumálaörðugleika og íbúa dreifbýlis meðal annars
Það gleður okkur svo sannarlega að fá að taka þátt í því að móta og styðja við fólk af erlendum uppruna, tengja einstaklinga betur inn í samfélagið og valdefla til sjálfbærari lífshátta. Verkefnið mun snerta marga fleti í vegferð sinni og hlökkum við til að samstarfsins við fulltrúa okkar í Slóveníu og Serbíu. Hægt er að fylgjast með framvindu verkefnisins á Facebook síðu verkefnisins Road to Sustainable Living og hvetjum við öll til þess að líka við síðuna.


