Nafn: Brynja Hrafnkelsdóttir
Aldur: 42
Starf: Skordýrafræðingur á rannsókna og þróunarsviði Lands og skógar.
Uppáhalds staðurinn þinn á Íslandi: Hallormsstaðarskógur.
Hver sér um eldamennskuna á þínu heimili? Annað hvort ég eða Gunni maðurinn minn, vanalega sá sem kemur fyrr heim úr vinnunni.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Ætlaði mér að verða dýralæknir.
Hvaða bók ertu með á náttborðinu? Kláraði hana reyndar fyrr í haust en Dagbók frá Gaza eftir Atef Abu Saif er á náttborðinu þessa stundina.
Hvað á að gera um helgina? Ætla að fara með fjölskyldunni á Ávaxtakörfuna, sem Leikfélag Hveragerðis er að sýna um þessar mundir.
Áttu gæludýr? Já, eigum Heklu og Esju, báðar svartir labradorar.
Kaffi eða te? Kaffi allan daginn, alltaf 😉
Hver er þín helsta líkamsrækt? Ræktin, göngur og svo bætist golfið við á sumrin.
Hvað er það skrítnasta sem þú hefur borðað/smakkað? Ætli súkkulaðihúðaðir mjölormar eigi ekki vinninginn.
Sumar, vetur, vor eða haust?
Sumar.
Áttu þér uppáhalds vorfugl?
Ekki mjög frumlegt en ætli það sé ekki bara lóan.
Hver er uppháhalds sundlaugin (eða baðlónið) á landinu?
Skógarböðin í Eyjafirði eru í uppáhaldi hjá mér eins og er.
Ef þú gætir farið hvert sem er í heiminum, hvert myndirðu fara?
Það væri gaman að fara til Ástralíu og skoða skordýralífið þar.
Hvernig stuðlar þú að betri umgengni við umhverfið?
Fyrir utan þetta sem flestir gera reyni að fræða fólk um að hvað skordýr eru mikilvæg fyrir öll vistkerfi og hversu skaðleg áhrif ofnotkun skordýraeiturs getur haft.
Hvaða heilræði viltu gefa háskólanemum sem eru í námi núna?
Gott skipulag hjálpaði mér mikið. Það getur verið erfitt að byrja á stórum og flóknum verkefnum og er oft betra að búta þau niður í minni einingar sem virðast ekki jafn óyfirstíganlegar.

Hver er tenging rannsóknar þinnar við Suðurland?
Margar af mínum rannsóknum hafa verið á Suðurlandi. Undanfarin ár hef ég t.d. rannsakað hvernig nokkrar innlendar skordýrategundir hafa áhrif á lúpínu á Suðurlandi, langtímaáhrif mismundi uppgræðsluaðferða á Geitasandi á smádýralíf og hvort hægt sé að notast við drónatækni við að meta skemmdir af völdum asparaglyttu í Grímsnesi og Skaftafelli. Hluti af starfi mínu felst líka í því að skrásetja og greina nýja og gamla skaðvalda á trjágróðri um land allt.
Hvers vegna valdir þú þetta rannsóknarefni?
Því meira sem ég kynnist skordýrum, því áhugaverðar þykir mér þau.
Hvað fannst þér skemmtilegast við rannsóknarvinnuna?
Mér finnst skemmtilegast við starfið mitt að kynnast náttúrunni og sjá hana frá öðrum sjónarhornum en ég mundi annars gera.
Segðu okkar frá rannsókninni og niðurstöðum hennar í stuttu máli.
Í doktorsverkefninu mínu rannsakaði ég áhrif loftlagsbreytinga á innlenda skordýrtegund, ertuyglu en útbreiðslusvæði hennar var lengi vel eingöngu bundið við sunnanvert landið. Til að svara þessu safnaði ég ertuyglupúpum á nokkrum stöðum og framkvæmdi frostþolstilraun á þeim. Til að kanna hver áhrif sumarhita eru á lirfuvöxt bar ég saman þyngd ertuyglulirfa við hitasummu sumarsins yfir nokkra ára tímabil. Einnig kannaði ég hvaða áhrif ertuygla og aðrar innlendar skordýrategundir hafa á lúpínu með því að setja út rannsóknareiti þar sem lúpína var fyrir mismiklu álagi vegna skordýrabeitar.
Helstu niðurstöður rannsóknarinnar voru að vetrarhiti hafði engin áhrif á ertuyglu en lifunin minnkaði ekki þótt að púpurnar voru settar niður í -18 frost. Sumarhiti hafði aftur á móti áhrif á vöxt lirfa en stærri ertuyglur voru líklegri til að lifa veturinn af. Það er því líklega sumarhiti en ekki kuldi vetrarins sem stjórna útbreiðslu ertuyglu á Íslandi. Í beitartilrauninni á lúpínu kom í ljós að skordýrabeit hafði engin áhrif á yngri og sterkari lúpínur en þar sem lúpínan var orðin eldri hafði hún neikvæð áhrif á fræframleiðslu hennar.
Hvaða rannsakanda viltu tilnefna fyrir næsta mánuð?
Ég ætla að tilnefna félaga minn hann Bjarna D. Sigurðsson skóvistfræðing og prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands.
Myndir eru úr einkasafni Brynju.