Fréttir

Skoskir gestir sækja Suðurlandið heim

Áhugaverð málstofa verður haldin á Flúðum miðvikudaginn 26. september, „Learn, Taste, Experience – Iceland“. Um er að ræða kynnisferð um 20 skoskra aðila úr ferðabransanum frá héruðunum Ayrshire og Arran í nágrenni Glasgow og eru þeir fyrst og fremst að kynna sér mat, menningu og matarframleiðlsu hér austan fjalls. Ásborg Arnþórsdóttir ferðamálafulltrúi Uppsveitanna í Árnessýslu hefur skipulagt dagskrá fyrir hópinn í samvinnu við Háskólafélagið og er málþingið hluti af dagskrá heimsóknarinnar. Auk erinda frá skosku gestunum verða innlegg frá þeim Björgu Árnadóttur hjá Midgard Adventure á Hvolsvelli, Dagnýju Jóhannsdóttur hjá Markaðsstofu Suðurlands og Hrafnkeli Guðnasyni hjá Háskólafélaginu. Allir eru velkomnir á málþingið, hér er kærkomið tækifæri til að hlusta á áhugaverða fyrirlestra og treysta tengslanetið, en markvisst er nú unnið að því að efla samstarf Íslendinga og Skota í ferðamálum. Dagskrá málþingsins má sjá hér: seminar-a-fludum-midvikudaginn-26-oktober