Sóknarfæri í nýsköpun er átta vikna sunnlenskur viðskiptahraðall þar sem áhersla er lögð á verkefni sem tengjast orku, mat og líftækni, ferðaþjónustu og skapandi greinum. Þar fá þátttakendur tækifæri til þess að efla sig og sínar hugmyndir undir handleiðslu reyndra þjálfara og mentora.
Sóknarfæri er byggt upp að fyrirmynd viðskiptahraðals sem er sérhannaður með þarfir teymanna sem taka þátt í huga og hafa þau þannig áhrif á þá fræðslu sem stendur þeim til boða. Hraðlinum verður stýrt af Svövu Björk Ólafsdóttur stofnanda RATA en hún hefur jafnframt haldið utan um viðskiptahraðla á vegum Norðanáttar sem hafa hlotið mikið lof.
Ertu frumkvöðull?
Hraðallinn er ætlaður frumkvöðlum, nýjum fyrirtækjum og nýsköpunarverkefnum innan rótgróinna fyrirtækja á Suðurlandi sem eru komin af hugmyndastigi og vilja nýta Sóknarfæri í nýsköpun til að komast lengra með sín verkefni.
Teymin hitta reynslumikla leiðbeinendur, frumkvöðla, fjárfesta og stjórnendur fyrirtækja á Suðurlandi og víðar á ráðgjafafundum, sitja vinnustofur og fræðslufundi og mynda sterkt tengslanet sín á milli.
Hraðallinn fer fram að mestu leyti á netinu en teymin hittast fjórum sinnum meðan á hraðlinum stendur á vinnustofum á völdum stöðum á Suðurlandi.
Taktu stökkið!
Opnað verður fyrir umsóknir í hraðalinn 21. nóvember og verður opið til miðnættis 12. desember en stefnt er að því að taka inn 6-10 teymi. Hraðallinn mun fara fram 23. janúar til 16. mars nk. Áhugasamir eru hvattir til að senda inn umsókn á eyðublaði sem hægt er að nálgast hér.
Nánari upplýsingar veita Brynja Hjálmtýsdóttir, brynja@hfsu.is og Ingunn Jónsdóttir, ingunn@hfsu.is