Skip to content Skip to footer

Startup Landið: Samvinna sem breytir leiknum fyrir nýsköpun á landsbyggðinni

Startup Landið er nýr viðskiptahraðall sem Landshlutasamtökin standa sameiginlega að og fer hann fram 18. september til 30. október 2025.
Það sem gerir Startup Landið sérstaklega áhugavert er að í fyrsta sinn hafa Landshlutasamtökin ákveðið að sameina krafta sína í stað þess að halda hvern sinn hraðal. Með þessari samvinnu skapast heildrænni vettvangur sem nær til allra landshluta og veitir frumkvöðlum á landsbyggðinni mun sterkari stöðu en áður.
 
Samstarfið tryggir að tækifærin dreifast víðar, tengslanet styrkist og nýsköpun á landsbyggðinni fær þann sess sem hún hefur lengi átt skilið.
Háskólafélag Suðurlands sér um skipulag hraðalsins fyrir hönd SASS – Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga. Verkefnastjóri er Margrét Polly Hansen, sérfræðingur í nýsköpun, sem býr yfir bæði faglegri og persónulegri reynslu á þessu sviði.
Margrét Polly tók sjálf þátt í viðskiptahraðlinum Sóknarfæri í nýsköpun árið 2023, átta vikna hraðli sem Háskólafélag Suðurlands stóð fyrir með SASS, og kynnti hún að auki verkefni fjárfestahátíðinni Norðanátt sama ár. Nú nýtist þessi reynsla – bæði hennar sem fyrrum þátttakanda og Háskólafélagsins sem skipuleggjanda – til að gera Startup Landið enn markvissara og árangursríkara.

Í Nýsköpunarsetri Háskólafélags Suðurlands býðst öllum þáttakendum hraðalsins aðstaða til þess að vinna í verkefnum sínum, endurgjaldslaust á meðan að hraðlinum stendur.  

Við hvetjum alla sem búa yfir góðum hugmyndum til að sækja um í Startup Landið fyrir 31. ágúst á startuplandid.is.
Rafrænan kynningarfund má finna hér: Kynningarfundur.