Skip to content Skip to footer

Samþykktir

Háskólafélags suðurlands

SAMÞYKKTIR

FYRIR EINKAHLUTAFÉLAGIÐ

HÁSKÓLAFÉLAG  SUÐURLANDS EHF.

1            HEITI FÉLAGSINS, HEIMILI OG TILGANGUR

1.1

Félagið er einkahlutafélag. Heiti þess er Háskólafélag Suðurlands ehf.

1.2

Heimili félagsins er í Fjölheimum við Bankaveg, Selfossi.

1.3

Tilgangur félagsins er að auka búsetugæði og styrkja efnahag á Suðurlandi með því að reka Þekkingarnet á Suðurlandi sem felur í sér að;

       miðla háskólanámi í samvinnu við símenntunarmiðstöðvar á Suðurlandi og í samvinnu við íslenska og erlenda háskóla,

         sérsauma endurmenntun sem hæfir atvinnulífinu, á eigin vegum eða í samvinnu við aðra,

         samhæfa og styrkja rannsóknir í fjórðungnum með því að auka samvinnu rannsóknarstofnana og fyrirtækja og

         leita eftir og miðla erlendri þekkingu með samvinnu við erlenda aðila á sviði menntunar og rannsókna.

2            HLUTAFÉ FÉLAGSINS.

2.1

Hlutafé félagsins er kr. 75.853.893 og skiptist í einnar krónu hluti.

Hluthafafundur getur samþykkt hækkun hlutafjár í félaginu og þarf til sama magn atkvæða og til breytinga á samþykktum þessum. 

Hluthafar skulu hafa forgangsrétt að öllum nýjumhlutum í hlutfalli við skráða hlutafjáreign sína.  Hluthafafundur einn getur ákveðið lækkun hlutafjár.

2.2

Stjórn félagsins skal halda hlutaskrá samkvæmt lögum.

2.3

Gagnvart félaginu skal hlutaskráin skoðast sem fullgild sönnun fyrir eignarrétti að hlutum í félaginu
og öðlast eigendaskipti að hlutum ekki gildi gagnvart því fyrr en stjórn hefur verið tilkynnt um þau skriflega.

2.4

Stjórn félagsins hefur forkaupsrétt fyrir félagsins hönd að fölum hlutum.  

Að félaginu frágengnu hafa hluthafar forkaupsrétt að hlutum í hlutfalli við hlutafjáreign sína.

Forkaupsréttarhafi hefur tveggja mánaða frest til að beita forkaupsrétti sínum og telst fresturinn frá dagsetningu tilkynningar til stjórnar um tilboð.  Þá
mega eigi líða fleiri en þrír mánuðir frá því að kaup voru ákveðin þar til kaupverð er greitt.

Óheimilt er að veðsetja, selja gefa eða framselja hluti í félaginu án samþykkis félagsstjórnar.

2.5

Hluthafar bera ekki ábyrgð á skuldbindingum félagsins fram yfir hlut sinn í félaginu.

2.6

Hluthafar þurfa ekki að sæta innlausn hluta sinna nema lög standi til annars.

2.7 

Félaginu er óheimilt að greiða út arð til hluthafa heldur verði öllum umfram hagnaði varið til verkefna sem teljast í þágu almannheilla.

3            STJÓRNSKIPULAG OG HLUTHAFAFUNDUR

3.1

Æðsta vald í málefnum félagsins er í höndum lögmætra hluthafafunda.

3.2

Aðalfundur skal haldinn fyrir lok maímánaðar ár hvert.

Aukafundi skal halda eftir ákvörðun stjórnar eða að kröfu kjörinna endurskoðenda eða hluthafa sem ráða
a.m.k. einum tíunda hluta hlutafjár í félaginu. Skal krafan skriflega gerð og fundarefni
tilgreint og fundur boðaður þá innan fjórtán daga. Ef stjórnin skirrist við að
boða fund eftir móttöku slíkrar kröfu má leita atbeina hlutafélagaskrár skv. 62. gr. laga um einkahlutafélög.

3.3

Félagsstjórn skal boða til hluthafafunda með tilkynningu til hvers hluthafa í ábyrgðarbréfi, símskeyti
eða á annan sannanlegan hatt. Aðalfund og aukafund skal boða með minnst sjö daga fyrirvara. Fundarefnis skal getið í fundarboði.

Hluthafafundur er lögmætur ef hann er löglega boðaður og hann sækja hluthafar eða umboðsmenn þeirra sem
hafa yfir að raða helming hlutafjár í félaginu að minnsta kosti.  Verði fundur ólögmætur vegna annmarka að þessu
leyti skal boða til nýs fundar innan mánaðar með sjö daga fyrirvara og verður sá
fundur lögmætur til að ræða þau mál sem ræða átti á fyrri fundinum ef hann sækja
tveir hluthafar eða fleiri eða umboðsmenn þeirra enda ráði þeir yfir fimmtungi hlutafjár í félaginu hið minnsta.

Hluthafafundur kýs fundarstjóra og fundarritara.

3.4

Eitt atkvæði fylgir hverjum hlut í félaginu. Hluthafar geta með skriflegu umboði veitt umboðsmönnum
heimild til að sækja hluthafafund og fara með atkvæðisrétt sinn.

Á hluthafafundi ræður afl atkvæða nema öðruvísi sé fyrir mælt í landslögum eða samþykktum þessum.

Mál sem ekki eru sérstaklega greind í dagskrá aðalfundar eða annarra hluthafafunda, er ekki unnt
að taka til endanlegrar úrlausnar á fundinum nema með samþykki allra hluthafa félagsins.

3.5

Á aðalfundi skulu tekin fyrir þessi mál:

1.  Skýrsla stjórnar félagsins um starfsemina á liðnu ári.

2.  Ársreikningar félagsins fyrir liðið starfsár ásamt skýrslu endurskoðanda skal lagður fram til samþykktar.

3.  Tekin skal ákvörðun um hvernig fara skuli með hagnað eða tap og framlög í varasjóð.

4.  Ákvörðun skal tekin um þóknun til stjórnarmanna fyrir störf þeirra á starfsárinu.

5.  Breytingar á samþykktum.

6.  Stjórn félagsins skal kjörin og endurskoðandi.

7.  Umræður og atkvæðagreiðslur um önnur málefni sem löglega eru upp borin.

3.6

Fundargerðarbók skal haldin og í hana skráð það sem gerist á hluthafafundum.

4            STJÓRN FÉLAGSINS OG FRAMKVÆMDASTJÓRI

4.1

Stjórn félagsins skal skipuð sjö mönnum, kjörnum á aðalfundi til eins ár í senn og sjö til vara.  Stjórn félagsins stýrir öllum málefnum
félagsins milli hluthafafunda og gætir hagsmuna þess gagnvart þriðja manni.
Undirskrift meirihluta stjórnarmanna skuldbindur félagið.  Stjórnarfundir eru lögmætir ef meirihluti stjórnarmanna
sækir fund. Afl atkvæða ræður afgreiðslu mála. Verði atkvæði jöfn skal máli
skotið til hluthafafundar. Halda skal fundargerð um stjórnarfundi.

4.2

Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum.  Formaður  boðar til stjórnarfunda. Hver stjórnarmaður
getur krafist stjórnarfundar.  Sama rétt á framkvæmdastjóri.

Stjórnin skal setja sér starfsreglur þar sem nánar skal kveðið á um framkvæmd starfa hennar.

4.3

Stjórn félagsins ræður framkvæmdastjóra og ákveður starfskjör hans.  Stjórnin setur framkvæmdastjóra starfslýsingu
og veitir prókúruumboð fyrir félagið.

Framkvæmdastjóri hefur með höndum stjórn á daglegum rekstri félagsins og kemur fram fyrir þess hönd
í öllum málum sem varða venjulegan rekstur. Heimild stjórnar þarf til allra ráðstafana
sem eru meiriháttar eða óvenjulegar með tilliti til tilgangs félagsins. Framkvæmdastjóri
sér um reikningshald og ráðningu starfsliðs. Framkvæmdastjóra ber að veita stjórnarmönnum
og endurskoðanda allar upplýsingar um rekstur félagsins sem þeir kunna að óska og veita ber samkvæmt lögum.

5            REIKNINGSHALD OG ENDURSKOÐUN

5.1

Á aðalfundi félagsins skal kjósa löggiltan endurskoðanda eða endurskoðunarfélag til eins árs í senn.

5.2

Reikningsár félagsins er almanaksárið.  Skal gerð ársreiknings lokið eigi síðar en einum mánuði fyrir aðalfund ár hvert og hann þá lagður
fyrir endurskoðanda.

6            BREYTINGAR Á SAMÞYKKTUM

6.1

Samþykktum þessum má breyta á lögmætum hluthafafundi með 2/3 hlutum greiddra atkvæða svo og með samþykki
hluthafa sem ráða yfir a.m.k. 2/3 hlutum af því hlutafé í félaginu sem farið er með atkvæði fyrir á fundinum.

6.2

Með tillögur um slit og skipti á félaginu eða samruna við önnur félög skal fara sem um breytingar á
samþykktum þessum.  Þarf atkvæði hluthafa sem ráða minnst 2/3 hlutum af heildarhlutafé félagsins til að slík ákvörðun sé
gild.  Hluthafafundur, sem tekið hefur löglega ákvörðun um slit eða skipti félagsins, skal einnig ákveða ráðstöfun eigna og greiðslu skulda.

7            ÝMIS ÁKVÆÐI

7.1

Um þau atriði sem ákvæði samþykkta þessara taka ekki til skal hlíta ákvæðum laga um einkahlutafélög, svo og öðrum lagaákvæðum er við geta átt.

Samþykktir þessar voru staðfestar á aðalfundi einkahlutafélagsins 6. júní 2013.