10. fundur stjórnar Háskólafélags Suðurlands ehf. haldinn þann 09.06.08. kl.16 í Ráðhúsi Árborgar SelfossiMætt: Ágúst Sigurðsson. Helga Þorbergsdóttir Rögnvaldur Ólafsson, Steingerður Hreinsdóttir, Sveinn Aðalsteinsson og Örlygur Karlsson.
Forföll: Elín Björg Jónsdóttir,
Fundargerð ritaði Helga Þorbergsdóttir
1. Fundur með fjárlaganefnd Alþingis. Auk ofangreindra stjórnarmanna sat fundinn Ingibjörg Þórhallsdóttir ráðgjafi. Fundur hófst með því að formaður stjórnar kynnti starfsemi og stefnumál Háskólafélagsins. Sveinn Aðalsteinsson kynnti sunnlenskan rannsóknarklasa (3L) og Rögnvaldur gerði grein fyrir áætlunum um fyrsta átaksverkefni félagsins. Líflegar umræður urðu milli stjórnar og fjárlaganefndarmanna um starfsemi Háskólafélagsins og virtust þeir síðarnefndu einhuga um mikilvægi þess að stofnað verði þekkingarsetur á Suðurlandi á grundvelli hugmynda Háskólafélagsins. Eftirfarandi kynningarbréf var afhent fjárlaganefndarmönnum.
Suðurlandi 9.júní.2008
Fjárlaganefnd Alþingis
Gunnar Svavarsson formaður
Erindi frá stjórn Háskólafélags Suðurlands ehf.
Beiðni um fjárveitingu til stofnunar Þekkingarseturs á Suðurlandi.
Í gegnum tíðina hefur verið mikil umræða á Suðurlandi, t.d. á vettvangi SASS, um nauðsyn þess að efla háskólastarfsemi í fjórðungnum. Nú hafa sveitarfélögin á Suðurlandi tekið það frumkvæði að beita sér fyrir stofnun Háskólafélags Suðurlands ehf. með það að markmiði að efla háskólamenntun og auka aðgengi almennings að henni enda sé það eitt brýnasta hagsmunamál Sunnlendinga. Stjórn Háskólafélagsins óskar eftir fjárveitingu, strax á næsta fjárlagaári til að stofna og reka þekkingarsetur á Suðurlandi líkt og komið hefur verið á fót í öðrum landshlutum. Farið er fram á 25 milljónir á ári til fimm ára.
Við ráðstöfun þess fjár er tryggt að tekið verði mið af aðstæðum í fjórðungnum og því þverfaglega og víðfeðma starfi sem nú þegar hefur verið unnið og því sem er í bígerð á vegum félagsins.
Meðal þess sem unnið hefur verið að má nefna þekkingarklasa sem stofnaður hefur verið með þátttöku Reykja í Ölfusi og Rannsókna- og fræðaseturs H.Í á sama stað, Rannsóknarmiðstöð Háskóla Íslands í jarðskjálftaverkfræðiHÍ á Selfossi, Kennaraháskóla Íslands á Laugarvatni, Landgræðslu ríkisins í Gunnarsholti og Kirkjubæjarstofu á Kirkjubæjarklaustri. Í framhaldi er áformað að fyrirtæki og minni rannsóknarstofnanir taki þátt í klasanum auk þess sem lögð verður áhersla á að styðja við bakið á sprotafyrirtækjum á þessu sviði. Í ljósi nýafstaðinna hamfara ber að leggja sérstaka áherslu á mikilvægi þess að þróa þekkingu á náttúruvá og lýðheilsu. Háskólafélagið hafði raunar lagt grunn að slíku áður en síðustu atburðir dundu yfir.
Sem fyrsta skref í uppbyggingu og eflingu háskólatengdrar starfsemi á öllu starfsvæðinu hefur háskólafélagið ákveðið að standa að átaksverkefni á eystri hluta Suðurlands með því að ráða tímabundið starfsmann til þess að efla styrkleikana og byggja upp svæðisbundna starfsemi á háskólastigi.
Verkefnið miðar að því að undirbúa uppbyggingu háskólatengdrar starfsemi á Skógum og í Vík og að renna fleiri stoðum undir starfsemi Kirkjubæjarstofu. Við lok verkefnisins liggi fyrir rökstuddar áætlanir um rannsóknarstarfsemi á sviðum þjóðfræða, lýðheilsu og náttúruvísinda sem getur nýst á innlendum sem erlendum vettvangi. Tilgangurinn er að auka fjölbreytni í atvinnulífi á eystri hluta Suðurlands, styrkja grunnrannsóknir, efla ferðaþjónustu tengda vísindum og menningu, auka möguleika og fjölbreytni til menntunar á grunn- og framhaldsstigi háskólanáms og miðla upplýsingum til erlendra sem innlendra samstarfsaðila.
Háskólafélagið hefur auk fyrrgreindra verkefna verið í sambandi við Fræðslunet Suðurlands um mikilvæga samvinnu og/eða samþættingu Fræðslunetsins og Háskólafélagsins. Þar verði m.a. lögð áhersla á að styrkja almennt grunnnám á háskólastigi og bæta aðstöðu til fjarnáms í fjórðungnum, í tengslum við þau fræðasetur sem þegar eru á svæðinu, ásamt því að opna möguleika á fjölbreyttara háskólanámi í fjórðungnum m.a. í samstarfi við Fjölbrautaskóla Suðurlands þar sem lögð væri áhersla á starfstengt háskólanám t.d. iðnfræði.
Samlegðaráhrif háskólastarfsemi, endurmenntunar, rannsókna og þróunar, frumkvöðlastuðnings og starfsemi sprotafyrirtækja í þekkingarsetrum eru ótvíræð. Háskólafélag Suðurlands ehf, er kjörinn vettvangur til að vera hornsteinn að Þekkingarsetri Suðurlands. Nauðsynlegt er að ríkisvaldið komi að stofnun slíks seturs. Sem fyrr óskar stjórn Háskólafélagsins eftir því að það fái fjárveitingu kr. 25 milljónir til fimm ára til að stofna Þekkingarsetur á Suðurlandi sem teygi anga sína og auðgi búsetu fólks um allan fjórðunginn.
Stjórn Háskólafélags Suðurlands skipa:
Ágúst Sigurðsson Rektor Hvanneyri
Elín Björg Jónsdóttir formaður FOSS Þorlákshöfn
Helga Þorbergsdóttir hjúkrunarfræðingur Vík
Rögnvaldur Ólafsson Háskóla Íslands
Steingerður Hreinsdóttir ráðgjafi hjá Atvinnuþróunarfélagi Suðurlands Selfossi
Sveinn Aðalsteinsson ráðgjafi Hveragerði
Örlygur Karlsson skólameistari Selfossi
Fjárlaganefndarmenn gengu til annarra verka en fundi stjórnar var fram haldið.
2. Fundargerð síðasta fundar lögð fram, samþykkt og undirrituð.
3. Ingibjörgu falið að koma á fundi með lykilmönnum í Menntamálaráðuneyti og að vinna umsókn til menntamálaráðherra um fjárveitingu til stofnunar þekkingarseturs á Suðurlandi.
Fundi slitið kl. 18.30