Skip to content Skip to footer

51. fundur

51. fundur stjórnar Háskólafélags Suðurlands ehf. haldinn þann  12.09.2014 á Kirkjubæjarklaustri.  

Mætt; Helga Þorbergsdóttir,  Kristín Hermannsdóttir, Rögnvaldur Ólafsson, Steingerður Hreinsdóttir, Sveinn Aðalsteinsson, Örlygur Karlsson og Sigurður Sigursveinsson framkvæmdastjóri, Dagný Magnúsdóttir boðaði forföll.

Fundargerð ritaði Helga Þorbergsdóttir.

  1. Fundargerð síðasta fundar samþykkt og undirrituð.
  2. Kristín Hermannsdóttir boðin velkomin til starfa í stjórn félagsins.

 

  1. Í samræmi við samþykktir félagsins skipti stjórn með sér verkum og samþykkti að Steingerður Hreinsdóttir verði formaður svo sem verið hefur. Að tillögu Örlygs Karlssonar urðu varaformannsskipti og var ákveðið að Sveinn Aðalsteinsson taki við varaformennsku af Örlygi. Helga Þorbergsdóttir verður áfram fundaritari.
  2. Sigurður fór yfir tillögur að fjárveitingum til símenntunarmiðstöðva og þekkingarneta þar með til Háskólafélags Suðurlands, í nýlega framlögðu fjárlagafrumvarpi. Í tillögunum er ekki tekið tillit til þess að Sveitarfélagið Hornafjörður hefur gengið til liðs við HfSu. Þegar litið er til fjárveitinga undanfarinna ára virðist sem engar reiknireglur séu notaðar við úthlutun fjár til símenntunarmiðstöðva og þekkingarsetra landshlutanna.
  3. Samþykkt að stjórnin sendi frá sér eftirfarandi ályktun :

Fundur stjórnar Háskólafélags Suðurlands -Þekkingarnets á Suðurlandi, haldinn á Kirkjubæjarklaustri 12. september 2014, lýsir furðu sinni á fjárframlögum til félagsins og Fræðslunetsins í frumvarpi til fjárlaga 2015. Fyrir liggur að Sveitarfélagið Hornafjörður færðist af starfssvæði Austurbrúar um síðustu áramót til félaganna tveggja en þessa sér ekki stað í fjárveitingum til stofnananna skv. fjárlagafrumvarpinu. Með þessu virðist staðfestast sá grunur að málefnalegar ástæður eru ekki fyrir hendi við skiptingu opinberra fjármuna milli einstakra símenntunarstöðva og þekkingarneta.

Stjórnin beinir því til Ríkisendurskoðunar að hún taki málið til skoðunar. Að gefnu tilefni skal það tekið fram að skipting fastra fjárveitinga til símenntunarmiðstöðvanna virðist ekki hafa verið til skoðunar í nýlegri aðkeyptri úttekt ráðuneytisins á málefnum framhaldsfræðslunnar. 

 

  1. Mikil og góð samvinna hefur verið milli Háskólafélagsins og Jarðskjálftamiðstöðvar HÍ m.a. í tengslum við staðbundið meistara- og doktorsnám. Rætt um form á áframhaldandi samvinnu á þeim vettvangi.
  2. Umræður um stefnumótun Háskólafélagsins og eflingu þess með aðkomu Sveitafélagsins Hornafjarðar.
  3. Í stefnumótunarumræðunni var farið yfir markmið og hlutverk HfSu sem hefur verið leiðarstef í vinnu félagsins.

               Í samþykktum Háskólafélags Suðurlands segir:

           Tilgangur félagsins er að auka búsetugæði og styrkja efnahag á Suðurlandi með því að reka Þekkingarnet á Suðurlandi sem felur í sér að;

  • miðla háskólanámi í samvinnu við símenntunarmiðstöðvar á Suðurlandi og í samvinnu við íslenska og erlenda háskóla,
  • sérsauma endurmenntun sem hæfir atvinnulífinu, á eigin vegum eða í samvinnu við aðra,
  • samhæfa og styrkja rannsóknir í fjórðungnum með því að auka samvinnu rannsóknarstofnana og fyrirtækja og
  • leita eftir og miðla erlendri þekkingu með samvinnu við erlenda aðila á sviði menntunar og rannsókna.

 

Meginhugmyndin á bakvið stofnun félagsins er því að auka búsetugæði á Suðurlandi með því að veita námi frá háskólum til íbúa og styrkja samvinnu þeirra góðu rannsókna- og fræðslustofnana sem þar eru fyrir og gera þær sýnilegri í samfélaginu. Jafnframt leitast félagið við styrkja nýsköpun á Suðurlandi með því að tengja og greiða fyrir samvinnu fyrirtækja og háskólatengdra stofnana ásamt atvinnuþróunarstofnunum svæðisins.

Framtíðarsýn félagsins er: 

  • að sunnlendingar geti valið úr fjölda námsleiða og námskeiða á háskólastigi við erlenda og innlenda háskóla
  • að bjóða upp námsleiðir sem nýta styrkleika menntunar sunnlensks vinnuafls t.d. á sviði iðnaðar, ferðaþjónustu, sjávarútvegs og landbúnaðar
  • að félagið sé fyrsti valkostur fræðsluaðila varðandi samvinnu um endurmenntunarnámskeið á háskólastigi sem tengjast sunnlenskum viðfangsefnum
  • að félagið sé leiðandi í að koma á framfæri rannsóknum sem nýta má til nýsköpunar í atvinnulífi Suðurlands
  • að félagið eigi mælanlegan og afgerandi þátt í að bæta menntastigið á Suðurlandi – eitt sér og í samvinnu við ýmsa aðila t.d. Fræðslunet Suðurlands og formlega menntakerfið
  • að félagið sé leiðandi á Suðurlandi í samhæfingu atvinnulífs og háskólastarfsemi m.a. með sókn í verkefnasjóða, innlenda og erlenda.

 

 Félagið hefur unnið að þessum markmiðum með fjölbreyttu og öflugu starfi t.d. með stofnun Fjölheima, Katla Geopark, Matarsmiðju á Flúðum, fjölda rannsóknarverkefna, uppsetningu og rekstri fjarfundabúnaðar, skapað námsumhverfi ætlað nemendum á háskólastigi og margt fleira. Námsverum hefur verið komið upp í Vík, Kirkjubæjarklaustri og á Höfn, og félagið hefur nú starfsmenn bæði í Vík og á Höfn auk Fjölheima á Selfossi.

Gott aðgengi að námi í gegnum fjarfundabúnað skilar sér í að fjöldi íbúa á starfssvæði félagsins stundar nám á háskólastigi sem og öðrum stigum. Miklar umræður urðu um möguleika á námi á sviðum er tengjast  fjölmennum atvinnugreinum á svæðinu.

Matvælabrúin, sem er nám í matvælafræðum er nýlega farið af stað og leggja þarf drög að námi í ferðamálafræðum í samvinnu við hagsmunaaðila í héraði sem nú spannar Suður- og Suðausturland og nær frá Höfn til Hafnar.

 

Næsti fundur verður í Þorlákshöfn þann 14. nóvember kl. 12:30.