Háskólafélagið og Rannsóknarmiðstöð Háskóla Íslands í jarðskjálftaverkfræði á Selfossi hafa undanfarna mánuði unnið að því að undirbúa og markaðssetja alþjóðlegt meistaranámskeið sem haldið verður á Selfossi nú í vor. Sett var upp sérstök heimasíða fyrir verkefnið, www.earthquake.is, og auk þess var námskeiðið kynnt í gegnum Alþjóðaskrifstofu Háskóla Íslands og tengslanet starfsmanna Rannsóknarmiðstöðvarinnar. Umsóknarfrestur fyrir erlenda nemendur rann út 21. febrúar sl. og niðurstaðan fór fram úr björtustu vonum, alls hafa 21 sótt um og framundan er staðfestingar- og greiðsluferli í þessu sambandi. Skólagjöldin eru um 200.000 krónur á mann, eða 1.390 evrur, og er kennslan, húsnæði og námsferðir innifaldar í verðinu. Umsækjendur koma frá Frakklandi, Danmörku, Kanada, Bandaríkjunum og Hollandi.
Námskeiðið nefnist Natural Catastrophes og er yfirlitsáfangi á meistara- og doktorsstigi um náttúruhamfarir. Aðalkennari á námskeiðinu verður Sólveig Þorvaldsdóttir doktorsnemi við jarðskjálftamiðstöðina en námskeiðið er undir umsjón Ragnars Sigbjörnssonar prófessors við HÍ og forstöðumanns Rannsóknarmiðstöðvarinnar.
Verkefnið er liður í klasaverkefninu Fræðandi ferðaþjónusta sem fékk myndarlegan styrk við síðustu úthlutun úr Vaxtarsamningi Suðurlands en auk Háskólafélagsins koma að því verkefni Markaðsstofa Suðurlands og Háskólasetrið á Höfn í Hornafirði.
Gert er ráð fyrir að þáttakendur á námskeiðinu dvelji á Hótel Fosstúni, en námskeiðið hefst 30. maí nú í vor og lýkur 18. júní. Umfang námskeiðsins er 7,5 ECTS einingar og er vottað af Háskóla Íslands.
Fleiri alþjóðleg námskeið eru í undirbúningi hjá Háskólafélagi Suðurlands.