Skyrslur

Ársreikningur 2013 og aðalfundur 2014

Aðalfundur Háskólafélagsins 2014 var haldinn í Fjölheimum 26. maí og að honum loknum var haldið málþing.

Ágúst Sigurðsson stjórnarmaður í félaginu og rektor Landbúnaðarháskóla Íslands var fundarstjóri en á fundinn voru mættir, auk stjórnarmanna, fulltrúar 63,4% hlutafjár voru mættir til fundar og fundurinn því lögmætur samkvæmt samþykktum félagsins. Sigurður Sigursveinsson fylgdi skýrslu stjórnar og framkvæmdastjóra um starfsemi félagsins 2013 úr hlaði. Þá kynnti Einar Sveinbjörnsson endurskoðandi félagsins ársreikninginn fyrir 2013, áritaðan af stjórn, framkvæmdastjóra og endurskoðanda, án athugasemda. Tap varð á rekstrinum sem nam 3,2 mkr en fram kom að það stafar m.a. af því að umsamdar greiðslur frá Evrópusambandinu vegna IPA verkefnisins um Kötlu jarðvang bárust ekki á árinu. Eigið fé félagsins var í árslok 59,8 mkr en handbært fé í lok ársins 42,2 mkr. Aðalfundurinn samþykkti ársreikninginn samhljóða (sjá ársreikninginn hér). Ágúst Sigurðsson gaf ekki kost á sér til endurkjörs í stjórn en hann hefur setið í stjórn félagsins frá upphafi. Aðrir stjórnarmenn gáfu kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu og stjórnin gerði að tillögu sinni að inn í stjórnina kæmi Kristín Hermannsdóttir forstöðumaður Náttúrustofu Suðausturlands. Aðalfundurinn samþykkti þessa tillögu með öllum greiddum atkvæðum og mun stjórn félagsins því verða þannig skipuð: Dagný Magnúsdóttir, Helga Þorbergsdóttir, Kristín Hermannsdóttir, Rögnvaldur Ólafsson, Steingerður Hreinsdóttir, Sveinn Aðalsteinsson og Örlygur Karlsson.

Að loknum aðalfundarstörfum var haldið stutt málþing þar sem þrjú erindi voru flutt. Steingerður Hreinsdóttir greindi frá tilurð og afrakstri IPA verkefnisins sem nú er að ljúka. Ragnar Sigbjörnsson greindi frá starfsemi og framtíðarsýn Rannsóknarmiðstöð Háskóla Íslands á Selfossi í jarðskjálftaverkfræði og loks greindi Sigurður Sigursveinsson frá stefnumörkun og framtíð Háskólafélagsins.