Fréttir

Rannsóknarstyrkur og menntaverðlaun 2014

Árlegur hátíðarfundur Vísinda- og rannsóknasjóðs Suðurlands var haldinn í sal Fjölbrautaskóla Suðurlands fimmtudaginn 29. janúar 2015.

Athöfnin hófst með því að Unglingakór Selfoss söng nokkur lög undir stjórn Edit Molnar við undirleik Miklós Dalmay. Rögnvaldur Ólafsson stjórnarmaður Háskólafélags Suðurlands var fundarstjóri og kynnti styrkhafa sjóðsins 2010, dr. Sæmund Sveinsson, sem greindi frá rannsóknum sínum á þróun erfðamengja meðal belgjurta.

Dr. Sveinn Aðalsteinsson formaður dómnefndiar kynnti síðan niðurstöður nefndarinnar, en að þessu sinni bárust 13. umsóknir og var ákveðið að veita þremur þeirra styrk:

Anna Katarzyna Wozniszka: Immigrant educational/vocational situations in South Iceland

Guðmundur Örn Sigurðsson: Jarðskjálftagreining og hönnun á vindmyllum og vindmyllugarði á Suðurlandi

William M. Moreland: Eruption styles of the the AD 934–40 Eldgjá eruption: The hazards and environmental impacts

Anna vinnur að doktorsritgerð um aðstæður nemenda af erlendum uppruna og hvernig skólar og samfélög takast á við breytta samsetningu nemendahópsins, sérstaklega í dreifbýli á Íslandi með sérstakri áherslu á Suðurland.

Guðmundur vinnur að meistaraprófsrannsókn á jarðskjálftagreiningu og hönnun á vindmyllum og vindmyllugarði á Suðurlandi en rannsóknin er unnin á Jarðskjálftamiðstöðinni á Selfossi. Svokallaður Eurocode staðall er notaður hér á landi við hönnun mannvirkja en vísbendingar eru um að á ákveðnu bili sveiflutíðna er hröðunin töluvert umfram það sem Eurocode gefur upp. Venjulega skiptir þetta ekki miklu máli en vegna mikillar hæðar vindmyllumannvirkjanna er mikilvægt að kanna þetta nánar þar sem hugmyndir eru uppi um að fjölga þeim verulega.

William vinnur að doktorsritgerð um Eldgjárgosið 934-940 en það er stærsta eldgos Íslandssögunnar og hafði gríðarleg umhverfisáhrif með gjóskufalli, hraunrennsli og eiturskýjum. Markmið rannsóknar Williams er að auka skilning á Eldgjárgosinu og búa okkur með því betur undir slík risagos á Suðurlandi í framtíðinni, en talið er að ekki sé spurning um hvort heldur hvenær slík gos ríði þar yfir.

Þetta er í 13. sinn sem styrkur er veittur úr ´vísinda- og rannsóknarsjóðnum og í öll skiptin hefur forseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson afhent verðlaunin.

Þá kynnti Gunnar Þorgeirsson formaður stjórnar Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga úthlutun Menntaverðlauna Suðurlands 2014. Að þessu sinni bárust 11 tilnefningar, m.a. um Háskólafélagið, en niðurstaðan var sú að Njálurefillinn fékk viðurkenninguna að þessu sinni og tók Gunnhildur Kristjánsdóttir við henni úr hendi forseta Íslands. Er þetta í sjöunda sinn sem Menntaverðlaun Suðurlands eru veitt.

Að lokum flutti forseti Íslands ávarp og hrósaði Sunnlenndingum fyrir stuðninginn sem þeir veittu nemendum við vísindarannsóknir og taldi að aðrir landshlutar ættu að taka þá sér til fyrirmyndar.

Að athöfninni lokinni var hátíðargestum, um 50 manns, boðið til kaffisamsætis í nemendamötuneytinu í FSu.