- aðalfundur Háskólafélags Suðurlands ehf miðvikudaginn 20. maí 2015 kl. 14 í Fjölheimum
Formaður, Steingerður Hreinsdóttir setti fund og gerði grein fyrir lögmæti fundarins, en fulltrúar 59,9% hlutafjár voru mættir á fundinn og fundurinn því löglegur. Hún gerði tillögu um Svein Aðalsteinsson sem fundarstjóra og Hrafnkel Guðnason sem ritara og var það samþykkt samhljóða. Sveinn tók við stjórn fundarins og gengið var til áður boðaðrar dagskrár.
- Skýrsla stjórnar og framkvæmdastjóra um starfsemina á liðnu ári. Sigurður Sigursveinsson framkvæmdastjóri félagsins fylgdi skýrslunni úr hlaði (hjálögð).
- Ársreikningur 2014 (sjá Arsreikningur Haskolafelag Sudurlands 2014 aritadur), ásamt skýrslu endurskoðanda. Einar Sveinbjörnsson frá KPMG Endurskoðun fór yfir niðurstöður ársreikningsins. Halli ársins nam um 6,8 millj.kr. en handbært fé í lok ársins var um 44,9 millj.kr.
Í umræðum um skýrslu og ársreikning kom m.a. fram að Sunnlendingar væru stoltir yfir að eiga háskólafélag en við þyrftum að standa okkur betur í að afla fjár til starfseminnar. Fulltrúar eigenda veltu upp spurningum um mögulega sameiningu félagsins við Fræðslunetið. Fram kom að bæði kynnu að vera kostir og gallar við slíkt og í öllu falli væri skynsamlegt að vanda til verka ef til þess kæmi. Þá væri eignarhaldið ólíkt, Háskólafélagið hlutafélag í eigu sveitarfélaga en Fræðslunetið sjálfseignarstofnun. Skýrslan og ársreikningurinn voru borin upp til afgreiðslu og samþykkt samhljóða.
3. Ákvörðun um hvernig fara skuli með hagnað eða tap og um arð og framlög í varasjóð. Vegna taps er ekki um að ræða arðgreiðslur eða framlög í varasjóð.
4. Ákvörðun um þóknun til stjórnarmanna fyrir störf þeirra á starfsárinu. Samþykkt tillaga um óbreytt fyrirkomulag, þ.e. að miða við reglur SASS, þ.e. 3% þingfararkaups fyrir hvern fund en 4,5 % til formanns.
5. Breytingar á samþykktum. Engar tillögur um breytingar á samþykktum
6.Kjör stjórnar og endurskoðanda. Allir núverandi stjórnarmenn gefa kost á sér að frátöldum þeim Steingerði Hreinsdóttur og Örlygi Karlssyni sem ekki gefa kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Gerð var tillaga um að Olga Lísa Garðarsdóttir skólameistari FSu og Sigurður Þór Sigurðsson formaður stjórnar Atorku komi í þeirra stað. Fyrir eru í stjórn Dagný Magnúsdóttir, Helga Þorbergsdóttir, Kristín Hermannsdóttir, Rögnvaldur Ólafsson og Sveinn Aðalsteinsson. Þá var gerð tillaga um óbreytta skipan varastjórnar: Eyþór Ólafsson, Gylfi Þorkelsson, Kristín Hreinsdóttir, Sigríður Lára Ásbergsdóttir, Unnur Brá Konráðsdóttir, Valtýr Valtýsson og Þorvaldur Guðmundsson. Þessar tillögur voru báðar samþykktar samhljóða. Þá var samþykkt samhljóða að kjósa Auðunn Guðjónsson hjá KPMG sem endurskoðanda félagsins.
7. Önnur mál. Hrafnkell Guðnason verkefnastjóri greindi frá tilurð námsbrautarinnar Matvælabrú – stjórnun og nýsköpun en hún er samvinnuverkefni félagsins og Matís. Sjö nemendur hófu nám á námsbrautinni sl. haust og luku náminu nú í vor. Um er að ræða nám með starfi í nánu samstarfi við matvælafyrirtæki í héraðinu. Almenn ánægja er með það hvernig til tókst, bæði hjá nemendunum og viðkomandi fyrirtækjum. Verkefnastjórarnir Hrafnkell Guðnason og Ingunn Jónsdóttir hafa umsjón með náminu og eru þessa dagana að heimsækja matvælafyrirtæki í héraðinu í þeim tilgangi að fá nemendur til náms á brautinni nú í haust. Þá greindi Hrafnkell frá áformum um að koma á sambærilegri námsbraut fyrir ferðaþjónustuna í héraðinu og er stefnt að því að nám á þeirri braut hefjist haustið 2016. Sótt hefur verið um styrk í Uppbyggingarsjóð Suðurlands til undirbúnings í þessu sambandi og einnig um tveggja ára Erasmus+ styrk í samvinnu við University of Highlands and Islands í Skotlandi og University of Malaga á Spáni. Í því verkefni er gert ráð fyrir að erlendu háskólarnir sinni námsskrár- og námsefnisgerð en brautin verði tilraunakennd á Íslandi veturinn 2016-2017.Á fundinn mættu fulltrúar Bláskógabyggðar, Flóahrepps, Grímsnes- og Grafningshrepps, Hrunamannahrepps, Mýrdalshrepps, Rangárþings eystra, Skaftárhrepps, Árborgar og SASS. Einnig sátu fundinn stjórnarmennirnir Dagný Magnúsdóttir, Kristín Hermannsdóttir, Rögnvaldur Ólafsson, Steingerður Hreinsdóttir og Sveinn Aðalsteinsson. Einnig Hrafnkell Guðnason, Sigurður Sigursveinsson og Brynja Davíðsdóttir.
Sigurður Sigursveinsson þakkaði Steingerði og Örlygi fyrir farsæl störf í þágu félagsins og tóku fundarmenn undir það. Sveinn Aðalsteinsson sleit fundi laust fyrir kl. 16 og þakkaði fundarmönnum fyrir jákvæðan og gagnlegan fund en það væri stjórninni mjög mikilvægt að heyra viðhorf eigenda til félagsins og verkefna þess.
Á fundinn mættu fulltrúar Bláskógabyggðar, Flóahrepps, Grímsnes- og Grafningshrepps, Hrunamannahrepps, Mýrdalshrepps, Rangárþings eystra, Skaftárhrepps, Árborgar og SASS. Einnig sátu fundinn stjórnarmennirnir Dagný Magnúsdóttir, Kristín Hermannsdóttir, Rögnvaldur Ólafsson, Steingerður Hreinsdóttir og Sveinn Aðalsteinsson. Einnig Hrafnkell Guðnason, Sigurður Sigursveinsson og Brynja Davíðsdóttir.