Háskólafélag Suðurlands auglýsir starf sérfræðings til gerðar fræðslu- og kynningarefnis fyrir Kötlu Jarðvang. Verkefnið er styrkt af Evrópusambandinu með IPA styrk og á að fara í styrkingu innviða í jarðvanginum sem nær yfir sveitarfélögin þrjú; Skaftárhrepp, Mýrdalshrepp og Rangárþing eystra. Verkefnið felur m.a. í sér gerð hvers konar kynningarefnis og fræðsluefnis til notkunar í jarðvanginum, m.a. fyrir skólahópa, erlenda og innlenda, en einnig texta og myndefni fyrir ferðamenn á skilgreindum áfangastöðum (geosites) í jarðvanginum.
Við leitum að öflugum einstaklingi með háskólapróf í jarðfræði eða skyldum greinum. Kennslureynsla og/eða reynsla af gerð fræðslu- eða kynningarefnis er æskileg. Þekking á jarðfræði svæðisins er æskileg og starfsstöð verkefnisstjórans verður í jarðvanginum. Um fullt starf er að ræða.
Umsóknir, m.a. með upplýsingum um menntun og starfsreynslu, berist Háskólafélagi Suðurlands eigi síðar en 5. nóvember. Nánari upplýsingar veita Sigurður Sigursveinsson (sigurdur@hfsu.is, s. 897-2814) og Steingerður Hreinsdóttir (steingerdur@sudur.is, s. 848-6385) en auk þess er bent á vefsíðurnar http://www.jardvangur.is/ og http://www.katlageopark.is/.
Æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst og eigi síðar en 1. desember 2012 en það er þó samningsatriði. Um er að ræða tímabundna ráðningu til 30. júní 2014, með möguleika á framlengingu.
Háskólafélag Suðurlands ehf er í eigu sveitarfélaganna á Suðurlandi og var stofnað 19. desember 2007. Félagið myndar þekkingarnet á Suðurlandi og er tilgangur þess að auka menntunarstig og búsetugæði á svæðinu, með uppbyggingu þekkingarsamfélags, betra aðgengi að háskólanámi, auknum rannsóknum og fjölbreyttari atvinnutækifærum.
Katla Jarðvangur (Katla Geopark) er sjálfseignarstofnun sem var stofnuð 19. nóvember 2010. Stofnaðilar eru sveitarfélögin Skaftárhreppur, Mýrdalshreppur og Rangárþing eystra, Kirkjubæjarstofa, Kötlusetur, Skógasafn, Stofnun rannsóknarsetra Háskóla Íslands og Háskólafélag Suðurlands. Jarðvangurinn vinnur að því að vernda og nýta jarðminjar svæðisins í þágu sjálfbærrar þróunar og eflingu byggðarinnar með jarðfræðitengdri ferðamennsku (geotourism) sem byggi á fræðslu um jarðminjar, samspil manns og náttúru, og útivist.