Föstudaginn 1. mars 2013 afhenti sveitarfélagið Árborg formlega meirihluta húsnæðis fyrrum Sandvíkurskóla í hendur Háskólafélags Suðurlands, Fræðslunets Suðurlands og fleiri samstarfsaðila þeirra. Forenda þessa var undirritun leigusamnings milli Háskólafélags Suðurlands ehf og Sandvíkurseturs ehf 12. september 2012. Síðan hefur verið unnið að breytingum innanhúss í samráði við þarfir leigjenda og löngu tímabæru viðhaldi utanhúss á vesturálmunni, skipt um glugga og þakjárn og álman klædd zinkklæðningu. Þá var inngangi í húsið breytt og er nú gengið inn í það Tryggvagötumegin og er anddyrið nú mun bjartara en áður. Í sumar verður breytingum haldið áfram innanhúss og verður þá efri hæðin í vesturálmu aðgengileg fólki í hjólastól, og efri hæð norðurálmu tengd við efri hæð vesturálmunnar. Innan fárra ár er gert ráð fyrir að suðurálman og elsti hlutinn verði einnig klæddur zinkklæðningu. Þá er gert ráð fyrir að aðkomu að húsinu verði breytt þannig að hún verði frá Tryggvagötu. Umsamin leiga nemur 15,7 mkr á ári en fyrstu fjögur árin er veittur afsláttur frá þeirri leigu, en heildarleigugreiðsla leigutaka verður um 140 mkr á samningstímanum auk verðbóta. Við þessa leigu bætist síðan rekstrarkostnaður hússins. Þá hafa Fræðslunetið og Háskólafélagið fjárfest um 20 mkr í húsnæðinu, aðallega í húsbúnaði og tækjabúnaði ýmis konar auk ýmis kostnaðar sem féll á leigutaka við lokafrágang hússins.
Ásta Stefánsdóttir framkvæmdastjóri sveitarfélagsins Árborgar stýrði athöfninni
Eyþór Arnalds formaður bæjarráðs afhenti Fræðslunetinu og Háskólafélaginu góðar gjafir í tilefni dagsins
Ásmundur Sverrir Pálsson framkvæmdastjóri Fræðslunets Suðurlands flutti ávarp
Ingunn Jónsdóttir veitti viðtöku blómvendi fyrir að hafa stungið upp á nafninu Fjölheimum fyrir starfsemi hússins. Þau Gylfi Þorkelsson formaður stjórnar Fræðslunetsins og Steingerður Hreinsdóttir formaður stjórna Háskólafélags Suðurlands og Markaðsstofu Suðurlands voru í dómnefndinni.
Sigurður Sigursveinsson framkvæmdastjóri Háskólafélagsins og Stefán B Sigurðsson rektor Háskólans á Akureyri handsöluðu samning þess efnis að nú væri hægt að hefja nám í hjúkrunarfræði hjá Háskólafélaginu annað hvert haust, en hingað til hefur það einungis verið á fimma ára fresti.
Að athöfninni lokinni var húsnæðið til sýnis, Guðríður Egilsdóttir matreiðslukennari var ánægð með nýja kennslueldhúsið!
Fyrsti áfangi hússins var tekin í notkun 1945 en sá hluti er undanskilinn í núverandi leigusamningi sem gildir til ársloka 2022. Leigusamningurinn tekur til um 1620 fermetra (brúttó), en elsti hlutinn telst vera tæplega 600 fermetrar.
Í hinu leigða húsnæði er að finna 11 kennslustofur, þ.m.t. kennslueldhús og handverksstofu, 17 skrifstofurými, vinnuherbergi kennara, kaffistofu starfsfólks, kaffistofu nemenda sem jafnframt er nýtt sem hópvinnurými auk sérstakrar lesstofu nemenda og tveggja fundarherbergja.
Fræðslunet Suðurlands er stærsti einstaki notandi húsnæðisins en sl. haust bættist fullorðinsfræðsla fatlaðra við verkefnaflóru Fræðslunetsins með sérstökum samningi við Fjölmennt og eru fastir starfsmenn Fræðslunetsins nú sjö að tölu auk tuga kennara á einstökum námskeiðum þess. Aðrir aðilar í húsinu eru Háskólafélag Suðurlands en á þess vegum er einnig rekið verkefnið Katla jarðvangur/Katla Geopark, Birta starfsendurhæfing, Markaðsstofa Suðurlands, Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi, Minjavörður Suðurlands, Náttúrustofa Vestfjarða, Sálin sálfræðistofa, ráðgjafafyrirtækið Næsta skref og Réttindagæslumaður fatlaðs fólks á Suðurlandi.
Ásta Stefánsdóttir framkvæmdastjóri sveitarfélagsins Árborgar stýrði athöfninni þegar húsnæðið var afhent. Eyþór Arnalds formaður bæjarráðs, Ásmundur Sverrir Pálsson framkvæmdastjóri Fræðslunetsins og Sigurður Sigursveinsson framkvæmdastjóri Háskólafélagsins fluttu ávörp en Tónlistarskóli Árnesinga sá um tónlistarflutning. Þá undirrituðu þeir Sigurður og Stefán B Sigurðsson rektor Háskólans á Akureyri samning sem kveður á um að byrjunarnám í hjúkrunarfræði verður í boði á Selfossi annað hvert ár, en hingað til hefur það einungis verið í boði á fimm ára fresti.
Loks er þess að geta að við athöfnina var tilkynnt um niðurstöðu í samkeppni um heiti á þessa nýju starfsemi í gamla barnaskólanum. Sérstök dómnefnd valdi nafnið Fjölheimar úr hópi tæplega fimmtíu tillagna sem bárust. Höfundur tillögunnar reyndist vera Ingunn Jónsdóttir vöruhönnuður í Hallanda í Flóahreppi og hlaut hún að launum blómvönd og myndarlega peningaupphæð.
Almenn ánægja er með hvernig til hefur tekist með þessa endurnýjun gamla barnaskólans við Tryggvagarð og framundan er vinna við að samþætta enn frekar fræðslustarf á þessu sviði á Suðurlandi öllu, bæði á vettvangi Sóknaráætlunar Suðurlands og einnig á grundvelli samnings mennta- og menningarmálaráðuneytisins við Samtök sunnlenskra sveitarfélaga og sveitarfélagið Hornafjörð.
Hér eru svo nokkrir myndir sem Magnús Hlynur tók við athöfnina: