Fimmtudaginn 28. febrúar kom Sunna Siggeirsdóttir og hélt erindi á Hádegisfyrirlestrum Fjölheima. Sunna stundar nám í fíknifræði og er það þverfaglegt nám í samstarfi þriggja virtra háskóla, The University of Adelaide í Ástralíu, Virginia Commonwealth University í Bandaríkjunum og Kings College í London. Námið er alfarið rafrænt og hefur Sunna nýtt sér aðstöðuna í Fjölheimum til náms og próftöku. Í fyrirlestri sínum fór Sunna meðal annars yfir skilgreiningar á fíkn, afleiðingum, meðferðarúrræðum og margt fleira. Fyrirlesturinn var bæði áhugaverður og skemmtilegur enda á efnið erindi til okkar flestra með beinum eða óbeinum hætti.
Næsti hádegisfyrirlestur verður miðvikudaginn 4. apríl en þá munu þær Margrét Birgitta Davíðsdóttir og Heiða Rún Kristinsdóttir flytja fyrirlestur undir heitinu Eyðum eftirspurninni, en þar verður fjallað um vændismansal á Íslandi, íslenskan veruleika, íslenska kaupendur.
Þetta verður þriðji hádegisfyrirlesturinn á árinu þar sem notendur námsaðstöðunnar í Fjölheimum greina frá rannsóknarverkefnum sínum en Tinna Björk Helgadóttir reið á vaðið í lok janúar með fyrirlestur sinn um frístundalæsi, þ.e. hvernig nýta megi tíma á frístundaheimilum til að efla læsi.