Fimmtudaginn 18. apríl sl. var haldinn ársfundur Nýheima þekkingarseturs á Höfn í Hornafirði. Ingunn Jónsdóttir framkvæmdastjóri HFSU og Helga Kristín Sæbjörnsdóttir verkefnastjóri hjá HFSU heimsóttu Höfn og hlýddu á fundinn.
Það er afar mikilvægur þáttur í starfsemi þekkingarsetra að skapa tengsl og ýta undir þær grunnstoðir sem slík starfsemi stendur á. Háskólafélag Suðurlands og Nýheimar þekkingarsetur hafa undanfarin ár unnið ötullega að því að styrkja samstarfið enn frekar með því að finna sameiginlega snertifleti verkefna setranna með góðum árangri.
Á fundinum kynnti Kristín Vala Þrastardóttir verkefnastjóri hjá Nýheimum verkefnið HeimaHöfn sem snýr að málefnum ungs fólks í sveitarfélaginu Hornafirði. Verkefnið er mjörg þarft þar sem það getur reynst áskorun fyrir ungt fólk að finna sinn stað, mennta sig og átta sig á tækifærum í litlum samfélögum. Verkefnið á að efla unga fólkið, ýta undir félagslega virkni og vekja athygli á þeim tækifærum sem leynast í samfélagi ungs fólks hvað varðar menntun og atvinnu. Verkefnin HeimaHöfn og Atvinnubrú, sem stýrt er af Háskólafélagi Suðurlands styðja vel við hvort annað og mynda góða samfellu milli framhaldsskólasamfélagsins og háskólasamfélagsins. Því verður lögð áhersla á að efla enn frekar samlegð þessara verkefna og munu setrin móta grundvöll til samstarfs á næstu vikum. Þessa dagana má finna mikinn drifkraft og metnað í verkefnum þar sem málefni ungs fólks og landsbyggðarinnar eru í brennidepli. Háskólafélag Suðurlands og Nýheimar Þekkingarsetur ætla að styðja við þau af krafti og skapa tengsl til framtíðar fyrir ungt fólk og sunnlenskt samfélag. Auk þess hafa atvinnurekendur, stofnanir og sveitarfélög á Suðurlandi sýnt bæði HeimaHöfn og Atvinnubrú áhuga og má því búast við að framhaldið verði gott.
Við þökkum starfsfólki Nýheima þekkingarseturs fyrir afar góðar móttökur og hlökkum til að taka næstu skref í okkar samstarfi.