Úthlutun úr Uppbyggingarsjóði Suðurlands fór fram 9. apríl sl. en mörg verkefni eiga viðkomu hér hjá okkur í Háskólafélagi Suðurlands í aðdraganda umsóknanna.Við viljum óska öllum þeim sem hlutu styrk til hamingju og hlökkum til að sjá afrakstur verkefnanna.
Það er ekki sjálfgefið að hljóta styrk og oft þarf að sækja oftar en einu sinni um áður það tekst. Það er því mikilvægt að muna að Róm var ekki byggð á einum degi og mörg þeirra verkefna sem fá fjármögnun eru búin að mótast og þróast í langan tíma. Þau hafa jafnvel fengið neitun oftar en einu sinni sem krefst gífurlegrar þrautsegju þeirra sem standa að baki verkefnunum.
Við viljum því minna alla frumkvöðla á að gefast ekki upp, verkefnin mótast oft í þessu ferli og verða enn sterkari. Það eru ýmsar leiðir til sem hægt er að nýta sér til þess að byggja grunninn en hér er til að mynda mjög góð verkfærakista fyrir frumkvöðla að styðjast við. Auk þess er gott að gefa sér tíma til þess að sækja um verkefnin og hefja umsóknarferlið um leið og opnast fyrir umsóknir. Umsóknargáttin vistar ferlið sem gefur umsækjendum tækifæri á því að vega og meta verkefnið í ferlinu.
Næsta úthlutun fer fram í haust 2024 svo við hvetjum ykkur til þess að halda áfram að vinna að hugmyndunum ykkar og gefa ykkur góðan tíma til þess að sækja um í haust.
Gangi ykkur vel!