Fréttir

Háskólahátíðin í Fjölheimum 2020

Fimmtudaginn 25. júní sl. hittist stjórn félagsins í fyrsta sinni á árinu á fundi í Tryggvaskála, fyrri fundir ársins hafa verið á Zoom vegna kórónaveirufaraldursins. Í kjölfar stjórnarfundarins var svo haldin árviss háskólahátíð þar sem samfagnað er með þeim háskólanemum sem luku prófgráðum sínum í vetur og vor, og hafa notið þjónustu félagsins í Fjölheimum á Selfossi. Að þessu sinni var hátíðin óvenju fjölmenn en 16 kandídatar sáu sér fært að mæta, en nokkrir voru bundnir við vinnu.

Sigurður Sigursveinsson framvæmdastjóri félagsins setti samkomuna.

Unnur Birna Ólafsdóttir flutti tvö lög á fiðlu, en stýrði reyndar líka óvænt afmælissöng fyrir Hrafnkel Guðnason verkefnastjóra félagsins en hann átti einmitt afmæli þennan dag, er hér við hlið Ingibjargar Ástu Rúnarsdóttur þjónustufulltrúa félagsins.

Hér má sjá brottfarendurna 16 hjá Tryggva Gunnarssyni! Að þessu sinni var um að ræða nemendur Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri og Háskólans í Reykjavík.

Þá flutti einn brottfarendanna, Margrét Birgitta Davíðsdóttir, snjallt ávarp þar sem hún færði starfsmönnum félagsins kærar þakkir fyrir samveruna en hún var nú að ljúka meistaraprófi í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík, en á þeirri vegferð hafði hún stundað nám hjá Fræðslunetinu og Keili áður en hún innritaðist í HR, en allan tímann með vinnuaðstöðu í Fjölheimum. Hún lýsti því hvernig nemendahópurinn, sem hefur lesaðstöðu í Fjölheimum, hefur stappað stálinu í hvert annað og kom einkar vel fram í máli hennar hvað námssamfélagið, þvert á námsgreinar, skiptir miklu máli.

Oddný Sturludóttir dósent við menntavísindasvið Háskóla Íslands flutti ávarp og færði þeim fjórum nemendum sem luku nú tveggja ára diplómanámi í hagnýtum leikskólafræðum rós í viðurkenningarskyni, en þetta eru fyrstu nemendurnir á landinu sem ljúka þessu námi. Um er að ræða þróunarverkefni í samvinnu Háskóla Íslands og Háskólafélagsins og færði Oddný félaginu einnig viðurkenningarskjal með þökkum fyrir samstarfið.

Að lokum nutu samkomugestir ljúffengra veitinga frá Tryggvaskála.

Myndirnar tók Gunnar Páll Pálsson ritstjóri Dagskrárinnar og kunnum við honum bestu þakkir fyrir.