Sigurður Sigursveinsson fyrrverandi framkvæmdastjóri Háskólafélagsins ritaði eftirfarandi orð í minningu Rögnvaldar sem félagið birtir með góðfúslegu leyfi.
Fallinn er frá öðlingurinn Rögnvaldur Ólafsson eðlisfræðingur. Leiðir okkar lágu fyrst og fremst saman á vettvangi Háskólafélags Suðurlands og Kötlu jarðvangs. Rögnvaldur sat samfellt í stjórn Háskólafélagsins frá stofnun þess 2007 til ársins 2022. Á þeim vettvangi tók hann virkan þátt í fyrsta átaksverkefni félagsins, Net þekkingar frá Markarfljóti að Skeiðarársandi, en upp úr því verkefni spratt fyrsti jarðvangurinn á Íslandi, Katla Geopark, sem 2015 varð hluti af þriðju staðarskrá UNESCO, UNESCO Global Geoparks. Rögnvaldur var formaður í undirbúningsnefnd að stofnun jarðvangsins en henni var komið á laggirnar 2008 með fulltrúum úr viðkomandi sveitarfélögum. Hann sat í stjórn jarðvangsins frá stofnun hans 2010 til 2014, þar af formaður 2012-2014 þegar Háskólafélagið stóð að viðamikilli uppbyggingu innviða jarðvangsins með svokölluðum IPA styrk frá Evrópusambandinu. Rögnvaldur tók virkan þátt í umsóknarskrifunum varðandi aðild Kötlu að alþjóðlegum samtökum jarðvanga, og einnig varðandi IPA verkefnið, og þar skipti máli glöggur skilningur hans á hnitmiðuðum texta, hvort sem var á ensku eða íslensku.
Rögnvaldur var einn öflugasti bandamaður byggðastefnu sem byggði á þekkingu, rannsóknum og samstarfi. Hann stýrði um árabil Stofnun rannsóknarsetra Háskóla Íslands sem kom upp rannsóknarsetrum vítt og breitt um landið, en hann lagði áherslu á að fá afburða vísindamenn til að leiða þau setur. Þá sat hann í stjórnum fjölmargra annarra þekkingarsetra á landsbyggðinni. Ég hygg að lengst hafi hann setið í stjórn Háskólafélagsins enda hafði hann stundum við orð að honum þætti vænst um þá stjórn. Sem framkvæmdastjóri Háskólafélagsins um árabil get ég staðfest að þessi tilfinning var gagnkvæm. Félagið er í eigu sveitarfélaganna á Suðurlandi en óskráð regla er að í stjórninni sitji fólk með sérþekkingu á verkefnum félagsins. Þetta fyrirkomulag hefur gefist vel og það er m.a. að þakka yfirburða þekkingu Rögnvaldar og annarra stjórnarmanna á málefnum Suðurlands.
Við Kristín áttum þess kost að sækja Azoreyjar heim 2017 þegar haldin var þar ráðstefna evrópsku jarðvanganna, og það gerðu einnig þau Rögnvaldur og Sigríður. Við erum þakklát fyrir ánægjulegar samvistir í þeirri ferð. Rögnvaldur hafði einstaklega góða nærveru, var tillögugóður og lagði sig fram um að setja sig inn í ólík sjónarmið varðandi verkefnin hverju sinni.
Ég minnist hans sem heiðursmanns, er þakklátur fyrir samstarfið og votta fjölskyldu hans samúð mína við fráfall hans. Blessuð veri minning Rögnvaldar Ólafssonar.