Miðvikudaginn 16. mars 2011 var fjölsótt kynning í Glaðheimum á því fjarnámi sem í boði verður frá Háskólanum á Akureyri næsta vetur. Tvennt vekur þar sérstaka athygli; annars vegar að nú verður tekinn inn fjarnemahópur á Selfossi í hjúkrunarfræði, en vorið 2010 luku hér 19 hjúkrunarfræðingar slíku fjögurra ára námi hér á Selfossi. Hins vegar er nú í fyrsta sinn í boði fjarnám í félagsvísindadeild, en það tekur til náms í sálfræði, fjölmiðlafræði, félagsvísindum og nútímafræði. Námið í hjúkrunarfræði fer fram á daginn í gegnum myndfundabúnað (eins og kennaranámið) en námið í félagsvísindadeild byggist á upptökum af kennslustundum á Akureyri og er þá nóg að hafa tölvu og töluvtengingu heima hjá sér en ekki þörf á að mæta í myndfundi, sem sagt sama fyrirkomulag og notast er við varðandi fjarnám í iðjuþjálfun. Þá verður áfram boðið upp á fjarnám í viðskiptafræði með aðstoð myndfunda og fara þeir fram í lok vinnudags, þ.e. á bilinu kl. 17:10-20:40. Svipaða sögu er að segja um fjarnám í líftækni, sjávarútvegsfræði og náttúru- og auðlindafræði.
Innritun í námið fer fram á netinu, og rennur umsóknarfrestur út 5. júní nk.
Dagmar Ýr Stefánsdóttir forstöðumaður markaðs- og kynningarsviðs Háskólans á Akureyri kynnir fjarnám skólans ásamt tveimur nemendum skólans.
Áhugasamir verðandi nemendur!