Nafn: Tómas Grétar Gunnarsson
Aldur: 50
Starf: Forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurlandi og náttúrufræðingur.
Uppáhalds staðurinn þinn á Íslandi: Veiðivötn
Hver sér um eldamennskuna á þínu heimili? Aðallega ég þessi árin en Linda mín tekur þó góða spretti.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Dýrafræðingur.
Hvaða bók ertu með á náttborðinu? Nú er ég að lesa Braiding Sweetgrass eftir Robin Wall Kimmerer. Ágætis bók. Robin er amerískur grasafræðingur af indjánaættum og bókin fjallar um hvernig flétta má saman hefðbundnum náttúruvísindum og þekkingu innfæddra og hvernig nýta má sjónarhorn þeirra til að skapa heilbrigðara samband manns og náttúru. Ekki er vanþörf á. Svo er ég líka að mjaka mér í gegnum 100 kvæði eftir Þórarinn Eldjárn.
Hvað á að gera um helgina? Taka til í bílskúrnum.
Áttu gæludýr? Það er hundur í mér. Við Tumi hundur erum óaðskiljanlegir þessi árin.
Kaffi eða te? Er búinn að koma daglegu kaffibollunum niður í þrjá og drekk te með. Lærði að meta te þegar ég bjó í Bretlandi en Bretar drekka ósköp af tei. Hef þá grunaða um að gera það til að hlýja sér á höndunum því hús þar eru almennt illa einangruð.
Hver er þín helsta líkamsrækt? Ég hef daðrað við frjálsíþróttir frá því ég var barn og reyni enn að hoppa og skoppa eins og aldurinn gefur tilefni til.
Hvað er það skrítnasta sem þú hefur borðað/smakkað? Ætli það séu ekki ýmsar samsetningar af mat sem ég hef þróað sjálfur af miklu innsæi. Börnunum þykir t.d. skrítið þegar ég fæ mér grænkál út á skyr.
Sumar, vetur, vor eða haust? Allar árstíðir hafa sinn sjarma en ég var lengi haustmaður því að ég hef gaman af veiðiskap. Minna hefur þó farið fyrir því í seinni tíð.
Áttu þér uppáhalds vorfugl? Spóinn á sérstakan sess hjá mér en annars er alltaf gaman að sjá farfuglategundirnar koma eina af annarri á vorin. Það þarf svo margt að ganga upp til að þeir komi til Íslands á vorin að það er endalaus uppspretta undrunar og aðdáunar að sjá þessa himnesku herskara flæða yfir landið. Ég verð barn á vorin.
Hver er uppháhalds sundlaugin (eða baðlónið) á landinu? Fer stundum í sund til að synda svo það er yfirleitt sú hefðbunda sundlaug sem ég bý næst. Nú er það sundlaugin á Laugarvatni. Er lítið fyrir baðlón og aðra þéttsetna staði.
Ef þú gætir farið hvert sem er í heiminum, hvert myndirðu fara? Í Veiðivötn eða á Arnarvatnsheiði.
Hvernig stuðlar þú að betri umgengni við umhverfið? Því miður hegða ég mér eins og meðal íslendingur að flestu leyti. En ég reyni þó að fljúga sem minnst og nýt þess helst sem ekki fæst keypt.
Hvaða heilræði viltu gefa háskólanemum sem eru í námi núna? Nám lýtur sömu lögmálum og önnur vinna og mörg önnur viðfangsefni í lífinu. Það þarf að vinna af einurð og koma fram við samferðarfólk af vinsemd og virðingu. Og svo er það hin heilaga þrenning; hreyfing, svefn og mataræði sem þarf að vera í sæmilegu lagi sem flesta daga. Það verður ekki neitt úr neinu til lengri tíma nema þessar grunnstoðir séu í lagi. Þrautseigja er líka mikilvæg. Námsverkefni geta verið löng og strembin og maður þarf að hafa trú á að þau klárist og halda áfram að moka á hverjum degi eins og mamma segir. Þá kemur þetta.
Hver er tenging rannsóknar þinnar við Suðurland? Nýjasta rannsóknin sem við höfum birt niðurstöður um fjallar um ferðalög íslenskra jaðrakana á vetrarstöðvum frá því að þeir koma þangað fyrst sem unglingar og þar til þeir verða fullorðnir. Fátt er sunnlenskara en jaðrakaninn. Fyrir hundrað árum verptu þeir bara á Suðurlandi en hafa breitt fagnaðarerindið út til annarra landshluta síðan. Jaðrakaninn syngur með hv-framburði einn fugla.
Hvers vegna valdir þú þetta rannsóknarefni?
Við höfum nokkur rekið saman fjölþjóðlegt rannsóknaverkefni um íslenska jaðrakanann síðan rétt fyrir aldamót (síðustu). Þessi stofn verpur bara á Íslandi en hefur vetursetu með ströndum V-Evrópu frá Bretlandseyjum til Portúgal. Jaðrakanastofninn hentar vel til að rannsaka tvöfalt líf farfugla en farfuglastofnar stjórnast af samspili þátta sem verka á þá árið um kring. Doktorsverkefnið mitt fjallaði um jarðrakan og þetta samspil árstíða í lífi hans og við höfum haldið að áfram að rannsaka hann síðan.
Hvað fannst þér skemmtilegast við rannsóknarvinnuna?
Rannsóknavinna er oftast mjög fjölbreytt og nú orðið er hún nær alltaf teymisvinna. Það er þörf á alls konar fólki til að vísindarannsóknir gangi upp. Hugmyndavinna er fyrirferðarmikil, svo þarf að afla fjár til að reka rannsóknir, safna gögnum og upplýsingum, skrifa greinar og hanna afurðir, reikna, halda fyrirlestra og fleira. Í starfi mínu þarf ég að sinna flestum þessum þáttum í einhverjum mæli og hef gaman af þeim flestum. Útivinnan á sumrin er skemmtileg en mér finnst líka gaman að sinna skriftum og hef lúmskt gaman af tölfræði. Það er gefandi að sjá nýjan sannleika spretta upp úr tölunum eins og fiðrildi úr púpu. Líklega er það fjölbreytnin í starfinu sem er best.
Segðu okkar frá rannsókninni og niðurstöðum hennar í stuttu máli (500 orð c.a).
Nýjasta greinin okkar birtist tímariti breska Vistfræðifélagsins (Journal of Animal Ecology) og segir frá því hvernig svæðavali farfugla að vetrarlagi er háttað en viðfangsefnið var íslenski jaðrakaninn. Þau svæði sem standa í boði fyrir fugla og önnur kvikindi eru gjarnan misgóð og svæðaval getur því haft fjölbreytt áhrif á einstaklinga og þar með stofna. Að kanna svæðaval farfugla á mælikvarða heilla útbreiðslusvæða, sem gjarnan spanna heimsálfur, hefur reynst erfitt. Í rannsókninni var kannað hversu víða jaðrakanar rata frá því að þeir koma á vetrarstöðvar í fyrsta skipti sem ungfuglar og þar til þeir verða fullorðnir. Vetrarstöðvar þeirra ná frá Írlandi og Bretlandi í norðri til Portúgal í suðri. Með samstilltu átaki sem hefur staðið í yfir tvo áratugi voru hundruð jaðrakana einstaklingsmerktir í nokkrum löndum og álestrum af þeim safnað í gagnagrunna. Yfir 2000 athugendur tilkynntu um merkta jaðrakana og út frá þeim athugunum mátti reikna hversu líklegt er að jaðrakanar færi sig milli svæða á mismunandi æviskeiðum.
Í ljós kom að jaðrakanar færa sig ósköp lítið og yfirgnæfandi meirihluti fugla er enn á sama svæði á fullorðinsaldri og þar sem þeir tóku sér bólfestu á fyrsta hausti. Þetta gerist þrátt fyrir að vetrarsvæði þeirra séu mjög misgóð. Það virðast því vera þættir sem verka á jaðrakana fyrir og við fyrsta farflug sem hafa mikil áhrif á það hvar þeir lenda og við hvaða skilyrði þeir búa það sem eftir er ævinnar. Þetta minnir á það fornkveðna að enginn má sköpum renna.
Hvaða rannsakanda viltu tilnefna fyrir næsta mánuð? Ágústu Helgadóttur hjá Landi og Skógi.
Myndir eru úr einkasafni Tómasar. Sæmundur Bjarnason tók þessa glæsilegu mynd af veiðimanninum Tómasi.