Föstudaginn 19. febrúar kl. 14.00 koma fulltrúar Nord háskólans í Noregi í Fjölheima á ferð sinni um landið til að kynna spennandi nám í skapandi greinum.
Um 40 Íslendingar leggja nú stund á skapandi tæknitengt háskólanám við Nord háskólann í Noregi, en undanfarin 3 ár hafa fulltrúar skólans komið í árlegar kynningarferðir til landsins. Námið sem um ræðir fer alfarið fram á ensku, en um er að ræða þrjár ólíkar námsbrautir. Sú fyrsta nefnist þrívíddarlist, kvikun og myndbrellur (3D art, animation & VFX), önnur, sjónvarps- og kvikmyndaframleiðsla (TV & film production) og að lokum er kennt í tölvuleikjahönnun (digital game design).
Dagana 17. – 23. febrúar verða fulltrúar skólans á ferðinni í síðasta sinn með þessum hætti, og með í för verða meðal annars Berglind Sigurjónsdóttir, annars árs nemi í sjónvarps- og kvikmyndaframleiðslu sem mun kynna sjónarhorn nema – og Richard Hearsey, kennari við skólann, sem um árabil hefur starfað fyrir BBC og mun hann fræða áhugasama um sjónvarps- og kvikmyndaframleiðslubrautina. Farið verður í ýmsa skóla víða um land en einnig verða haldnar opnir kynningarfundir. Í tengslum við kynningarferðina verður einnig boðið upp á stuttmyndasýningar, þar sem verk nemenda fá að njóta sín. Íslenskir nemendur hafa notið mikillar velgengni í náminu og meðal annars unnið til verðlauna fyrir framúrskarandi myndbrellur (VFX).
Þess má geta að sambærilegt nám er ekki í boði á háskólastigi á Íslandi, en allar þrjár greinarnar eru þriggja ára bachelornám. Einnig er vert að taka fram, nú þegar kostnaður við nám er óðum að aukast á Íslandi, að háskólanám í Noregi er nemendum að kostnaðarlausu (ef frá eru talin annargjöld, sem eru tæplega 10.000,- ISK á önn, miðað við núverandi gengi).
Fyrsta stuttmyndasýningin fer fram í Menntaskólanum á Akureyri klukkan 16.00 miðvikudaginn 17. febrúar og í framhaldinu verður kynningarfundur á náminu kl. 17.00, sem öllum er opinn. Þann 18. febrúar verður opinn kynningarfundur í Fjölbrautaskóla Austur-Skaftafellssýslu á Höfn í Hornafirði kl. 19.00. Sunnudaginn 21. febrúar verður menningardagskrá í Hinu Húsinu með tveimur ólíkum stuttmyndasýningum, kl. 16.00 og kl. 20.15, þegar verðlaunamyndin Led Meg verður meðal annars sýnd, en að henni komu, ásamt fleirum, tveir íslenskir nemar sem nú eru á 3. ári. Opnir kynningarfundir verða haldnir í Hinu Húsinu kl. 17.00 og 19.00 og auk fulltrúa frá Nord verða einnig kynningar frá fulltrúum atvinnulífins, svo sem Sagafilm. Þar sem húsrými í Hinu Húsinu er takmarkað er mikilvægt að fylgjast vel með á Facebooksíðu skólans, Nám í Noregi – Skapandi miðlun við Nord Universitet og skrá sig á viðburði sem þar verða settir upp.
Yfirlit yfir kynningarfundi:
Miðvikudagur 17. febrúar
Kl. 9.45: Framhaldsskóli Norðurlands Vestra, FNV
Kl. 14.00: Verkmenntaskólinn á Akureyri, VMA
Kl. 16.00: Stuttmyndasýning – Menntaskólinn á Akureyri, MA
Kl. 17.00: Opinn kynningarfundur – Menntaskólinn á Akureyri, MA
Fimmtudagur 18. febrúar:
Kl. 9.00: Menntaskólinn á Egilsstöðum, ME
Kl. 13.00: Verkmenntaskóli Austurlands, Neskaupsstað, VA
Kl. 19.00: Opinn kynningarfundur – Framhaldsskólinn í Austur-Skaptafellssýslu, FAS
Föstudagur 19. febrúar
Kl. 11.30: Menntaskólinn Laugavatni, ML
Kl. 14.00: Háskólafélag Suðurlands, HFSU
Sunnudagur, 21. febrúar
Kl. 16.00: Stuttmyndasýning – Hitt Húsið
Kl. 17.00: Opinn kynningarfundur með fulltrúum frá Sagafilm – Hitt Húsið
Kl. 19.00: Opinn kynningarfundur með fulltrúum Hins Hússins – Hitt Húsið
Kl. 20.00: 2 stuttmyndir; Insomnium og verðlaunamyndin Led meg – Hitt Húsið
Mánudagur, 22. febrúar
Kl. 9.50: Fjölbrautaskólinn í Breiðholti, FB
Kl. 11.30: Kvennaskólinn í Reykjavík, Kvennó
Kl. 13.00: Borgarholtsskóli, BHS
Þriðjudagur, 23. febrúar
Kl. 9.00: Myndlistaskólinn í Reykjavík
Kl. 10.30: Upplýsingatækniskólinn, Skólavörðuholti
Kl. 12.30: Fjölbrautaskólinn við Ármúla, FÁ