Fréttir

Nýr fjarkennslu- og fjarfundabúnaður

Í hartnær áratug hefur Fræðslunet Suðurlands komið að fjarkennslu og fjarnámi á Suðurlandi. Háskólinn á Akureyri hefur verið í fararbroddi hvað varðar notkun myndfunda til kennslu, en það felur í sér að þátttakendur í kennslustund eru ekki bara þeir sem mættir eru í skólastofuna til kennarans heldur einnig þeir sem mæta í námsver annars staðar á landinu og geta þar bæði hlustað á kennarann, horft á glærur, komið með spurningar og tekið þátt í umræðum.   

Eins og á mörgum öðrum sviðum hefur tækniþróun verið ör í þessu sambandi, og var fjarfundarbúnaðurinn á Klaustri, Vík og Hvolsvelli orðinn úreltur og bilanagjarn.  Háskólafélag Suðurlands ákvað því að kaupa nýjan fjarkennslubúnað fyrir þessa staði og Fræðslunet Suðurlands lagði í púkkið með því að kaupa nýja skjái til notkunar við búnaðina.  Búið er að setja tækin upp og tengja þau með aðstoð TRS á Selfossi, og eru þau nú þegar í notkun. 

vikklaustur

Sigurður Sigursveinsson framkvæmdastjóri Háskólafélags Suðurlands afhendir Sveini Pálssyni sveitarstjóra Mýrdalshrepps og Bjarna Daníelssyni sveitarstjóra Skaftárhrepss græjurnar góðu. (Myndir Ármann Ingi Sigurðsson)

Á föstudaginn var stóð til að framkvæmdastjóri Háskólafélagsins mætti á fund austur á Kirkjubæjarklaustri hjá atvinnumálanefnd Skaftárhrepps en þess í stað var brugðið á það ráð að framkvæmdastjórinn fór hvergi heldur tók þátt í myndfundi með nefndinni þar sem hún sat við nýja búnaðinn á Klaustri en framkvæmdastjórinn við sams konar búnað í Glaðheimum á Selfossi, nýju háskólasetri sem þar hefur verið sett á laggirnar.  Var mál manna að þetta hefði gengið hnökralaust og ljóst að verulegur sparnaður er af slíku fyrirkomulagi – ekki þurfti að aka 400 km til að taka þátt í fundinum. 

Þessi nýju tæki eru hýst í grunnskólunum á Klaustri og í Vík, en á Hvolsvelli verður búnaðinum komið fyrir í glæsilegri nýbyggingu Tónlistarskólans sem sambyggð er húsnæði grunnskólans.  Loks er einnig nýr búnaður í Glaðheimum, háskólasetrinu á Selfossi.

Í Glaðheimum nýta nú búnaðinn 18 hjúkrunarfræðinemar við Háskólann Akureyri, en þeir eru nú á sínu fjórða og síðasta námsári.  Gert er ráð fyrir að nýr hópur Sunnlendinga verði tekinn inn í námið haustið 2011.

hjukrnemar

Hjúkrunarfræðinemar í Glaðheimum í kennslustund frá Háskólanum á Akureyri