Ingveldur Sæmundsdóttir hefur verið ráðinn framkvæmdarstjóri Háskólafélags Suðurlands. Hún tekur við starfinu af Ingunni Jónsdóttur og mun leiða áframhaldandi uppbyggingu og þróun félagsins.
Háskólafélag Suðurland er leiðandi á Suðurlandi í að miðla háskólanámi í samstarfi við símenntunarmiðstöðvar í samvinnu við íslenska og erlenda háskóla. Félagið þróar einnig endurmenntun fyrir atvinnulíf á svæðinu og styrkir arðbærar og fjölbreyttar rannsóknir. Ennfremur er Háskólafélagið öflugur vettvangur rannsóknarstofnana og fyrirtækja ásamt því að tengja saman þekkingu í gegnum gróskumikil verkefni.
Ingveldur er með víðtæka reynslu úr opinberri stjórnsýslu, stefnumótun og verkefnastjórnun. Hún starfaði frá 2013-2025 sem aðstoðarmaður ráðherra, annars vegar Sigurðar Inga Jóhannssonar og hins vegar Sigrúnar Magnúsdóttur, fyrst í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, síðan í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, þá innviðaráðuneytinu og nú síðast í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Ingveldur er með MBA-gráðu frá HÍ og hefur unnið að fjölbreyttum verkefnum sem snúa að uppbyggingu innviða, stefnu og framtíðarsýn.
„Það er mér sönn ánægja að vinna með með framsýnu og metnaðarfullu fólki að því að efla menntun, hæfni og rannsóknir í þágu samfélagsins á Suðurlandi,“ segir Ingveldur. „Ég trúi á að öflugt þekkingarsamfélag sé grunnur að sterku samfélagi og hlakka til að leggja mitt af mörkum.“
Háskólafélag Suðurlands var stofnað 19. desember 2007 og er í eigu 14 sveitarfélaga á Suðurlandi auk Sambands sunnlenskra sveitarfélaga sem hefur það að meginhlutverki að auka búsetugæði og efla efnahag á Suðurlandi með því að reka öflugt þekkingarnet í landshlutanum.
Ráðningarferlið var leitt af fyrirtækinu Mögnun og var Ingveldur metin hæfust til að gegna starfinu, en 17 umsóknir bárust um starfið.
Ingveldur hefur störf 3. júní.
Í millitíðinni má beina erindum á hfsu@hfsu.is