Miðvikudagurinn 12. september markar viss tímamót í starfi Háskólafélagins en þá undirritaði framkvæmdastjóri þess leigusamning við Sveitarfélagið Árborg um verulegan hluta á húsnæði fyrrum Sandvíkurskóla á Selfossi, samtals rúmlega 1600 fermetra. Háskólafélagið nýtir þó aðeins hluta húsnæðisins en Fræðslunet Suðurlands, Markaðsstofa Suðurlands, Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Suðurlandi, Birta – Starfsendurhæfing Suðurlands og réttindagæslumaður fatlaðra á Suðurlandi verða þarna einnig til húsa. Auk þess eru nokkrar skrifstofur til reiðu fyrir aðra skylda þekkingarstarfsemi.
Með flutningi úr Glaðheimum batnar til muna aðstaða fjarnema, á nýja staðnum munu þeir geta gengið að góðri lesaðstöðu vísri. Þá verður einnig rýmra um aðstöðu starfsmanna. Unnið er að aðlögun húsnæðisins fyrir þessa nýju starfsemi og er gert ráð fyrir að henni verði að mestu lokið 1. desember næstkomandi en suðurálman verði tilbúin 1. janúar. Næsta sumar verður svo unnið að bættu aðgengi milli húshluta á annarri hæð.
Leigusamningurinn er til 10 ára með ákvæðum um forleigurétt til lengri tíma. Það er því ljóst að þekkingarstarfsemi í hjarta bæjarins er tryggð aðstaða til lengri tíma. Fer vel á því að fyrrum Barnaskólinn á Selfossi skuli nú nýtast í þágu háskólamenntunar, framhaldsfræðslu og annarrar þekkingarstarfsemi á 21. öldinni.