Fimmtudaginn 10. janúar 2019 fór fram árlegur hátíðarfundur Vísinda- og rannsóknarsjóðs Suðurlands og afhending Menntaverðlauna Suðurlands. Var þetta sautjándi hátíðarfundur sjóðsins en í ellefta sinn sem menntaverðlaunin eru veitt. Fundurinn fór að venju fram í Fjölbrautaskóla Suðurlands að viðstöddum forseta Íslands en fundarstjóri var Sigursveinn Sigurðsson starfandi skólameistari FSu og formaður stjórnar Fræðslunetsins. Háskólafélag Suðurlands og Fræðslunetið símenntun á Suðurlandi standa sameiginlega að sjóðnum.
Hefð er fyrir því á hátíðarfundum sjóðsins að fá kynningu á verkefni sem sjóðurinn hefur áður styrkt. Að þessu sinni voru það Aníta Þorgerður Tryggvadóttir og Ingibjörg Steinunn Sæmundsdóttir styrkhafar frá 2016 sem kynntu meistaraverkefnið Fjölþætt heilsurækt í sveitarfélögum en það fól í sér 12 vikna íhlutunarrannsókn þol- og styrktarþjálfunar 2017 meðal eldri borgara í Rangárþingi eystra. Í rannsókn þeirra kom fram marktækur árangur umræddrar íhlutunar og ljóst að það er aldrei of seint að fara að hreyfa sig!
Sveinn Aðalsteinsson formaður sjóðsstjórnar ávarpaði fundinn og tengdi daginn með skemmtilegum hætti við mannkynssöguna með því að rifja upp að Forngrikkir töldu að frumefnin væru fjögur; jörð, vatn, vindur og eldur. Sennilega hefðu einhverjir þeirra verið uppaldir á Suðurlandi áður en þeir settust að í Aþenu – því óvíða væru tengsl, afkoma og líf íbúa meira háð þessum frumkröftum náttúrunnar en einmitt hér á Suðurlandi! En að öðru leyti gerði hann grein fyrir niðurstöðum sjóðsstjórnar en tólf umsóknir bárust að þessu sinni. Sjóðurinn ákvað að styrkja tvö verkefni en 1.500.000 kr voru til úthlutunar en 27 aðilar eru nú bakhjarlar sjóðsins; sveitarfélög, fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök. Styrkhafar sjóðsins fyrir árið 2018 eru tveir nemendur Háskóla Íslands:
- Ástrós Rún Sigurðardóttir vegna meistaraverkefnisins; Þáttur félags- og menningarauðs í námi og menntun barna með fjölmenningarlegan bakgrunn. Í verkefninu verður leitast við að svara því hvaða áhrif menningar- og félagsauður foreldra og forráðamanna hefur á nám innflytjendabarna í Sveitarfélaginu Árborg og jafnframt að rannsaka hvernig grunnskólakennarar og annað fagfólk í skólasamfélaginu stuðla að fjölmenningarlegri menntun nemenda sinna. Niðurstöðurnar verða settar fram með það í huga að skólar jafnt sem sveitarfélög geti nýtt sér þær til stefnumótunar og sértækra verkefna t.d. í mótttöku nemenda af erlendum uppruna, mótttöku flóttafólks og mótun heildarstefnu um fjölmenningarlegt skólastarf í sveitarfélaginu.
- Ingibjörg Lilja Ómarsdóttir vegna doktorsverkefnisins; Eyjafjallajökulsgos 2010 – áhrif á íbúa og enduruppbygging samfélaga. Í verkefninu er sjónum beint að seiglu samfélaga (community resilience) vegna náttúruhamfara. Kannað er hvernig íbúar, starfsfólk og viðbragðsaðilar í sveitarfélögunum Rangárþingi eystra og Mýrdalshreppi álitu sig í stakk búin til að takast á við eldgos áður en Eyjafjallajökulsgosið árið 2010 hófst, hvaða áhrif gosið hafði, og hvernig þessum samfélögum gekk að takast á við afleiðingar gossins. Niðurstöðurnar munu varpa ljósi á félagsleg langtímaáhrif og langtímaviðbrögð vegna náttúruhamfara og draga fram hvað gefst vel og hvað má betur fara. Hagnýting þeirrar þekkingar getur verið margþætt þar sem upplifun samfélaga á afleiðingum náttúruhamfara er rannsökuð frá ólíkum sjónarhornum. Niðurstöðurnar geta orðið þýðingarmikið framlag til þróunar á heildrænni þekkingu á þessu sviði og þannig stuðlað að umbótum í þjónustu og stuðningi við fólk sem glíma þarf við afleiðingar náttúruhamfara.
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti styrkina og flutti ávarp í kjölfarið. Í máli hans kom m.a. fram að styrkveitingar sjóðsins væru gott dæmi um öflug tengsl fræðasamfélagsins við almenning og byggðir landsins á grundvelli framtaks og frumkvæðis heimamanna. Á léttari nótum þakkaði hann Selfyssingum fyrir öflugt framlag þeirra til íslenska landsliðsins í handbolta en Patrekur bróðir hans þjálfar sem kunnugt er lið Selfoss í meistaraflokki karla í handknattleik.
Verðlaunaþegar Vísinda- og rannsóknarsjóðs Suðurlands 2018, Ástrós Rún Sigurðardóttir og Ingibjörg Lilja Ómarsdóttir. Ljósmynd Eyjólfur Sturlaugsson
Verðlaunaþegar Vísinda- og rannsóknasjóðs Suðurlands 2018 með Guðna forseta og Sveini formanni sjóðsstjórnar og stjórnar Háskólafélagsins. Ljósmynd sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Þá var komið að Menntaverðlaunum Suðurlands fyrir árið 2018. Þau eru veitt að frumkvæði Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga og á grundvelli tilnefninga frá almenningi. Eva Björk Harðardóttir formaður stjórnar samtakanna greindi frá þeim fjórum tilnefningum sem bárust að þessu sinni:
- Anna Lára Pálsdóttir kennari fyrir íslenskukennslu í Vík í Mýrdal þar sem hún hefur lagt mikið upp úr því að tengja saman nýbúa og heimamenn.
- Góðgerðardagar í Sunnulækjarskóla fyrir að stuðla að tengslum skóla og nærsamfélags með því að standa fyrir „góðgerðardögum“ þar sem nemendur selja ýmis verk sem þau hafa unnið í skólanum til styrktar veigamiklum málefnum í nærsamfélagi skólans.
- Kór Menntaskólans að Laugarvatni og stjórnandi hans Eyrún Jónasdóttir fyirr metnaðarfullt kórastarf til fjölda ára og framúrskarandi stjórnun hans.
- Leiklistastarf í Flúðaskóla Hrunamannahreppi en þar hafa til fjölda ára verið sett upp ákaflega metnaðarfull leikverk á hverju ári, annarsvegar fyrir yngra- og miðstig, og hins vegar fyrir unglingastig.
Stjórn SASS hafði tilnefnt þau Ásgerði Gylfadóttur og Sigurð Sigursveinsson til að yfirfara tilfneningarnar og gera tillögu um verðlaunahafa, og Ingunni Jónsdóttur sem starfsmann þeim til aðstoðar.
Niðurstaðan að þessu sinni var að Kór Menntaskólans að Laugarvatni og stjórnandi hans Eyrún Jónasdóttir hljóta Menntaverðlaun Suðurlands 2018.
Í rökstuðningi fyrir þessari niðiurstöðu segir m.a.:
Kórastarf á sér langa sögu á Laugarvatni og ber þar helst að nefna kór Héraðsskólans gamla og svo kór Menntaskólans að Laugarvatni. Kór ML hefur verið starfræktur með hléum, mislöngum, frá árinu 1977. Nokkurt hlé myndaðist á starfi kórsins upp úr aldamótum þó leitast hefði verið við að endurreisa það og komu þar að nokkrir stjórnendur. Eyrún Jónasdóttir, núverandi kórstjóri, var ráðin til starfa haustið 2011. Kórastarfið hefur vaxið mjög undir hennar stjórn. Nefna má sem dæmi að síðastliðna tvo vetur hafa um 65% nemenda skólans verið í kórnum. Kóráfangar skólans eru nú einingabærir valáfangar og eru því hluti af námsferli á útskriftarskírteini nýstúdenta. Nú þykir nemendum eftirsóknarvert að vera í kórnum og það er orðinn sjálfsagður og eðlilegur hluti af félagsstarfi skólans. Líklega er það einsdæmi að um 2/3 allra nemenda framhaldskóla séu í kór viðkomandi skóla.
Eyrún Jónasdóttir hefur þá hæfileika og menntun sem skiptir sköpum í starfi stjórnanda kórs í framhaldsskóla. Hún er menntuð söngkona og miðlar góðri raddbeitingu, menntuð í kórstjórn og pianoleik og þekkir úr eigin kórstarfi fjölbreytt verkefni. Hún á gott með að halda uppi jákvæðum aga, þannig að vináttusamband er milli hennar og kórfélaga.
Eyrún Jónasdóttir og stjórn kórsins ásamt Guðna forseta, Ingunni Jónsdóttur verkefnisstjóra Háskólafélagsins/SASS og Evu Björk Harðardóttur formanns stjórnar SASS. Ljósmynd: sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Forseti Íslands, Guðni Th Jóhannesson, afhenti verðlaunin og að því loknu söng kórinn hið fallega lag Valgeirs Guðjónssonar Vikivaka (Sunnan yfir sæinn) við texta Jóhannesar úr Kötlum við undirleik Eyrúnar kórstjóra. Þessi athöfn verður lengi í minnum höfð þar sem kórinn setti skemmtilegan svip á hana og munu um 150 manns hafa sótt hana að þessu sinni. Eins og áður var boðið upp á veitingar að athöfn lokinni.