Skip to content Skip to footer

Verkefnastjóri

Berglind Sigmundsdóttir

Berglind hóf störf hjá félaginu 21. ágúst 2023. Hún er jarðfræðingur að mennt frá Háskóla Íslands (B.Sc., 2013) og skrifaði lokaverkefni sitt um Þingvallavatn og jökulhörfun í Grafningi. 

Hún er um þessar mundir að ljúka viðbótardiplómu á meistarastigi í Umhverfis- og auðlindafræði frá Háskóla Íslands. Berglind hefur lengi unnið við ferðamál og sjálfbæra þróun svæða er tengist náttúru- og menningarminjum með áherslu á samfélagsdrifna byggðaþróun.

Berglind starfaði síðast sem framkvæmdastjóri Kötlu UNESCO jarðvangs frá 2018-2023, en á undan því sem verkefnastjóri (2017-2018). Hún sat í ráðgjafanefnd evrópskra og hnattræna UNESCO jarðvanga (European Geopark Network) og kom fram þar fyrir hönd jarðvangsins á fundum og ráðstefnum, og er áfram í dag sjálfstæður úttektaraðili UNESCO jarðvanga á vegum UNESCO.

Í störfum sínum hjá Kötlu kom hún ýmist að, eða hafði umsjón með, fjölbreyttum innlendum og erlendum samstarfsverkefnum, m.a. byggðaþróunarverkefni Ruritage styrkt af Horizon 2020 (Rannsóknar- og nýsköpunarsjóð Evrópu), fræðsluverkefninu Drifting Apart styrkt af norðurslóðaáætlun (NPP) og Norræna Atlantssamstarfinu (NORA), og af fyrrnefndum styrk einnig fræðsluverkefnin GEOVR, GEOMUSEUM og GEOFOOD, einnig tók hún þátt í verkefni styrkt af menntastyrk NORDPLUS um sjálfbæra þróun og jarðfræðiarfleifð á Íslandi, Finnlandi og Noregi sem samstarfsaðili með Fjölbrautaskóla Austur- Skaftafellssýslu á Höfn, Vatnajökulsþjóðgarði og skólum og jarðvöngum í Finnlandi og Noregi. Einnig kom Berglind sem samstarfsaðili Háskólafélag Suðurlands að verkefni styrkt af Uppbyggingarsjóð Evrópu (EEA) um innleiðingu náms á meistarastigi um Jarðferðamennsku (Geotourism) sem leitt er af Tækniháskólanum í Krakow í samstarfi við Holy Cross jarðvang í Póllandi.

Berglind hefur einnig komið að fjölmörgum verkefnum á vegum Kötlu jarðvangs hérlendis, Kötluráðstefnu 2018 í Vík í Mýrdal sem haldin var með Jarðfræðafélaginu, Almannavörnum, Mýrdalshreppi og Háskóla Íslands þar sem yfir 400 sóttu ráðstefnuna heim og þúsundir horfðu á gegnum streymi jarðvangsins. Hún kom að skipulagningu árlegrar alþjóðlegrar jarðvangsviku og hafði umsjón með fyrstu Vorhátíð og Farfuglahátíð haldin vorið 2018, styrkt af uppbygginarsjóð SASS. Hún kom að gerð og kynningu áfangastaðaáætlunar Kötlu jarðvangs sem unnin var með hollenska landslags- og arkitektarfélaginu NOHNIK og einnig vann hún með ráðgjöfum Alta að greina tækifæri og sýn Kötlu jarðvangs sem nýst gæti við frekari stefnumótun hlutaðeigandi sveitarfélaga á jarðvanginn. Í kjölfarið á þeirri vinnu vann Berglind að fyrsta fasa svæðismörkunar, verkefni sem nýtur styrks sem áhersluverkefni SASS (8,0 mkr), en þar komu ráðgjafar og sérfræðingar um svæðismörkun áfangastaða frá The Place Bureau í London að því að leiða vinnustofu til grundvallar næstu skrefa og fasa í þeirri vinnu.

Berglind kom einnig að því að sækja og/eða hafa umsjón með ýmsum innlendum styrkjum, m.a. á vegum Vina Vatnajökuls, Uppbyggingarsjóðs, og Framkvæmdasjóðs Ferðamannastaðar, sá stærsti var 35,8 mkr styrkur til gerðar útsýnisstígs hjá Eyjafjallajökli (Þorvaldseyri) sem hannaður var af Basalt arkitektum.

Fyrir tíma Kötlu jarðvangs starfaði Berglind lengi í Þjóðgarðinum á Þingvöllum, fyrst sem landvörður samhliða námi í jarðfræði en svo síðar meir sem verslunar- og þjónustustjóri í Gestastofunni á Haki og þjónustumiðstöð á Leirum (2008-2016). Þar voru verkefnin fjölbreytt en undir lokin hafði hún umsjón með ýmsum rekstrar- og þjónustueiningum þjóðgarðsins ásamt verslunarstjórn og þróun vöruúrvals í minjagripaverslunum þjóðgarðsins, og var mikil áhersla lögð á að draga fram sérstöðu svæðisins og nýta staðbundnar auðlindir til fræðslu og vöruþróunar, einkum þá að vinna með nærsamfélaginu og öðrum áhugasömum hagaðilum í þeim tilgangi.

Það má því segja að Berglind hafi unnið lengi við ferðamál og sjálfbæra þróun svæða er tengist náttúru- og menningarminjum og hefur þá einblínt á gott samstarf og samvinnu í þeim efnum.

Berglind flutti á Suðurlandið 2018 en hefur síðan 2020 búið í Ölfusi og finnst hvergi betra að vera vegna þeirra tækifæra sem svæðið hefur upp á að bjóða, hvort sem litið er til nálægðar við stórbrotnar náttúru, menningar, fjölskrúðugs lífríkis, og drift samfélagsins!