“Það vakti athygli á þessum ársfundi samtakanna hversu stuttan tíma það tók jarðvanginn að fá inngöngu og það hversu sterk áherslan er á byggðaþróun svæðisins. Jafnframt hversu sterkur stuðningur baklandsins er. Þetta er magnaður árangur í ljósi þess að sumir jarðvangar hafa verið með umfangsmikla starfsemi árum saman án þess að komast inn í þetta samstarfsnet. Við sem höfum unnið að framgangi þessa verkefnis síðastliðin ár erum að vonum sérlega ánægð með þennan árangur,” segir Steingerður Hreinsdóttir frá Atvinnuþróunarfélagi Suðurlands, en hún fór sem einn af þremur fulltrúum jarðvangsins til Noregs.
“Upphaf jarðvangsins má rekja til átaksverkefnis á vegum Háskólafélags Suðurlands sem hófst sumarið 2008. Þetta svæði var valið sem fyrsta átaksverkefni HfSu vegna neikvæðrar íbúaþróunar með það fyrir augum að auka möguleika ungs fólks á að búa og vinna á svæðinu. Við sáum að í hugmyndafræðinni á bak við jarðvanga fólust tækifæri til að snúa þessari þróun við” Sigurður Sigursveinsson framkvæmdastjóri Háskólafélags Suðurlands.
Undirbúningshópur á vegum sveitarfélaganna þriggja, ferðaþjónustuaðilanna og stoðkerfisins hefur unnið ötullega að undirbúningi fyrir inngöngu í samtökin undir verkefnastjórn Ragnhildar Sveinbjarnardóttur ferðamálafræðings. Hópurinn byggði meðal annars vinnu sína á skýrslu og ráðgjöf Lovísu Ásbjörnsdóttur jarðfræðings. Ákveðið var að fá ráðgjafa frá Evrópusamtökunum (EGN), Patrick McKeever, í heimsókn haustið 2009 til skrafs og ráðagerða sem varð til þess að ráðist var í verkefnið.
Umsóknin um inngöngu í EGN var send inn í lok nóvember 2010 og í júlí 2011 komu tveir úttektaraðilar samtakanna í nokkurra daga heimsókn til að meta aðstæður.
“Framundan er mikil vinna við uppbyggingu jarðvangsins og í því felast ný tækifæri í ferðþjónustu og hvers konar framleiðslu afurða af svæðinu. Við hlökkum til að takast á við þetta krefjandi verkefni sem byggir á samvinnu allra aðila sem að koma” segir Þuríður Aradóttir, markaðs- og kynningarfulltrúi Rangárþings eystra.
Hægt er að kynna sér heildræna stefnu jarðvanga á heimasíðu Kötlu jarðvangs www.katlageopark.is og Evrópusamtakanna www.europeangeoparks.org.