Háskólafélag Suðurlands starfrækir viðurkennda prófaþjónustu fyrir framhalds- og háskólanemendur í Fjölheimum á Selfossi.
Það hefur verið líf og fjör í Fjölheimum frá því um miðjan nóvember þegar nemendur hófu að flykkjast inn til próftöku. Desember er þó stærstur nú þegar nemendur þreyta jólaprófin og öll sæti þéttskipuð. Nú þegar sígur á seinni hlutann fer að róast en endurtöku- og sjúkrapróf taka við í næstu viku.
Um 800 nemendur hafa sótt prófaþjónustu Háskólafélags Suðurlands á haustönn sem er umtalsverð fjölgun milli ára. Þeir nemendur sem sækja próf í Fjölheimum koma úr fjölbreyttum námsgreinum og má sjá nokkuð góðan þverskurð nemenda bæði af framhaldsskólastigi og háskólastigi. Sem dæmi ná nefna nemendur í Menntaskólanum á Egilsstöðum, Verkmenntaskóla Austurlands, Verkmenntaskólanum á Akureyri, Fjölbraut í Ármúla, Tækniskólann, Háskólann á Akureyri, Háskóla Íslands, Háskólann á Bifröst, Landbúnaðarháskólann, Háskólann í Reykjavík svo eitthvað sé nefnt.
Við reynum að búa svo um að nemendum líði vel þegar þeir koma til okkar en á sama tíma fylgjum við ströngustu reglum um framkvæmd prófanna eins og vera ber. Sem dæmi um reglur má nefna að ekki má hafa í fórum sínum snjallsíma- og úr, töskur og yfirhafnir ber að geyma utan við prófstofu en alla jafna eru sambærilegar prófreglur í skólunum. Prófverðir sitja yfir til að tryggja háttsemi í prófstofum og aðstoða við tæknivandamál þegar þarf.
Það gleður okkur mjög að sjá þennan fjölda hjá okkur og þökkum við nemendum fyrir samstarfið nú sem endranær. Hægt er að finna frekari upplýsingar um nemenda- og prófaþjónustuna inni á heimasíðunni okkar www.hfsu.is eða með því að smella hér.