Fréttir

Úthlutun úr Vísinda- og rannsóknasjóði Suðurlands

Fimmtudaginn 13. janúar var tilkynnt við hátíðlega athöfn í sal Fjölbrautaskóla Suðurlands hver væri styrkþegi Vísinda- og rannsóknasjóðs Suðurlands 2010.  Að þessu sinni bárust tvöfalt fleiri umsóknir en nokkru sinni, eða 41.  Til úthlutunar var ein milljón króna.  Styrkurinn skiptist nú milli tveggja sunnlenskra doktorsnema; Sigurðar Unnars Sigurðssonar frá Skarði í Gnúpverjahreppi og Sæmundar Sveinssonar frá Gunnarsholti.  Verkefni Sigurðar snýr að nærsviðsáhrifum sterkra jarðskjálfta og er unnið undir leiðsögn Ragnars Sigbjörnssonar prófessors á Rannsóknarmiðstöð Háskóla Íslands í jarðskjálftaverkfræði á Selfossi.  Verkefni Sæmundar snýr að rannsóknum á baunagrasi til landgræðslu en Sæmundur stundar doktorsnám sitt við Háskólann í Bresku Kólumbíu í Vancouver í Kanada.  Eins og jafnan áður afhenti forseti Íslands styrkina við þessa hátíðlegu athöfn sem orðin er árviss um þetta leyti.

verdl_forseti_web

Á myndinni má sjá forseta Íslands, hr. Ólaf Ragnar Grímsson, Svein Runólfsson föður Sæmundar Sveinssonar, og Sigurð Unnar Sigurðsson.

Við sömu athöfn voru afhent Menntaverðlaun Suðurlands.  Þau hlaut að þessu sinni Fjölbrautaskóli Suðurlands fyrir verkefnið Skólinn í okkar höndum.