Skip to content Skip to footer

Vel heppnað hraðstefnumót við íslenskuna var haldið í Tryggvaskála 5. júní sl.

Bókasafn Árborgar, Fræðslunetið og Háskólafélag Suðurlands hafa tekið höndum saman og hafa hafið innleiðingu á verkefninu Gefum íslensku séns. Verkefnið var sett af stað við Háskólasetur Vestfjarða þar sem það hefur náð frábærum árangri og tegir nú anga sína til okkar í Árborg.

Það mynduðust fjörugar umræður og gleðin skein úr andlitum þátttakenda á hraðstefnumóti við íslenskuna í Tryggvaskála. Meginmarkmið viðburðarins var að veita íbúum af erlendum uppruna tækifæri á því æfa sig að tala íslensku og ekki síður að þjálfa okkur móðurmálshafana í því að hlusta og svara aftur á íslensku. Fulltrúar Bókasafns Árborgar á Selfossi, Fræðslunetsins og Háskólafélags Suðurlands mættu vopnaðir barmnælum, veggpjöldum og umræðupunktum til að skapa samtal en flestir komust mun lengra og dýpkuðu samtölin enn frekar að sjálfsdáðum.

Eitt það dýrmætasta sem við höfum í ókunnu landi er tungumálið enda veltur svo margt á samskiptum og tengingu við fólk til að finna sess í nýju samfélagi. Þátttakan í viðburðinum fór fram úr okkar björtustu vonum og er stefnt að því að halda annað hraðstefnumót við íslenskuna í september og má jafnvel reikna með einum, eða tveimur slíkum viðburðum í Uppsveitum Árnessýslu.

Boðið var upp á dýrindis kaffihlaðborð að hætti veitingamanna í Tryggaskála og var ekki hægt að sjá annað en mikil ánægja hafi verið með viðburðinn. Við hlökkum til að halda áfram með þetta verkefni og styrkja það enn frekar í nánustu framtíð.