Skip to content Skip to footer
Vísindasjóður

Stafræn nýsköpun og frumkvöðlakraftar í dreifðum byggðum

Magdalena Falter, doktorsnemi í ferðamálafræðum í HÍ

Kynning á verkefninu

Magdalena Falter, doktorsnemi í ferðamálafræðum frá Háskóla Íslands, hlaut styrk árið 2019 fyrir verkefni sitt “Stafræn nýsköpun og frumkvöðlakraftar í dreifðum byggðum” sem er hluti af doktorsnámi Magdalenu.

Við fengum hana til að segja okkur stuttlega frá verkefni sínu.

Í greininni er fjallað um stafræna nýsköpun og frumkvöðlastarf á landsbyggðinni. Hún veitir innsýn um stöðu og gildi stafrænnar nýsköpunar fyrir frumkvöðla í ferðaþjónustu á landsbyggðinni á Íslandi og rýnir hvaða merkingu þeir leggja í stafræna nýsköpun. Fyrir utan að svara spurningunni „hvað er í gangi á vettvangi “ lýsir rannsóknin stigiþátttöku meðal ferðaþjónustufyrirtækja á landsbyggðinni í nýsköpun og notkun stafrænnar tækni. Þrátt fyrir umræðu um snjalla ferðaþjónustu og nauðsyn stafrænnar nýsköpunar í alþjóðlegri ferðaþjónustu leiddi rannsóknin í ljós að frumkvöðlar í ferðaþjónustu á landsbyggðinni tengja nýsköpun og stafvæðingu ekki endilega saman. Rannsóknin fylgir eigindlegri aðferðafræði og byggir á 34 hálfstöðluðum viðtölum við frumkvöðla í ferðaþjónustu á landsbyggðinni. Rannsóknin hefur bæði hagnýtt og fræðilegt gildi með því að stuðla að skilningi á þeim tengslum sem skortir milli stefnu og framkvæmdar.

Magdalena Falter, doktorsnemi í ferðamálafræðum í HÍ

Markmiðið með rannsóknum mínum var að fá yfirsýn og innsýn í „hvað er að gerast“ varðandi stafræna nýsköpun í íslenskri ferðaþjónustu. Eins og víðast hvar á Norðurlöndum eru langflest fyrirtæki í ferðaþjónustu örfyrirtæki, lítil og meðalstór. Þess vegna var markmið mitt að kanna hvernig þessi smærri fyrirtæki skynja og skilja núverandi stafræna þróun í ferðaþjónustu. Í því skyni tók ég viðtöl við frumkvöðla í ferðaþjónustu um allt land. Um 25% af viðtölum mínum tók ég við frumkvöðla í ferðaþjónustu á Suðurlandi. Að hafa innsýn í hvernig ferðaþjónustuaðilar skilja og innleiða núverandi þróun er mikilvægt skref í átt að sjálfbærri þróun ferðaþjónustu.

Þessum hluta rannsóknarinnar er lokið og hafa niðurstöður verið birtar í tímaritinu Academica Turistica.

Áhugaverð útkoma

Magdalena Falter, doktorsnemi í ferðamálafræðum í HÍ

Rannsókn mín leiddi í ljós að það gæti vantað upp á skilning milli sérfræðinga og stjórnenda í ferðaþjónustunni, sem hugsanlega gæti haft áhrif á samskipti meðal hagsmunahópa. Frumkvöðlar í ferðaþjónustu mynda ekki samræmdan hóp en hafa ólíka sýn á viðskipti og sjálfbærni. Þó að sumir þeirra séu hvattir áfram af ákveðnum lífsstíl, eru aðrir knúnir áfram af vaxtarsjónarmiðum. Þegar ég kannaði hvort og fyrir hverja stafræn nýsköpun í íslenskri ferðaþjónustu gæti orðið verðmæt fyrir kom í ljós að aðallega þeir frumkvöðlar með vaxtaráform sáu sér hag í sjálfvirknivæðingu, snjallri ferðaþjónustu og stafrænum þjónustuferlum í sínum rekstri. Meirihluti svokallaðra lífsstílsfrumkvöðla fann meira gildi í því að nýta stafvæðingu hvað varðar markaðssetningu og auglýsingar, frekar en að beita stafrænni nýsköpun á staðnum. Til að fá meiri innsýn og dýpri skilning er þörf á frekari rannsóknum.

Styrkurinn skipti miklu máli

Ég hlaut styrk úr Vísinda- og rannsóknarsjóði Suðurlands árið 2019 þegar ég var nýbyrjuð í doktorsnámi. Ég var þegar með grófa rannsóknaráætlun: Mig langaði að gera eigindlegar rannsóknir og taka viðtöl við frumkvöðla í ferðaþjónustu á landsbyggðinni til að fá innsýn í hvernig þeir sem starfa í ferðaþjónustu skynja núverandi þróun ferðaþjónustu á Íslandi. Slíkar rannsóknir eru tímafrekar og kostnaðarsamar, ekki síst vegna þess hve langar vegalengdir eru í dreifbýli Íslands. Á þeim tíma stóð ég sjálf undir kostnaði rannsókna minna. Vísinda- og rannsóknarsjóður Suðurlands hjálpaði mér að hefja doktorsvegferð mína og safna gögnum sem skiptu máli fyrir allt doktorsnámið mitt. Þökk sé Vísinda- og rannsóknarsjóði Suðurlands komst ég almennilega inn í „rannsóknarheiminn“, stofnaði til tengslanets og lagði grunninn að doktorsrannsóknum mínum.

Magdalena Falter, doktorsnemi í ferðamálafræðum í HÍ