42. fundur stjórnar Háskólafélags Suðurlands ehf. haldinn þann 28.10.2013 í Fjölheimum. Mætt; Ágúst Sigurðsson, Dagný Magnúsdóttir, Sigurður Sigursveinsson framkvæmdastjóri, Helga Þorbergsdóttir, Rögnvaldur Ólafsson, Steingerður Hreinsdóttir og Örlygur Karlsson. Sveinn Aðalsteinsson boðaði forföll. Fundargerð ritaði Helga Þorbergsdóttir. 1. Fundargerð síðasta fundar lögð fram, samþykkt og undirrituð. 2. Samningur við mennta- og menningarmálaráðuneyti. Steingerður og Sigurður lögðu fram minnisblað þar sem farið er yfir markmið síðasta samnings og þá starfsemi sem verið hefur á vegum HfSu á samningstímanum. Í þeim samningi voru sett þau meginmarkmið að: Bæta aðgengi íbúa Suðurlands að námi Stuðla að auknu samstarfi og samþættingu menntunar, rannsókna og fræðastarfs Reka tímabundin átaksverkefni sem stuðla að byggðaþróun og nýsköpun á starfssvæði HfSu. Rætt um starfið frá því síðasti samningur var gerður og reynt að leggja mat á árangur. Helstu áherslur í starfinu hafa beinst að þáttum er tengjast meginmarkmiðum samningsins. Sú þróun hefur orðið í starfseminni að aukin samvinna er nú við aðra aðila um starfsmannahald, má þar nefna Matís og Kötlu jarðvang. Þessi samvinna stuðlar að betri nýtingu fjármagns og mannauðs og styrkir vísinda- og fræðastarf í héraði. 3. Rætt um nýframkomið fjárlagafrumvarp og áætlað framlag til eflingar mennta og vísinda- og fræðastarfa á starfssvæði HfSu. Stjórnarmenn eru sammála um að þar þurfi verulega að bæta úr svo þeir vaxtarbroddar sem skotið hafa rótum geti vaxið og dafnað, jafnframt að tækifæri gefist til að nýjar hugmyndir geti hlotið brautargengi. 4. Ákveðið að stefna að næsta fundi mánudaginn 2. desember þar sem stefnumótun félagsins verður meginefni fundarins.