Í dag, 1. nóvember 2013, á allraheilagramessu, var vígt námsver Háskólafélags Suðurlands og Fræðslunetsins – símenntunar á Suðurlandi í Kirkjubæjarstofu á Kirkjubæjarklaustri. Fyrir rúmum þremur vikum var vígð sambærileg aðstaða í Kötlusetri í Vík í Mýrdal, en bæði þessi verkefni voru fjármögnuð af samningi Sambands sunnlenskra sveitarfélaga, sveitarfélagsins Hornafjarðar og menntamálaráðuneytisins um verkefnið Eflingu menntunar, rannskókna og nýsköpunar á Suðurlandi.
Árni Rúnar Þorvaldsson, starfsmaður Fræðslunetsins og Háskólafélagsins á svæðinu, stýrði samkomunni. Auk hans fluttu ávörp Sigurður Sigursveinsson framkvæmdastjóri Háskólafélagsins, Ásmundur Sverrir Pálsson framkvæmdastjóri Fræðslunetsins, Þorvarður Hjaltason framkvæmdastjóri Sambands sunnlenskra sveitarfélaga, Jóna Sigurbjartsdóttir stjórnarmaður í Eldvilja, eiganda hússins, Ólafía Jakobsdóttir forstöðumaður Kirkjubæjarstofu og Silja Dögg Gunnarsdóttir þingmaður Suðurkjördæmis. Að athöfninni lokinni bauð Kirkjubæjarstofa upp á kaffiveitingar í tilefni dagsins.
Það var mál manna að opnun námsversins markaði viss tímamót og almennri ánægju var lýst með það hvernig til hefði tekist með þessum áfanga í uppbyggingu innviða í Skaftárhreppi.
Árni Rúnar Þorvaldsson starfsmaður Fræðslunetsins og Háskólafélagsins í Vík og á Kirkjubæjarklaustri bauð viðstadda velkomna
Sigurður Sigursveinsson framkvæmdastjóri Háskólafélagsins flutti ávarp
Ásmundur Sverrir Pálsson framkvæmdastjóri Fræðslunetins ávarpaði samkomuna
Ólafía Jakobsdóttir forstöðumaður Kirkjubæjarstofu var ánægð með daginn
Jóna Sigurbjartsdóttir stjórnarmaður í Eldvilja, eiganda hússins, flutti ávarp
Silja Dögg Gunnarsdóttir þingmaður Suðurkjördæmis óskaði heimamönnum til hamingju með daginn
Ásmundur Sverrir færði Ólafíu blómvönd frá Fræðslunetinu og Háskólafélaginu
Ólafía færði Árna Rúnari lykla að námsverinu – á sauðavölu!
Fjöldi gesta var viðstaddur vígsluna