- fundur stjórnar Háskolafélags Suðurlands haldinn 19. desember 2017 í Fjölheimum Selfossi kl. 16:30-17:50.
Mættir eftirtaldir stjórnarmenn: Dagný Magnúsdóttir, Helga Þorbergsdóttir, Olga Lísa Garðarsdóttir, Rögnvaldur Ólafsson, Sigurður Þór Sigurðsson og Sveinn Aðalsteinsson. Einnig sat Sigurður Sigursveinsson framkvæmdastjóri HfSu fundinn. Kristín Hermannsdóttir var í fjarsambandi. Helga Þorbergsdóttir ritaði fundargerð.
- Fundargerð 67. fundar hafði verið send fundarmönnum, hún rædd, samþykkt og undirrituð.
- Erindi frá Kirkjubæjarstofu. Áhugi er á að koma á laggirnar þekkingarsetri á Kirkjubæjarklaustri. Hugmyndin er að heimavistarálma grunnskólans hýsi þekkingar- og Errósetur. Leitað er eftir upplýsingum um hvort Háskólafélagið hafi hug á að leigja rými undir starfsmann í setrinu. Málið rætt með tilliti til þarfa og möguleika á að leigja slíkt rými. Sigurði falið að gera drög að svarbréfi til Kirkjubæjarstofu.
- Fjárlagafrumvarp fyrir 2018. Í framlögðu fjárlagafrumvarpi eru tímabundnar fjárveitingar til HfSu ekki inni. Ef svo fer hefur það alvarlegar afleiðingar fyrir starfsemi félagsins. Samþykkt að senda fjárlaganefnd eftirfarandi bréf með afriti til þingmanna Suðurkjördæmis:
Ágæta fjárlaganefnd!
Í ljósi nýframkomins fjárlagafrumvarpsins fyrir 2018 leyfum við okkur að benda nýkjörinni fjárlaganefnd á að enn eina ferðina virðast tímabundnar viðbótarfjárveitingar til Háskólafélags Suðurlands og Fræðslunetsins – símenntunar á Suðurlandi felldar út í fjárlagafrumvarpi.
Árið 2013 voru byggð upp námsver í Kötlusetri í Vik og í Kirkjubæjarstofu á Kirkjubæjarklaustri. Árið 2014 bættist Sveitarfélagið Hornafjörður við starfssvæði félaganna. Þessi þjónusta í Skaftafellsýslum var tímabundið áhersluverkefni Sóknaráætlunar Suðurlands 2013-2015 um eflingu menntunar á miðsvæðinu, en einnig var hún fjármögnuð með tímabundnum fjárveitingum á fjárlögum 2015-2017. Tímabundnu fjárveitingarnar 2017 (15 mkr til Háskólafélagsins og 10 mkr til Fræðslunetsins) voru ákvarðaðar af mennta- og menningarmálaráðuneytinu á grundvelli 60 m.kr. viðbótarfjárveitingu fjárlaganefndar við 2. umræðu fjárlaga í des. 2016 „60 millj. kr. ætlaðar í ýmis smærri verkefni og styrki til aðila sem þjónusta háskólanna, svo sem til símenntunarmiðstöðva og fræðsluneta“.
Haustið 2016 var skipaður starfshópur um eflingu byggðar og atvinnulífs milli Markarfljóts og Öræfa í umboði forsætisráðuneytis og ríkisstjórnar. Meðal tillagna starfshópsins er að umræddar tímabundnar fjárveitingar félaganna verði gerðar varanlegar. Skýrsla starfshópsins var kynnt í ríkisstjórn í nóvember 2016 og hún samþykkti að beina því til viðkomandi ráðuneyta að þau taki skýrsluna til skoðunar og geri tillögur um framkvæmd og fjármögnun einstakra verkefna, sjá https://www.forsaetisraduneyti.is/frettir/skyrsla-starfshops-um-eflingu-byggdar-og-atvinnulifs-a-svaedinu-milli-markarfljots-og-oraefa
Stjórn Háskólafélags Suðurlands skorar á fjárlaganefnd að taka nú af skarið og koma fjárveitingum til félagsins á varanlegan grundvöll.
Fyrir hönd stjórnar Háskólafélags Suðurlands
Sigurður Sigursveinsson
Framkvæmdastjóri
- Önnur mál.
- Afhending styrks Vísindasjóðs og Menntaverðlauna SASS verður á Selfossi þann 11. Janúar 2018.
- Áhersluverkefnistillaga Sóknaráætlunar Suðurlands 2018 um fagháskólanám hefur verið samþykkt af verkefnisstjórn.
- Hákólafélagið hefur greitt ferðir Sigurðar Sigursveinssonar á fundi evrópsku jarðvangssamtakanna. Samþykkt að félagið styrkji Kötlu jarðvang áfram á þennan hátt 2018.
Fleira ekki gert og fundi slitið en viðstaddir stjórnarmenn héldu til hátíðardagskrár í Tryggvaskála en þangað var aðilum tengdum Háskólafélaginu boðið í tilefni 10 ára afmælis félagsins.