Föstudaginn 23. júní 2017 var haldin árleg háskólahátíð í Fjölheimum til að samfagna brautskráningu kandídata frá háskólum landsins sem notið hafa þjónustu hjá Háskólafélagi Suðurlands í Fjölheimum á Selfossi. Á þriðja tug kandídata eru að ljúka slíku námi þessa dagana og átta þeirra áttu heimangengt á athöfnina í Fjölheimum. Við athöfnina flutti Ragnhildur Elva Hauksdóttir, 8 ára, lagið Óð til gleðinnar á blokkflautu en Helga Sighvatsdóttir aðstoðarskólastjóri Tónlistarskóla Árnesinga spilaði með henni á flautu. Verkefnastjórarnir Hrafnkell Guðnason og Ingunn Jónsdóttir afhentu burtfarendum viðurkenningarskjal og rós en fyrir hönd burtfarenda flutti Inibjörg Blaka Hreggviðsdóttir viðskiptafræðingur ávarp, og auk þess Bragi Guðmundsson prófessor við Háskólann á Akureyri, en flestir háskólanemendur í Fjölheimum eru fjarnemendur Háskólans á Akureyri.
Í ávarpi Sigurðar Sigursveinssonar framkvæmdastjóra félagsins kom m.a. fram að fyrr í vikunni áttu stjórnir Háskólafélags Suðurlands og Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga fund með stjórnendum Háskóla Íslands um næstu skref til að koma á móts við sjónarmið Sunnlendinga sem fram komu í skýrslu Félagsvísindastofnunar; Fjarnám á Suðurlandi: Greining á áhuga, þörf og eftirspurn fyrir fjarnámi á háskólastigi á Suðurlandi. Var m.a. rætt um möguleika á samstarfi félagsins við námsbraut Háskóla Íslands í tæknifræði hjá Keili og þróun nýs námsframboðs á vettvangi ferðamála og viðskipta á svonefndu fagháskólastigi.