Nýheimadagurinn var haldinn fimmtudaginn 30. janúar sl. þar sem starfsemi stofnana og samstarfsaðila Nýheima á Höfn í Hornafirði var kynnt.
Við létum okkur að sjálfsögðu ekki vanta á Nýheimadaginn enda í góðu og mikilvægu samstarfi í nokkrum verkefnum við Nýheima þekkingarsetur.
Við létum það þó vera að ferðast í veðurviðvörunum og nýttum því tæknina og kynntum starfsemi Háskólafélags Suðurlands á Teams. Það fer alltaf jafn mikil vinna í kynningar hvort sem hún er í fjarformi eða staðformi. Undirbúningurinn er sá sami en það er óneitanlega flóknara að tengjast fólkinu hinu megin við skjáinn þegar um fjarkynningar er að ræða og þar af leiðandi erfiðara að sjá hvort full athygli næst á efninu sem lagt er fram. Það stoppaði okkur þó ekki þó vissulega hafi verið erfitt að missa af kaffispjallinu.
![](https://hfsu.is/wp-content/uploads/2025/01/1-768x576.jpg)
Stöllurnar Helga Kristín og Pollý sögðu frá starfsemi Háskólafélags Suðurlands og fjölluðu meðal annars um Hreiðrið frumkvöðlasetur þar sem Pollý tók nýverið við sem verkefnastjóri. Það eru mörg verkefni í vinnslu þessa dagana. Má þar meðal annars nefna atvinnumálastefnu fyrir neðri hluta Suðurlands, umsóknir í erlenda sjóði og þróun frekari verkefna á sviði atvinnumála.
Uppbyggingarsjóður Suðurlands er með opið fyrir umsóknir í sjóðinn til 4. mars nk. Pollý tekur meðal annars að sér að ráðleggja frumkvöðlum í umsóknarferlinu, bæði í innlenda og erlenda sjóði. Hægt er panta ráðgjöf án endurgjalds með því að smella hér: Ráðgjafatími.
Við hvetjum öll sem hafa hugmynd á hvaða stigi sem er að koma til okkar spjall.
![](https://hfsu.is/wp-content/uploads/2025/01/2.jpg)